22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég verð því miður að segja, að ég er jafnnær um afstöðu menntmrh. eftir svar hæstv. fjmrh., en hitt virtist mér koma fram af svari ráðh., að hann geri sér ekki fullkomlega grein fyrir því, um hvað 7. gr. raunverulega fjallar, því að mér skildist ráðh. tala þannig, að hann reikni með því, að fræðslumálastjórinn haldi áfram og allt verði því eins og ekkert hafi í skorizt, eftir að búið er að samþykkja 7. gr. Þetta er reginmisskilningur hjá ráðh. Ef menn lesa gr., sjá þeir fljótt, í hverju þetta liggur. 1. liður hennar hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslumálaskrifstofan skal vera deild í menntmrn., og falla jafnframt úr gildi lög nr. 35/1930, um fræðslumálastjórn, og önnur ákvæði, sem brjóta kunna í bága við þetta.“

L. nr. 35/1930 fjalla um fræðslumálastjóraembættið, og eftir að búið er að nema þessi lög úr gildi, er fræðslumálastjórinn úr sögunni. Þá er fræðslumálastjóraembættið hætt að vera til sem sérstakt embætti, og það er hvergi í l. neitt, sem gerir ráð fyrir því, að slíkt embætti sé hér eða slíkur embættismaður sé hér starfandi eða slík stofnun. Þó að hæstv. menntmrh. velji svo einhverri undirtyllu sinni í menntmrn. þetta nafn, þ.e. að heita fræðslumálastjóri, er ekki nein lagaheimild fyrir því lengur, og sá maður hefur engin völd samkv. l., eins og fræðslumálastjóri hefur nú. Fræðslumálastjóraembættið hjá okkur er búið að vera lengi sjálfstætt embætti, og þeir menn, sem hafa gegnt því, hafa talið sig vera alveg óháða ráðh. og gert till. sínar án tillits til þess, hvort þeir töldu það koma viðkomandi ráðh. betur eða verr, heldur eingöngu lagt dóm á málin frá embættismannslegu sjónarmiði, og þeir gátu gert þetta, vegna þess að þeim bar skylda til þess samkv. I.

Ég sé nú, að hæstv. menntmrh. er kominn, og þá er sennilega bezt að snúa sér að honum með þessa fsp., þó að það kosti það, að ég verði að rifja nokkuð upp aftur af því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni. (Gripið fram í.) Nei, nei, það þarf ekkert að spara mér það. Ég tel það ekkert eftir mér.

Ég minnti á það, að hæstv. menntmrh. hefði fyrir nokkru í Sþ. verið að ræða um embættaveitingar, og þá hefði ráðh. upplýst það, að hann hagaði veitingu á kennara- og skólastjóraembættum með þeim hætti, að yrðu skólanefnd og fræðslumálastjóri sammála, léti hann þá niðurstöðu gilda. Aftur á móti þegar þessir aðilar væru ósammála, teldi hann sig hafa nokkurn veginn óbundnar hendur til þess að ráðstafa embættinu. Með því að leggja niður fræðslumálastjóraembættið, eins og lagt er til í 7. gr. frv., hlýtur það að falla niður, að sérstakur embættismaður eins og fræðslumálastjóri geti skilað slíku áliti um umsækjendur, því að ég vona, að hæstv. menntmrh. sé ekki haldinn sömu villunni og fjmrh. Fjmrh. virtist telja, að fræðslumálastjóraembættið héldi áfram að vera til eftir sem áður, eftir að búið væri að fella niður l. nr. 35 frá 1930.

Þetta er mesti misskilningur. Ef við samþykkjum 7. gr. í frv., eins og hún er, og hún verður að l., hættir fræðslumálastjóraembættið að vera til frá þeim degi, sem l. taka gildi. Það er ekki neitt í l. eftir það, sem gerir ráð fyrir, að hér sé starfandi fræðslumálastjóri, og því síður, að það sé nokkuð í l., sem ákveði fræðslumálastjóra nokkurt sérstakt vald. Ef ráðh. ætlar að hafa það fyrirkomulag að færa fræðslumálastjórann eða einhvern slíkan mann inn í menntmrn. og gefa honum þessa nafnbót, er það bara eftir höfði ráðh. sjálfs, en ekki samkv. l., og sá maður hefur að sjálfsögðu allt aðra aðstöðu heldur en fræðslumálastjórinn hefur haft. Þetta er orðin gróin stofnun, og sá maður, sem hefur verið þar ábyrgur, hefur talið sig alveg sjálfstæðan embættismann og skilað áliti um embættaveitingar og annað án tillits til þess, hvort hann hafi talið, að það kæmi viðkomandi ráðh. betur eða verr. Eftir að slíkur maður er orðinn bara deildarstjóri eða einhver undirtylla í menntmrn., er aðstaða hans í þessum efnum vitanlega orðin allt önnur og alveg ósambærileg og engin lagafyrirmæli til þess að halda slíku áfram, þannig að starfi fræðslumálastjóri hér, eftir að búið er að samþykkja 7. gr., er það eingöngu gert samkv. einhverju, sem stendur í kollinum á hæstv. menntmrh., en ekki eftir neinum l. Hann hefur þá ekkert vald og ekkert valdsumboð. Þess vegna er hér verið að gera meginbreytingar í sambandi við fyrirkomulag embættaveitinga, hvað snertir kennara og skólastjóra.

