18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er vissulega alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykn., að sú endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem boðuð var strax við lýðveldisstofnunina, hefur verið æðilengi á leiðinni og ekkert útlit fyrir, að hún sjái dagsins ljós í náinni framtíð a.m.k. Eins og er, búum við við stjórnarskrána svo til alveg óbreytta frá því sem hún var, þegar við vorum hluti af Danaveldi og í stjórnarskránni stóð „konungur landsins“ í staðinn fyrir „forseti“ nú. Að vísu hafa verið gerðar nokkrar breytingar á kjördæmaskipuninni, þegar það hefur þótt heppilegt, en engin heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur farið fram.

Nú vill svo vel til, að einn af þm. stjórnarflokkanna hefur gerzt sérstakur talsmaður þess að a.m.k. þrem atriðum í stjórnarskránni yrði breytt, og þá má kannske búast við því, að þessi mál komist á einhvern rekspöl. En ég tel rétt, úr því að farið er að ræða þessi mál hér, að minna á það, að á síðasta Alþ. 1967 var flutt till. til þál. um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hún var flutt af Karli Kristjánssyni, sem þá átti sæti hér í þessari hv. d., en er nú ekki hér lengur. Í þessari þáltill. er drepið á níu atriði, sem þurfi endurskoðunar við.

Ég skal ekki þreyta hv. dm. með því að rifja upp, hvaða atriði þetta eru að öðru leyti en því, að þau þrjú atriði, sem hv. 4. þm. Reykn. gerði sérstaklega að umtalsefni, er öll þarna að finna. Þessi till. fékk engar undirtektir á síðasta hv. Alþ. Hún var send til nefndar og kom þaðan aldrei aftur, og vitanlega voru það þeir, sem þá studdu hæstv. ríkisstj. hér á Alþ., sem réðu þeirri afstöðu. Þessi till. hefur enn ekki verið flutt að nýju, en síðustu atburðir hér í þessari hv. d. virðast vissulega gefa tilefni til þess, að það verði nú tekið til endurskoðunar, hvort ekki sé rétt að flytja till. að nýju, annaðhvort í sinni upprunalegu mynd eða aðeins breytta í nokkrum atriðum.

Þessi þrjú atriði, sem hv. 4. þm. Reykn. gerði að umtalsefni eru:

Skipting Alþ. í deildir. Um það segir í þessari þáltill., með leyfi forseta:

„Áreiðanlega orkar mjög tvímælis, að rétt sé að skipta Alþ. í tvær málstofur. Sérstakur grundvöllur var fyrir skiptinguna, meðan ekki var kosið með sama hætti til beggja deildanna.

Tvær málstofur lengja þinghaldið.“

Og síðan segir: „Sennilega væri hægt að finna önnur ráð en deildaskiptinguna til að tryggja vandvirkni“.

Það er sem sé till. þessa flm., að það verði mjög athugað að leggja deildaskiptinguna niður. Eins og hv. 4. þm. Reykn. vildi gera að sínu máli, eftir því sem mér skildist, og eins og hæstv. menntmrh. tilkynnti raunar, að mundi verða athugað af hálfu ríkisstj., áður en þessu þingi lýkur.

Annað atriðið, sem hv. 4. þm. Reykn. gerði að umtalsefni og er einnig að finna í þessari till., er kjördæmaskipunin. En um hana segir þar í grg., með leyfi forseta:

„Kjördæmaskipunin og þingmannakjörsreglurnar, sem 31. gr. stjórnarskrárinnar segir fyrir um, eru aðalgrundvöllur stjórnmálalífsins í landinu.

Hvort ýtir þessi grundvallarskipan undir samstöðu eða sundurþykki? Og hvort er heppilegra, að slík skipan geri?

Allir geta séð, að hlutfallskosningar í stórum kjördæmum ýta sterklega undir flokkadrátt, og uppbótarsætin, sem þingflokkar hljóta til jöfnunar í ofanálag með útreikningi fyrir allt landið, herða á flokkadrættinum og gera hann að verulegu leyti að blindingsleik.

Afleiðing er líka: Fjórir minnihlutaflokkar á Alþ. Engin skilyrði til að mynda ríkisstj. nema samsteypustjórn með þeim hrossakaupum, er slíkum stjórnarmyndunum fylgja. Varla nokkur hrein lína fyrir kjósandann að átta sig á.

Lýðræðið krefst jafnréttis fyrir þegnana til stjórnarfarsáhrifa, en þarfnast eigi að síður aðhalds til að lenda ekki í sundrungu og glundroða. Hið svonefnda tveggja flokka kerfi virðist henta því bezt. Grundvöllur þess kerfis eru einmenningskjördæmi. Þau leiða af sér það kerfi, en það knýr til heilsteyptara og ábyrgara stjórnarfars. Bretar eru þar til fyrirmyndar.

Áríðandi er að taka þessi málefni, svo fljótt sem unnt er, til endurskoðunar með raunhæfri víðsýni og hefja þau yfir sérhagsmuni flokka og dægurmálaþras.“

Nú kom það fram hjá hv. 4. þm. Reykn., að hann gat hugsað sér hvort, sem vera skyldi, meiri jöfnun samkvæmt hlutfallskosningafyrirkomulaginu, sem hér er við haft nú, eða þá að skipta landinu í einmenningskjördæmi. Hvort tveggja er að sjálfsögðu ekki hægt að gera, og menn verða að gera það upp við sig, hvort þeir vilja hafa einmenningskjördæmafyrirkomulag eða hvort þeir ætla sér að halda áfram því hlutfallskosningafyrirkomulagi, sem nú er við haft með uppbótarsætunum og öllu því, sem þessu fyrirkomulagi fylgir. Ég held, að það sé mjög áríðandi, að þm. fari að gera upp hug sinn í þessu efni og að það sé rétt athugað hjá hv. 4. þm. Reykn., að endurskoðun þessa máls megi ekki dragast mikið lengur úr þessu.

Þriðja umræðuefnið var svo forsetaembættið, sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Um það er einnig fjallað í áðurnefndri þáltill. á svipaðan veg og hv. þm. einmitt gerði — sem sé að það þurfi að gæta þess að gera stjórnarformið ekki að óþörfu of dýrt og of þungt í vöfunum, og þess vegna er lagt til, að það verði lagt niður, en um það segir svo:

„Í því, sem hér hefur sagt verið, felst síður en svo ádeila á þá forseta, sem hingað til hafa gegnt þeirri háu stöðu á Íslandi. Hér er rætt um embættið, en ekki forsetana. Segja má með sanni, að þeir hafi notið mikilla og verðskuldaðra vinsælda. En þær persónubundnu vinsældir má einmitt alls ekki láta hafa áhrif á mat á stjórnarforminu við endurskoðunina.“

Þetta eru þau þrjú atriði, sem mér fannst rétt að minna á úr þessari þáltill., sem flutt var af Karli Kristjánssyni á síðasta Alþ., vegna þess að þau mál hafa nú verið gerð sérstaklega að umtalsefni. Að öðru leyti mun ég ekki ræða það frv., sem hér er á dagskrá, og aðeins minna á það, að það hefur alveg nýlega verið gerð tilraun til þess að fá fram umr. um stjórnarskrána og endurskoðun á henni. Það hefur fram að þessu verið flutt fyrir daufum eyrum, en nú má vænta þess, að a.m.k. sumir úr þingliði stjórnarflokkanna muni vera til viðtals um þessar breytingar, og ber vissulega að fagna því.