14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar ég gerði Alþ. grein fyrir frv. um breytingu á tollskránni, sem fól í sér tollalækkanir, sem námu um 160 millj. kr., skýrði ég frá því, hvaða úrræði ríkisstj. hyggðist hafa til þess að jafna þann halla, sem sýnilega yrði á fjárl. á árinu 1968, miðað við þau fyrirheit, sem ríkisstj. hefði gefið útgerðinni og fiskvinnslustöðvunum um viðbótaraðstoð á þessu ári. Gerði ég þar grein fyrir því, að til þess að jafna hallann, sem yrði hjá ríkissjóði vegna þeirrar aðstoðar og vegna lækkunar tolltekna, sem leiddu af tollalagafrv., mundi verða gerð sérstök ráðstöfun af hálfu ríkisstj. til þess að draga úr ríkisútgjöldum jafnframt því, sem ákveðið var að hækka verð á áfengi og tóbaki og var gert ráð fyrir, að sú tekjuöflun gæti gefið um 40 millj. kr. Til þess að jafna metin að öðru leyti þurfti nálægt 200 millj. kr., sem varð að nást með sparnaði annars vegar og einnig með öðrum ráðstöfunum annaðhvort nýrri tekjuöflun eða þá hliðstæðum ráðstöfunum með einhverjum öðrum hætti til að lækka útgjöld fjárl. Var talið, að þá vantaði þrátt fyrir 100 millj. kr. lækkun ríkisútgjalda, sem var boðuð, um 60 millj. kr. til viðbótar og ekki yrði um annað að ræða en afla þeirra tekna annaðhvort með nýjum skattaálögum eða öðrum ráðstöfunum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er staðfesting á þessum yfirlýsingum. Þar er annars vegar gert ráð fyrir því að lækka útgjöld ríkissjóðs á þessu ári um 138 millj. kr. samtals að meðtöldu 30 millj. kr. framlagi til Fiskveiðasjóðs, og að auki er gert ráð fyrir því að létta af ríkissjóði á þessu ári fjárlagaútgjöldum, sem nema rúmum 62 millj. kr. Fyrri hluti útgjaldanna, 138 millj. kr., er ætlað, að verði bein lækkun og niðurskurður fjárlagaútgjalda, en síðari upphæðin, 62 millj. kr., er ætlað að verði fjármagnað með lántökum innan ramma framkvæmdaáætlunar ríkisins fyrir árið 1968. Mun ég víkja örlítið að því atriði síðar, en fyrst gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem liggja að baki þeim hreina niðurskurði fjárlagaútgjalda, sem felst í 1. gr. þessa frv.

Áður en ég vík að því, er rétt að gera grein fyrir því formi, sem valið er á frv., sem að sjálfsögðu er mjög óvenjulegt, vegna þess að þarna er í senn verið að lækka útgjöld samkv. fjárl. og auk þess að breyta margháttaðri annarri löggjöf. Það þótti hins vegar augljóst mál, að það væri engin leið að koma þessu fyrir með öðrum hætti. Hitt yrði allt of umfangsmikið og erfitt, ef ætti að fara að leggja fram ótal frv. til að breyta þeim lagaákvæðum, sem þetta frv. hér nær til. Það er enda fordæmi fyrir því, þegar gerðar hafa verið hliðstæðar ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, að þessi leið hafi verið valin, en það var árið 1940. Voru þá gerðar nokkuð hliðstæðar ráðstafanir og hér er um að ræða til lækkunar ríkisútgjalda, og þá var mörgum lögum bæði fjárl. og ýmsum sérlögum breytt með einu frv. eða einni löggjöf. Þær 138 millj. kr., sem hér er gert ráð fyrir, að útgjöld samkv. fjárl. lækki um, munu ekki að fullu skila sér á þessu ári, vegna þess að ýmsir liðir, sem á að lækka, eru þess eðlis, að það er engin leið að koma þeim sparnaði við samstundis — að svo miklu leyti t.d. sem um er að ræða að fækka starfsmönnum. Það verður ekki gert nema með vissum fyrirvara, og því eru það ekki allir liðirnir, sem skila sér að fullu á þessu ári, þó að meginhluti till. sé þess eðlis, að þeir eigi að geta skilað sér fullkomlega á árinu 1968.

