15.03.1968
Neðri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við afgreiðslu fjárl. fyrir síðustu áramót ræddi ég nokkuð aðstöðu þá, sem fjvn. er búin við störf sín að fjárl., og vakti athygli á því, hversu mjög skorti á, að n. hafi fullnægjandi aðstöðu til starfa í sambandi við afgreiðslu fjárl. Ég rakti, hvernig nm. standa að jafnaði andspænis gerðum hlutum. Sá skammi tími, sem gefst, frá því fjárlagafrv. er lagt fram, þar til það er afgr., fer að miklu leyti í það að taka ákvarðanir um erindi, sem berast skriflega, og í viðtöl við ýmsa aðila um viðbótarframlög til einstakra liða. Aðstaðan til þess að kanna til hlítar hjá hverri einstakri stofnun og embætti ríkisins, að hve miklu leyti er tiltækt að draga úr rekstrarkostnaði, er miklu verri en skyldi, og n. tekur við fjárlagafrv. fullfrágengnu og prentuðu, og henni er ætlað að handlanga það í gegnum þrjár umr. í þinginu á nokkrum vikum. Síðan er hlutverki n. lokið, og hún bíður eftir prentun næsta fjárlagafrv. Störf n. liggja niðri, þar til aðrir hafa fullunnið og mótað næsta fjárlagafrv., og störfum varðandi þau fjárl., sem samþ. hafa verið, er svo fullkomlega lokið, að undanfarin ár hafa stórfelldar breytingar verið gerðar á nýsamþ. fjárl., án þess að fjvn. fjalli um þau að nokkru minnsta leyti. Er þá vandséð, að störf n. þjóni nokkrum tilgangi, meðan svo er háttað jafnt um undirbúning fjárlagafrv. sem um afdrif þeirra fjárl., sem n. er látin fjalla um á umræðustigi.

Á undanförnum árum hefur fjárl. verið gjörbreytt með sérstökum þáltill. varðandi einstaka fjárfestingarliði og næsta fjárlagafrv. verið byggt á hinum skertu framlögum, sem síðan hafa verið rýrð með enn frekari niðurskurði. Að þessu sinni liggur fyrir frv. um breytingu á nýsamþ. fjárl. — og að sjálfsögðu án þess að fjvn. hafi fylgzt nokkuð með undirbúningi þess eða muni fjalla um afgreiðslu frv. Fjárl. voru afgreidd mánuði eftir, að gengislækkun var framkvæmd hinn 24. nóv. s.l., en í grg. Seðlabankans fyrir þeirri ráðstöfun var því mjög skilmerkilega lýst yfir, að hið nýja gengi krónunnar væri miðað við það, að útgerðin yrði rekin hallalaust og án uppbóta og styrkja frá ríkissjóði.

Síðan hafa engin þau atvik gerzt varðandi afkomu þjóðarinnar, sem gæfu í sjálfu sér tilefni til aukinnar tekjuþarfar ríkissjóðs, ef útreikningar Seðlabankans í sambandi við gengislækkunina hefðu verið réttir og staðhæfingar efnahagssérfræðinganna ekki verið reistar á sandi, en allar ráðstafanir, sem grípa hefur þurft til í efnahagsmálum síðan, svo sem stórfelldir styrkir til fiskvinnslustöðva og útgerðar, staðfesta, að ekkert var að byggja á þeim útreikningum, sem lagðir voru til grundvallar við ákvörðun um nýtt gengi krónunnar og við afgreiðslu fjárl., sem samþ. voru mánuði eftir, að gengislækkunin var framkvæmd. Þess vegna var fyrirheitið um 250 millj. kr. tollalækkanir ekki efnt. Þess vegna eru enn fyrirhugaðar nýjar skattaálögur, og þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. með þessu frv. gripið til þess að lögfesta niðurskurð á ýmsum útgjaldaliðum fjárl., sem samþ. voru skömmu fyrir áramót.

Svo hart telur hæstv. ríkisstj. sig nú keyrða, að hún lítur svo á, að jafnvel verði ekki lengur hjá því komizt að sýna — þó að ekki sé nema lítils háttarviðleitni til lækkunar á rekstrarliðum, og gerir ráð fyrir með frv. þessu nokkrum lækkunum, sem stjórnarliðið hefur fellt á hverju þingi undanfarin ár og þá jafnan dæmt sem sýndarmennsku og ábyrgðarleysi, þegar fulltrúar Alþb. hafa lagt fram till. um niðurskurð á þessum sömu liðum. Má þar nefna lækkun á lögreglukostnaði á Keflavíkurflugvelli, framlagi til Almannavarna og kostnaði við sendiráðin.

