25.11.1967
Efri deild: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mönnum er nógsamlega kunnugt um tilefni þessa frv., og eins og verða vill, greinir menn bæði á um orsakir þeirra ráðstafana, sem nú hafa verið gerðar, og eins hvort þær séu í eðli sínu réttmætar. Ég skal ekki rekja það mál í samhandi við þetta frv. þegar af því að mikið liggur við, að það fái greiðan framgang. Nýtt gengi íslenzku krónunnar hefur nú verið ákveðið af réttum aðilum, en forsenda þess að eðlileg viðskipti, bæði í bönkum og varðandi tollafgreiðslur, geti hafizt á ný, er, að þær ráðstafanir séu gerðar, sem í þessu frv. eru till. um. Slíkar ráðstafanir hafa ætíð verið lögboðnar í sambandi við gengisbreytingar, bæði á meðan sjálf gengisákvörðunin var í höndum löggjafarvaldsins og eins eftir að Seðlabankanum var fengið það vald. Yfirleitt hafa þær ákvarðanir þó verið margþættari heldur en gerðar eru till. um í þessu frv. En ástæðan til þess, að þetta frv. tekur ekki til fleiri atriða heldur en í því greinir, er sú, að þar sem svo stuttur tími er til stefnu, þótti ekki rétt að taka með önnur atriði en þau, sem einsýnt var um, að skyndilega þyrfti að ákveða og ekki eru horfur á, að verulegar deilur geti hafizt um út af fyrir sig, þó að menn greini á um sjálft málið og ýmsa einstaka þætti þess. Það er þess vegna ráðgert, að fleiri frv. verði lögð fram í sambandi við þetta mál. Nú þegar í dag er ráðgert, að fyrir Alþ. verði lagt frv. um launamál, og eftir helgina eða í næstu viku verða fleiri frv. borin fram áhrærandi þessi efni. Það er því ljóst, að næg tækifæri gefast til þess að ræða málið í heild auk þess, sem nú hefur verið flutt vantrauststill. á ríkisstj., sem vafalaust stendur í sambandi, a.m.k. m.a., við þessar ákvarðanir, og gefst þá tækifæri til að ræða þær í heild í alþjóðaráheyrn.

Ég skal þess vegna stytta mál mitt mjög, þar sem ég vil beina því til hv. þm., að þeir afgreiði málið nú á skammri stundu, svo að unnt sé að lögfesta þessi ákvæði þegar í dag.

Í 1. gr. er ákvæði varðandi tollafgreiðslu hliðstæð þeim, sem sett hafa verið í l. bæði 1960 og í I. um gengisbreytinguna 1961, og er þar um að ræða hrein tæknileg fyrirmæli, sem ég geri ekki ráð fyrir, að neinn ágreiningur sé um.

Varðandi 2. gr. er hún einnig óbreytt að orðum og efni frá því, sem var í l. frá 1960 og í brbl. frá 1961, sem staðfest voru með l. 1962, svo að þar er einnig um fordæmi að ræða, sem ætlunin er, að fylgt sé, fordæmi, sem ég minnist ekki, að neinn ágreiningur hafi verið um á sínum tíma.

Varðandi 3. gr. er þar aftur á móti um ný fyrirmæli að ræða, sem eðlileg þykja, bæði til samræmis við ákvæðið í 2. gr. og til öryggis vegna þess gengisfyrirvara, sem mun nú vera tíðkaður í farmbréfum, farmskírteinum. Ætlunin er að kveða skýrt á um, að ekki sé heimil vöruverðshækkun af þeim sökum nema að mjög takmörkuðu leyti, þ.e.a.s. einungis að því er varðar erlendan kostnað flutningafélaganna, og að svo miklu leyti sem gegn þeim erlenda kostnaði standa skuldir fyrirtækjanna erlendis, þannig að ætla má, að hvort tveggja sé af sömu rót runnið í raun og veru.

Varðandi 4. gr. eru þau fyrirmæli einnig samsvarandi því, sem áður hefur verið lögfest, þegar svipað hefur staðið á. Nauðsynlegt er að setja frekari löggjöf um ráðstöfun þess fjár, sem lagt verður inn á reikning samkv. ákvæðinu. En það er skýrt fram tekið og þess verður gætt í samningu frv. um þetta efni, að þetta fé komi eingöngu að gagni þeim atvinnugreinum, sem að þessu leyti leggja féð fram á þann reikning, sem 4. gr. gerir ráð fyrir, að stofnaður verði.

Í 5. gr. er fyrst og fremst um að ræða gengisjöfnunarsjóð á milli bankanna innbyrðis, sambærilegan við það, sem áður hefur tíðkazt, þannig að gjaldeyrisbankarnir hafi hvorki hag né tjón af þessari gengisbreytingu.

Í 6. gr. er um að ræða að lögfesta aftur sams konar ákvæði um leyfisgjald og boðið var í l. frá 1960, en síðan breytt á þann veg, að 1/2% var lagt til ríkissjóðs, en nú var ætlað, að sú greiðsla til ríkissjóðs yrði afnumin.

Þetta er meginefni þessa frv., og eins og ég

sagði, þar sem ég vil mjög eindregið beina því til hv. d., að hún flýti afgreiðslu frv., þó að ég hins vegar skilji, að menn hafa mismunandi skoðanir á því meginmáli, sem þetta frv. er einungis einn angi af, þá vilji þeir greiða fyrir, að sem minnst truflun verði í almennum viðskiptum og stuðli því að því, eins og hv. Nd. gerði, að málið fái skjótan framgang. Mér skilst, að það mundi vera þeim mun auðveldara hér, þar sem hv. fjhn. þessarar d. mun hafa tekið þátt í athugun málsins með Nd: n., hvort sem hér þætti rétt að vísa málinu formlega til n. eða ekki. Það er á d. valdi.

En ég legg svo til, að málið verði afgreitt til 2. umr. og ítreka tilmæli mín um skjótan framgang.