15.03.1968
Neðri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er eins með mig og hæstv. fjmrh., að ég verð að lýsa því yfir, að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með hann sem hæstv. ráðh. Ég hafði treyst því, að hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, mundi gera sér grein fyrir því, hvaða erindi hann ætti í fjmrn., og hann mundi gera sér grein fyrir því, þegar hann legði fram fjárlagafrv., eins og hann gerði fyrir árið 1967, að ekki yrði komizt hjá því að reyna að hafa alvarleg áhrif á efnahagsstefnu þjóðarinnar, þegar fjárl. hækkuðu um 1 milljarð. Ég treysti því, að hæstv. ráðh. mundi vinna gegn því, að hvert embættið á fætur öðru fengi aukið fjárrými um 30–50% eins og raun varð á, og ég hef sannað það með rökum æ ofan í æ — og staðreyndirnar um fjárlagaþróunina og fjárhagsafkomu ríkissjóðs síðar hafa sannað það — að þessi stefna hans var röng. Ég get lýst því enn yfir, að ég varð fyrir vonbrigðum með hæstv. fjmrh. í þessu efni.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði notað öll tiltæk atriði í sambandi við fjárl. og fjármálastjórn, vil ég segja, að það var fjarri því. Ég á mikið í því pokahorni, sem ég mun ekki nota í umræðunum í dag. En það var eitt, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. og sker alveg úr um viðhorf okkar til þessara mála. Hæstv. fjmrh. sagði, að þróunin í landinu í efnahagsmálunum hefði áhrif á gerð fjárl., en fjárl. hefðu ekki áhrif á þróunina. Í þessu efni eru sjónarmið okkar mismunandi. Mín skoðun er sú, að fjárl. og fjármálastjórn í tíð núv. valdhafa hafi haft veruleg áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar. En hæstv. fjmrh. heldur því hins vegar fram, að efnahagsmálin hafi haft áhrif á fjárl. Það, sem ég hef haldið fram og skal ekki fara að rekja hér nú í löngu máli, er, að þessi stefna hæstv. ríkisstj. að taka alltaf mikið af sköttum, láta skatt fylgja hverju máli og miða alltaf fjárlagaafgreiðsluna við stórfelldan tekjuafgang hefur átt verulegan þátt í, að verðbólga hefur vaðið hér uppi síðustu árin. Það kom fram í ræðu hjá hæstv. forsrh. á flokksráðstefnu þeirra í okt. í fyrrahaust, þar sem hann sagði: „Við höfum reynt öll tiltækileg ráð til þess að forðast verðþenslu.“ Nefndi hann í þessu sambandi háa skatta, mikinn greiðsluafgang, háa vexti og takmörkuð sparifjárútlán, og bætti við: Við höfum reynt allt nema atvinnuleysi, og við erum á móti því. En þessi efnahagsstefna er ekki framkvæmanleg, nema henni fylgi takmörkuð atvinna. Það, sem gerzt hefur hjá núv. hæstv. ríkisstj., er, að síldveiðin og atvinnan í landinu hefur risið gegn þessari stefnu, og þegar þessu lenti saman, varð af sú óðaverðbólga, sem verið hefur. Þetta er staðreynd, og ég veit, að þessir hæstv. ráðh. átta sig á þessu, þó að þeir viðurkenni það ekki hér á hv. Alþ.

Ég vil segja í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um drauma mína um embætti fjmrh., að það kemur ekkert við mig, og falli það í hlut Framsfl. að velja fjmrh., gerir hann það alveg án tillits til þess, hverjir eru spádómar hæstv. núv. fjmrh. En ég vil segja hæstv. ráðh. það, að ég hef í ræðu minni hér á hv. Alþ. í sambandi við fjárlagaafgreiðslu ár eftir ár bent á vissa liði, sem við teldum, að mætti spara, og við framsóknarmenn höfum bent á þetta í nál. Við höfum gagnrýnt, hvernig að þessum málum væri staðið og þá eyðslu, sem þeim væri samfara, og það hefur verið okkar ábending, að úr útgjöldum mætti draga.

Hitt veit hæstv. ráðh., að tillögugerð okkar í sambandi við fjárl. síðari árin hefur verið mjög takmörkuð. Það hefur verið af vissum ástæðum. Við höfum aldrei lagt svo fram hér brtt. í sambandi við fjárl., að hæstv. stjórnarmeirihluti hafi ekki lýst þeim sem óábyrgum og óraunhæfum. Það hefur verið nákvæmlega sama, hvort það hefur verið till. um útgjöld eða sparnað; það hefur hvort tveggja verið óraunhæft ábyrgðarleysi og ekkert annað. Og við lítum svo á, að valdhafarnir — þeir, sem hafa aðstöðu til að fylgja málunum eftir og geta ráðið því, hvernig á að leysa mál — verði auðvitað að finna þær leiðir, sem völ er á til að draga úr ríkisútgjöldunum. Við getum aðeins gefið ábendingar.