En því miður er aðaleinkenni þessa frv. um lækkun ríkisútgjalda það, að lækkanirnar eru að langsamlega minnstu leyti á rekstrarliðum. Annars vegar er um að ræða frestun eða niðurfellingu verklegra framkvæmda, jafnframt því sem ákveðið er að standa undir tilteknum framkvæmdum með lánsfé í stað fjárframlaga úr ríkissjóði, og hins vegar er það ein meginráðstöfun, að verkefnum er velt yfir á aðra aðila í þjóðfélaginu, án þess að með því verði um nokkra minnkun á rekstrarkostnaði að ræða fyrir þjóðina í heild, heldur verður hún aðeins að bera kostnaðinn í annarri mynd. Það er galli á þessu frv., að sé vísað til ákveðinna liða, sem lækka á á fjárl., er aðeins um grunnliði að ræða, en ekki nánar tiltekið um undirliði, svo að í nokkrum tilfellum a.m.k. er ekki unnt að staðhæfa, hvort um verður að ræða lækkun á rekstrarkostnaði eða á fjárfestingu eða hvernig upphæðin kann að skiptast þar á milli, því að í þeim grunnliðum, sem tilgreindir eru, felast undirliðir, sem hafa að geyma ýmist rekstrarkostnað eða gjaldfallinn stofnkostnað.

Ef teknir eru sérstaklega þeir liðir, sem með nokkru öryggi má staðhæfa, að séu einberir rekstrarliðir, þá hygg ég, að lækkun á þeim samkv. frv. nemi um 26 millj. kr. af þeirri 138,2 millj. kr. lækkun á fjárveitingum, sem gert er ráð fyrir í frv. Þeir liðir, sem telja má algjöra rekstrarliði og nema um 26 millj. kr., eru í fyrsta lagi 1. liður 1. gr. frv. um stjórnarráð og risnu ráðh. að upphæð 2 millj. kr. Nafnið á þessum lið er dálítið kyndugt, því að í fjárl. fyrirfinnst hvergi nokkur liður eða undirliður, sem heitir risna ráðh., þó að vissulega muni gert ráð fyrir þeim kostnaði. Þetta er fyrsti liðurinn í frv. og það fyrsta, sem menn reka augun í, er þeir líta á plaggið, svo að nafnið virðist vera valið til þess að vera eins konar gæðastimpill og sérstakur vitnisburður um fórnarlund ráðh. á þrengingartímum í sögu þjóðarinnar. Ef athuguð eru þau númer á undirliðum, sem tilgreind eru með heitinu stjórnarráð og risna ráðh., kemur í ljós, að einungis er um að ræða aðalskrifstofu rn. hvers um sig, en ekki liðinn 1 00 300, sem í fjárl. heitir ríkisstj. og skiptist þar í undirliðina tvo, laun og önnur rekstrargjöld. Þetta bendir til þess, að risna ráðh. sé ekki færð á kostnað við ríkisstj., heldur á skrifstofukostnað hvers rn. um sig, og má það heita kyndug bókfærsla. En hvað um það. Í stjórnarráðskostnaði og risnu ráðh. á að spara 2 millj. kr. á pappírunum a.m.k., en ástæðulaust er fyrir þjóðina að hafa áhyggjur af ráðh. í þessu efni. Eftir sem áður mun áætlaður risnukostnaður nema rúmlega 2 millj. kr. á árinu 1968 eða um þriðjungi millj. á hvern ráðh., þótt þess sé gætt, að útilokað sé að finna þá tölu sérstaklega í fjárl.

Af öðrum liðum, sem teljast til rekstrarkostnaðar, má nefna 4. lið um Háskóla Íslands 575 þús. kr. og 7. lið um fræðslumálaskrifstofuna, námsstjórana og fræðslustjórann í Reykjavík, sem á að lækka um 2 millj. og 40 þús. kr. Síðan kemur 11. liður um lögreglustjórann á Keflavíkurvelli, og er lagt til, að hann lækki um 2 millj. kr. Það liggur alveg ljóst fyrir, að þjóðinni hefðu verið sparaðir tugir millj. kr. á undanförnum árum, ef hæstv. ríkisstj. hefði ekki þrjózkazt við að spara á þessum lið, allt þar til hún hefur komið hag ríkissjóðs í það óefni, sem raun ber vitni. Hvert mannsbarn sér það í hendi sinni, að ekkert hefur gerzt, sem veldur því, að nú sé auðveldara að spara á þessum lið en áður. Þessi ákvörðun nú er einungis staðfesting á því, að undir þessum lið hefur verið ausið út milljónatugum kr. á undanförnum árum algerlega að nauðsynjalausu og af fullkomnu ábyrgðarleysi.

