22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. var að beina því til mín, hvort ég ekki mundi vilja breyta afstöðu minni frá því á fundi fjhn. í dag til þeirrar till., sem þar var samþ. Ég hygg, að honum sé það alveg fyllilega ljóst, að þetta er allmikil bjartsýni, ef hann heldur, að slíkt mundi verða hugsanlegt.

Hann ræddi aðallega um tvo liði varðandi sjávarútveginn, Aflatryggingasjóð annars vegar og Fiskveiðasjóð hins vegar. Um þetta skal ég taka fram í sambandi við Aflatryggingasjóð, að hæstv. fjmrh. taldi, þegar hann gerði grein fyrir frv. lið fyrir lið, að þeir aðilar, sem það hefðu samið, hefðu talið, að hægt væri að gera þessa lækkun hjá Aflatryggingasjóði án þess að breyta úthlutunarreglum, þannig að sé það rétt skilið hjá mér, má segja, að það skipti bátaútveginn ekki máli, hvort þarna er áætlað 11 millj. kr. meira eða minna á þessu ári, ef þær sömu reglur, sem gilt hafa, gilda fyrir þetta ár einnig. Nú er það svo með Aflatryggingasjóð, eins og allir vita, sem til þessara mála þekkja, að það er ákaflega erfitt — og útilokað vil ég segja — að segja til fyrir fram í ársbyrjun, hversu mikið fé sjóðurinn þarf að fá til sinnar starfsemi. Það veltur allt á því, hvernig aflast á vetrarvertíð og einnig sumarvertíð, og sé sjóðurinn fær um að starfa eftir þeim reglum, sem hann hefur sett sér, þá hefur það náttúrlega ekki áhrif á rekstur útgerðarinnar sem slíkrar. Ekkert hefur komið fram um það, að til stæði að breyta þeim reglum, sem Aflatryggingasjóður fram að þessu hefur unnið eftir.

Varðandi framlag til Fiskveiðasjóðs, sem hér er lagt til, að fellt verði niður, vil ég segja það, að auðvitað væri það mjög æskilegt — og auðvitað mundu bæði ég og aðrir, sem að þessum málum vinna, óska þess — að það væri á hverju ári sem mest. Hitt liggur alveg ljóst fyrir, og ég held, að alþm. sé það ljóst, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið að undanförnu, hafa verulega bætt rekstrargrundvöll bátaflotans á þessu ári, ef hægt er að miða við eðlileg aflabrögð. Ég tel, að það sé langsamlega veigamesti þátturinn í sambandi við útgerðina, að rekstrargrundvöllur sé á þann veg, að hugsanlegt sé, að flotinn verði rekinn með árangri, ef um eðlileg aflabrögð er að ræða. Að sjálfsögðu er aldrei hægt að gera ráð fyrir því, að flotinn verði rekinn með neinum árangri, ef aflaleysi er eða aflabrestur verður. Það er aldrei hægt að gera neinar áætlanir, ef út frá því ætti að ganga. En ég hygg, að útvegsmenn séu nokkuð sammála um það, að rekstrargrundvöllurinn hafi verið bættur það mikið nú, að eðlileg aflabrögð mundu skapa honum viðunandi rekstrargrundvöll — og jafnvel betri heldur en oft hefur áður verið.

Eins og ég sagði, yrði það auðvitað mjög æskilegt, að framlag ríkissjóðs væri á hverjum tíma sem hæst til Fiskveiðasjóðs. Það gerði hann auðvitað sterkari og færari um að lána, en ég hygg, að aðstaða hans hafi einnig í sambandi við þær aðgerðir, sem átt hafa sér stað undanfarið, verið bætt það mikið, að hann sé ekki síður fær til þess nú en áður að veita lán, og vonandi verður hann ekki á þessu ári síður fær en áður til að veita þau stofnlán, sem honum ber að veita.

Það er á þessum tveimur forsendum, sem ég hef fylgt þeim till., sem fram hafa komið um lækkun á framlagi til sjóðanna, af því að ég tel, að það hafi ekki nein áhrif á rekstur vélbátanna, og treysti því, að Fiskveiðasjóður verði þess umkominn að veita þau stofnlán, sem honum ber, á þessu ári ekki síður en áður, þó að þetta framlag sé fellt niður nú í ár; ég hygg, að öllum þm. sé það ljóst, að aðstaða hans hefur verulega verið styrkt undanfarið.