Það meginsjónarmið hefur verið haft í huga við þennan niðurskurð fjárlagaútgjalda að leitast við að binda hann fyrst og fremst við rekstrarútgjöld ríkissjóðs án þess að hagga í neinum verulegum mæli þeirri löggjöf, sem í gildi er um almenna þjónustu ríkisins við borgarana. Og það er leitazt við að ganga ekki inn á svið fjárfestingarframkvæmda, þannig að það er að mjög litlu leyti í þessu frv. um að ræða niðurskurð ríkisframkvæmda. Þær fjárveitingar, sem lagt er til að fella niður og varða fjárfestingu, eru fyrst og fremst fjárveitingar til framkvæmda, sem ekki hefur verið byrjað á og verið er að safna fé til og er því ekki um að ræða nema lítinn hluta af kostnaði við þá framkvæmd. Við samningu fjárl. fyrir árið 1968 var lögð áherzla á það að reyna að halda öllum útgjaldaliðum í lágmarki, og það hefur því — enda þótt hér sé ekki um að ræða nema á þriðja prósent af heildarútgjöldum ríkissjóðs reynzt torvelt að framkvæma þennan niðurskurð útgjalda eftir þeim sjónarmiðum, sem ég hef gert grein fyrir. Liggur, held ég, í augum uppi, að hefði það verið auðvelt verk, ætti að vera búið að framkvæma slíka lækkun, og geri ég ráð fyrir, að öllum þm. sé ljóst það sjónarmið. Reynt hefur verið að velja þessa liði þannig, að þetta í rauninni kæmi sem víðast niður. Það eru margir útgjaldaliðir, sem valdir hafa verið, til þess að reyna að hafa þar nokkurt samræmi í og skera ekki meira niður en svo, að ekki væri hægt að segja, að teflt væri í hættu neinni nauðsynlegri framkvæmd á vegum ríkisins.

Ég skal víkja í fáum orðum að þeim einstöku liðum, sem hér er um að ræða. Í 1. lið fyrstu greinar frv. er lagt til að lækka kostnað við stjórnarráð og veizlur ráðh. um 2 millj. kr. Það er gert ráð fyrir, að þetta verði í ýmsum greinum bæði í sambandi við ferðakostnað, nefndakostnað, risnu og ýmsan tilkostnað rn., tækjakaup og annað, og það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess af hálfu allra rn., að þessi lækkun útgjalda yrði raunhæf. Af hálfu ríkisstj. hefur verið ákveðið að beita allri hugsanlegri takmörkun við ferðalög á þessu ári á vegum ríkisins og við risnukostnaðinn, svo sem mest má verða, þannig að ég tel ótvírætt mega fullyrða, að hægt sé að koma við þessum sparnaði.

Í annan stað er lagt til að fella niður framlag til Byggingarsjóðs stjórnarráðshúss. Það er framkvæmd, sem vissulega er hin brýnasta, en er samkynja þeim framkvæmdum, sem ég gat um áðan, eða þeim þeirra, sem ekki er byrjað á; heldur verið að safna í sjóð, og eins og ástatt er núna, þykir rétt að fella niður þetta framlag.

Þriðji liður fyrstu greinar frv. er um að lækka 10 millj. kr. framlag, sem ákveðið er í fjárl. til Viðeyjarstofu, um 4 millj. kr. Það hefur komið í ljós við yfirmat á endurgjaldi fyrir Viðeyjarstofu, að það hefur, sem betur fer, verið lækkað mjög verulega eða úr nálægt 9 millj. kr. í 6 millj. kr., þannig að það er óhætt að gera ráð fyrir, að þetta fé geti sparazt með því móti þó, að ekki verði lagt í það, sem ætlunin var, að hefja viðgerð á Viðeyjarstofu á þessu ári. Þetta leiðir til þess, að þeim framkvæmdum verður að fresta.

Það er lagt til að fresta skipun í tvö prófessorsembætti við Háskólann, í lögfræði og í nútímasagnfræði, þó að fjárveitingar séu á fjárl. til að taka þau upp, og er lagt til, að skipun í þessi embætti verði frestað, þangað til Alþ. ákveður annað.

Gerðar eru till. um ráðstafanir til þess að draga úr skólakostnaði á grundvelli þeirra áætlana, sem gerðar hafa verið í sambandi við nýju skólakostnaðarlögin. Verður um að ræða allverulegan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, þó að ekki verði séð alveg fyrir endann á því enn. Lagt er til í þessu frv. í 4. gr. þess, nánar tiltekið 2. lið, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að koma við aukinni hagkvæmni og aðhaldi í sambandi við notkun þessarar nýju löggjafar, og það þykir mega fullyrða, að sé gætt þar fyllsta aðhalds, megi spara allverulega frá því, sem gert var ráð fyrir. Þetta felur að vísu í sér, að þá er gert ráð fyrir, að ekki verði notaður að fullu réttur skóla til að bæta við kennurum, en það er með öllu óeðlilegt í mörgum tilfellum, að sá réttur sé að fullu notaður. Á því að vera óhætt að gera ráð fyrir verulegum sparnaði á þessum lið, án þess að þurfi að skerða þjónustu skólanna eða draga úr kennslu í þeim.

