12.03.1968
Neðri deild: 74. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

27. mál, siglingalög

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í sambandi við það frv., sem var til umr. fyrr á fundinum, þarf að gera breytingar á íslenzkum siglingalögum til þess að ákvæði alþjóðasamþykktarinnar, sem kennd er við Brüssel um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, öðlist lagagildi hér á landi. Það frv., sem hér liggur fyrir, miðar að þessu. Ég gat þess áðan í sambandi við hitt málið, að samkv. alþjóðasamþykktinni yrði tekin upp regla um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanns, sem miðast annars vegar við rúmlestatal, en hins vegar við sérstaka mynteiningu. Ég skal nú aðeins reyna að gera grein fyrir, í hverju þetta er fólgið, en ákvæðið um lestatalið og hvernig það skuli reiknað er að finna í 4. gr. frv. síðustu mgr., en þar stendur svo með leyfi hæstv. forseta:

„Með lestatali vélknúinna skipa er átt við nettó rúmlestatal að viðbættu því vélarúmi, sem við ákvörðun á nettó rúmlestatali er dregið frá brúttó rúmlestatali. Um önnur skip er með lestatali átt við nettó rúmlestatal.“

Til frekari skýringar á þessu skal ég leyfa mér með örfáum orðum að rifja upp umsögn um þetta atriði, sem sjútvn. fékk á sínum tíma á s.l. ári frá skipaskoðunarstjóra, en hann segir svo m.a. í bréfi til n.:

„Það atriði, sem sjútvn. Nd. óskar að fá nánari skilgreiningu á, er fram tekið í hjálögðu fskj. Ísland er aðili að alþjóðasamþykkt, svonefndri Oslóarsamþykkt, um mælingu skipa. Það lestatal, sem miðað er við í þessum breytta hluta siglingalaganna, er ekki brúttó rúmlest sem stærð skipa langoftast er miðuð við hér á landi, og ekki heldur nettó rúmlest, sem reiknuð er út fyrir hvert skráð vélskip og getið er um í alþjóðamælibréfi þess. Þessu verður þó ekki hægt að breyta hér, þar eð um er að ræða alþjóðaákvæði, sem hér eru tekin upp. Meginatriðið er að tryggja, að notkun orðsins rúmlest í þessu sambandi eða orðið lestatal geti ekki misskilizt sem brúttó rúmlest, og virðist mér það vera nokkuð augljóst af lokamgr. 4. gr. frv.“

Til þess að skýra þetta betur hefur skipaskoðunarstjóri að beiðni minni sett upp dæmi um það; hvernig þetta rúmlestatal — í skilningi frv. — er fundið. Og þá gefur hann eftirfarandi skýringu á útreikningum um ákvörðun á nettó rúmlestatali vélskipa:

„Þegar brúttó rúmlestatal skips hefur verið ákveðið, er nettó rúmlestatal þess fundið með því að draga eftirtalið frá brúttó rúmlestatali þess:

a. Frádráttarhæf rými, svo sem íbúðir áhafnar, matsal, setustofur, baðherbergi, salerni, sjúkraklefa, kortaklefa, loftskeytaklefa, ganga að þessum rýmum o.fl.

b. Frádrátt vegna hreyfiafls skipsins: 1) Sé rýmið fyrir hreyfiafl milli 13 og 20% af brúttó rúmlestatali skipsins, skal frádráttur vegna þess vera 32% af brúttó rúmlestatali. 2) Sé rýmið minna en 13% af brúttó rúmlestatali skipsins, skal frádráttur vera 32%, en minnka hlutfallslega við það. 3) Sé rýmið meira en 20% af brúttó rúmlestatali skipsins, skal frádrátturinn vera rúmlestatal vélarúms að viðbættum 75%.

Í 4. gr. frv. síðustu mgr. er átt við það rúmlestatal, sem út kemur, þegar búið er að draga þau rými, sem talin eru undir a-lið hér að framan frá brúttó rúmlestatali skipsins.“

Síðan tekur skipaskoðunarstjóri dæmi um þetta. Mæling vélskipsins Brúarfoss samkv. alþjóðamælibréfi er þannig: Rúmlestatal brúttó er 2336,50 lestir, frádráttur samkv. a-lið 478,98 og frádráttur samkv. b-lið 747,68 eða frádráttur samtals 1226,64, en það merkir að nettó rúmlestatal Brúarfoss er 1109,86 rúmlestir. En í skilningi frv. yrði rúmlestatalið þannig: Rúmlestatal brúttó 2336,50 rúmlestir, frádráttur samkv. a-lið 478,96 rúmlestir og rúmlestatal í skilningi frv. 1857,54 rúmlestir. Í þessum útreikningum er miðað við það; að ein rúmlest sé 100 ensk teningsfet eða 2,83 rúmmetrar. Þannig hygg ég, að það þurfi ekki í neinu tilfelli að leika vafi á um stærð skips, þegar reikna skal hámark ábyrgðar, en eins og ég gat um áðan, getur oft — samkv. núgildandi reglu — verið erfitt að reikna út rétt verð skips og farms að viðbættum 10%.

