26.03.1968
Efri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Orsakirnar fyrir því, að þetta frv. til lækkunar ríkisútgjalda er flutt hér, svo skömmu eftir að fjárl. eru afgreidd, eru þær, sem öllum hv. þdm. eru kunnar af margvíslegum umr. um það mál hér í hv. d. í sambandi við ýmis mál, sem fyrir hafa komið eftir áramót. Það kom í ljós við athugun á afkomu sjávarútvegsins um áramótin, að talið var óumflýjanlegt að beita sér fyrir verulegri viðbótaraðstoð sjávarútveginum til handa — bæði báta —útveginum og hraðfrystihúsunum — auk þeirrar fyrirgreiðslu, sem að sjálfsögðu fólst í gengisbreytingunni fyrir sjávarútveginn, og er talið, að þessi aðstoð nemi rúmum 320 millj. kr. Þegar fjárl. voru afgreidd, var gert ráð fyrir því, að greiðsluafgangur, sem að vísu var ekki tekinn í fjárl., mundi geta orðið á árinu 1968 um 250 millj. kr. Ástæðan til þess, að þessi fjárhæð var ekki tekin inn í fjárl. sem greiðsluafgangur, var, að gert var ráð fyrir því, að tollar yrðu lækkaðir sem næmi þessari fjárhæð, þannig að ekki yrði neitt afgangs hjá ríkissjóði, þar eð ríkisstj. lýsti því yfir, að hún vildi nota alla tiltæka möguleika til þess að létta mönnum áhrif gengisbreytingarinnar.

Það er þarflaust að rekja þá sögu til þess að lengja ekki þessar umr., en það var niðurstaðan eftir rækilega athugun, að ráðizt var í að lækka tolla sem nam um 160 millj. kr. tekjutapi fyrir ríkissjóð á þessu ári, og miðað við þá aðstoð, sem sjávarútveginum var lofuð, og að frádregnum þeim greiðsluafgangi, sem talið var að gæti orðið, vantaði um 200 millj. kr. eða réttara sagt um 240 millj. kr. til þess, að endar næðu saman. Sérstök fjáröflun fór fram í sambandi við hækkun á verði áfengis og tóbaks, en að öllum þessum ráðstöfunum gerðum vantaði enn 200 millj. kr., og í þessu frv. er till. til úrlausnar á þeim vanda, hvernig eigi að brúa þetta bil. Það er gert með tvennum hætti annars vegar með því beinlínis að lækka útgjöld, sem gert er ráð fyrir í fjárl., um 138 millj. kr. og hins vegar með því að gera ráð fyrir lántöku að upphæð 62 millj. kr. til þess að afla fjár til tiltekinna ríkisframkvæmda, fyrst og fremst menntaskóla og sjúkrahúsa. Á undanförnum árum hefur töluverðs fjár verið aflað innan framkvæmdaáætlunarinnar með lánum til ríkisframkvæmda. Á s.l. hausti var tekið inn í fjárl. töluvert af þeim fjárhæðum fyrir árið 1968, þar eð sýnt þótti, að mjög þröngt yrði á lánamarkaði á árinu 1968 og því bæri brýna nauðsyn til að íþyngja lánamarkaðnum ekki um of. Var því gert ráð fyrir að draga mjög verulega úr því fé, sem leitað væri eftir á hinum almenna lánamarkaði til ríkisframkvæmda, og í því skyni voru teknar inn í fjárl. allháar fjárhæðir ætlaðar til framkvæmda, sem síðustu tvö árin hafði verið aflað fjár til með lántökum innan framkvæmdaáætlunarinnar.

