22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég verð satt að segja alltaf meira og meira undrandi eftir því, sem ég heyri meira frá hæstv. ráðh. um þessi mál. Menntmrh. segir t.d. hér áðan, að það eigi að halda öllu óbreyttu, það eigi að hafa sömu embættismenn áfram og hann geti ekki gert sér grein fyrir, hvort það verði nokkur sparnaður að þessu eða ekki. En hér í frv. er gert ráð fyrir því í 7. lið 1. gr., að það verði 2 millj. kr. sparnaður strax á þessu ári. (Fjmrh.: Það er misskilningur...) Já, og fræðslumálaskrifstofan er nefnd þar líka. En meginatriðið er þetta, sem hæstv. ráðh. virðist ekki skilja. Hann er að gefa yfirlýsingar um það, að hann ætli að láta fræðslumálastjórann halda áfram og ætli að láta allt þetta kerfi halda áfram þrátt fyrir, að búið sé að samþykkja lög hér á Alþ. um að leggja þetta niður. Það, sem felst í 7. gr. frv., er, að fræðslumálastjóraembættið skuli lagt niður og fræðslumálaskrifstofan. Ef menn lesa lög frá 1930, verður það ljóst, að sé búið að afnema þau, er ekki lengur til neinn fræðslumálastjóri og ekki til lengur nein fræðslumálaskrifstofa. Og ætli hæstv. ráðh. að halda þessu áfram samt eftir sem áður, er það hreint lagabrot — brot á þessum lögum, sem hann hefur verið að beita sér fyrir að fá samþykkt.

Ég held, að hæstv. ráðh. hljóti við nánari athugun þessa máls að gera sér þetta ljóst, að samþykki hann 7. gr. eins og hún er, er hann að binda hendur sínar, og þá verður hann að leggja fræðslumálastjóraembættið niður og fræðslumálaskrifstofuna, vegna þess að það er ekki neinn lagabókstafur fyrir henni lengur — m.a.s. liggur þá fyrir, að þingvilji sé fyrir því að fella þessar stofnanir niður. Ég held, að hæstv. ráðh. hljóti að gera sér þetta ljóst, að láti hann samþykkja 7. gr. óbreytta og ætli hann samt að halda öllu óbreyttu áfram, þá er það hreinlega lagabrot og brot á þeim þingvilja, sem þá hafði komið fram hér á Alþ. Hitt er svo allt annað mál að koma þessum stofnunum undir sama þak og vinna að aukinni hagræðingu á starfi þeirra. Það er ákaflega vel hægt og vel auðvelt án þess að leggja niður lög frá 1930. Það þarf enga lagabreytingu til þess að hafa þessa stofnun undir sama þaki og samræma skrifstofur þeirra. Það er ekkert annað heldur en bara vinnuatriði í menntmrn. að sjá um það, og er skömm til þess að vita, að ekki skuli vera búið að gera það.