Þá er á hinn bóginn rétt að skýra lítillega frá því, hvað átt er við með þeirri mynteiningu, sem notuð er við útreikninga í þessu sambandi, en það er franki, sem kallaður er Poincaréfranc. Hann tilheyrir ekki myntkerfi neinnar þjóðar, og má t.d. ekki rugla honum saman við franskan eða belgískan franka. Hér er átt við mynteiningu, sem á að innihalda 65,5 mg af gulli með 900/1400 skírleika. Eru 1000 slíkir frankar — miðað við núgildandi gengi á ísl. krónunni — 3780 kr. eða 3,78 kr. í hverjum slíkum franka. Þetta er sem sé sú eining, sem þarna ber að miða við.

Ég skal þá aðeins ræða um tvö eða e.t.v. öllu frekar þrjú atriði, sem sjútvn. staldraði sérstaklega við í athugun sinni á þessu frv. Það er þá í fyrsta lagi takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna gagnvart eigin starfsmönnum. Eins og frv. liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að ábyrgð útgerðarmanna gagnvart eigin starfsmönnum verði einnig takmörkuð. En eins og hv. þdm. munu sjá, ef þeir lesa grg. frv., er farið öðruvísi að í þessu efni á Norðurlöndum. Norðurlöndin hafa ekki tekið upp takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna gagnvart eigin starfsmönnum. Hún gildir aftur á móti gagnvart öðrum mönnum, sem útgerðarmaður kann að þurfa að standa í ábyrgð gagnvart.

Að athuguðu máli og eftir að hafa rætt þetta mál ýtarlega við dr. Þórð Eyjólfsson fannst sjútvn. d. rétt að leggja til, að í þessu efni yrði hér farið sömu leið eins og annars staðar á Norðurlöndum, þannig að ábyrgð útgerðarmanna gagnvart eigin starfsmönnum yrði ekki takmörkuð. Fyrri brtt., sem n. flytur á þskj. 356, lýtur einmitt að þessu atriði, þar sem lagt er til, að 3. gr.. frv. breytist í samræmi við þetta.

Síðari brtt., sem n. flytur, er einnig við 3. gr., en í gr. stendur nú í frv.:

„Takmörkun á ábyrgð útgerðarmanns nær ekki til vaxta eða málskostnaðar.“

Þetta upplýsti dr. Þórður, að væri tekið upp í frv. eftir Norðurlandalögunum, en hann og n. urðu sammála um, að þetta ákvæði væri alveg óþarft, og því leggjum við til, að þetta ákvæði falli niður. Um það er b-liður till. okkar.

Aðrar brtt. flytur n. ekki við frv., en ég vil geta þess, að við ræddum mjög ýtarlega í n. um, hvernig haga skyldi ákvörðunum um hámarksábyrgð útgerðarmanna, þegar um smáskip væri að ræða. Um þetta atriði segir svo í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Við gerð Brüsselsamþykktarinnar 1957 þótti nauðsyn bera til, að ákveðið yrði tiltekið lágmark ábyrgðarfjárhæðar, þegar um smáskip væri að tefla. Varð þá annars vegar að taka tillit til, að útgerðarmönnum slíkra skipa yrði ekki íþyngt um of um vátryggingarkostnað, og hins vegar að líta til þess, að þeir, sem fyrir tjóni yrðu af völdum skipanna, ættu aðgang að hæfilegum bótum. Niðurstaðan varð sú, að sett var í samþykktina ákvæði um, að skip undir 300 rúmlestum skuli við ákvörðun ábyrgðar sæta sömu kjörum og 300 rúmlesta skip. Með viðbótarákvæði í fundargerð var aftur á móti ákveðið, að þátttökuríkin geti undanþegið sig þessu ákvæði, og er þeim þá frjálst að haga þessu í löggjöf sinni með öðrum hætti. Hafa mörg þátttökuríki, þ. á m. fyrrgreind Norðurlandaríki, notað sér undanþáguheimildina. Þegar Norðurlandaríkin breyttu siglingalögum sínum árið 1964 til samræmis við Brüsselsamþykktina, var lágmark ábyrgðarfjárhæðar vegna eignatjóns eingöngu ákveðið 150 þús. frankar (sem svarar til 435 þús. ísl. kr.), og er þá miðað við, að skip undir 150 rúmlestum sæti sömu reglum og væru þau 150 rúmlestir.“ Þetta er ritað fyrir gengisbreytingu. Eftir núverandi gengi svarar það líklega til 600 þús. ísl. kr.