Þegar við stóðum andspænis þeim vanda að brúa þetta 200 millj. kr. bil og þar sem ekki þótti á þessu stigi auðið að ráðast í frekari lækkun ríkisútgjalda en þetta frv. ber með sér, þá var að sjálfsögðu ekki margra kosta völ, ef átti að brúa þetta bil, sem á vantaði — þessar 60 millj. kr. Í raun og veru var ekki nema um þrjár leiðir að ræða, annaðhvort að fella þessar framkvæmdir niður, sem ekki var mögulegt af mörgum ástæðum, eða að afla til þeirra lánsfjár svo sem hér er lagt til — eða í þriðja lagi, sem var ekki talið gerlegt miðað við allar aðstæður, að ráðast í nýja skattlagningu til þess að afla þessa fjár. Það kann að virðast, að það sé ekki stórt átak að spara 138 millj. kr. á ríkisútgjöldum, sem nema nú um 5000 millj. kr., en með hliðsjón af því, að við afgreiðslu fjárl. var lögð á það rík áherzla að halda öllum útgjaldaliðum í lágmarki — öllum stofnunum var neitað um fjárveitingar til allrar nýrrar starfsemi og lagt kapp á að gæta þess í hvívetna að halda fjárlagaútgjöldum niðri — hlaut svo að fara, að það yrði jafnvel erfitt verk að lækka ríkisútgjöld um 138 millj. kr. til viðbótar, og vitanlega var ekki hægt nema með ýmsum ráðstöfunum að draga úr þeirri þjónustu, sem ríkið veitir. Í þessu efni var fylgt þeirri meginstefnu annars vegar að lækka ekki að neinu ráði fjárveitingar til verklegra framkvæmda og í hinn staðinn að hagga ekki í grundvallaratriðum þeirri þjónustu, sem ríkið hefur forgöngu um. Það voru því mjög þröngar dyr, sem varð að ganga um til þess að ná þessum 138 millj. kr.

Það er enda rétt að taka það fram, að þessi sparnaður, sem hér er gert ráð fyrir, skilar sér ekki að öllu leyti á þessu ári. Þar sem um er að ræða t.d. uppsögn manna eða fækkun í starfsliði, þá krefst það ákveðins uppsagnarfrests, og sum þessara útgjalda eru með þeim hætti, að ráðstafanir hafa ekki áhrif nema að takmörkuðu leyti á þessu ári og ekki að fullu fyrr en á næsta ári. Þó að frv. sé að vísu í meginatriðum miðað við að leysa vandann á þessu ári, eru sum atriði þess, sem snerta framtíðina, og það byggist á þeirri staðreynd, að það er augljóst mál, að það verður miklum erfiðleikum bundið að koma saman (fjárl. fyrir árið 1969. Þess vegna verður að kanna mjög rækilega áfram allar hugsanlegar leiðir til þess að draga enn úr ríkisútgjöldum, ef ekki á að verða óumflýjanlegt að leggja í stórfelldar skattaálögur á næsta hausti, en svo sem ástatt er í þjóðfélaginu miðað við þá tekjurýrnun, sem orðið hefur, er það auðvitað mjög mikilvægt, að reynt sé að halda sem mest óbreyttu hlutfalli þess, sem ríkið tekur af þjóðfélagsborgurum, og því eðlilegast að kanna öll úrræði til þess að lækka útgjöld. Ég ætla ekki að fara að ræða það á þessu stigi málsins, en hins vegar leggja á það áherzlu, að víðtækar sparnaðarráðstafanir í þessu skyni verða auðvitað ekki framkvæmdar nema með því að skerða verulega margvíslega, veigamikla þjónustu, sem ríkið veitir þjóðfélagsborgurunum, og það kann að verða nauðsynlegt að gera. Þó að menn veiti sér eitt og annað og eðlilegt sé talið að geta gert það á meðan fjárráð eru nóg, verða menn auðvitað að, haga útgjöldum sínum eftir aðstæðum hverju sinni og draga þá saman seglin, ef að þrengir.

