22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera mjög langorður, en ég vil byrja mál mitt með því að taka undir þá skriflegu brtt., sem hv. 5. þm. Austf. bar fram hér áðan. Ég verð að segja, að mér virðast ákvæði 7. gr. í þessu frv. tæplega þingleg, og ég vil leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort hann telji það tilhlýðilegt að afgreiða þau mál, sem þarna er um að ræða, á þennan hátt og hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því, að á það verði fallizt að samþykkja þá brtt., sem hv. 5. þm. Austf. hefur borið fram.

Það var samt ekki þessi gr. frv., sem ég ætlaði aðallega að gera að umtalsefni, heldur 8. gr. frv. Þar segir svo, að á árunum 1968 og 1969 sé ríkisstj. heimilt að lækka hvort ár framlög á fjárl. til landnáms vegna nýbýla o.s.frv. Þetta frv. um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda fjallar, eftir því sem ég hef skilið það, um lækkun ríkisútgjalda á árinu 1968. Það stendur í 1. gr., að ríkisstj. sé heimilt að lækka fjárveitingar á eftirtöldum fjárlagaliðum árið 1968 sem hér segir, og svo kemur upptalning í 30 liðum. Nú finnst mér það skjóta nokkuð skökku við, þegar um það er að ræða að lækka ríkisútgjöld samkv. fjárl. á árinu 1968, þá sé í 8. gr. þessa frv. fjallað um ríkisútgjöld á árinu 1969 og breytt ákvæðum gildandi l., að því er það ár varðar. Það er nú svo, að fyrir næstu áramót liggur hér væntanlega fyrir að afgreiða fjárl. ársins 1969, og þá er tækifæri til þess að fjalla um þetta atriði og önnur. En að hafa í þessu frv., sem er um lækkun ríkisútgjalda á árinu 1968, ákvæði, sem varða árið 1969 og breytingu á l., að því er það ár varðar, það finnst mér ekki eiga hér heima. Ég hef því leyft mér að semja skriflega brtt. um þetta efni, sem ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta, þegar ég hef lokið máli mínu. Till. er það, að í stað orðanna „á árunum 1968 og 1969“ í 8. gr. komi: Á árinu 1968.

Við 2. umr. þessa máls komu fram brtt. frá hv. minni hl. fjhn. við þessa gr. um, að henni yrði breytt, og jafnframt um, að felldur yrði niður 13. liður 1. gr., sem fjallar um sama efni. Sú till. var felld við 2. umr. Og er það allillt, að svo skuli hafa tekizt til. Um þetta mál segir í grg. á bls. 8 í frv.: „Verði heimild samkv. þessari gr. notuð, leiðir það til þess, að færri nýbýli verða stofnuð en verið hefur að undanförnu. Þróunin í landbúnaðarmálum hefur verið þannig hin síðari ár, að ekki er æskilegt að stuðla að stofnun nýbýla“. Rökstuðningur hæstv. fjmrh. fyrir þessu er sem sé sá, að ekki sé æskilegt að stuðla að stofnun nýbýla, eins og sakir standa. Ég vil nota tækifærið til þess að ræða það mál lítið eitt.

Það mun vera rétt, að umsóknir um venjuleg nýbýli, eins og þau hafa tíðkazt með framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkurafurða, séu ekki margar eins og nú standa sakir. Og það er mikið talað um að landbúnaðarframleiðslan sé orðin of mikil, þ.e. sú landbúnaðarframleiðsla, sem öðru hverju er flutt út. En er það nú rétt þrátt fyrir þetta, að ekki sé þörf á eða eftirspurn eftir stofnun nýbýla? Þetta hefur hver eftir öðrum nú um þessar mundir, og m.a. er það, eins og ég las upp, tekið upp í þessa grg.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að nú síðustu ár hefur verið hafizt handa um stofnun nýrrar tegundar nýbýla. Og það er full þörf á því, að fé sé fyrir hendi til stofnunar þeirra. Hér er ekki um mörg nýbýli að ræða, en stór — stærstu býlin, sem stofnuð hafa verið hér á landi — og í raun og veru ekkert annars eðlis en önnur nýbýli, þó að þau framleiði ekki kjöt eða mjólk. Það var hér fyrrum í löggjöf talað um grasbýli. Með grasbýlum var þá átt við smábýli kauptúna- eða kaupstaðamanna. En hér hafa komið upp í seinni tíð býli, sem í raun og veru má kalla grasbýli — býli, sem framleiða gras, en þessi grasbýli eru ekki smábýli, heldur eru þau stórbýli, og það er nauðsyn. Það hafa þegar verið stofnuð a.m.k. tvö svona býli á Suðurlandi. Þar hefur verið ræktað mikið land. Þetta eru einhver stærstu tún á landinu, og grasið af þessum nýræktum er með sérstökum hætti vélþurrkað og síðan framleitt með vélum úr heyinu heymjöl eða heykögglar. Ég held, að menn ættu að gefa þessari nýlundu meiri gaum. Ég hef átt tal um þetta við þann mann, sem sennilega má telja fróðastan um þetta efni, sem er landnámsstjórinn, og hann hefur haft með höndum forsjá annars þessa býlis. Og það er von hans, að þegar grasbýlið — eins og ég vil kalla Gunnarsholt — hefur komizt í æskilegt horf, verði hægt að framleiða þar grasmjöl eða heymjöl, sem sé samkeppnisfært við erlendan fóðurbæti. Og það er sennilega ekkert smámál, sem þar er um að ræða, ef rétt reynist — og ég hef ekki ástæðu til að efast um — því að þá er þarna í raun og veru verið að skapa óbeint útflutningsmöguleika fyrir samkeppnishæfa vöru, þ.e. það er verið að framleiða á samkeppnishæfu verði vöru, sem hægt er að spara gjaldeyri á. Við flytjum inn núna, að því er talið er a.m.k. í þessum harðari árum upp undir 50 þús. smálestir af erlendu kjarnfóðri eða jafnvel meira. Og ef við getum framleitt innlent kjarnfóður — en þessi grasframleiðsla telst til kjarnfóðurs — getum við losnað við mjög verulegan hluta af þessum innflutningi á kjarnfóðri.

