26.02.1968
Neðri deild: 66. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

120. mál, tímareikningur á Íslandi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og vil með örfáum orðum gera grein fyrir honum. Eins og fram kemur í þskj., felst það í þessu frv., að klukkan skuli vera jafnfljót allt árið, og nánar tiltekið felst það í því, að framkvæma skuli þetta á þá leið, að fljóta klukkan, sem hefur verið notuð að sumrinu, eða hennar tímatal skuli einnig gilda að vetrinum, þ.e. að klukkan verði allt árið klukkustund fljótari en hún var hér fyrrum.

Nú er mér það ljóst, eins og öðrum nm., að það kunni að vera til hagræðis að hafa sama tíma allt árið. Hins vegar er ég ekki óhræddur um það, að þetta — að hafa flýtta klukku á vetrum — kunni að verða til nokkurra óþæginda. Hef ég þá sérstaklega í huga lítil börn, sem fara snemma í skóla. Þess vegna hef ég gert þennan fyrirvara. Hann táknar í raun og veru það, að ég vil láta líta svo á, að þessi breyting gildi til reynslu og þetta atriði verði sérstaklega endurskoðað síðar.