07.03.1968
Neðri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. til 1. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem hér liggur fyrir, og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Eru nú komnar fram a.m.k. tvær brtt. eftir því sem ég hef séð, sem hv. flm. gera væntanlega grein fyrir.

Frv. er aðeins tvær gr. Í fyrri gr. þess felst heimild til greiðslu sérstakrar verðbótar á línufisk. Er þar gert ráð fyrir, að sú verðbót nemi 30 aurum á hvert kg fisks á tímabilinu 16. maí til 30. september, en 60 aurum á öðrum tímum árs. Til viðbótar þessari greiðslu munu fiskkaupendur greiða 25 aura á hvert kg línufisks. Er hér um sams konar greiðslur að ræða og verið hafa á undanförnum árum, nema hvað hærri greiðslan mun nú ekki aðeins vera í gildi frá 1. október til 31. desember, heldur einnig á tímabilinu 1. janúar til 15. maí. Þá munu verðbætur aðeins greiddar á línufisk, en ekki á línu- og handfærafisk eins og áður. Kostnaðurinn við þessar greiðslur er áætlaður 25 millj. kr.

Samkv. 2. gr. frv. er kveðið á um heimildir til greiðsluaðstoðar við hraðfrystihúsin. Er gert ráð fyrir, að 152 millj. kr. skiptist á milli frystihúsanna í hlutfalli við framleiðslu þeirra á árinu 1968 af öðrum frystum fiskafurðum en síldarafurðum. Þó skulu 4 millj. kr. af þessari upphæð ganga sérstaklega til frystingar á rækju, og er gert ráð fyrir, að Seðlabanki Íslands sjái um úthlutun fjárins í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands eftir reglum, sem sjútvmrh. setur. Er þetta sami háttur og hafður hefur verið á við úthlutun hagræðingarfjár til frystihúsanna á undanförnum árum.

Þá er í 2. gr. gert ráð fyrir heimild til sérstakrar greiðslu að upphæð 25 millj. kr. í sambandi við endurskipulagningu hraðfrystiiðnaðarins. Skal Seðlabanki Íslands í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands úthluta þessari upphæð til tiltekinna húsa að fengnu samþykki sjútvmrh. Varðandi þetta atriði gerði hv. Ed. eina breytingu á frv., þ.e.a.s. að hætt var orðunum „og fulltrúa hraðfrystiiðnaðarins“ inn í síðari mgr. 2. gr. á eftir orðunum Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands. Hljóðar þá mgr. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er ríkisstj. heimilt að greiða á árinu 1968 25 millj. kr. til hraðfrystihúsa í sambandi við endurskipulagningu hraðfrystiiðnaðarins. Seðlabanki Íslands úthlutar fé þessu til tiltekinna hraðfrystihúsa í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands og fulltrúa hraðfrystiiðnaðarins, að fengnu samþykki sjútvmrh.“

Í grg. með frv. er rakinn aðdragandi þessa máls, og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka það, en vil þó vitna stuttlega í grg., með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.:

„Um það leyti, sem fiskverðið var ákveðið í byrjun janúar, var orðið ljóst, að af þeim sökum, sem að framan er lýst, mundi ekki vera unnt að reka hraðfrystihúsin á þessu ári nema veruleg opinber aðstoð kæmi til. Fulltrúar ríkisstj. hófu þá viðræður við fulltrúa hraðfrystiiðnaðarins, er lyktaði með því, að ríkisstj. bauðst til þess að beita sér fyrir því, að hraðfrystiiðnaðinum væri veitt fjárhagsleg aðstoð, er næmi samtals 198 millj. kr. Var ætlunin, að 25 millj. kr. af þessari upphæð gengju til greiðslu sérstakra verðbóta á linufisk, er ákveðnar höfðu verið í sambandi við ákvörðun fiskverðs, 148 millj. kr. skiptust á milli húsanna í hlutfalli við framleiðsluverðmæti þeirra á árinu 1968, en 25 millj. kr. væri ráðstafað í sambandi við endurskipulagningu hraðfrystiiðnaðarins. Er í þessu frv. farið fram á heimild Alþ. til þess að inna þessar greiðslur af hendi.“

Eins og sjá má af þessu, er frv. flutt og lagt fyrir Alþ. í beinu framhaldi af þeim samningum við hraðfrystiiðnaðinn, sem þarna er skýrt frá. Þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru þegar að nokkru komnar til framkvæmda eða a.m.k. orðnar það undirbúnar, að þær geta komið til framkvæmda strax, þegar Alþ. hefur afgr. frv. Veit ég, að hraðfrystiiðnaðinum er mikil þörf á því, að þessar ráðstafanir verði gerðar, og það mun vera um það fullt samkomulag, að málið nái fram að ganga, eins og kom fram í nál. sjútvn. Er þess vænzt að greitt verði fyrir frv., sem nú er í síðari d., þannig að það hljóti afgreiðslu sem lög frá Alþingi í dag.