22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. meiri hl. (Matthías A. Mathiesen):

Herra forseti. Þegar fjhn. þessarar hv. d. hafði frv. þetta til meðferðar, barst erindi frá L.Í.Ú., þar sem andmælt var sérstaklega 16. og 17. lið 1. gr. þessa frv. Meiri hl. fjhn. taldi sig ekki geta orðið við þeirri beiðni, sem þar kom fram, en vildi hins vegar láta þess getið, að erindið hefði verið tekið til athugunar í n. Þá var á það hent við meðferð málsins í fjhn. á milli funda, að gera þyrfti breytingu á frv., til þess að 17. liður 1. gr. gæti staðizt, þar sem í l. um Fiskveiðasjóð er gert ráð fyrir framlagi ríkisins þar á móti. Meiri hl. fjhn. hefur því leyft sér að flytja skriflega brtt. við 9. gr., þar sem mundi koma fram, að framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs Íslands samkv. c-lið 4. gr. laga frá 3. maí 1966 skuli falla niður á árinu 1968, og flytur meiri hl. fjhn. þessa brtt. við frv.