15.02.1968
Neðri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

92. mál, heimild til að veita Hans Samúelssyni stýrimannsskírteini

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr., frv. til l. um heimild handa siglingamálaráðh. til að veita Hans Samúelssyni stýrimannsskírteini á íslenzkum skipum, er komið frá Ed., en þar mun það hafa verið samþ. shlj. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft mál þetta til athugunar og mælir með, að frv. verði samþ. óbreytt.

Við umr. þessa máls í Ed. kom fram sú skoðun, bæði hjá hæstv. sjútvmrh. og einnig hjá frsm. sjútvn., að rétt væri að taka úr höndum Alþingis það ákvörðunarvald, sem það hefur í sambandi við slíkar heimildir sem þessa. Þetta var nokkuð rætt í sjútvn. þessarar d., án þess að ákvörðun væri tekin í því máli eða menn hefðu látið í ljósi skoðanir sínar, utan máske ég einn, og ég tel rétt að láta það koma hér fram, að ég er algerlega andvígur þessari skoðun. Bæði er það, að erfitt er að sjá, hverjir ættu að fá þetta vald í hendur, hvort það ættu að vera einhverjir embættismenn uppi í rn. eða hvort Alþ. ætlaði að afsala þessum rétti til skólastjóra Stýrimannaskólans eins, sem ég held, að hann persónulega sjálfur kæri sig lítið um og telji ekki rétt, eftir viðtali að dæma, sem ég átti við hann. Það hefði mátt hugsa sér að setja þetta vald í hendur skólanefndar Stýrimannaskólans, ef hún hefði verið til, en það vill nú svo undarlega til með þann skóla, að það hefur ekki verið skipuð skólanefnd enn fyrir hann. Þar fyrir utan tel ég rétt, að Alþ. taki áfram slíkar ákvarðanir og byggi það m.a. á því, að ég er ekki sammála þeim ágæta manni, skólastjóra Stýrimannaskólans um það, sem kemur fram í bréfi hans, að það próf, sem Hans Samúelsson hefur tekið, jafnist fyllilega á við farmannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Mér er t.d. ekki kunnugt um það, að við stýrimannaskólann í Marstal í Danmörku sé kennd íslenzka. En við Stýrimannaskólann hér í Reykjavík er þetta fallfag fyrir íslenzka nemendur, þannig að mér finnst, að áður en Alþingi gengi í það að ákveða um slíka framkvæmd þessara mála, séu mörg atriði, sem þarf að taka til athugunar, og eins og er er ég andvígur skoðunum bæði hæstv. sjútvmrh. og frsm. sjútvn. Ed. í sambandi við framkvæmd veitingar slíkra heimilda í framtíðinni. En eins og ég tók fram í byrjun þessarar ræðu minnar, er sjútvn. þessarar hv. d. sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. óbreytts.