22.03.1968
Neðri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. 1. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., ber yfirskriftina: „Frv. til l. um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda.“ Það er í því sambandi ekki ófróðlegt að minnast þess, að útgjöld fjárl. 1959 voru um 1 milljarður kr., en nú eru útgjöld fjárl. komin á 7. milljarð. Það stendur einhvers staðar í þeirri ágætu bók „Viðreisn“, sem allir hv. alþm. og raunar allir landsmenn kannast við, að sýna skuli aðgát í útgjöldum. Og það er sjálfsagt hægt að vera sammála um, að ekki sé seinna vænna að fara að sýna aðgát í útgjöldum, eins og það var orðað á þeim tíma. Og þess vegna hljóta hv. alþm. — eins og aðrir landsmenn raunar — að fagna hverri viðleitni í þá átt að sýna aðgát í útgjöldum og það eins, þó að hún sé veik. En hitt er svo annað mál, að hafi ríkisstj. setið jafnlengi og þessi, án þess að sýna í verki meiri aðgát í útgjöldum, heldur en svo, að fjárl. hafa þanizt út svo sem ég vék að áðan, þá er auðvitað eðlilegt, að menn taki frv. hæstv. ríkisstj. með nokkurri varkárni og vilji skoða þau nokkuð ofan í kjölinn eftir því, sem unnt er á þeim tiltölulega nauma tíma, sem ætlaður er til afgreiðslu þessa máls — eins og raunar venja er hjá hæstv. ríkisstj. um mörg hinna þýðingarmestu og yfirgripsmestu mála, sem hún leggur fram.

Í grg. með þessu frv. segir, að þær upphæðir, sem fjallað er um í 1. gr. þess og nema 138 millj. kr., séu hrein lækkun fjárlagaútgjalda. Í 2. gr. er hins vegar fjallað um það, sem nú heitir að fjármagna framkvæmdir með lánsfé. Þetta er ákaflega snyrtilegt orðalag og er notað hér bæði í frv. og grg. þess og í ræðum einnig. En það heitir líka samkv. yfirskrift frv. að gera ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda sem sé að fjármagna framkvæmdirnar með lánsfé. Raunar er einnig í 1. gr. frv. að finna atriði, þar sem gert er ráð fyrir að fjármagna framkvæmdir með lánsfé, og rekur maður þá strax augun í, hversu losaralega virðist vera að undirbúningi þessa máls unnið á ýmsan hátt. Það má vera, að fleira sé af þessu tagi, en ég nefni tvo tölul. úr 1. gr. frv., þar sem þetta er svona. Annars vegar nefni ég 18. liðinn um Orkustofnun. Það kemur að vísu ekki fram í grg. frv., að þar eigi að fjármagna með lánsfé, en það var upplýst í fjhn., að það væri ætlunin að nokkru leyti. Einnig nefni ég 21. lið, þar sem er kostnaður af hægri umferð, en þar er tekin út sú fjárhæð, sem ríkissjóði var ætlað að greiða vegna þessara aðgerða, og það er skýrt þannig og kemur fram síðar í frv., að afla eigi láns til að standa undir þeim kostnaði.

Um þessa liði og sérstaklega 18. liðinn um Orkustofnun mætti auðvitað margt segja. Maður getur ekki annað en tekið því með töluverðri tortryggni og ugg, að draga eigi úr fjárveitingu til þeirra aðgerða, sem þessi stofnun hefur með höndum. Þar er annars vegar um að ræða rannsóknir vegna virkjana — og þá fyrst og fremst virkjana fallvatna. Okkur var sagt það í n., að þær rannsóknir væru í raun og veru orðnar það fullkomnar, að þær væru nánast komnar á undan framkvæmdum og mætti vel hægja á þeim. Vel má vera, að þetta sé að einhverju leyti satt, en ég a.m.k. trúi því varlega, og oft hefur það reynzt okkur Austfirðingum svo fyrr og síðar, að rannsóknir og athuganir einmitt á þessu sviði hafa ekki verið á undan tímanum, heldur þvert á móti. Þá er annar þáttur þessara mála, sem lýtur að jarðborunum og rannsókn á jarðhita. Það er einnig mjög varhugavert að mínum dómi að draga úr þeim aðgerðum. Auðvitað er öllum hv. alþm. ljóst — og það dylst engum manni — að í hvert sinn sem slíkar rannsóknir leiða til þess, að hægt er að virkja og taka jarðhitann til nota á einn eða annari hátt, þá er um að ræða stórkostlega þýðingarmikla framkvæmd, sem sparar þjóðinni gjaldeyri í ríkum mæli og er til stórkostlegs hagræðis fyrir þá, er þeirra framkvæmda njóta.

