29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frumvarp það, sem hér um ræðir, er komið frá hv. Ed. og hlaut þar einróma samþykki, eftir að minni háttar breyting hafði verið gerð á 2. gr. frv., síðari mgr., þar sem inn var skotið, að samráð skyldi haft við hraðfrystiiðnaðinn um dreifingu þess fjár, sem gert er ráð fyrir, að fari til endurskipulagningar hraðfrystihúsanna. Efni frv. er ákaflega einfalt og er flutt til staðfestingar á því samkomulagi, sem gert var við vélbátaeigendur annars vegar og hraðfrystiiðnaðinn hins vegar um greiðslu þess fjár, sem ríkisstj. hyggst afla til stuðnings þessum atvinnuvegi. Í trausti þess, að ekki verði um málið nú við 1. umr. miklar umr., skal ég heldur ekki hafa um það lengri framsögu, enda skýrir málið sig sjálft, þó að um bakgrunninn mætti halda langar ræður, sem ég skal að þessu sinni sleppa, nema sérstakt tilefni gefist til.

Ég legg því til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.