21.11.1967
Neðri deild: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. vitnaði í ræðu, sem ég flutti hér 9. þ. m. í sambandi við frv. um breytingu á framleiðsluráðsl. Hv. þm. vildi gefa það í skyn, að með þessu frv. hafi ég verið að boða það, að verðlagning á búvöru á þessu hausti ætti ekki að fara fram samkv. framleiðsluráðslögunum. Hv. þm. virtist ætla að gera mér upp orð eða hugmyndir til þess síðan að reyna að hafa ástæðu til þess að segja: Ríkisstj. er vond við bændur. Hún hefur hlutdeild í verðlagningunni.

Hún ætlar að brjóta lög á bændum. En hvað er svo þetta frv.? Það er hér til umr. í dag. Það er samþ. af öllum hv. nm. í landbn. að mæla með því. Það er flutt í fullkomnu samkomulagi við fulltrúa bænda í Sexmannanefnd og fulltrúa neytenda líka og ég sagði við þessa ágætu fulltrúa í Sexmannanefnd: Ég flyt frv. því aðeins, að það sé samkomulag um það. Svo er þessi hv. þm. að reyna að gefa það í skyn, að ég sé með flutningi þessa frv. að skapa leið til þess að brjóta rétt á bændum, til þess að fara í kringum framleiðsluráðslögin. Þetta er ósæmilegur málflutningur og það er framhleypni af þessum hv. þm. að koma hér upp í ræðustólinn nú og leitast við að hafa orð fyrir þeim, sem þekkja þessi mál miklu betur og hafa starfað við þau í Sexmannanefnd, í verðlagningunni, eins og hv. flokksbróðir hans hefur gert, sem á sæti í þessari hv. d. Og ég er alveg sannfærður um það, að hann er sá drengskaparmaður að viðurkenna það, að ég bar þetta frv. undir hann, áður en það var flutt, og það var borið undir þá, sem vinna með honum að verðlagningunni.

Það er alveg óþarfi að vera að gefa það í skyn, að ríkisstj. sé að skipta sér af verðlagningu búvörunnar. Málið hefur þróazt eins og ætla mátti að vissu leyti, en það er þó seinna á ferðinni heldur en ég hafði búizt við. Framleiðsluráðslögin segja, að verðlagningunni skuli lokið 1. sept. ár hvert, nema samkomulag sé um annað. Nú var það svo í haust, að það komu till. fram um verðlagninguna í septembermánuði af hálfu bændanna. Vitanlega var ekki hægt að verðleggja fyrr heldur en þær till. komu fram. Eftir að þær voru komnar fram, óskuðu fulltrúar neytenda eftir því að fá að athuga þær, og nokkru seinna komu þeir með till. Síðan munu hafa verið haldnir margir fundir í Sexmannanefnd til þess að reyna að ná samkomulagi. Það tókst ekki. Eftir að samkomulagsumleitanir n. höfðu farið út um þúfur þeirra á milli, var málinu samkv. l. vísað til sáttasemjara. Ekki veit ég, hversu lengi sáttasemjari var með málið, hversu langan tíma það tók hjá honum að ganga úr skugga um það, að það væri ekki hægt að sætta fulltrúa neytenda og bænda. Það tókst ekki. Þegar það var ljóst, var málinu vísað til yfirnefndar. En þá var eftir að velja yfirnefndina. Ef Sexmannanefnd kæmi sér nú saman um það að velja oddamann í n., var það álitið gott og æskilegt, og það merkilega var, að þetta tókst. Fulltrúar neytenda og framleiðenda komu sér saman um oddamanninn. Þeir leituðu með logandi ljósi og fundu einn valinkunnan heiðursmann, vitran og sanngjarnan, til að taka þetta að sér. Hæstiréttur þurfti þess vegna ekki að koma hér við sögu og skipa oddamann, eins og l. gera ráð fyrir, ef fulltrúar bænda og neytenda geta ekki komið sér saman. Og fulltrúar neytenda og fulltrúar bænda tilnefndu mann í dóminn og ég hefði haldið það, að þessi dómur væri vel skipaður. Ég þekki suma af þessum mönnum mjög lítið, en ég held, að þetta séu valinkunnir menn, sem ekki létu segja sér fyrir verkum, ef ríkisstj. eða einhver annar ætlaði sér að gera það. Og ég vil mótmæla þessum dylgjum, sem hv. 5, þm. Norðurl. e. viðhafði hér áðan í garð yfirdómsins, sem á það vissulega ekki skilið. Ríkisstj. er ýmsu vön, t.d. að fá ádeilur að ósekju og það er ekki ástæða til að taka það mjög illa upp, og sízt þegar nýgræðingur, sem málið virðist þekkja lítið, viðhefur slíkt og heldur e.t.v., að það sé því máli, sem hann ber fyrir brjósti, til framdráttar að kynna sig þannig hér á hv. Alþ., að ekki verði mark á honum tekið.