Það er vitanlega óvenjulegt að breyta fjárl. með þeim hætti, sem hér er gert, en öðruvísi verður það ekki gert, eftir að fjárl. hafa verið afgreidd. Það er einnig að sjálfsögðu mjög óvenjulegt að breyta með einu frv. svo margvíslegum lagaákvæðum sem gert er í þessu frv. hér. Fyrir þessu er eitt fordæmi frá 1940. Þá voru gerðar víðtækar ráðstafanir til sparnaðar og lækkunar útgjalda í fjárl., og það var gert með beinum lögum, þar sem frestað var eða felldar voru niður margvíslegar greiðslur bæði samkv. fjárl. og samkv. sérstökum l. Hefði átt að fara að breyta öllum lögum, sem hér er um fjallað í þessu frv., þá hefði það orðið svo viðamikið, að það var óframkvæmanlegt. Auk þess verður á það að líta, að þó að þessum l. sé víða breytt, er þetta gert sem bráðabirgðabreyting. Það er ekki fastákveðið í mörgum greinum, að þessar lagabreytingar verði til frambúðar — það þarf allt að skoðast nánar og verður auðvitað að gerast í sambandi við undirbúning næstu fjárl., hvað menn geta leyft sér í því efni.

Ég ætla nú ekki að orðlengja mikið um þær einstöku breytingar, sem hér eru gerðar. Þær hafa verið ræddar svo mikið — að vísu ekki í þessari hv. d., svo að það er að sjálfsögðu skylt að ræða þær hér eftir því, sem menn óska eftir — að ég efa ekki, að hv. þm. hafa gert sér til hlítar fulla grein fyrir þeim, og skal ég því láta nægja að fara um þær mjög fáum orðum til þess að lengja ekki ræðu mína um of.

Það er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi að lækka framlög til stjórnarráðsins um 2 millj. kr. Þessi lækkun er gerð á ýmsum liðum, annars vegar bæði á risnukostnaði og hins vegar á ýmsum tilkostnaði rn., sem mundi þá ganga út yfir bæði nefndakostnað, ýmsan kostnað við stjórnarráðið, tækjakaup og annað, sem veitt hefur verið fé til. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir, til þess að þessi sparnaður geti orðið raunhæfur á þessu ári. Þá er í öðru lagi lagt til að fella niður framlag til stjórnarráðshúss. Það hefur verið safnað fé til þess um alllangt árabil, og er nú töluvert í sjóði, en það er ekki áformað að ráðast í þessa framkvæmd á þessu ári og engin endanleg ákvörðun hefur verið um það tekin, hvenær það verður gert. Því hefur verið gripið til þess ráðs í þessu frv., eins og hv. þdm. sjá, að fella niður ekki aðeins þessa fjárveitingu, heldur fella einnig úr nokkrum öðrum liðum fjárveitingar, þar sem verið er að safna í sjóð í samhandi við tilteknar byggingarframkvæmdir, sem ekki er ætlunin að ráðast í á árinu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að lækka framlag til Viðeyjarstofu um 4 millj. kr. Gert var ráð fyrir 10 millj. kr. fjárveitingu í senn til þess að kaupa þessa eign og til þess að ráðast í viðgerðir, en að sjálfsögðu þarf að gera mikið við húsakost þar. Þetta fé mun nægja til þess að ganga frá kaupunum, en hins vegar verður frestað á þessu ári að ráðast í nokkrar framkvæmdir á Viðeyjarstofu. Þá er lagt til að fella niður fjárveitingu til Háskólans, sem nemur launum handa tveimur prófessorum, sem ekki hafa verið skipaðir, og ákveðið er að leita heimildar til að fresta skipun í þessi embætti, þangað til Alþ. ákveður annað.

