26.02.1968
Efri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt., eins og ég boðaði, ásamt hv. 5. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Norðurl. v.

Við, sem þessa till. flytjum, teljum, að það sé eðlilegt, að verðuppbótin 60 aurar á hvert kg af fiski gildi allt árið, en sé ekki felld niður yfir sumarmánuðina. Þessar uppbótagreiðslur samkvæmt frv., eins og kom fram í grg. þess, eru taldar eðlilegar sem þátttaka í kostnaði við línuveiðar vegna þess, hvað þær eru sérstaklega dýrar, og eiga því að létta undir í því efni. Við flm. þessarar brtt. teljum, að uppbótin eigi einnig að ná til færafisks af þeirri einföldu ástæðu, að oft og tíðum má telja nærri óframkvæmanlegt að greina á milli, hvað sé línu- eða færafiskur, þegar bátar róa bæði með línustúf og handfæri í sjóferðina. Jafnframt á þessi verðuppbót, eins og hún er hugsuð — og ekki síður, ef hún verður greidd allt árið — að leiða af sér aukna hráefnisöflun fyrir frystihúsin og vinnslustöðvarnar, ekki sízt víðs vegar kringum landið, þar sem þessar veiðar eru mest stundaðar á sumrin. Og nú, þegar atvinnuleysið hefur víða gert vart við sig, er það brýn þörf, að hver einasti sjófær bátur verði gerður út og veiti atvinnu við nauðsynlega hráefnisöflun bæði vetur og sumar. Það er beint hagsmunamál þjóðarinnar allrar, að hráefnisöflunin verði aukin og starfstími vinnslustöðvanna verði lengri og þannig aukin dýrmæt gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið. Á þetta ber að leggja megináherzlu.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins um ráðstafanir til bráðabirgða til handa sjávarútveginum, og þær duga skammt til lagfæringar á vandamálum sjávarútvegsins, eins og þau eru í dag. En vandamálum sjávarútvegsins verður ekki mætt á raunhæfari hátt en með aukinni hráefnisöflun. Fyrst er að leysa hráefnisvandamálin bæði hvað snertir frystihúsin og aðrar vinnslustöðvar, síðan er að búa svo um, að vinnslustöðvarnar geti við eðlilegar aðstæður starfað áfram allt árið um kring. Það er athyglisvert, að Norðmenn hafa mætt verðfallinu á útflutningsafurðum — á sama tíma og það hefur dunið yfir okkur — með auknum afla fisks, þannig að útflutningstekjur þeirra voru svipaðar og árið áður, enda þótt verðfallið ætti sér stað. Ýmsir hafa sagt, að markaðsverð á sjávarafurðum okkar sé svo sveiflukennt, að við getum ekki treyst á sjávarútveginn, eins og gert hefur verið. Að sjálfsögðu ráðum við ekki markaðsverðinu, en víð getum mætt þessum erfiðleikum með öllum tiltækum ráðum. Við getum skipulagt í upphafi hverrar vertíðar nýtingu aflans miklu betur en gert hefur verið. Við ráðum þó, hvernig aflinn verður nýttur, og við ráðum, hvaða verkunaraðferðum við beitum hverju sinni. Í upphafi vertíðar ætti að gera áætlun miðað við markaðshorfur og haga síðan vinnslu eftir markaðsútliti. Þetta gæti vafalaust forðað okkur frá ýmsum skakkaföllum. Við getum vafalítið dregið úr áhættunni hverju sinni með skipulögðum vinnubrögðum og betri skiptingu aflans eftir verkunaraðferðum. En með auknu aflamagni verðum við að auka markaðsleit og spara ekki í þeim efnum, og þar eigum við mikið verk óunnið.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta. En áður en ég lýk máli mínu, langar mig aðeins til að varpa fram þeirri spurningu, hvort ríkisstj. hafi í huga nokkrar ráðstafanir vegna þeirra miklu birgða af skreið, sem eru hér í landi? Svo að ég víki aftur að Norðmönnum, heyrði ég það í fréttum í gær, að þeir hafa tekið þannig á þessu máli, að þeir hafa ákveðið að greiða 30 millj. norskra kr. til þess að létta skreiðareigendum vaxtabyrðina þann tíma, sem skreiðin liggur óseljanleg í landinu. Ég vildi aðeins spyrjast fyrir um, hvort nokkrar svipaðar ráðstafanir væru á prjónunum hérna.

Ég vona svo, að hv. d. geti fallizt á að samþykkja þessa brtt. okkar, því að hún er tvímælalaust til bóta. Hún stuðlar að aukinni hráefnisöflun fyrir frystihúsin og vinnslustöðvarnar, og hún veldur því, að það verður óþarfi að fara að rífast um, hvort fiskurinn hafi verið veiddur á línu eða færi, sem oft og tíðum er ógerlegt að sannreyna.