Þá er gert ráð fyrir því að lækka framlag til skólabygginga um 5 millj. kr., og á það að gerast með þeim hætti, svo sem nánar er gerð grein fyrir í frv., að nota ekki að fullu heimildir til þess að lána fé, sem varið hefur verið til undirbúnings einstakra skólaframkvæmda. Sú heimild hefur verið notuð undanfarin ár að lána á milli skólabygginga, og hefur það verið heimilt samkv. ákvæðum fjárl., þ.e. skólakostnaðarlaga. Þetta hefur verið gert í allríkum mæli, þannig að t.d. á árinu 1967 voru lánaðar samtals 16,8 millj. kr. af geymdum fjárveitingum þess árs vegna skóla, sem ekki var byrjað á. Er því ekki hér um að ræða niðurskurð á neinum framlögum til þeirra skóla, sem eru í byggingu, heldur aðeins skerðingu á heimildinni til þess að lána af því fé, sem varið er til skóla, sem eru á byrjunarstigi. Enda þótt hér verði um að ræða lækkun á því fé, sem ella hefði verið notað til skólabygginga, er rétt að vekja athygli á því, að engu að síður er um að ræða allverulega hækkun á nýbyggingafé skóla, sem raunverulega verður notað á árinu 1968, miðað við árið 1967. Þá var fjárframlag til skólabygginga 92 millj. kr., ef frá var dreginn 10% niðurskurður, sem þá var á þessu framkvæmdafé. Nú mundi það fé, sem varið verður til skólabygginga í ár — enda þótt þessi heimild verði notuð — nema 108 millj. kr., svo að hækkun til skólabygginga verður 16 millj. kr. þrátt fyrir þessa ráðstöfun.

Gert er ráð fyrir því, að veruleg breyting verði gerð á námsstjórakerfinu. Það hefur oft komið fram sú hugmynd, að réttara væri að fella það skipulag algerlega niður. Það kemur í ljós, að það er ekki fært að gera það vegna þess, að það þarf að halda uppi eftirliti einmitt með framkvæmd skólakostnaðarlaga, og án þess eftirlits er mjög hætt við því, að komið gæti til þess, að ríkissjóður yrði að greiða verulegar upphæðir, sem annars væri hægt að komast hjá að greiða, þannig að það þykir ekki fært að leggja þetta skipulag alveg niður. En gert er ráð fyrir að endurskoða það og talið, að með slíkri endurskoðun, fækkun námsstjóra og breytingu á þessu kerfi muni vera hægt að spara um 2 millj. kr. á ársgrundvelli.

Í frv. er lagt til að gera mjög víðtækar skipulagsbreytingar á fræðslumálastjóraembættinu og yfirstjórn skólakerfisins. Það er gert ráð fyrir því, að fræðslumálastjóraembættið verði sameinað menntmrn. og þeir embættismenn, sem tengdir eru fræðslumálaskrifstofunni, svo sem íþróttafulltrúi, bókafulltrúi og fleiri slíkir embættismenn, verði framvegis starfsmenn menntmrn. Það er ekki á þessu stigi hægt að gera sér grein fyrir, hvaða sparnað þetta kann að hafa í för með sér, en það þykir ótvírætt, að hægt sé að koma við betri vinnubrögðum og hagnýta betur starfskrafta þessara manna, þannig að það geti leitt til beins sparnaðar, þegar þessu skipulagi hefur verið komið á eða þessari endurskipulagningu. En það er, eins og frv. gerir ráð fyrir, ekki lögð fram á þessu stigi nein ákveðin till. um það, hvaða sparnað þetta kunni að leiða af sér, og skipulagsbreyting þessi verður gerð, þegar menntmrh. telur auðið — vegna húsnæðisaðstæðna — að sameina þessar stofnanir, en það mál hefur verið í athugun að undanförnu, og þykir líklegt, að á næstunni sé hægt að leysa þann vanda.

Það er gert ráð fyrir því að lækka framlag til Kennaraskólans um 1 millj. kr., og stafar það af því, að samþ. var fyrir mörgum árum að kaupa bókasafn til þess skóla. Gerður var ákveðinn samningur um það og gert ráð fyrir, að það þyrfti að verja 1 millj. kr. til greiðslu á hluta af verði safnsins á þessu ári, en það þykir nú sýnt, að það sé auðið að fresta því til næsta árs og fella fjárveitinguna niður í ár.

