19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

94. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir undir þetta frv. Það eru aðeins smávægileg atriði, sem ég þarf að víkja að, en það er einkum í sambandi við ræðu hv. 4. þm. Reykv. Hann bendir réttilega á það, að þetta gjald, sem hér er gert ráð fyrir, að gangi til almennra þarfa, skerði útlánamöguleikana, og hann hefur einnig vakið athygli á því, að till. sú, sem hann flytur hér nú ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e., hefur áður verið flutt. Um það segir hann, að það hafi ekki fengizt áður meiri hl. fyrir því, að iðnaðurinn búi við sama rétt og aðrir atvinnuvegir. Þetta vil ég leiðrétta, því að hér er um mikinn misskilning að ræða. Afstaðan til þessarar till. segir ekkert til um það.

Ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni til þessarar till. og skal ekki fara langt út í það, en hv. 4. þm. Reykv. segir, að hún sé m.a. flutt til þess að reyna, hvort ég fylgi fram fyrri yfirlýsingum mínum um, að iðnaðurinn njóti jafnréttis á við aðrar atvinnugreinar. Úr því fæst ekki skorið með atkvgr. um till. eins og þessa. Þá þyrfti að ganga miklu lengra. Þá þyrfti að fara í gegnum öll fjárl. og það, sem við erum að gera hér yfirleitt í þinginu í sambandi við atvinnuvegina, og málið snýst þá um að, hvort við eigum að láta Iðnaðarmálastofnun Íslands hafa sama rétt eins og t.d. Búnaðarfélag Íslands, sem er aðalstofnun bændanna í sambandi við fjárframlög og hefur um 15–16 millj. kr. á fjárl. — nú man ég ekki þessa tölu nákvæmlega — á móti 3–4 millj. kr. eða eitthvað því um líkt til handa Iðnaðarmálastofnun Íslands. Þá kæmi einnig til álita, hvort við ættum að samþykkja að verja á þriðja hundrað millj. kr. til iðnaðarins til þess að bæta upp útfluttar iðnaðarvörur til þess að ná markaðinum erlendis fyrir íslenzkan iðnaðarvarning og svona mætti lengi telja.

Ég mun fylgja fram þeirri stefnu minni, sem ég hef áður lýst yfir, að iðnaðurinn njóti jafnréttis við aðrar atvinnugreinar, og ég vil sízt vera að stuðla að því að ýfa upp nokkurn meting á milli atvinnugreinanna, en endurtek það, að afstaða til slíkrar till. sem þessarar sker engan veginn úr um það.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um það, en vildi aðeins láta þetta koma fram, svo að það valdi ekki neinum misskilningi.