Ég veitti því eftirtekt fyrir nokkru, að fram kom í hv. Ed. till. um þetta mál, sem var þess efnis að skora á ríkisstj. að fela Landnáminu að gangast fyrir stofnun nokkurra grasframleiðslubýla af þessu tagi á Norður- og Austurlandi, og í brtt., sem hv. minni hl. fjhn. bar fram við 8. gr. þessa frv., fólst í raun og veru hið sama. En sú till. var felld, og ég veit ekki, hvernig fer um þáltill. í hv. Ed., þó að hún yrði samþ., þar sem nú er, ef þetta frv. nær samþykki og sérstaklega ef framlagið verður minnkað bæði 1968 og 1969, mjög dregið úr möguleikum til þessarar nýbýlamyndunar. Ég vil bara biðja hæstv. ríkisstj. að athuga það, hvort þarna er ekki heldur lítil búmennska á ferðum og hvort það er nokkuð annars eðlis eða á nokkurn hátt óhagstæðara að verja nýbýlafé til svona nýbýla, þó að þeir heiti ekki bændur, sem á þessum býlum eru, heldur en til einhverra annarra? Og mér er vel kunnugt um það, að það var einmitt þetta, sem vakti fyrir landnámsstjóra, ef lítið yrði um venjulega nýbýlastofnun á þessu ári, að fá möguleika til þess að nota þetta fé við þessa nýbýlamyndun.

Það getur verið, að mönnum komi þetta dálítið spánskt fyrir sjónir — svona til að byrja með — að kalla þetta nýbýli. Venjulega er í því sambandi talað um heykögglaverksmiðjur eða heymjölsverksmiðjur. En hvaða eðlismunur er á því að framleiða gras í því formi, að það geti komið í stað erlends fóðurbætis handa búfé, eða framleiða hvort tveggja, grasið og búféð sjálft eða afurðir þess? Það má segja, að það hafi e.t.v. ekki mikla þýðingu að tala um þetta nú við 3. umr., þegar búið er að fella brtt. við 8. gr., en nái þáltill., sem liggur fyrir hv. Ed., samþykki og verði ekki endilega haldið fast við það að fella í þessu frv. niður framlagið til Landnámsins fyrir árið 1969, sem ég sé nú engin rök fyrir að gera, sýnist mér, að möguleikar kynnu að vera til þess, að eitthvað yrði gert til gagns í þessu efni.

Ég leyfi mér að geta þess í þessu sambandi, að á meðan búnaðarþing var háð núna fyrir nokkru hér í Reykjavík, kom ég þar nokkrum sinnum og var þar viðstaddur, er umræður fóru fram, og ég var m.a. viðstaddur umræður um þetta mál, sem þar var til meðferðar, þ.e. þessa umræddu framleiðslu á grasi, sem á að geta nokkurn veginn jafngilt innfluttu kjarnfóðri. Og ég varð var við það, að þarna voru á ferðinni merkilegar skýrslur um merkilegar tilraunir og á þessu var mikill áhugi þar, að því er virtist.

Nú skal ég ekki ræða meira um það efni, en ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skriflega brtt. við 8. gr. um, að þar standi „á árinu 1968“ í stað orðanna á árunum 1968 og 1969, og mælist til þess, að hann leiti afbrigða fyrir till.