Í þessu efni var það niðurstaða nefndarinnar að vandlega athugðu máli að fara sömu leið, eins og þarna er rakið, að Norðurlöndin hafi farið — sem sé, að sé eingöngu um eignatjón að ræða, reiknist skip, sem eru undir 150 rúmlestum, á sama hátt og 150 rúmlesta skip.

Nefndinni er ljóst, að þetta getur í einstökum tilfellum komið þannig út, að skip sé annaðhvort of hátt eða of lágt í tryggingu, en í þeim tilfellum, þar sem um skaðabótaskyldu getur verið að ræða, þurfa oftast nær eingöngu að koma til viðskipti milli tryggingafélaga, og með hliðsjón af því fannst okkur ekki ástæða til að setja um þetta önnur eða flóknari ákvæði en þau, sem þarna eru í frv.

Nefndinni er að vísu ljóst, að það er hugsanlegt, að skip, sem t.d. þarf ekki að bera nema 3 millj. kr. hámarksábyrgð, valdi tjóni upp á 4 millj. kr. Ef það tjón er á öðru skipi, borgar trygging skipsins, sem tjóninu veldur, allt að 3 millj. kr., en 1 millj. kr. verður þá að koma frá tryggingu hins skipsins. Sömuleiðis er t.d. hugsanlegt, að hámarksábyrgð útgerðarmanns nægi ekki til þess að greiða að fullu tjón á hafnarmannvirkjum. Af því leiðir, eins og sjútvn. bendir á í nál. sínu, að það getur reynzt nauðsynlegt að hafa hafnarmannvirki í tryggingu, enda er það mín skoðun, að slíkt sé sjálfsagður hlutur líka af öðrum ástæðum. Finnst mér sérstök ástæða til að benda á þetta vegna þess, að í mjög mörgum tilfellum munu hafnarmannvirki alls ekki vera tryggð, og alltaf mun reiknað með því, að valdi skip tjóni á hafnarmannvirkjum, borgi trygging viðkomandi skips það tjón að fullu.

Það er þess vegna sérstök ástæða til að vekja athygli á því, að nái þessi lagabreyting fram að ganga, getur reynzt nauðsynlegt að taka upp tryggingar á hafnarmannvirkjum, sem nú eru ekki í tryggingu. Þær tryggingar ættu alls ekki að þurfa að vera mjög dýrar eða óhagstæðar. Á hinn bóginn mun þessi lækkun á takmörkun hámarksábyrgðar útgerðarmanna eða skipaeigenda geta leitt til lækkunar á ábyrgðartryggingum, sem eiga að ná yfir þessa áhættu.

Það varð sem sé niðurstaða n. að vandlega athuguðu máli, að ekki væri ástæða til þess að flytja brtt. varðandi þetta atriði um minni skipin. Eins og frv. liggur fyrir, er í því efni farið nákvæmlega eins að og gert er annars staðar á Norðurlöndum. Það hefur einnig verið þannig, eins og hv. þm. eflaust vita, að ísl. siglingalögin hafa frá byrjun í flestum eða öllum meginatriðum verið sniðin eftir siglingalögum annarra Norðurlandaþjóða. Það er að sjálfsögðu mikilvægt atriði, þegar íslenzkir skipaeigendur eða skipafélög geta lent í því að eiga í einhverjum skiptum vegna skaðabótakrafna við erlend félög, að hér séu í gildi sams konar reglur — eða a.m.k. ekki óhagstæðari en hjá þeim þjóðum, sem við eigum skipti við í þessu tilliti.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða mikið meira um frv., nema sérstakt tilefni gefist til. Ég hef aðallega haldið mig við að ræða þau atriði, sem sjútvn. fjallaði sérstaklega um og gerir brtt. við. Önnur atriði en þau, sem ég hef nefnt, hygg ég, að n. hafi ekki talið ástæðu til að kryfja frekar til mergjar.

Ég legg það svo til, herra forseti, fyrir hönd sjútvn. d., að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. flytur á þskj. 356, en bæði þetta frv. til l. um breytingar á siglingalögum og frv. til l. um alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, sem afgreitt var hér áðan, þurfa að lokinni meðferð í þessari hv. d. að fara enn á ný til Ed., þar sem bæði frv. höfðu áður hlotið afgreiðslu þar.