Tólfti liður er utanríkisþjónustan, sem á að lækka um 3 millj. kr. með því að fækka starfsmönnum sendiráða, þó öðrum en sendiherrum. Að sjálfsögðu væri ekkert eðlilegra en að ganga hreint til verks og leggja óþörf sendiráð hreinlega niður. En í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði í gær um viðbrögð ráðamanna meðal þessara þjóða, þar sem þessi sendiráð eru, vildi ég aðeins segja það, að ættum við að bíða eftir því, að þeir lýstu yfir samþykki sínu við þær ráðstafanir, þá verður sjálfsagt dráttur á því, að það fáist frá þeim beint samþykki við slíka hluti. Það eru eðlileg viðbrögð, að þeir maldi í móinn og láti það koma fram, ef þeir eru spurðir, að þeir séu slíkum ráðstöfunum andvígir. En við getum ekki leyft okkur að ausa milljónatugum á ári hverju í óþörf sendiráð á sama tíma og mikið skortir á, að nægilegt fé sé veitt til byggingar sjúkrahúsa, skólamannvirkja og hvers kyns nauðsynlegra framkvæmda. Með því að leggja til að minnka kostnað við utanríkisþjónustuna um 3 millj. kr. er hæstv. fjmrh. þó byrjaður að fitla við hnífinn, og ég held, að hann ætti ekki að hika við að beita honum af fullri einurð, þar sem þess þarf með.

Næsti liður, sem telst til rekstrarútgjalda, er 14. liður um fiskmat ríkisins og ferskfiskeftirlitið að upphæð 3 millj. kr. Þá kemur 15. liður um síldarmat ríkisins, sem lækka á um 1 millj. kr., og 19. liður um löggæzlu á að lækka um 6,8 millj. kr. Þá kemur 22. liður um Almannavarnir, sem á að lækka um 3 millj. kr. Í aths. með frv. stendur þessi yfirlætislausa setning, með leyfi hæstv. forseta: „Með hliðsjón af því, að Almannavarnir hafa nú komið sér upp verulegum birgðum, þykir fært að lækka fjárveitingu til þeirra í ár um 3 millj. kr.“

Alþb. hefur um margra ára skeið lagt til, að lækkaður yrði kostnaður við Almannavarnir, en með litlum árangri. Vitaskuld eru birgðir Almannavarna hvorki meiri né minni nú en þær voru, þegar fjárl. voru afgreidd hinn 20. des. s.l. En hvað um það? Sjálfsagt er talið, að einhverjar skýringar þurfi að fylgja þessari síðbúnu sparnaðarviðleitni.

Tuttugasti og fjórði liður er um presta á Keflavíkurflugvelli og í Danmörku. Þar á að spara 670 þús. kr. með því að leggja niður þessi tvö prestsembætti. Ég er þeirrar skoðunar, að það mætti spara ríkissjóði kostnað við alla presta og það, sem þeim fylgir. Það yrði yfir 50 millj. kr. sparnaður. Það er ekki annað að sjá en hvítasunnumenn, vottar Jehóva, kaþólskir menn og hvað þeir heita nú allir þessir söfnuðir, sjái bærilega um sína starf semi, án þess að kostnaður við það sé greiddur af almannafé. Því skyldu þeir, sem eru lúterstrúar ekki geta setið við sama borð í þessu efni?

Þá kemur 28. liður um ríkisbifreiðar. Þótt hér sé um fjárfestingarlið að ræða, má þó í vissum skilningi telja þetta sparnað á rekstrarútgjöldum, enda er ekki um varanleg verðmæti að ræða. Síðan kemur 30. liður um framlag til Ferðaskrifstofu ríkisins. Samtals nemur sparnaðaráætlun á þessum rekstarliðum 25 millj. 981 þús. kr.

Um nokkra liði er, eins og ég áður sagði, ekki unnt á þessu stigi að slá föstu, að hve miklu leyti er um að ræða lækkun á fjárfestingu og að hve miklu leyti er um að ræða lækkun á rekstrarkostnaði. Þetta á við um 5. lið 1. gr. frv. um rekstur skóla. Í fjárl. er, að því er tekur til þeirra grunnliða, sem tilgreindir eru í frv., um að ræða auk rekstrarliða fjárfestingarliði, sem nema um 15 millj. kr., vegna ýmissa skóla, t.d. Íþróttakennaraskóla Íslands, Vélskólans, Hjúkrunarskólans og vegna fjögurra iðnskóla, þ.e. þeirra skóla, sem falla undir liðina 101 og 203–246. Fjárfestingarliðir vegna héraðsskóla, sem 5. liður 1. gr. frv. tekur til, nema rúmlega 15 millj. kr., og nema þá fjárfestingarliðir, sem geta fallið undir þennan lið, alls um 30 millj. kr.