Á þessu þingi var tekið upp í fyrsta sinn framlag til Byggingarsjóðs safnahúss, sem er mikið fyrirtæki og mjög nauðsynlegt að vísu, en um það gildir sama sjónarmið og ég áðan gat um, að fella verður niður á þessu stigi í þetta sinn fjárveitingar til byggingar, þar sem verið er að safna fé í sjóð til hennar og fjárveiting mundi ekki ráða neinum úrslitum um, að hafizt yrði handa á þessu ári. Því er lagt til, að sú fjárveiting verði nú felld niður.

Það er lagt til að lækka fjárveitingu til Þingvalla — endurbóta þar — um 500 þús. kr. Það gefur ekki tilefni til neinna sérstakra skýringa, en þykir auðið að koma við þeim sparnaði.

Í 11. lið fyrstu greinar frv. er gert ráð fyrir að lækka framlag til lögreglustjórnar á Keflavíkurflugvelli um 2 millj. kr. Það hefur stundum borið á góma hér í Alþ., hvort ekki væri rétt að koma við lækkun þess kostnaðar. Það mál hefur verið nokkuð í athugun að undanförnu og hefur leitt til þess, að fært þykir að gera ráð fyrir, að auðið sé að spara með endurskipulagningu á þeirri starfsemi 2 millj. kr. á ársgrundvelli og hafa raunar verið gerðar ráðstafanir nú þegar til þess að framkvæma þann sparnað.

Í sambandi við utanríkisþjónustuna er gert ráð fyrir, að útgjöld verði lækkuð um 3 millj. kr. á þessu ári. Margt hefur verið rætt um utanríkisþjónustuna á undanförnum árum, og skal ég ekki fara langt út í þau mál. Það hafa oft komið fram raddir hér á Alþ. um, að rétt væri að endurskipuleggja hana, og nýlega var hér til meðferðar till. um það efni. Jafnframt hafa komið fram raddir um það oftar en einu sinni, að auðið ætti að vera og raunar sjálfsagt — að leggja niður ákveðin sendiráð. Það var ætlunin af hálfu ríkisstj. að framkvæma sparnað í utanríkisþjónustunni einmitt með þeim hætti að leggja niður tvö sendiráð — í Noregi og Svíþjóð — þar eð það þótti sýnt, að ætti að leggja niður sendiráð, væru það í rauninni þau sendiráð, sem eðlilegast væri að leggja niður miðað við það greiða samband, sem við höfum við Norðurlöndin. Vegna hinnar nánu samvinnu, sem er á milli norrænna ráðh. í Norðurlandaráði og ótal mörgum norrænum samstarfsnefndum, ætti að vera auðið að hafa eitt sendiráð fyrir Norðurlönd og þá ræðismenn í þessum löndum.

Það þykir hins vegar aldrei viðhlítandi að ákveða að leggja niður sendiráð, nema hafa um það samstarf við þá þjóð, sem stjórnmálasamband hefur verið tekið upp við með þessum hætti, og ríkisstj. leitaði því eftir því við þessar tvær þjóðir, hvort þær hefðu nokkuð við það að athuga, að sendiráðin yrðu lögð niður. Forráðamenn þeirra sögðu að sjálfsögðu, að það væri íslenzku ríkisstj. að ákveða, hvort sendiráðin yrðu lögð niður eða ekki, en hins vegar kom fram hjá þeim mjög mikill leiði — ef við getum orðað það svo — yfir því, að út í slíkt yrði farið, og þeir lögðu ákveðið á það áherzlu, að reynt yrði að komast hjá því, að þetta yrði gert.

Þótti því ekki fært miðað við þessi viðbrögð að framkvæma þennan niðurskurð utanríkisþjónustunnar nú, en hins vegar þótti óumflýjanlegt miðað við allar aðstæður að gera ákveðnar ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við utanríkisþjónustuna og vitanlega nauðsynlegt að koma þar við breyttu skipulagi í mörgum greinum. Á þessu stigi er fyrst og fremst fyrirhugað að kalla heim 5 sendiráðsritara, sem leiðir að sjálfsögðu af sér, að það leggst meira starf á þá, sem eftir verða í þeim sendiráðum, fyrst og fremst sendiherrana. Það verður að ráðast með það og sjá til, hvort ekki tekst að leysa þann vanda engu að síður í þessum sendiráðum. Hver starfsmaður í utanríkisþjónustunni er dýr. Það eru ekki aðeins laun þeirra, heldur staðaruppbót, sem skiptir á hvern slíkan starfsmann hundruðum þús. á ári — að vísu mismunandi eftir því, hvaða lönd er verið að fjalla um Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða, jafnvel þó að ekki sé verið að fjalla um sendiherrana, heldur sendiráðunautana, sem standa þeim næst, en þessar upphæðir geta leikið frá á 4. hundrað til 7. hundrað eða um 700 þús. kr. á mann, þ.e. staðaruppbótin, þannig að með þessari ráðstöfun þyki mega gera ráð fyrir þessum sparnaði. Það er að vís svo, að eigi að segja upp mönnum, eins og ég áðan gat um, tekur það sinn tíma, svo að ekki er þess að vænta, að allur þessi sparnaður skili sér á þessu ári.