Annars er mjög verulegur hluti þeirra lækkana, sem um ræðir í 1. gr. frv., í því fólginn, að það á að skerða þann stuðning, sem undirstöðuatvinnuvegirnir og fyrst og fremst sjávarútvegurinn hefur notið af almannafé. Þar er einnig um að ræða slíkar aðgerðir varðandi landbúnaðinn, þ.e. í 13. lið, sem fjallar um mjög mikla lækkun á því fé, sem varið hefur verið til starfsemi Landnámsins. Það skal að vísu ekki vefengt í meginatriðum, sem segir í grg. frv., að nú sé þannig ástatt í landbúnaði, að yfirleitt sé ekki ástæða til að ýta undir byggingu nýbýla. En á hitt verður að benda, að ástandið í landbúnaðinum er nú yfirleitt mjög alvarlegt. Bændur og verzlunarfélög þeirra standa frammi fyrir því að finna ráð til þess, að bændur geti keypt áburð í vor með eðlilegum hætti, og — auk þess þurfa þeir að geta leyst út óvenjulega mikið magn af fóðurbæti vegna hins erfiða árferðis. Bændurnir sjálfir standa einnig frammi fyrir því, þegar örlítið lengra er horft fram, að sjá fram á enn aukin og stóraukin vandræði og erfiðleika á því að láta enda ná saman, þegar þetta ár verður gert upp. Það er þess vegna, þegar á heildina er litið, síður en svo ástæða til þess að draga úr stuðningi þess opinbera við íslenzkan landbúnað nú. Hitt er annað mál, að það er að okkar dómi, sem skipum 1. minni hl. fjhn., ástæða til þess að breyta nokkuð verkefnum Landnámsins, og að því lýtur brtt. okkar um þetta efni. Og ég vil geta þess hér, að sú brtt. er í samræmi við ályktanir, sem gerðar hafa verið á fundum bændasamtakanna nú fyrir skömmu.

Varðandi þá liði, sem snerta stuðning við sjávarútveginn, er vissulega margs að gæta. Fjórtándi og 15. liður eru um það að lækka framlög til fiskmats og síldarmats um 4 millj. kr. Eftir þeim upplýsingum, sem við fengum í fjhn. um þessi atriði, er hér um að ræða nálægt 50% lækkun á þessum liðum. Það hefur hingað til verið hald manna, að gæðamat á framleiðsluvörum landsmanna — á útflutningsframleiðslunni ekki sízt — skipti mjög miklu máli, þ.e. hvernig það væri framkvæmt og hvernig að því væri staðið. Nú er auðvitað ekki nema gott eitt um það að segja, að í þessum liðum sé gætt allrar hagsýni. En það virðist með miklum ólíkindum, að nú — eftir að nokkuð er komið fram á nýtt ár — sé allt í einu hægt, án þess að það jafngildi skertri starfsemi á þessu sviði, að minnka um helming kostnað við þessa starfsemi. Það er vikið að þessum liðum í grg. og sagt, að í undirbúningi sé löggjöf um breytta tilhögun á þessum málum. En ekkert er sagt um það í grg., hvenær vænta megi frv. um þá lagabreytingu. Og það er heldur engum getum að því leitt þar, hvenær slíkt frv. gæti orðið að l., og enn síður er það rökstutt, hvenær þau lög gætu farið að verka á þann hátt að draga um helming úr kostnaði við mat á útflutningsvörunum.

Í 16. tölul. er svo rætt um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Þar er lagt til að lækka framlög til hans um 11 millj. kr., og það er sagt, að Aflatryggingasjóður standi það vel, að þetta sé óhætt. Sjóðurinn muni geta haldið uppi eðlilegri starfsemi á þessu ári þrátt fyrir þessa skerðingu. Við, sem skipum 1. minni hl. fjhn., teljum ekki, að það hafi verið færð nægileg rök fyrir þessu til þess, að við getum á þetta fallizt.

