29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

94. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í þessu frv. felast tvær breytingar á iðnlánasjóðsl.

Sú fyrri er í 1. gr. þess efnis, að varið skuli 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi frá 1. jan. þessa árs til þess að greiða fyrir, eins og þar segir, hagrannsóknum í þágu iðnaðarins og aðgerðum, sem stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun í landinu, og skuli stjórn sjóðsins ráðstafa þessu fé í samráði við Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, en þessi brtt. er flutt að beiðni þessara félagasamtaka, eins og gerð er grein fyrir í grg. frv. Þetta mundi verða töluvert framlag árlega, eins og nú er um 2 millj. kr. En það er meginsjónarmið þessara samtaka, að það kunni að vera enn nytsamlegra fyrir iðnaðinn að fá þennan hluta iðnlánasjóðsgjaldsins, sem greitt er af iðnrekstrinum, til sameiginlegra afnota, heldur en þó að útlánin, sem væru þá úr Iðnlánasjóði, yrðu hækkuð árlega sem þessari upphæð nemur. Fyrir þessu gera þessi samtök nánar grein, eins og birtist í aths. við lagafrv. Mér hefur verið gerð grein fyrir því, að Félag ísl. iðnrekenda hyggist leggja út í töluvert umfangsmikla herferð, áróðursherferð fyrir íslenzkum iðnaði, þ.e. til að fá íslenzka neytendur til að leggja sig meira eftir að nota íslenzka iðnaðarframleiðslu heldur en verið hefur fram til þessa. Herferðin á að stuðla að því að styrkja iðnaðinn í samkeppni hans við aðfluttar vörur. Þetta er veigamikið atriði. Þessu fé mun sjálfsagt verða ráðstafað til margra annarra hagnýtra mála almennt fyrir iðnaðinn í samráði við þessi félagasamtök.

Önnur gr. er svo þannig til komin, að það hefur lengi verið í athugun að veita veiðarfæraiðnaðinum nokkra uppreisn vegna tjóna, sem hann er talinn hafa orðið fyrir vegna ráðstafana stjórnarvalda. Var reyndar ætlunin á sínum tíma að fá þessa heimild tekna inn í fjárl., en það fórst fyrir vegna mistaka, og þess vegna er flutt hér frv. um þessa heimild, sem felst í 2. gr. fyrir ríkisstj. til að greiða til veiðarfæraiðnaðar allt að 11/2 millj. kr. til að bæta innlendum veiðarfæraiðnaði það tjón, sem hann hefur að mati stjórnar Iðnlánasjóðs beðið vegna ákvarðana stjórnarvalda um breytingu á reglum um möskvastærðir fiskineta 1963 og 1964. Nánar er gerð grein fyrir þessu í aths. um 2. gr.

Það vill svo til, að eina veiðarfæragerðin hér á landi, sem mundi verða þessa aðnjótandi, er Hampiðjan. Það styrkir töluvert aðstöðu hennar í þeim erfiðleikum, sem hún hefur átt við að stríða, og er einn þátturinn í þeim áformum ríkisstj. að gera af sinni hálfu það, sem verða má, til þess að stuðla að eflingu veiðarfæraiðnaðar í landinu almennt.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.