29.02.1968
Efri deild: 64. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

120. mál, tímareikningur á Íslandi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta mál um tímareikning á Íslandi er komið frá Nd., og var um það góð samstaða í þeirri d. Ég leyfi mér því að vænta einnig góðrar samstöðu hér í þessari hv. d. og skjótrar afgreiðslu málsins, en mál þetta er flutt af hálfu ríkisstj. eftir till. þeirra vísindamanna, sem hafa með útreikning tímans að gera, eins og nánar er gerð grein fyrir í grg. þeirra sérfræðinganna dr. Trausta Einarssonar, prófessors, og dr. Þorsteins Sæmundssonar.

Meginefni málsins er að hverfa frá því skipulagi, sem við höfum haft hér að breyta klukkunni tvisvar á ári og taka upp það fyrirkomulag, að sumartíminn, sem svo hefur verið kallaður, verði í gildi hér að staðaldri, en það þýðir það, að klukkunni mundi eftir okkar gamla lagi verða flýtt í vor og sá tími yrði svo áfram staðaltími hér, en það jafngildir því að telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich, eins og segir í 1. gr., en miðtími Greenwich er einnig kallaður heimstími, og mundi þá ísl. staðaltími jafnframt samsvara „universal time“, eins og það er orðað. Það er gerð ítarleg grein fyrir þessu máli í fskj., sem fylgja frv., frá þeim vísindamönnum, sem gert hafa till. um þetta til ríkisstj., og vil ég leyfa mér að vitna til þess, því að ég hygg, að það sé ekki mikið álitamál, að kostir þess að breyta til, eins og hér er gert ráð fyrir, séu töluvert þyngri á metunum en þeir ókostir, sem því fylgja og eru nokkrir. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.