Í 17. tölul. er ákvæði um að lækka framlag til Fiskveiðasjóðs Íslands um 30 millj. kr. Þetta er rökstutt á þann hátt, að gerðar hafi verið ráðstafanir til eflingar sjávarútveginum og m.a. alveg sérstaklega til þess að gera útgerðinni fært að greiða af lánum sínum til Fiskveiðasjóðs. Nú er alveg nýlega — aðeins fyrir fáum vikum — búið að gera þessar ráðstafanir, sem þarna er vikið að. Þetta hefur því á sér afar einkennilegan blæ, að mér finnst. Okkur var að sjálfsögðu sagt, að sú aðstoð, sem var látin í té við útveginn, væri miðuð við þarfir hans og mætti með engu móti minni vera. Nú virðist það komið í ljós eftir þessar vikur, að þarna geti útvegurinn gefið til baka 30 millj. kr. Þetta eru dálítið einkennilegar stjórnunaraðgerðir. Þetta er svo sem ekkert meira en hv. alþm. eiga að venjast. Gengið var fellt í nóv. Okkur var sagt það, og það kom alls staðar fram í blöðum og útvarpi, að gengislækkunin hefði verið rækilega undirbúin af Efnahagsstofnuninni og nákvæmlega að því gáð, hvað hún þyrfti að vera mikil til þess fyrst og fremst, að útflutningsframleiðslan gæti haldizt í horfi. Þessar fullyrðingar stóðu fram yfir áramót, og menn fóru heim í jólafrí af Alþ. með þetta veganesti. Svo vita hv. alþm. og öll þjóðin, hvað síðar gerist. Það má því kannske segja, að við þurfum ekkert að undrast það, þó að seinna dæmið hafi ekki verið alveg rétt reiknað og nú sé hægt að taka aftur 30 millj. kr. frá sjávarútveginum.

En þessir liðir, sem varða sjálfa undirstöðuatvinnuvegina, eru í senn svo tortryggilegir og þar er fjallað um svo þýðingarmikla hluti, að 1. minni hl. fjhn. leggur fram brtt., sem m.a. fjalla um þá og raunar þá liði eina í l. gr. frv., þó að vissulega sé margt við marga aðra liði að athuga. Í 1. gr. er mjög verulegur hluti af þeirri lækkun, sem um ræðir, fenginn á þennan hátt, þ.e. með því að skerða stuðning við undirstöðuatvinnuvegina, en auk þess er þar um ýmsa aðra liði að ræða, þar sem er alveg augljóst, að mjög skortir á nægilegan undirbúning, til þess að vænta megi þess sparnaðar, sem þar er fyrirhugaður.

Og ég vil nú bara spyrja: Hvernig á annað að vera? Fjárl. voru afgreidd örfáum dögum fyrir jól — það er ekki lengra síðan — og þá var auðvitað fullyrt og staðhæft oft og mörgum sinnum af hálfu stjórnarliðsins og af hálfu hæstv. fjmrh., að gætt hefði verið fyllstu ráðdeildar og sparnaðar í sambandi við gerð fjárl. bæði við undirbúning þeirra í rn. og á öðrum þeim stöðum, þar sem að honum er unnið, og við meðferð Alþ. og þá afgreiðslu á frv. þar, sem meiri hl. fjvn. mótaði. Auðvitað var þetta rangt. Þessa hafði ekki verið gætt.

En hitt er svo annað mál, að þess er engan veginn að vænta, að nokkrum vikum síðar sé búið að vinna nokkuð raunhæft í því að draga úr raunverulegum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs. Ýmsir tölul. í 1. gr. bera þess alveg ljóslega merki, ef að er gáð. Ég nefni í því sambandi ákvæðin um lækkun á rekstrarkostnaði skóla barna- og unglingastigsins. Það er ekki hægt að sjá það af grg. og öðrum upplýsingum, að þar sé búið að búa svo um hnúta, að þessi sparnaður verði raunverulegur og að sú upphæð sparist, sem þar er talað um, án þess að skerða í nokkru þjónustu skólanna, en það er staðhæft í grg., að það sé alls ekki ætlunin að draga úr henni.

