19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

94. mál, Iðnlánasjóður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, að verði þessi till. felld, er gert verr við iðnaðinn a.m.k. í þessu tilfelli en aðra atvinnuvegi. A því leikur ekki neinn vafi vegna þess, að það gildir sú regla um stofnlánasjóði annarra atvinnugreina, að að svo miklu leyti sem atvinnuvegirnir sjálfir greiða fé í þá, er greitt jafnhátt framlag frá ríkinu. Að vísu sé ég það, að í því frv. um sparnað eða lækkun ríkisútgjalda, sem nú liggur fyrir þinginu, er ætlazt til þess, að hliðstætt framlag til Stofnlánasjóðs sjávarútvegsins eða Fiskveiðasjóðs verði fellt niður en það er rökstutt með því, að sjóðnum sé séð fyrir tekjum á annan hátt, sem jafngildi alveg þessu framlagi.

Hitt má svo vel vera — og er alveg rétt hjá hæstv. iðnmrh. — að á mörgum öðrum sviðum er gert verr við iðnaðinn, svo að hann býr við lakari kjör en aðrir atvinnuvegir. Ef hann t.d. ætti að öllu leyti að búa við sömu kjör og landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn, ætti það gjald, sem hér er lagt til, að fari til hagrannsókna, að vera borgað beint úr ríkissjóði, vegna þess að ríkissjóður greiðir hliðstæð gjöld fyrir landbúnaðinn — og ég hygg — að einhverju leyti fyrir sjávarútveginn líka.

En ég vil halda því fram, að það sé þó betra að ganga, hvað þetta mál snertir, í átt til jafnréttis til handa iðnaðinum, þó að ekki fáist það fram að öllu leyti. Þess vegna séu það engin rök hjá hæstv. ráðh. að vera á móti þessari till., vegna þess að einnig sé gert verr við iðnaðinn á öðrum sviðum. Það væri þó skárra og gengi í rétta átt, ef hlutur hans væri réttur á þessu sviði, þó að eitthvað annað yrði að bíða, þangað til fullu jafnrétti væri náð.