04.03.1968
Efri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

98. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þessu máli var vísað til heilbr.- og félmn. og var niðurstaða n. sú að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Einn nm., hv. l. þm. Vesturl., áskildi sér rétt til að fylgja brtt., sem fram kynnu að koma við málið, og annar nm., hv. 4. þm. Sunnl., var fjarstaddur, þegar málið var afgr.

Þetta mál er ósköp einfalt í sjálfu sér. Nýmæli það, sem felst í þessu frv. til breyt. á l. um verkamannabústaði, kemur fram í síðustu mgr. 1. gr., sem er viðbót við gildandi lög. En í þessari mgr. er tekið fram, að verði íbúð, sem keypt hefur verið af byggingarfélagi seld á nauðungaruppboði samkv. lögum frá 25. maí 1949 um nauðungaruppboð, þá geti stjórn byggingarfélagsins neytt forkaupsréttar síns og krafizt þess á uppboðsþingi, að eignin verði lögð út félaginu til eignar á því verði, sem hæst hefur verið boðið í eignina. Eins og kunnugt er, þá hafa byggingarfélög verkamanna forkaupsrétt að íbúðum, sem einstaklingar innan byggingarfélagsins vilja selja, og er svo ákveðið í samþykktum allra félaga, að einstaklingur má ekki selja viðkomandi íbúð, nema stjórn byggingarfélagsins hafi áður hafnað forkaupsrétti félagsins vegna. Forráðamenn byggingarfélaga verkamanna hafa sennilega staðið í þeirri trú, að með þessu lagaákvæði væri réttur félagsins tryggður eða íbúð yrði aldrei seld öðru vísi en á þann hátt, að félag hefði forkaupsrétt og gæti notið hans.

Nú hefur hins vegar fallið hæstaréttardómur, sem fjallaði um forkaupsrétt til íbúðar, sem byggð var af Reykjavíkurborg til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði. En niðurstaðan af þeim hæstaréttardómi var sú, að forkaupsréttur að slíkum íbúðum gildi einungis, þegar frjáls sala fer fram, en ekki þegar um nauðungarsölu er að ræða samkv. lögum um nauðungaruppboð. Og þeir, sem þessum málum eru kunnugastir, álíta, að þessi hæstaréttardómur hafi tvímælalaust víðtækara gildi heldur en þegar fjallað er um sölu á íbúðum, sem byggðar hafa verið til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði — heldur muni þetta sjálfsagt líka gilda að óbreyttum lögunum, þegar íbúðir í verkamannabústöðum væru seldar. Og því er þetta frv. flutt til þess að tryggja það, að forkaupsréttur byggingarfélaga verkamanna sé öruggur, einnig ef slík íbúð færi á nauðungaruppboð.

Fyrir utan það, að félagið hefur forkaupsrétt, þá gilda alveg sérstakar reglur, sem koma reyndar hérna fram í 1. gr. og eru endurteknar, um það, hvernig seljandi eigi að njóta verðhækkunar á íbúðinni. Ef þetta væri ekki tryggt, að þessi forkaupsréttur næði einnig til þess, þegar íbúð er seld á nauðungaruppboði, þá gæti eigandi slíkrar íbúðar undir vissum kringumstæðum átt tiltölulega auðvelt með það að koma íbúðinni í nauðungarsölu, þó að það væri ekki af brýnum fjárhagsástæðum og þarna opnaðist smuga til þess að sniðganga forkaupsréttarákvæðið.

Því verður að telja, að þessi breyt. á l. um verka mannabústaði að gefnu því tilefni, sem ég minntist á áðan, sé í alla staði eðlileg. Eins og ég gat um í upphafi, þá fjallaði heilbr.- og félmn. um þetta mál, og mælti hún með því, að þetta frv. yrði samþ.