Annað dæmi vil ég nefna, þar sem raunverulegur sparnaður hefur ekki verið undirbúinn, heldur þvert á móti liggur ljóst fyrir, að hann hafi ekki verið undirbúinn. Það er varðandi almennan löggæzlukostnað. Um þann lið segir beinlínis og skýrum orðum í grg. frv., að ekki sé búið að semja ákveðnar till. um þann samdrátt.

Einnig er gert ráð fyrir, að Ríkisábyrgðasjóður muni komast af með 10 millj. kr. minna en ráðgert er í fjárl. Það er rökstutt með því, að búið sé að gera svo mikið fyrir sjávarútveginn og hann njóti svo mikils hagnaðar af gengislækkuninni og af öðrum þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið hans vegna, að það muni breyta útkomunni frá því, sem áætlað var í fjárl., og bæta hag Ríkisábyrgðasjóðs um 10 millj. kr. Vera má, að þetta standist. Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða um það á þessari stundu. En mörgum verður sjálfsagt að spyrja, hvort nýjustu viðreisnaraðgerðir í þágu útgerðarinnar reynist slíkar, að hægt sé með rökum að reikna með því, að þarna verði afgangs 10 millj. kr. miðað við það, sem áætlað var fyrir jól. Og það má þá einnig spyrja: Var í þeim útreikningum, sem þá fóru fram, tekið tillit til þessara 10 millj. kr.? Ég hef auðvitað ekki séð þá útreikninga. En það dreg ég mjög í efa. Heldur ætla ég, að þessar 10 millj. kr. hafi verið fundnar eftir á — bara svona hinsegin án þess að menn hefðu fyllilega rökstudda ástæðu til þess að gera ráð fyrir, að sú áætlun stæðist, og það er auðvitað margt fleira í 1. gr. þannig, að það orkar mjög tvímælis, að þær tölur, sem þar eru, komi að gagni á þessu fjárlagaári.

Hvernig eru t.d. rotturnar komnar inn í þetta frv.? Það er gert ráð fyrir tæplega 1 millj. kr. sparnaði á eyðingu meindýra — sérstaklega rottum — en í grg. er það beinlínis tekið fram, að sá sparnaður muni ekki koma að gagni fyrr en á árinu 1969. Af hverju eru þá rotturnar þarna? Þetta er gott dæmi um þau vinnubrögð, sem viðhöfð eru við undirbúning þessa máls og samningu frv. og grg. þess.

Því miður eru ýmsir liðir í 1. gr., sem fyrst og fremst eru settir til að sýnast, en einkum þó liðirnir varðandi Póst og síma, þ.e. 25. og 26. liður gr. En á þeim liðum er samtals gert ráð fyrir að spara 8 millj. 150 þús. kr., þ.e. hætta að greiða kostnað við skyldusparnað og kostnað við framkvæmd orlofslaga. Maður hefði haldið, að Póstur og sími væri ríkisstofnun og að af því leiddi, að séu teknar af Pósti og síma 8 millj. kr. tekjur, verði útkoman hjá Pósti og síma bara 8 millj. kr. verri. Þess vegna sé með engu móti hægt að rökstyðja, að þarna sparist 8 millj. kr. fyrir ríkið vegna þess að Póstur og sími og ríkissjóður eru fjárhagslega eitt í raun og veru.

Það er auðvitað ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að frestanir á nýteknum ákvörðunum Alþ. — sumar koma fram í fjárl. og aðrar hafa verið ákveðnar með sérstökum l. — eru auðvitað mjög óviðfelldnar, svo að ekki sé meira sagt, t.d. frestun á stofnun prófessorsembætta við Háskóla Íslands og frestun á því að leggja fé í Byggingarsjóð safnahúss, enda hefur niðurstaða hæstv. ríkisstj. orðið sú, að varla sé verjandi að fella alveg niður framlag til sjóðsins, þar sem ákvörðun um stofnun hans var tekin við afgreiðslu þessara fjárl. Og í brtt. hv. meiri hl. fjhn. á þskj. 405 er lagt til, að þessi liður skuli ekki lækka um 1 millj. og 500 þús. kr., heldur um 1 millj. kr. Í þessu felst viðurkennig á því, að það sé mjög óeðlilegt að gera slíkar ráðstafanir.

