21.11.1967
Neðri deild: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þegar framleiðsluráðsl. var breytt 1966, var það ein breytingin og ekki sú veigaminnsta, sem gerð var á 4. gr. l. Að vísu stendur enn þá óbreytt upphaf 4. gr., eins og það var í gömlu framleiðsluráðsl., og það er meginefni gr., að bændur skuli hljóta laun í samræmi við laun annarra vinnandi stétta. En í útfærslu þeirri, sem orðið hefur á undanförnum árum við framkvæmd málsins, hefur verið miðað við verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn, og ég fer ekki nánar út í það á hvern hátt það hefur verið gert. En þó að miðað sé við þessar stéttir, segir það í raun og veru ekki alla sögu. En það yrði of langt mál að fara nánar út í það. Þetta ákvæði stendur sem sagt enn óbreytt í 4. gr. Síðan koma ný ákvæði, þar sem það er tekið fram, að leita skuli eftir hver sé ársvinnutími bóndans á meðalbúi og ætla honum kaup á unna vinnustund í samræmi við kaup þessara stétta. Þá er það nýmæli í 4. gr., nýmæli, sem var að vísu oft rætt í Sexmannanefnd, en aldrei fékkst um samkomulag þar, að einnig skyldi meta vinnu eiginkonu bónda við búreksturinn, svo og annars skylduliðs.

Það hefur verið minnzt á starfsemi búreikningaskrifstofunnar, sem hefur starfað hér mörg undanfarin ár. En starfsemi hennar hefur ekki verið miðuð við verðlagningu búvara og skýrslur hennar hafa ekki verið notaðar til að undirbyggja verðlagningu undanfarið. — Búreikningaskrifstofan lét færa tvenns konar búreikninga, suma tiltölulega einfalda, en aðra aftur yfirgripsmeiri. Og í þeim reikningum, en þeir voru mjög fáir, var vinnutíminn skráður. Þannig liggja fyrir nokkrar upplýsingar um það atriði frá liðnum árum.

Það, sem gert var svo eftir lagabreytinguna 1966 til þess að undirbyggja þennan lið verðlagsgrundvallarins, vinnuliðinn, var í raun og veru tvíþætt. Annars vegar það að endurskipuleggja starfsemi búreikningaskrifstofunnar, fjölga búreikningunum og hraða úrvinnslu þeirra, þannig að þeir gætu orðið tiltækir við verðlagninguna nægilega snemma. Hins vegar voru svo, að frumkvæði Sexmannanefndar og raunar að frumkvæði neytenda í Sexmannanefnd, fengnir til menn að framkvæma vinnumælingar hjá bændum, til þess að renna enn traustari stoðum undir þennan lið grundvallarins. Og það var lögð mjög mikil vinna í þetta og þessir menn öfluðu ýmissa mikilvægra upplýsinga, þótt það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að þeir hafa ekki á þessum tíma komizt til þess að vinnumæla alla þætti búrekstrar. Og það verður raunar aldrei hægt til fulls; það er nú mín skoðun.

Það var ákaflega þýðingarmikið að okkar dómi, fulltrúa framleiðenda í þessum málum, að vinnumælingarnar, það sem þær ná, fara mjög saman við það, sem gömlu og stóru búreikningarnir höfðu að segja í öllum meginatriðum, mjög nærri því. Það breytti þó ekki því, að okkur, fulltrúum framleiðenda í Sexmannanefnd, þótti rétt að fallast á það, að að þessu sinni yrði ekki verðlagt nema til eins árs. Stærsti liðurinn í kostnaðinum við búreksturinn er vinnuliðurinn, og það er þess vegna mjög þýðingarmikið að tryggja sem allra bezt undirbyggingu hans.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, sem raunar er þó kannske óþarfi, því að það liggur alveg í hlutarins eðli, að við álítum, að þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru varðandi þennan lið, séu það veigamiklar, að það komi ekki annað til mála heldur en byggja verðlagninguna núna, sem væntanlega verður til eins árs, á þeim upplýsingum, svo langt sem þær ná. Og það er áreiðanlega skoðun okkar allra, að þannig beri að skilja þessa hluti.

Ég vil láta það koma hér fram sem mína skoðun, að ég tel þann drátt, sem orðið hefur á verðlagningu landbúnaðarvara í haust, alveg óhæfilegan og raunar alveg óhugsandi að sætta sig við, að þetta gangi þannig til framvegis. Þegar lagabreytingin var gerð 1966, breytingin á framleiðsluráðslögunum, var sett undir þann leka, að verðlagningarkerfið gæti orðið óvirkt. Það var sett undir hann. Og ég skal ekki fara að rekja það neitt nánar. Hins vegar hefur þeim, sem að þeirri lagasmið stóðu, mistekizt að búa svo um hnúta, að verðlagningin gæti komið til framkvæmda innan skikkanlegra tímatakmarka. Það er mín skoðun, að það komi mjög til álita fyrir bændastéttina og bændasamtökin að taka verðlagsmál landbúnaðarins í heild til gaumgæfilegrar athugunar innan sinna vébanda, með það fyrir augum að fá á þeim málum heppilegri skipan en nú er.

Út af orðaskiptum, sem hér fóru fram áðan milli hv. 5. þm. Norðurl. e. og hæstv. landbrh., vil ég aðeins upplýsa í sambandi við verðlagninguna í haust, að þetta gekk þannig til: Framleiðendur lögðu fram sínar till. 5. sept. Það var í raun og veru óhæfilega seint og orsakaðist af því, að þeir höfðu ekki í höndum þau gögn, sem þeir töldu sér óhjákvæmilegt að hafa. En síðan liðu víkur og raunar heill mánuður, án þess að nokkuð kæmi fram hjá neytendum. Og það var áður en nokkrar till. lágu fyrir frá þeim, að framleiðendur óskuðu þess, að sáttasemjari kæmi í málið. Fyrst eftir að sáttasemjari er búinn að hafa málið með höndum rúma viku — hann setti þann frest — skiluðu neytendur sínum till. Við vorum satt að segja mjög óánægðir með þetta og teljum þetta alveg óhæfilegan drátt. Sáttasemjari hafði málið fremur stutt með höndum, og út á hans vinnubrögð er ekkert að setja að mínum dómi. Síðan fór það til yfirnefndarinnar, sem hefur haft æði rúman tíma og þó ekki enn skilað sínu áliti. Eru nú senn liðnir þrír mánuðir frá því verðlagningu landbúnaðarvara átti að vera lokið, skv. ákvæðum framleiðsluráðslaganna.