Þrettándi liður fyrstu greinar frv. e um það að lækka framlög á þessu ári til Landnáms ríkisins til nýbýla, svo sem öllum hv. þm. er mætavel kunnugt. Þær aðstæður hafa skapazt framleiðslu og sölu búvara, að ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að ekki sé í þágu landbúnaðarins að halda uppi óskertri starfsemi á sviði nýbýlabygginga eða stofnunar nýrra býla, og það sé því á engan hátt óeðlilegt, að gerðar séu ráðstafanir til þess að lækka nokkuð þessi útgjöld, þegar um sparnað er að ræða á útgjöldum ríkisins, úr því að það sýnir sig, að það er ekki til hagsbóta fyrir landbúnaðinn að halda þeirri starfsemi óskertri áfram. Það þykir því fært að leggja til, að framlög til þessara mála verði lækkuð á þessu ári og næsta ári um 7,5 millj. á ári.

Að undanförnu hefur verið í endurskoðun gildandi löggjöf um fiskmat ríkisins, ferskfiskeftirlit og síldarmat ríkisins. Þetta eru allt stofnanir, sem sinna mjög hliðstæðum störfum, og er í rauninni mjög æskilegt að taka upp miklu nánari samvinnu í þessari starfsemi eða samræmingu þessa mats. Það er jafnframt einnig spurning hvort það á að leggjast að miklum hluta á ríkið eins og hingað til hefur verið. En fyrst og fremst skipti það máli að endurskoða og endurskipuleggja framkvæmd matsins og samræma það, þannig að ekki sé um neinn tvíverknað að ræða í því efni og yfirstjórn þess sé sem samræmdust. Það má gera ráð fyrir, að á næstunni verði lagt fyrir Alþ. frv. um þessa endurskipulagningu fiskmatsins, en það þykir mega gera ráð fyrir því og að því er stefnt, að þetta geti leitt af sér 4 millj. kr. sparnað á ári.

Í lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins er gert ráð fyrir því, að ríkisframlag sé 50% á móti framlagi frá sjávarútveginum sjálfum. Við athugun á fjárhag sjóðsins og fjárhagsáætlun fyrir þetta ár virðast fjárreiður sjóðsins vera það góðar, að það megi a.m.k. um sinn skera niður framlagið til Aflatryggingasjóðs, þannig að lækkað verði hlutfallið, sem greitt er til sjóðsins úr ríkissjóði, og verði miðað við, að á árinu 1968 verði aðeins þriðjungur greiddur á móti framlagi sjávarútvegsins, og þetta mundi lækka — miðað við þær áætlanir, sem fjárl. eru byggð á — framlag ríkissjóðs um 11 millj. kr.

Þá er lagt til að fella niður framlag til Fiskveiðasjóðs Íslands. Ein af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. samþykkti að beita sér fyrir varðandi aðstoð við bátaútveginn, var að leggja fram fé til þess að greiða ársgjöld fyrst og fremst af lánum til Fiskveiðasjóðs. Þetta mundi mjög bæta fjárhagsafkomu sjóðsins á þessu ári og tryggja honum meiri tekjur heldur en hann ella hefði haft, ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar í þessu sambandi, því að vanskil á þessum greiðslum hefðu orðið mjög miklar á s.l. ári. Með hliðsjón af þessu þykir auðið að fella niður sérstakt framlag til Fiskveiðasjóðs á þessu ári.

Lagt er til að lækka framlög til Orkustofnunar og Orkusjóðs nokkuð. Þau framlög eru í fjárl. 53,6 millj. kr., og er gert ráð fyrir því að lækka þessar fjárveitingar um 4,5 millj. kr., sem mundu skiptast á milli jarðhitarannsókna og virkjunarrannsókna eða vatnamælinga. Hér er að vísu um mikilvæg viðfangsefni að ræða, en talið, að auðið eigi að vera án þess að skerða verulega þá þjónustu, sem þar um ræðir, að framkvæma slíka lækkun útgjalda til þessara aðila á þessu ári.