Nú eru auðvitað fáar reglur svo, að ekki séu án undantekninga, og auðvitað getur skapazt það ástand, að breyta þurfi ákvörðunum Alþ. og breyta þurfi fjárl., skömmu eftir að þau hafa verið sett. En það virðist vera að komast á sú hefð hjá þessari hæstv. ríkisstj., að ráðast á fjárl. með breytingum fáum vikum eða mánuðum eftir að þau hafa verið samþ. Þetta er ekkert einsdæmi, heldur hefur þetta verið endurtekið, og að minni hyggju er þetta mjög óeðlileg aðferð. Hún er það í eðli sínu, og hún fer í bága við anda og tilgang stjórnarskrárinnar, sem beinlínis segir, að fjárl. skuli sett fyrir fram fyrir hvert ár. Þessar margendurteknu breytingar á fjárl. sýna það og sanna, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki það vald á efnahagsmálunum, sem ríkisstj. þarf að hafa. Og hún hefur ekki getu eða aðstöðu til að gera sér grein fyrir ástæðunum og gera áætlun fram í tímann — jafnvel ekki einu sinni fyrir hálft ár, hvað þá meira.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að í stað þess að greiða úr ríkissjóði framlög til menntaskólanna á Akureyri, Laugarvatni og í Hamrahlíð og til Landspítalans, þá skuli ríkisstj. heimilað að afla lánsfjár til þeirra með sömu fjárhæðum og stóðu í fjárl. Hér er um enn eina gerbreytingu á nýsamþykktum fjárl. og ræða, og má kannske segja, að nauðsyn brjóti lög. Hvað skal gera á erfiðum tímum? En þá koma menn aftur að því, að þetta er bara ekkert nýtt, og sótt hefur í þetta horf í vaxandi mæli hjá núv. hæstv. ríkisstj., að hlutur verklegra framkvæmda — sá, sem greiddur er beint úr ríkissjóði — fer minnkandi í fjárl., en það fer vaxandi, að til þeirra verklegu framkvæmda, sem þó eru ákveðnar í fjárl., séu tekin lán, sem auðvitað þarf svo að borga aftur fyrr eða síðar. Og einmitt þetta ásamt með tíðum breytingum á nýlega gerðum fjárl. sýnir, að ríkisstj. veldur ekki sínu hlutverki. Hún hefur ekki haft vald á þenslu ríkisbáknsins fremur en efnahagsmálunum almennt. Það var fyrsta boðorð ríkisstj. að koma atvinnuvegum þjóðarinnar og rekstri þeirra á heilbrigðan grundvöll. Engan veginn hefur tekizt að framfylgja því boðorði. Það átti að sýna aðgát í útgjöldum og það hefur ekki tekizt betur en raun ber vitni, heldur hefur þenslan í ríkisbákninu verið gífurleg. Og það þarf áreiðanlega að gæta fullrar varúðar í því að fjármagna með lánsfé í æ vaxandi mæli framkvæmdir, sem ekki beinlínis skila arði og geta þess vegna ekki á þann hátt staðið undir sér sjálfar, þó að bráðnauðsynlegar kunni að vera fyrir þjóðfélagið. Það þarf að gæta fyllstu varúðar í því.

Í 5. gr. frv. og 7. gr. þess eru allróttæk ákvæði um breytta tilhögun á yfirstjórn fræðslumála.

Í 5. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað ákvæða um námsstjórn í l. nr. 34/1946, um fræðslu barna, l. nr. 48/1946, um gagnfræðanám, l. nr. 49/1946, um húsmæðrafræðslu og l. nr. 49/1967, um skólakostnað komi:

Verja skal 2 millj. kr. á ári til námsstjórnar fyrir allt landið og til framkvæmdar skólakostnaðarl., nr. 49/1967. Skal 300 þús. kr. af þeirri fjárhæð varið til námsstjórnar í einstökum námsgreinum samkv. nánari ákvörðun menntmrn.