Eiga hv. alþm. að líta svo á, að heiti 5. liðar 1. gr. frv., þ.e. rekstur skóla, feli það í sér, að ekki verði hróflað við þeim undirliðum, sem varða fjárfestingu alls að upphæð 30 millj. kr., eða er hluti af þessari 6,6 millj. kr. lækkun, sem lögð er til með þessum 5. lið, tekinn af þessum 30 millj. kr.? Þetta þarf að liggja ljóst fyrir, ef hv. alþm. eiga að vera í raun vissir um, hvað þeir eru að samþykkja.

Sama er að segja um 10. lið, þjóðgarðinn á Þingvöllum og Þingvallanefnd, sem á að lækka um 500 þús. kr. Í fjárl. skiptist þessi liður í gjaldfallinn stofnkostnað, 600 þús. kr., og rekstarkostnað, 783 þús. kr. Af frv. sést ekki, hvernig þessari lækkun er varið.

Liðir, sem telja má, að eingöngu varði rekstrarkostnað, nema því um 26 millj. kr., en liðir, sem gætu verið blandaðir rekstrar- og fjárfestingarliðir, nema um 7,1 millj. kr.

Um 112 millj. kr. lækkun á ríkisútgjöldunum samkv. þessu frv. felst: 1) í frestun verklegra framkvæmda og 2) í því að velta verkefnum yfir á aðra aðila, sveitarfélög, opinbera sjóði og stofnanir. Auk þess er lagt til, að staðið verði undir 62,6 millj. kr. framkvæmdum með lántökum í stað framlaga úr ríkissjóði. Hinn raunverulegi sparnaður í rekstrarútgjöldum, þótt hann kannske yrði meira en á pappírnum í ríkisbúskapnum, er því harla lítill hluti af því, sem þetta frv. fjallar um.

Stærsti liðurinn í frv. er lækkun um 30 millj. kr. á framlagi til Fiskveiðasjóðs Íslands, og er þá fullkomnuð sú viðleitni hæstv. ríkisstj. að ná inn í ríkissjóð sem mestum hluta þess gengismunar, sem varð vegna verðhækkana á sjávarafurðum, sem framleiddar voru frá gengisbreytingardegi til áramóta og með réttu mátti telja eign útgerðarfélaga og — sjómanna. Sá gengismunur var að einum fjórða látinn renna í Fiskveiðasjóð, en nú er það fjármagn, sem sjóðurinn þannig fékk, notað sem rök til þess að fella að fullu niður það 50 millj. kr. ríkisframlag til sjóðsins, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1968. Jafngildir þetta að sjálfsögðu upptöku á hluta gengismunarins beint í ríkissjóð.

Þótt sparnaður á rekstrarliðum sé, eins og ég hef rakið, harla lítill hluti þeirra heildartalna, sem felast í frv., ber þó vissulega að fagna því, að hæstv. ríkisstj. skuli nú loks vera orðið ljóst, að unnt er að koma við á ýmsum liðum þeim sparnaði, sem hún hefur um margra ára skeið hafnað tillögum um. Ljóst ætti því að vera nú, að milljónatugum króna hefur verið sóað á ýmsum rekstrarliðum á undanförnum árum og þeim milljónum króna verið eytt algerlega að óþörfu. Það er vissulega dýru verði keypt, að hæstv. ríkisstj. skuli fyrst þurfa að koma málum þjóðarinnar og afkomu ríkissjóðs í algert óefni og voða, til þess að hún fáist til að sýna vott af viðleitni í þá átt að draga úr þessari sóun. Og það er slæmt, að hæstv. ríkisstj. skuli engin rök skilja í þessum efnum önnur en þrengingar vegna eigin ófarnaðar og óheillavænlegrar stefnu hennar í þjóðmálum.

Að sjálfsögðu væri unnt að koma við miklu meiri sparnaði á rekstrarliðum en hér er lagt til. En hversu takmarkaðar till. hæstv. ríkisstj. eru um rekstrarsparnað þrátt fyrir slæma afkomu ríkissjóðs og sérstaka þörf á sparnaði, virðist benda til þess, að hún þurfi að sigla þjóðmálunum enn rækilegar í kaf, áður en hún fæst til þess að viðurkenna þá staðreynd í verki.