Nítjándi liðurinn er um að lækka framlag til löggæzlu um 6,8 millj. kr., og er þar miðað við, að löggæzlukostnaður lækki um sem svarar 5%. Þessi kostnaður er einn af þeim þáttum fjárl., sem hefur mjög aukizt og hækkað ár frá ári. Því er auðvitað ekki að leyna, að hér er um miklar nauðsynjar að ræða og miðað við það ástand, sem við stöndum nú frammi fyrir varðandi hægri umferð og ýmis önnur vandamál, þarf vitanlega að leggja kapp á að halda uppi viðunandi löggæzlu. Engu að síður þykir brýnt að rannsaka miðað við nauðsyn þess að draga úr ríkisútgjöldum, hvort ekki sé hægt að koma við betri hagnýtingu starfsliðs og fjármuna, sem varið er til löggæzlu í landinu, og þar sem hér er, eins og ég sagði, um að ræða aðeins sem svarar 5% af heildarútgjöldum, hefur dómsmrn. talið eðlilegt, að kannað yrði niður í kjölinn, hvort ekki væri hægt að koma við slíkum sparnaði. Hefur dómsmrh. þegar hafið athugun á því, hvort ekki megi koma við slíkum sparnaði, og er unnið að því á vegum dómsmrn. og fjmrn. í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga, hvernig þessu skipulagi megi breyta með þeim hætti, að það geti leitt til þessa sparnaðar.

En á þessu stigi skal það játað, að ekki hefur verið hægt að koma sér niður á ákveðin úrræði til þess að framkvæma þennan sparnað, heldur er nánast um stefnuyfirlýsingu að ræða, sem lagt verður allt kapp á, að geti orðið að veruleika.

Þá er lagt til að lækka framlag til fangahúsa, ríkisfangelsa og vinnuhæla um 1 millj. kr. 360 þús. kr. Hér er vitanlega einnig um mikið nauðsynjamál að ræða. Lögbundið framlag til ríkisfangelsa er núna 1 millj. kr. á ári, en hins vegar ekkert sérstakt lögbundið framlag til héraðsfangelsa. Nú mun vera geymt fé vegna ríkisfangelsis um 11,4 millj. kr. í árslok 1967. Það er ljóst mál, að verði ráðizt í byggingu ríkisfangelsis, er þar um mikið mannvirki að ræða, sem kosta mun mjög mikið fé. Þess vegna mun það ekki hafa nein úrslitaáhrif á það, hvenær þetta mikla hús verði byggt, þó að felld verði niður fjárveiting í ár svo sem hér er lagt til, því að það má gera ráð fyrir, að á sínum tíma þurfi að setja það undir framkvæmdaáætlun og fjármagna það að einhverju leyti með lánum, eins og gert hefur verið með aðrar stórbyggingar.

Lagt er til að taka út úr fjárl. 18,4 millj. kr. vegna framkvæmdar laga um hægri umferð. Það var gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði fram þetta fé í ár til framkvæmdar laga um hægri umferð, en hins vegar gert ráð fyrir, að það endurgreiddist á sínum tíma. Þar sem um er að ræða nauðsyn þess að lækka ríkisútgjöld, þykir það mjög eðlilegt að taka þennan lið út og leitast við að fá lán til þess að mæta þessum útgjöldum. Verði það lán síðan endurgreitt af því gjaldi, sem lagt er á bifreiðar í sambandi við öflun fjár til að mæta kostnaði við framkvæmd laga um hægri umferð. Takist ekki með því gjaldi, sem nú er fyrirhugað í lögum, að greiða þann kostnað, sem á fellur vegna framkvæmdar laga um hægri umferð, er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða á sínum tíma - ef óumflýjanlegt reynist — en framlengja eitthvað þá gjaldskyldu. Það er sem sé ætlunin, að með því að fella þetta út úr frv. falli þetta ekki á neinu stigi málsins á ríkissjóð.

Á undanförnum árum hefur verið varið töluverðu fé til Almannavarna. Hefur verið lögð áherzla á að safna ýmsum nauðsynlegum birgðum bæði af hjúkrunargögnum og ýmsum öðrum gögnum, fatnaði og öðru slíku, ef til einhverra hörmunga skyldi koma. Það er auðvitað mikil nauðsyn að eiga slíkar birgðir en miðað við að tekizt hefur að safna töluvert miklum birgðum af þessum nauðsynlegu vörum, þykir fært í ár að leggja til, að fjárveiting til Almannavarna verði að verulegu leyti niður felld eða lækkun til Almannavarna verði sem sé 3 millj. kr. Stendur þá aðeins eftir tæplega 1 millj. kr. til þeirra í fjárl. ársins.