Og í 7. gr. segir í 1. lið svo: „Fræðslumálaskrifstofan skal vera deild í menntmrn., og falla jafnframt úr gildi lög nr. 35/1930, um fræðslumálastjórn, og önnur ákvæði, sem brjóta kunna í bága við þetta.“

Og síðan segir í næsta tölul.:

„Fjármálaeftirlit skóla skal vera deild í menntmrn., og breytast ákvæði IV. kafla l. nr. 49/1967, um skólakostnað, í samræmi við það, svo og önnur ákvæði, er brjóta kunna í bága við þetta.“

Og hliðstæð ákvæði eru í 3. tölul., þar sem fjallað er um Fræðslumyndasafn ríkisins, og í 4. tölul., sem fjallar um íþróttafulltrúa. Þar segir, að íþróttalög nr. 49/1956 breytist til samræmis við það, sem áður er ákveðið. Og í niðurlagi þessarar gr. segir svo:

„Lagabreytingar samkv. þessari gr. koma til framkvæmda, þegar unnt verður að sameina þessar stofnanir og embætti í húsnæði í sömu byggingu.“

Í 5. gr. og 7. gr. er í fyrsta lagi um það að ræða að fella niður starfsemi námsstjóra í núv. mynd. Það virðist þó ætlunin að setja á vetur — að mér skildist — fjóra námsstjóra. En í stað þess, sem þeir áður hafa haft, fá þeir nú það hlutverk að hagræða stundaskrám. Nú skal ég ekkert segja um það á þessari stundu, því að til þess brestur mig kunnugleika, hvort þetta er æskilegt. Ég ætla ekki að mæla á móti því, en ég hef heldur enga aðstöðu til þess að samþykkja það fyrir mitt leyti. Í 7. gr. er í 1. tölul. ákveðið að fella með öllu úr gildi lög um fræðslumálastjórn, og skal fræðslumálaskrifstofan vera deild í menntmrn. Nú er þess að gæta — og ég vænti, að öllum hv. alþm. sé það ljóst — að í l. um fræðslumálastjórn eru fjölda mörg ákvæði um tilhögun á stjórn fræðslumálanna í landinu. Með því að fella þessa löggjöf úr gildi með einni setningu, eins og hér er lagt til, falla auðvitað öll þessi ákvæði úr gildi um leið. Og mér skilst, að með þessu móti sé lagt á vald menntmrh., hvernig haga skuli framkvæmd hinna ýmsu þátta, sem um er fjallað í lögum um fræðslumálastjórn og of langt yrði að rekja hér. Mér skilst, að það verði þá á hans valdi alveg, hvernig með þessi mál skuli farið. Í 2., 3. og 4. tölul. þessarar gr. fyrirfinnst alls staðar þetta orðalag: Og breytast lög nr. þetta og þetta í samræmi við það. Hvers konar löggjafarstarfsemi er þetta eiginlega? Hvernig eiga þeir, sem starfa hljóta eftir þessum l. í framtíðinni, að vita, hvað upp er og hvað niður? Vera má, að lögfræðingar verði færir um að skýra það á eftir í einstökum atriðum, hvað það er í a.m.k. þrennum lögum, sem breytast á í samræmi við það, sem koma skal í þessum lögum hérna. Ég veit ekki til þess, að nokkur einstakur alþm. hafi leyft sér að bera fram frv. til l. um breytingu á l. formað þannig. Mér sýnist þetta alveg fráleitt.

Ég hygg líka, að það sé frekar fátítt, að gildistökuákvæði l. sé á þann hátt, sem hv. meiri hl. menntmn. leggur til, þ.e. að l. taki gildi, þegar ráðh. dettur í hug. En meðferð þessara mála í heild, sem fjallað er um í 5. og 7. gr. frv., er ófullnægjandi, þ.e. að ætla að breyta yfirstjórn svo þýðingarmikils málaflokks, eins og menntamálin vissulega eru, með þessum örfáu pennastrikum í þessu frv., án þess, að um þau sé fjallað á þinglegan hátt í menntmn. beggja hv. þd. Ég tel með öllu fráleitt og algerlega óhæfilegt að vinna þannig að þýðingarmiklum málum. Ég bjó eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að þetta væri ekki alveg upp á það bezta, en hann taldi, að það hefði bara verið svo erfitt að breyta öllum þeim l., sem þurft hefði að breyta. En þessum aðferðum hljótum við eindregið að mótmæla í minni hl. hv. fjhn. og leggja til, að þessar greinar verði hreinlega felldar úr frv. Framar öllu fjallar þetta frv. um sparnað á fjárl. þessa árs, og til þess er það fram sett fyrst og fremst, að endar nái saman á nýafgreiddum fjárl. Að vísu er skotizt úr leið í einstökum greinum, hvað þetta varðar, eins og t.d. um Landnám ríkisins. Ég held, að það sé nú eina greinin, sem gilda á bæði 1968 og 1969. Sama má segja um rotturnar; það er beinlínis tekið fram í grg., að sparnaðurinn á þeim lið komi ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1969, að ég hygg. Við sjáum ekki, að það sé óhjákvæmilegt að hafa hinar róttæku lagabreytingar, sem 5. og 7. gr. fela í sér, inni í þessum l., né heldur, að það sé að bregða fæti fyrir veika sparnaðarviðleitni hæstv. ríkisstj., þó að þessar lagagr. verði hreinlega felldar brott.

