22.03.1968
Neðri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. 1. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég fæ ekki annað heyrt en ræða hæstv. fjmrh. undirstriki það enn, sem raunar varð séð strax, þegar þetta mál var lagt hér fyrir hv. d., að sparnaðarráðstafanir frv. eru margar næsta lauslega undirbúnar og áreiðanlega er fullkomin óvissa um það, hvort það næst, sem að er stefnt með þessu frv. hæstv. ríkisstj. En ég sé ekki ástæðu til þess að fara hér í neitt verulegt karp eða lengja þessar umr. neitt að ráði. Ég vil þó fara örfáum orðum um málið enn í tilefni af ræðu hæstv. ráðh. áðan.

Hann sagði, að það væri skylda okkar þm. í stjórnarandstöðunni að horfast í augu við vandann. Sá má nú djarft úr flokki tala, hæstv. ráðh., um að horfast í augu við vandann. Það var bærilega horfzt í augu við vandann af hálfu stjórnarliðsins og þjóðinni sagður sannleikurinn um horfurnar framundan í kosningabaráttunni í vor. Þá var ekki verið að stinga höfðinu í sandinn eða neitt þess háttar af þeirra hálfu. Hvað var þjóðinni sagt þá? Var t.d. ekki í leiðara í höfuðmálgagni flokksins rætt um ýmsa erfiðleika af völdum verðlækkana á erlendum markaði og af völdum minnkandi afla og erfiðrar vetrarvertíðar og sagt berum orðum, að nú hefði vandanum verið bægt frá, þar sem vel hefði verið stjórnað undanfarið? Þetta var víst að horfast í augu við vandann og þá um leið að segja þjóðinni sannleikann um það, hvað fram undan var. Og það var heldur myndarlega horfzt í augu við vandann í byrjun þings, þegar átti að fá samþykki Alþ. til þess að gera þær ráðstafanir, sem fólust í efnahagsmálafrv., sem kom hér fram í þingbyrjun og eingöngu laut að því að tryggja afkomu ríkissjóðs, en allir aðrir þættir vandamálsins voru látnir eiga sig þá. Og þetta átti að gera með þeim aðferðum, sem mönnum eru enn í fersku minni.

Nei, þá var ekki verið að horfast í augu við vandann í heild, heldur var reynt eins og áður að velta honum á undan sér með bráðabirgðaráðstöfunum, sem aðeins leystu lítinn hluta vandamálanna. Og þannig hefur þetta verið einnig síðan, og þegar gengislækkunin var gerð, var raunsæið ekki meira en það, að það gerðist, sem aldrei áður hefur gerzt hér á landi, að strax að gerðri gengislækkun þarf að gera viðbótarráðstafanir vegna útflutningsframleiðslunnar. Og því finnst mér sitja illa á þeim, sem undirbúa þetta mál og standa að þessu frv., sem hér liggur fyrir, að tala um það, að menn þurfi að horfast í augu við vandann, því að þetta frv. er vissulega með sama marki brennt og margar aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj., að þar er meira og minna um sýndaratriði að ræða.

Ég held því, að hæstv. fjmrh. verði að hafa það, þó að stjórnarandstæðingar leyfi sér að benda á veilurnar í þessu frv. Og ég held, að það hafi verið skynsamlegt hjá hæstv. ráðh. að fara fremur stutt út í það að ræða einstök efnisatriði þess, enda fannst mér ræða hans fremur styðja það, sem ég hélt fram hér áðan og áður hefur komið fram af hálfu stjórnarandstæðinga í þessum umr., að undirbúningur málsins í heild og margra einstakra atriða er ákaflega losaralegur.

Hæstv. ráðh. sagði um þær aðgerðir, sem ráðgerðar eru í frv. varðandi yfirstjórn fræðslumálanna, að það þyrfti að koma fram vilji Alþ. um að gera þá breytingu, sem þar er lagt til, að gerð verði; sá vilji Alþ. þyrfti að koma fram nú, til þess að hægt væri að fara að undirbúa breytinguna á einstökum atriðum. Eins og ég sagði áðan, skal ég engan dóm á það leggja, hverra aðgerða er þörf á þessu sviði: En ég árétta það, sem ég sagði áðan, að þetta er óeðlileg aðferð. Og ég ætti ekki að þurfa að kenna hæstv. ríkisstj. neitt um það, hversu með mál skuli fara, þannig að það fái þinglega og eðlilega afgreiðslu.

Þetta frv. hefur öðrum þræði verið kallað sparnaðarfrv., og með því er væntanlega að einhverju leyti stefnt í sparnaðarátt. En það er ástæða til þess fyrir alla aðila að gera sér grein fyrir því, að töluverður munur er á því, sem menn almennt eiga við, þegar rætt er um sparnað í ríkisrekstri annars vegar og hins vegar ýmsa þætti þess sparnaðar, sem fyrirhugaður er í frv. Þegar menn tala um æskilegan sparnað í ríkisrekstri, eiga menn ekki við það, að dregið sé úr verklegum framkvæmdum, og ekki heldur það, að þær séu fjármagnaðar með lántökum, þótt þær fari fram. Og menn eiga heldur ekki við það, að dregið sé úr hinum allra þýðingarmestu þjónustuaðgerðum né heldur að dregið sé úr stuðningi við undirstöðuatvinnuvegina. En menn ætlast til þess, að sýnd sé aðgát í útgjöldum, eins og það var orðað í viðreisnarbókinni ágætu, og að leitazt sé við að spara á hinum raunverulega rekstrarkostnaði ríkiskerfisins.

Ríkisútgjöldin hafa á þessum fáu árum vaxið gífurlega, og þjóðin á áreiðanlega fyllsta kröfurétt á því, að hér sé brotið blað í þessu efni. Það er auðvitað rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hérna áðan, að þetta er ekkert auðvelt, og það eitt að hafa góð orð um sparnað — eins og hæstv. ráðh. gerði hér áðan — er ekki nóg. Það höfum við svo oft heyrt áður af hans munni, og það er ekkert nýtt. En ég held, að það megi eindregið ráðleggja hæstv. ráðh. og ríkisstj. að láta ekki sitja við orðin tóm, hvað þetta snertir, og horfast í augu við vandann á hverjum tíma, því að það hefur svo sannarlega ekki verið gert á undanförnum árum.