13.02.1968
Neðri deild: 61. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

121. mál, tollskrá o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér síðast um Jón Þorláksson, vildi ég nú aðeins segja það, að ég held, að það séu aðrir, sem hafi meiri þörf fyrir það að kynna sér stefnu Jóns Þorlákssonar og stefnufestu heldur en framsóknarmenn. Ég held, að Sjálfstfl. hefði gott ef því að rifja upp stefnu Jóns Þorlákssonar og hvernig hann hélt á málum. Ég er alveg sannfærður um það, að ef andi Jóns Þorlákssonar hefði svifið meira yfir vötnunum hjá Sjálfstfl. á undanförnum árum, væri núna öðruvísi ástatt í þessu þjóðfélagi. Og þess vegna má hæstv. ráðh. vel búast við því og flokksbræður hans, að ég sé ekki hættur að minna þá á Jón Þorláksson, heldur geri það við fleiri tækifæri en þetta.

Hæstv. ráðh. vildi ekki kannast við það, og ég get vel skilið það, að þessi ríkisstj. vissi minna um efnahagsmál en nokkur önnur íslenzk ríkisstj. hefur áður gert. (Gripið fram í.) Já, ég held, að ég hafi nú tekið það a.m.k. einu sinni fram, svo að það hefði átt að nægja. Nú, ég nefndi alveg ákveðið dæmi því til sönnunar. Ég held, að það hafi aldrei áður í þingsögunni gerzt við fjárlagaafgreiðslu hér á Alþingi, að ríkisstj. hafi lagt til og talið það forsvaranlegt og alveg óhætt að fella niður uppbætur til sjávarútvegsins upp á nokkur hundruð milljóna og segja, að sjávarútvegurinn þyrfti þess ekki með, lýsa því jafnframt yfir, að það væri hægt að lækka tollana um 250 millj. og svo strax eftir rúman hálfan mánuð eða rösklega það lýst því yfir, að þetta væri allt saman tóm vitleysa. Ég minnist þess ekki, að það sé hægt að finna nokkurt dæmi um þetta í sögunni. Hæstv. ráðh. veit kannske betur, og hann bendir mér þá á það. Ég held, að ekki þurfi frekar vitnanna við til að sýna það, að það hefur ekki áður verið ríkisstj. hér, sem hefur vitað svona nauðalítið um efnahagsmálin og atvinnumálin eins og þessi ríkisstj., eins og fram kom við afgreiðslu fjárl. rétt fyrir áramótin seinustu. Ég held, að það sé alveg nægilegt að benda á þetta eina dæmi til að sýna það, hve ákaflega skammt þekking ríkisstj. nær í þessum efnum, þrátt fyrir það að hún hafi byggt upp tvær stofnanir, Seðlabankann og Efnahagsstofnunina, sem kosta marga milljónatugi og eiga fyrst og fremst að hafa það starf með höndum að veita ríkisstj. upplýsingar um þessi mál.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að ég hefði verið með einhverja sérstaka siðaprédikun hér í minni fyrri ræðu. Ég held, að það hafi nú ekki verið nein sérstök siðaprédikun, heldur fyrst og fremst það, sem ráðherrar og alþingismenn og stjórnmálamenn eiga að hafa hugfast, ef þeir leggja nokkuð upp úr því skipulagi, sem við búum við, lýðræðisskipulaginu, því að það byggist að sjálfsögðu meira á því en nokkru öðru, að kjósendur geti treyst því, sem flokkarnir og forsvarsmenn þeirra hafa að segja, því að ef það er ekki neitt að marka, er náttúrlega gersamlega útilokað fyrir menn að átta sig á því, hvern kjósa á við kosningar. Ef ekki er hægt að leggja neitt upp úr þeim loforðum og fyrirheitum, sem þá eru gefin, og ef ekki er hægt t.d. fyrir launastéttirnar að leggja neitt upp úr fyrirheiti eins og því, sem var borið hér fram af hálfu hæstv. ríkisstj. fyrir áramótin, að tollarnir yrðu lækkaðir um 250 millj. kr., og út úr því koma svo 150 millj., heldur þá hæstv. ráðh., að þetta geti skapað nokkurt gagnkvæmt traust, þegar jafnákveðin loforð eru vanefnd á þennan hátt? Nei, við skulum horfast í augu við það, og ég hygg, að hæstv. ráðh. geri sér líka fullkomna grein fyrir því, að það er mikilvægt og nauðsynlegt, að stjórnmálamenn og sérstaklega þeir, sem eru í ráðherrasæti, láti ekkert ógert til að standa við þau loforð, sem þeir hafa gefið.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að ég álít, að það hefði ekki verið svo erfitt fyrir hæstv. ráðh. að standa við þetta fyrirheit sitt um tollalækkunina, ef hann hefði kært sig um það. Þegar gengishagnaði sjávarútvegsins var ráðstafað hér á þingi rétt fyrir áramótin, var því mjög ákveðið mótmælt bæði af hálfu sjómanna og útgerðarmanna, hvernig það var gert. Í staðinn fyrir að ráðstafa eitthvað í kringum 200 millj. kr. í opinbera sjóði eins og fiskveiðasjóð, vildu sjómenn og útgerðarmenn fá því framgengt, að þetta fé rynni beint til útgerðarmanna, frystihúsanna og sjómannanna, en yrði ekki tekið af þeim og lagt í opinbera sjóði. Og ef það hefði verið gert, ef þessar 200 millj., sem núna fara í fiskveiðasjóð og annan hliðstæðan sjóð, sem verið er að setja á laggirnar, hefðu verið notaðar til þess að borga niður vexti útgerðarinnar, eins og lagt var hér til, og notaðar á annan hátt henni til stuðnings, hefði vel mátt lækka þær uppbætur, sem nú hefur verið samið um við útgerðina, vegna þess að þá var hún raunverulega búin að fá fyrirfram það fé, sem þarna er látið fara í fiskveiðasjóð, til þess að hæta rekstraraðstöðuna á þessu ári. Þetta var ákaflega auðvelt að gera, ef ríkisstj. hafði nokkurn áhuga á því að efna þetta fyrirheit sitt um tollalækkun.

Það er hins vegar greinilegt, hvað af þessu hlýzt: að launastéttirnar, sem hafa verið að reyna samninga við ríkisstj. og reyna að fá hana til þess að gera vissar hliðarráðstafanir, eins og tollalækkun, til þess að draga úr þeirri kjaraskerðingu, sem gengislækkunin veldur, þær hljóta að endurskoða allt sitt ráð að nýju, endurskoða það, hvað mikið er hægt að treysta þessari ríkisstj. og draga svo sínar ályktanir af því og haga sínum framkvæmdum í samræmi við það.

Ég sagði það hér í upphafi, að Framsóknarfl. væri þessu máli fylgjandi, svo langt sem það næði, og að við mundum í samræmi við það stuðla að því, að þetta mál fengi sem skjótasta afgreiðslu í þinginu. Þess vegna skal ég að þessu sinni láta frekari umræður um þetta niður falla, vegna þess að það gefast tækifæri til þess síðar hér á þinginu að koma nánar að þessum málum og minna á það m.a., að hvaða leyti Jón Þorláksson gæti í dag verið Sjálfstfl. til fyrirmyndar.