19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

94. mál, Iðnlánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er að heimila það, að varið skuli 10% af árlegu iðnlánasjóðsgjaldi til að greiða fyrir hagrannsóknum í þágu iðnaðarins. Þetta er gert samkv. ósk, sem hefur komið, bæði frá Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna. Það er vafalaust, eins og hv. frsm. tók fram, að hér er farið inn á rétta braut og þörf er fyrir þær hagrannsóknir, sem hér er lagt til, að verði unnar. Sá galli er hins vegar á þessari till., að hún kemur til með að skerða það fjármagn, sem Iðnlánasjóður hefur til útlána um þessi 10%.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að iðnaðurinn býr við hinn mesta fjármagnsskort, ekki sízt skort á stofnlánum, og þess vegna kemur það sér mjög illa fyrir hann, að fjár til hagrannsókna þurfi að afla með þessum hætti. Það er sökum þessa, sem við tveir nm. í iðnn., ég og hv. 1. þm. Norðurl. e., flytjum sérstaka brtt., sem gengur í þá átt, að framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs verði árlega jafnhátt tekjum þeim, sem sjóðurinn fær af því gjaldi, sem iðnaðurinn greiðir sjálfur til Iðnlánasjóðs. Sá háttur hefur verið hafður á að undanförnu í sambandi við stofnlánasjóði sjávarútvegs og landbúnaðar, að ríkissjóður greiddi jafnhátt framlag í þessa sjóði og þessir atvinnuvegir sjálfir greiða til þeirra. Það hefur verið farið fram á það hvað eftir annað af hálfu samtaka iðnaðarmanna og iðnrekenda, að slíkt hið sama gilti einnig um Iðnlánasjóð og ríkið greiddi því jafnhátt framlag til sjóðsins og iðnrekendur greiða sjálfir. Um þetta hafa nokkrum sinnum verið fluttar till. hér á Alþ., en það hefur þá komið í ljós eins og oft áður, að hér er ekki meiri hl. fyrir því, að iðnaðurinn búi við sama rétt og aðrir atvinnuvegir; þess vegna hefur þessi till. verið felld.

Það er nú von okkar flm. þessarar till., að hér sé um breytt viðhorf að ræða, ekki sízt vegna þess að í umr., sem fóru fram um iðnaðarmál hér á Alþ. fyrir nokkrum vikum, lýsti hæstv. iðnmrh. yfir því afdráttarlaust, að hann ætlaði sér að berjast fyrir því, að iðnaðurinn byggi ekki við lakari aðstöðu heldur en aðrir atvinnuvegir. Og það er m.a. til þess að reyna það, hvort hæstv. iðnmrh. fylgi nú ekki fram þessari stefnu, sem þessi till. er lögð hér fram.

Ég ætla að þessu sinni ekki að fara að ræða um iðnaðarmál almennt. Ég hygg, að það sé öllum hv. þm. kunnugt, að iðnaðurinn býr við stórfelldan lánsfjárskort — bæði skort á stofnlánum og rekstrarlánum — að um það þurfi ekki nánar að ræða og þess vegna eigi sú till., sem við flytjum hér, ég og hv. 1. þm. Norðurl. e., fullan rétt á sér — þó sérstaklega vegna þess að þetta frv., þótt nauðsynlegt sé, skerðir nokkuð lánsmöguleika Iðnlánasjóðs frá því, sem ella mundi verða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessa till. Ég vænti þess, að hún fái góðar undirtektir hjá hv. d. og það komi þannig í ljós vaxandi vilji á því, að iðnaðurinn búi við sömu aðstöðu og sama rétt og aðrir atvinnuvegir.