15.02.1968
Efri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

100. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er verið að staðfesta fyrirheit, sem ríkisstj. gaf við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin, á þá leið að hækka bætur almannatrygginga — aðrar en fjölskyldubætur — um 10% miðað við bótafjárhæðir í nóvembermánuði s.l.

Við afgreiðslu fjárlaganna var þar af leiðandi hækkuð fjárveiting til tryggingamála um 31,5 milljónir af þessum sökum, og skyldi þessi hækkun um 10%, eins og hér í þessu frv. greinir, miðast við það, að hækkunin taki gildi frá 1. jan. 1968. Þær bætur, sem falla undir þetta, eru ellilífeyrir, örorkulífeyrir, barnalífeyrir, mæðralaun, fæðingarstyrkur, ekkjubætur, ekkjulífeyrir og slysabætur. Þetta fyrirheit um þessa hækkun frá 1. jan s.l. er þegar komið til framkvæmda og farið að greiða bætur út samkvæmt því, þótt lögin hafi ekki hlotið afgreiðslu hér.

Í þessu frv. er enn fremur fólgin breyting í 3. mgr. 1. gr. frv., þar sem segir, að bótafjárhæðir almannatrygginga, eins og þær verða eftir gildistöku laga þessara, skulu frá 1. jan. 1968 teljast grunnupphæðir, sbr. lög nr. 70 frá 1967 um verðlagsuppbót á laun og um vísitölu framfærslukostnaðar. Að vísu er það svo, að bætur almannatrygginga eru nú ekki — lögum skv. — bundnar við vísitölu, en þetta ákvæði mun sett til þess að vera við því búinn, ef sá háttur yrði tekinn upp í náinni framtíð, — þá væru grunnupphæðirnar tilbúnar og rétt þótti að binda þær við ákveðin mörk, ef vísitöluuppbætur yrðu síðar ákveðnar.

Þessu máli var vísað til heilbr.- og félmn. d., og n. hefur lagt til einróma, að þetta frv. verði samþ., eins og fram kemur í nál. á þskj. 276.