07.03.1968
Neðri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar ég talaði hér áðan, hafði hv. 4. þm. Austf. ekki mælt fyrir till. sinni um breytingu á 1. gr. frv., og þess vegna vildi ég ekki þá gera hana að umræðuefni. En erindi mitt hér upp í ræðustólinn að þessu sinni er eingöngu það að lýsa yfir fylgi mínu við þessa till. og mæla með henni fyrir mitt leyti. Mér finnst það satt að segja furðulegt ákvæði, sem er í 1. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að greiða helmingi minna á hvert kg af þeim línufiski, sem veiðist á tímabilinu 16. maí til 30. september, heldur en á hvert kg af þeim fiski, sem veiðist á öðrum tímum ársins. Það fiskmagn, sem hér er um að ræða, er áreiðanlega ekki nema lítill hluti af öllum þeim línufiski, sem veiðist, og þess vegna munar ekki ákaflega miklu fyrir ríkissjóð, þó að greitt sé út á hann einnig. En fyrir þessari mismunun sé ég engin rök. Ég verð einnig að segja það, að mér þykir það einkennilegt, að ekki skuli vera greiddar verðuppbætur á handfærafisk á sama hátt og gert er ráð fyrir, að greitt sé út á línufisk. Ég held, að það sé engin ástæða til þess, að hið opinbera sé að draga úr því, að menn stundi þessar veiðar, sem á margan hátt eru hagkvæmar og veita mörgum atvinnu, þó að þær kannske gefi ekki ákaflega mikið í þjóðarbúið í heild miðað við aðrar veiðar. Ég ætla, að till. sama efnis og till., sem hv. 4, þm. Austf. flytur, hafi verið flutt í hv. Ed. og ekki náð samþykki þar, en ég vildi mega vona, að þetta færi á annan veg nú, og menn gætu fallizt á það, að hér er um eðlilega og sanngjarna breytingu að ræða.