Ég vildi þess vegna bera fram þá fsp. til menntmrh., hvaða skipan hann hugsaði sér í þessum efnum, eftir að búið er að leggja fræðslumálastjóraembættið niður. Þá eru það bara skólanefndirnar einar, sem hafa umsagnarrétt í þessum efnum, og svo ráðh. og þá er orðin meginbreyting á þessu frá því, sem áður var. Sú trygging, sem fólst þó í því, að hér var borið undir tvo aðila og hæstv. menntmrh. hlýddi úrskurði þeirra, þegar þeir voru sammála, er alveg úr sögunni. Það vald, sem færist í hendur hæstv. menntmrh. samkv. þessu, verður miklu meira heldur en hann hafði áður. Ég vil beina þeirri fsp. til ráðh., hvað hann hyggst gera eða hvernig hann hyggst framkvæma þetta, þegar búið er að leggja fræðslumálastjóraembættið niður. En ég vona, að ráðh. geri sig ekki sekan um sama misskilning og fjmrh. að halda því fram, að fræðslumálastjóri geti verið hér starfandi, eftir að búið er að samþykkja 7. gr. Þá er búið að leggja hans embætti niður. Og ef hæstv. menntmrh. hefði staðið í þeirri trú, að þrátt fyrir afnám þessara l. ætti fræðslumálastjórinn að halda áfram starfi sínu eftir sem áður, þarf hann að haga orðalagi gr. á allt annan veg heldur en nú er.

Ég sé það, að ráðh. er að fletta upp í lagasafni í sambandi við þetta, svo að hann virðist — nei, ég skal ekkert segja um það, hvernig hann hefur hagað undirbúningi þessa máls, en ég vænti hins vegar, að þetta verði til þess, að ráðh. taki þetta mál til endurskoðunar á ný, og þó að það verði kannske ekki hægt að koma því við hér eftir í þessari d. að breyta 7. gr., verði þetta þó til þess, að hún verði lagfærð í hv. Ed.

Ég veit nú ekki, hvort ég þarf að svara mörgum orðum hv. 3. þm. Sunnl. Ég verð hins vegar að játa það, að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með hans ræðu. Ég hafði álitið, vegna þess að hann er kominn úr kaupstað, þar sem útgerð er allmikil, þá hefði hann fullan skilning á því, hvernig afkomu útgerðarinnar er nú háttað, en hann virðist í þeim efnum vera mjög ósammála Einari Sigurðssyni, eða lýsing hans var a.m.k. allt önnur en sú, sem Einar Sigurðsson brá upp í Morgunblaðinu í gær — og áreiðanlega allt önnur heldur en er álit þeirra þingbræðra hans tveggja, hv. þm. Sverris Júlíussonar og Matthíasar Bjarnasonar. Ef þeir hefðu litið eins á málin og hann, mundu þeir ekki hafa verið að senda Alþ. áskorun um að fella niður ákvæði, sem snertir Fiskveiðasjóð í þessu frv. Og þó að ég beri mikla virðingu fyrir þessum hv. þm. og vanmeti ekki þekkingu hans, legg ég í þessum efnum meira upp úr þekkingu þeirra Sverris Júlíussonar og Matthíasar Bjarnasonar, þegar þeir tala um þessi mál sem stjórnarnm. í Landssambandi ísl. útvegsmanna. Og þess vegna er það, að ég ásamt þeim mun ákveðið greiða atkv. gegn þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, og treysti því, að aðrir þm. geri slíkt hið sama, þó að mér hafi ekki tekizt að fá hv. 3. þm. Sunnl. til að fylgja þeim Sverri og Matthíasi í þessu máli.