19.02.1968
Neðri deild: 63. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

100. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar fjárl. voru til umr. á s.l. hausti, lýsti ríkisstj. því yfir, að hún mundi beita sér fyrir nauðsynlegri hækkun á fjárlögum til þess að mæta 10% hækkun á tryggingabótum öðrum en fjölskyldubótum. Til efnda á þessum yfirlýsingum er þetta frv. nú flutt og hefur hlotið einróma samþykki hv. Ed. Alþ., og ég leyfi mér að vænta þess, að það fái sams konar afgreiðslu í þessari hv. d. Frv. er mjög einfalt og þarfnast ekki skýringa, en þar er lagt til, eins og ég sagði áðan, að allar aðrar bætur Tryggingastofnunarinnar en fjölskyldubætur verði, ásamt bótum slysatrygginga og sjúkradagpeningum, hækkaðar í samræmi við framangreinda umrædda hækkun framlaga til lífeyristrygginga. Í 10% hækkuninni er innifalin sú 3,39% hækkun, sem átti sér stað 1. des. s.l. vegna aukinnar verðlagsuppbótar.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.