Þá er lagt til að fella niður framlag ríkissjóðs vegna eyðingar meindýra. Það er að vísu ekki há upphæð, en sannast sagna eru þetta útgjöld, sem á engan hátt er eðlilegt, að ríkissjóður taki þátt í, heldur sé það mál sveitarfélaganna, og er gert ráð fyrir, að þau lög séu felld úr gildi, sem áskilja, að ríkið skuli borga þetta gjald.

Lagt er til að fella niður tvö prestsembætti, sem ekki er gert ráð fyrir í prestakallaskipuninni sem slíkri, þ.e. prestsembætti á Keflavíkurflugvelli og í Danmörku, en þessir prestar hafa verið starfandi nú að undanförnu og kostað töluvert fé, en gert er ráð fyrir því, að þessi embætti bæði verði lögð niður.

Þá er gert ráð fyrir því, að Póstur og sími verði að öllu leyti látinn taka að sér kostnað við framkvæmd laga um skyldusparnað og orlofslög. Póstur og sími hefur haft innheimtu þessara gjalda með höndum, og það eru jafnan mjög verulegar fjárhæðir, sem stofnunin hefur í sinni veltu og getur notað sem rekstrarfé vegna þjónustu sinnar í sambandi við þessa innheimtu, þannig að hér er um allveruleg hlunnindi að ræða fyrir stofnunina. Það þykir því mega — miðað við allar aðstæður — gera ráð fyrir því, að stofnunin geti tekið þetta á sig endurgjaldslaust.

Með viðbótaraðstoð þeirri, sem gert er ráð fyrir að veita sjávarútveginum nú, þykir mega gera ráð fyrir því, að skil á ríkisábyrgðarlánum geti orðið töluvert betri heldur en á s.l. ári. Um þetta verður að vísu ekkert sagt með vissu, en framlag til Ríkisábyrgðasjóðs var hækkað mjög verulega í fjárl. ársins 1968 frá því, sem var í fjárl. 1967. Því þykir mega gera ráð fyrir — eða a.m.k. vilja menn treysta því, að lækka megi áætlað framlag til Ríkisábyrgðasjóðs um 10 millj. kr.

Í fjárl. nú er varið 3,6 millj. kr. til endurnýjunar ríkisbifreiða. Það hefur á undanförnum árum verið lagt nokkurt kapp á það, að ríkisbifreiðar væru endurnýjaðar það oft, að ekki væru í gangi bifreiðar, sem væru óeðlilega dýrar í rekstri. Það hefnir sín að sjálfsögðu. Þetta hefur tekizt bærilega, þannig að flestar bifreiðar ríkisins eru ekki mjög gamlar, og þykir því mega gera ráð fyrir — og er raunar nauðsynlegt — að skerða framlag til endurnýjunar sjóðsins á þessu ári um 1 millj. kr.

Það er lagt til að lækka framlag til vitabygginga um 560 þús. kr. Í því felst, að fresta verður að koma upp radíósendistöð á einum stað. Talið er auðið að fresta þessari framkvæmd á þessu ári, þannig að hér er um raunhæfa lækkun að ræða.

Gert er ráð fyrir því, að framlag til Ferðaskrifstofu ríkisins verði fellt niður. Þarna er um tvíþætt framlag að ræða, annars vegar framlag til landkynningar, sem er 1/2 millj. kr., og hins vegar til að greiða halla á skrifstofunni, sem er tæpar 400 þús. kr. Í fyrsta lagi þykir eðlilegt og sjálfsagt, að Ferðaskrifstofa ríkisins eigi að geta haldið uppi sínum venjulega rekstri hallalaust, eins og aðrar ferðaskrifstofur í landinu, og miðað við þá sérstöku aðstöðu, sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur t.d. varðandi minjagripasölu, sem hún hefur í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og situr ein að, þykir mega ætlast til þess, að hagnaður af verzlun Ferðaskrifstofunnar gæti gengið til landkynningar. Sértök fríðindi hafa líka þegar verið veitt þessari verzlun, þannig að ekki ætti að þurfa að óttast, að framlagið til landkynningar félli niður. Vitanlega er það hárrétt, að slíkt framlag má ekki niður falla, því að það er mjög mikils um vert, að auðið sé að vinna með eðlilegum hætti að aukinni landkynningu, þar sem það er auðvitað hin mesta nauðsyn að jafna hinn mikla halla, sem nú er á viðskiptum okkar á þessu sviði og mun á s.l. ári hafa numið a.m.k. 200 millj. kr., sem er munurinn á þeim gjaldeyri, sem skilað hefur verið hér af erlendum ferðamönnum, og þeim gjaldeyri, sem íslenzkir borgarar hafa fengið til að ferðast erlendis.