Á þskj. 413 eru brtt. 1. minni hl. fjhn., og ég hef vikið nokkuð að þeim nú þegar. Ég vil aðeins rifja það upp, að við leggjum til, að niður falli úr 1. gr. 13. liður um Landnám ríkisins, 16. liður um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins og 17. liður um Fiskveiðasjóð Íslands. Við vildum ekki, þó að við hljótum að gagnrýna mjög ýmsa fleiri liði í 1. gr., flytja víðtækari brtt. við hana, heldur binda okkar till. eingöngu við þá liði, sem beint snerta stuðning við sjálfa undirstöðuatvinnuvegina. Önnur brtt. okkar er um það, að 5. gr. falli niður, og sú 3. um það, að 7. gr. falli niður. En 4. brtt. er um orðun á 8. gr. frv., þar sem fjallað er nánar um framlög til Landnámsins. Við leggjum til, að gr. orðist eins og á þskj. segir, og það er í samræmi við ályktanir frá samtökum bænda og í samræmi við þá skoðun okkar, sem ég lýsti áðan, að þannig sé nú ástatt í íslenzkum landbúnaði, að ekki sé fært að minnka stuðning hins opinbera við hann, þó að eðlilegt sé að hnika til verkefnum og leggja til hliðar þau, sem unnið hefur verið að um langa hríð, en taka upp önnur, sem nú kalla mjög að, og gætu haft mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn.

Að lokum vil ég aðeins segja þetta: Mér virðist frv., sem hér liggur fyrir, vera enn þá eitt dæmi um gjaldþrot stjórnarstefnunnar og ekki það ógleggsta. Á stjórnartímabilinu hefur í efnahagsmálunum verið komið af stað óheillaþróun, og hún er hröð. Ég minni aftur á útþensluna í fjárl. á stjórnartímabilinu. Þessi óheillaþróun var í fullum gangi áður — löngu áður en verðfall á heimsmarkaði og minnkandi afli fóru að segja til sín. Það tókst fyrir kosningar að blekkja margan kjósanda og stöðva sig augnablik á skriðinu með því að notast við tekjuafgang góðæranna og gjaldeyrissjóðinn. Og það var tekið óstinnt upp þá, þegar bent var á blekkingarnar. Hvað hefði stjórnarliðið sagt, ef stjórnarandstæðingar hefðu nákvæmlega séð fyrir atburðarásina frá því t.d., að þing kom saman í haust, og til þessa dags og hefðu nákvæmlega sagt fyrir um hana? Hvað hefði þá verið sagt? Þó að hraði hafi verið í óheillaþróuninni fram á þetta ár, þá hefur hann aukizt enn og margfaldazt. Og allt það, sem gerzt hefur í vetur, t.d. hér á hv. Alþ., þ.e. flutningur efnahagsmálafrv. á sínum tíma, gengislækkunin og það, sem henni fylgdi, ráðstafanir eftir áramótin til bjargar útveginum, verkfallið og afleiðingar þess og að ég tali nú ekki um, ef menn færu að rekja allt það, sem bara nú á síðustu mánuðum hefur komið fram utan þingsala í atvinnulífinu og á ótalmörgum sviðum — hefði þetta allt verið sagt fyrir nokkurn veginn nákvæmlega, eins og það hefur gengið til, fyrir alþingiskosningarnar í vor, held ég, að það hefði komið hljóð úr horni frá stuðningsmönnum núv. hæstv. ríkisstj. Og það þarf áreiðanlega meira til að snúa þessari þróun við og koma hér aftur á eðlilegum háttum, heldur en það frv., sem hér er til umr.