Við fluttum t.d. fyrir nokkrum árum till. um það að fella niður sendiráð. Því var svarað þannig, að það þyrfti að segja þessum mönnum upp, sumum væri ekki hægt að segja upp og sparnaðurinn kæmi ekki í hendi. Við vitnuðum í fyrri fyrirheit stjórnarliða um það, að þeir ætluðu að beita sér fyrir þessu. Þeir hafa haft 10 ár til þess að skoða þetta, og það er nú fyrst fyrir nokkrum dögum, að samþ. er hér á hv. Alþ. till. frá tveimur þm. Framsfl., formanni hans og ritstjóra, um endurskoðun á utanríkisþjónustunni. Það er mjög ánægjulegt, að Alþ. skuli nú átta sig á því, að þetta er nauðsyn og stefnan í utanríkisþjónustunni er algerlega röng. Ég sagði það hér við fjárlagaafgreiðsluna í haust, að hún væri algerlega röng. Það er vonlaust fyrir kotríki eins og okkur að halda uppi sendiherrum hér og þar, sendinefndum og ráðstefnum, eins og við gerum nú. Við verðum að velja aðra hvora stefnuna, og stefnan verður sú, að við fækkum föstu sendiherrunum og tökum ráðstefnurnar. Það verður okkur farsælla.

Við höfum líka bent hér á oft og mörgum sinnum, hvernig útþenslan er í löggæzlunni, t.d. má nefna útþensluna í haust á Keflavíkurflugvelli og annað slíkt. Það hefur verið talið, að þetta væri óraunhæft og við vildum koma á lögleysu í landinu, en það er staðreynd, að þessi mál eru komin út í hreinar öfgar, og þess vegna á að vera hægt, þótt sérstakt verkefni — að dómi hæstv. ráðh. — sé framundan, þ.e. breytingin í umferðarmálunum, að draga úr kostnaði við löggæzlu.

Við gagnrýndum líka tilkomu prestsembættis í Kaupmannahöfn. Það þótti ekki góð latína á þeim dögum, og það var alls ekki talið, að það hefði nein áhrif á ríkisútgjöld. Þetta væru smámunir einir algerir smámunir. Í raun og veru var þetta ekkert annað en stefnuatriði, þ.e. að ekki skyldi farið að málum eins og gert var með þeirri framkvæmd. Nú er þetta hins vegar talið nokkurs virði.

Ég vil líka minna á það, að við höfum bent á t.d. bifreiðarekstur ríkisins í okkar umr. um fjárl. undanfarin ár. En þá hefur það ekki verið talið framkvæmanlegt að spara á þeim lið eða litið svo á, að ógætni væri í þeirri framkvæmd eða of miklu eytt. Nú er hins vegar svo komið að hæstv. ríkisstj. áttar sig á því, að hér er hægt að spara.

Hæstv. fjmrh. taldi, að væru vinnubrögð Framsfl. viðhöfð í vegamálum nú og væri miðað við þau eins og þau voru áður, yrði að bíða lengi eftir varanlegum vegum. En ég vil minna þennan hæstv. ráðh. á að á valdaárum Framsfl. var vegakerfið lagt um landið og á þeim árum hafði ríkissjóður ekki þær tekjur af umferðinni, að þær nægðu til þeirra fjármuna, sem úr ríkissjóði voru lagðir til vegamála. Nú hefur ríkissjóður hundruð millj. umfram þær tekjur, og væri nú eins vel staðið að vegamálunum, miðað við umferðina, möguleikana og þörfina og gert var á valdaárum Framsfl., væri fært upp Artúnsbrekkuna.

Hæstv. fjmrh. sagði, að 1940 hefði verið gefið fordæmi fyrir lagasmíð eins og þessari. Ég vil minna á það, að 1940 var styrjaldarár. Það var fyrsta, heila árið í síðari heimsstyrjöldinni. Á stríðsárum er ýmislegt aðhafzt af hálfu stjórnvalda og í lagasmíði, sem ekki er gert á friðartímum. Það er ekki hægt að bera ástandið í þjóðmálum saman við það, sem var á stríðsárunum um 1940, og hvað sem hæstv. fjmrh. kann um það að segja, er það með öllu óeðlilegt, að gömul stofnun eins og fræðslumálaskrifstofan skuli vera lögð niður í lagasmíð, sem í daglegu tali er nefnd bandormur. Það á að vera í þeim lögum, sem fjalla um fræðslumálin í landinu og annars staðar ekki.

Hæstv. fjmrh. taldi, að ég hefði gert lítið úr þessu frv., en ég hefði þurft meira en klukkustundar ræðu til að skýra afstöðu mína til málsins. Í upphafi máls míns gerði ég grein fyrir málinu, eins og það raunverulega er. Í fyrsta lagi ætti að leysa vandann að nokkru leyti með lántökum til framkvæmda, þ.e. 81 millj. kr. Þetta er staðreynd. Í öðru lagi ætti að fresta framkvæmdum fyrir 78 millj. kr. Þriðja þáttinn gætum við deilt um, ég og hæstv. ráðh. Ég kallaði þann þátt óraunhæfan. Þar var um 25 millj. kr. að ræða. En ég gerði grein fyrir því, og það má um það deila. Og fjórði þátturinn var það, sem ég kallaði sparnað; þar var um 16 millj. kr. að ræða. Það var 0,3% af heildarrekstursútgjöldum fjárl. Þessu gerði ég grein fyrir í upphafi málsins og ræddi svo um, hvers vegna við stæðum nú frammi fyrir þeim vanda að vera að gera slíkar ráðstafanir, eftir að ríkisstj. hefði næstu 6 ár á undan fengið tvo milljarða til ráðstöfunar umfram fjárl. Og ég endurtek það, sem ég þá sagði. Það er vegna rangrar stjórnarstefnu, sem þannig er komið málefnum þjóðarinnar.