Þetta eru í stuttu máli ástæðurnar fyrir þeim till., sem hér eru gerðar um lækkun útgjalda ríkissjóðs. Svo sem ég vék að í upphafi míns máls, er einnig í þessu frv. lagt til að brúa það bil, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, að væri milli tekna og útgjalda ríkissjóðs á árinu, ef ekkert sérstakt kæmi til. Það bil var um 60 millj. kr., sem hefði orðið að brúa annaðhvort með nýjum sköttum eða þá með öðrum ráðstöfunum, þ.e. lækkun útgjalda með einhverjum hætti. Hér er því lagt til, að greiddur verði innan framkvæmdaáætlunar með lántökum kostnaður við byggingarframkvæmdir við þrjá menntaskóla og ríkisspítalana. Í sambandi við fjárlagaundirbúning í haust voru tekin inn í fjárl. allmörg framlög, sem áður hafa verið veitt með lánum á undanförnum árum til ýmissa framkvæmda, bæði skólabygginga og annars. Þetta byggist á því, að menn þóttust sjá fram á, að mjög þröngt yrði á lánamarkaði á árinu 1968. Því yrði mjög hæpið, að hægt yrði að afla lánsfjár til þess að leysa þann vanda, og yrði því að taka framlögin inn í fjárl. sjálf. Hér er að vísu brotið gegn þeirri hugsun, sem lá á bak við það sjónarmið að taka upp beinar fjárveitingar til þessara framkvæmda í stað lána, en miðað við þær erfiðu aðstæður, sem nú eru einnig með öflun fjár til að jafna halla ríkissjóðs og þar eð ríkisstj. telur mjög mikils um vert, að hægt sé að forðast nýjar skattaálögur í þess skyni, hefur verið horfið að því ráði að reyna engu að síður með einhverjum úrræðum að afla lánsfjár til þess að standa undir þessum tilteknu framkvæmdum. Því er leitað hér heimilda, til þess að annars vegar megi fella fjárveitingarnar úr fjárl. og hins vegar til þess að afla megi lána til framkvæmdanna, en þetta mun að sjálfsögðu koma nánar til kasta þingsins, þegar gerð verður hér grein fyrir framkvæmdaáætlun ársins og aflað heimilda fyrir því, hvernig eigi að fjármagna þær framkvæmdir.

Ég held, herra forseti, að ég hafi þá lokið við að gera grein fyrir þessu máli í einstökum atriðum og þurfi ekki að orðlengja um það, nema frekara tilefni gefist til. Það er vitanlega hægt að segja og það með nokkrum rétti, að mjög slæmt sé og óeðlilegt að þurfa að grípa til aðgerða sem þessara , eftir að fjárl. hafa verið afgreidd; það skal ég fúslega fallast á. Hins vegar hafa, eftir að fjárl. voru afgreidd, skapazt alveg nýjar aðstæður, sem hafa leitt til þess, að ríkisstj. varð að bregðast við þeim vanda með einhverjum hætti og afla annaðhvort nýs fjár eða beinlínis leggja til lækkun á útgjöldum ríkissjóðs til að brúa bilið. Miðað við allar aðstæður, eins og þær eru, hefur þótt eðlilegt að leita allra tiltækilegra úrræða til þess einmitt að mæta vandanum með lækkun útgjalda, og vonast ég til, að hv. þm. geti miðað við þessar aðstæður — verið mér sammála um það, að sú leið hafi verið rétt, enda þótt menn kunni að vera óánægðir með að þurfa að grípa til slíkra breytinga, stuttu eftir að fjárl. eru afgreidd.

Ég vil svo aðeins að lokum bæta því við — þó að þessar sparnaðaraðgerðir séu fyrst og fremst miðaðar við eitt ár — að það liggur alveg ljóst fyrir, að ekki verður auðvelt að koma saman fjárl. fyrir árið 1969. Eigi ekki að koma til stórfelldra hækkunarálaga á því ári, er alveg ljóst, að það verður að halda áfram athugunum á því, á hvern hátt verði hægt að sporna gegn hækkun ríkisútgjalda og draga beinlínis úr útgjöldum ríkisins á ýmsum sviðum. Ég er hins vegar hræddur um, að þá verði ekki hjá því komizt að ganga lengra en hér er gert, t.d. skerða ýmiss konar löggjöf, sem veitir borgurunum þjónustu, og er það að sjálfsögðu allt umfangsmeira vandamál heldur en auðið var að fást við á þessu stigi. Að þessu mun hins vegar verða unnið, og hefur ríkisstj. í athugun ýmsar hliðar þess máls með það í huga að búa sig sem bezt undir það að mæta þeim vanda, sem við stöndum andspænis við afgreiðslu næstu fjárl.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.