15.02.1968
Neðri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

121. mál, tollskrá o.fl.

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við höfum nú leyft okkur að leggja fram hér brtt. við það frv., sem hér er til umr. Brtt. eru á þskj. 293. Ásamt mér eru flytjendur þessara brtt. hv. 5. þm. Austf., hv. 2. þm. Sunnl., hv. 3. þm. Vesturl., hv. 5. þm. Norðurl. v., hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Norðurl. e. En það, sem við leggjum til, er það, að ýmis landbúnaðartæki og vélar verði hér eftir tollfrjáls. En það er í fullu samræmi við það, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, — það er í fullu samræmi við það, sem sjávarútvegurinn hefur á skipum sínum og ýmsum tækjum.

Á þskj. 200 lögðum við fram svipað frv. í vetur, sem er alveg samhljóða þessari brtt. Það kom til umr. hér í hv. d. stuttu eftir að þing kom saman eftir jólafrí. En síðan hefur ekkert frétzt af þessu frv. Eins og við vitum, á landbúnaðurinn nú í miklum erfiðleikum, og þessi brtt. er líka í fullu samræmi við óskir Stéttarsambands bænda, eins og hv. þm. vita. En þar óskuðu þeir eftir, að það yrði felldur niður tollur á þessum tækjum eða lækkaður verulega. Af þeim ástæðum, sem fram hafa komið hér áður og að óskum hæstv. fjmrh. um, að ekki væri verið að lengja hér umr. um þetta mál, ætla ég að taka það til greina og fara ekki að ræða um landbúnaðinn eða stöðu hans nú. Það gefst tækifæri til þess seinna. En ef aðrir fara út í slíkar umr., þá náttúrlega áskil ég mér rétt til að ræða þau mál þá síðar í þessum umr.

Það hefur komið fram á ýmsum fundum, sem bændur hafa haldið nú að undanförnu, að þeir telja, að vélaliðurinn í verðlagsgrundvellinum sé í raun og veru ekki nema 1/3 af því fjármagni, sem í þessum lið felst. Þegar gengið var fellt í nóvember, varð það náttúrlega til þess, að þessar vélar hækka allverulega og af þeim ástæðum líka finnst okkur full ástæða til þess að láta reyna á það hér í hv. d., hvort þm. líta ekki sömu augum og við á það mál og telji, að full ástæða sé til þess að taka einmitt þetta til endurskoðunar.

Því hefur verið borið við, að þar sem fjármál ríkissjóðs séu mjög bágborin, sé þýðingarlítið eða þýðingarlaust að koma með svona till. En manni virtist nú annað s.l. mánudag, þegar hér var afgreitt mál, sem þá var allumdeilt, og fer ég ekki út í það frekar. En ég vil benda á, að það er stórt atriði í sambandi við verð á landbúnaðarvörum að halda einmitt þessum kostnaðarlið niðri, og það kemur neytendum til góða alveg eins og framleiðendum, og við teljum margir, að einmitt hefði átt og ætti nú að fara meira út á þá braut í sambandi við landbúnaðinn að reyna að lækka rekstrarvörur hans eftir því, sem hægt er, og er þetta eiginlega eitt af þeim sporum, sem við viljum stíga í þá átt.