Allverulegar breytingar eru gerðar á skólamálum. Í fyrsta lagi er þar um að ræða, að gert er ráð fyrir að lækka rekstrarkostnað skóla um 6,6 millj. kr., en þó án þess að draga úr kennslu, eins og tekið er fram í grg. Rétt er að leggja á það áherzlu, að þetta muni ekki hafa nein veruleg áhrif á fjárl. þessa árs, vegna þess að þau eru við það miðuð að greiða kostnað, sem féll til á s.l. ári, en það, sem þessi tala er við miðuð, er að gera sérstakar ráðstafanir til þess að lækka þann tilkostnað, sem áætlað hefur verið, að nýju skólakostnaðarlögin leiddu af sér. Þetta er talið auðið að gera að vísu með verulegu aðhaldi, en með því að gæta þess mjög vendilega, að ekki séu hagnýtt þau réttindi eða heimildir, sem eru til kennararáðninga, nema að svo miklu leyti sem það er óumflýjanlegt. Séu þessar heimildir notaðar út í yztu æsar, þá er þarna um að ræða stórkostlega útgjaldaaukningu, sem fjarstæð er með öllu. Það má nokkurn veginn fullyrða það við nánari athugun á þessu máli, að með sterku aðhaldi á þessu sviði eigi að vera hægt að draga verulega úr þeim kostnaði, sem gert var ráð fyrir, að af þessum nýju skólakostnaðarlögum mundi leiða. Þá er í annan stað varðandi skólana gert ráð fyrir því að lækka þá upphæð, sem er til ráðstöfunar til bygginga á þessu ári, um 5 millj. kr. á framkvæmdaáætlun. Undanfarin ár hefur þetta fé verið lánað til framkvæmda við aðra skóla til að hraða þeim, en þessar lánveitingar verða takmarkaðar á þessu ári, sem nemur umræddum 5 millj. kr. Engu að síður munu framlög til skólabygginga verða mun hærri heldur en á s.l. ári, en þá námu þær um 92 millj. kr. með þeim 10% niðurskurði, sem þá var á slíkum framlögum. Þær mundu miðað við þá lækkun, sem hér er um að ræða, verða 108,2 millj. kr., þannig að raunveruleg aukning skólabyggingafjár á árinu 1968 frá árinu 1967 verður rúmar 16 millj. kr. þrátt fyrir þessa ákvörðun. Þá er gert ráð fyrir í þriðja lagi varðandi fræðslumálin að breyta mjög verulega námsstjórakerfinu og þátttöku ríkisins í kostnaði við fræðslumálastjóraembættið í Reykjavík. Það er ekki ætlunin að afnema námsstjórakerfið að öllu leyti. Það er nauðsynlegt að hafa eftirlitsnefnd — ekki sízt með framkvæmd skólakostnaðarlaga, og gert er ráð fyrir því, að sú skipulagsbreyting, sem hér er fyrirhuguð, geti á ársgrundvelli numið rúmum 2 millj. kr. sparnaði. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að gera grundvallarbreytingu varðandi yfirstjórn fræðslumálanna, svo sem segir nánar í frv., á þann hátt, að fræðslumálaskrifstofan verði lögð niður sem sérstök stofnun, fræðslumálastjóri og þær deildir aðrar, sem tilheyra fræðslumálaskrifstofunni, verði hér eftir sameinaðar menntmrn. og fræðslumálastjóri verði deildarstjóri í þeirri deild og annist þar þau sömu verkefni og fræðslumálaskrifstofan nú hefur. Ásamt honum færast þangað aðrir þeir starfsmenn fræðslumálaskrifstofunnar, sem tilgreindir eru í frv., bæði íþróttafulltrúi, bókafulltrúi og starfsmenn fjármálaeftirlits skólanna og Fræðslumyndasafns ríkisins. Þetta verði allt deildir í menntmrn. Það er ekki tiltekin í frv. sú fjárhæð, sem við þetta sparast, en athugun virðist ótvírætt leiða í ljós, að af þessu geti orðið allverulegur sparnaður með betri hagnýtingu starfskrafta við að hafa þessa starfsemi alla á einum stað.

Lagt er til að lækka fjárveitingu til Kennaraskólans um 1 millj. kr., sem stafar af því, að ákveðið var að kaupa bókasafn til skólans, gerður var um það samningur og gert ráð fyrir, að borga þyrfti 1 millj. kr. á ári til þeirra framkvæmda, en talið er auðið að fella þá greiðslu niður í ár.

Þá er gert ráð fyrir að lækka framlag til Byggingarsjóðs safnahúss um 1 millj. kr. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir að fella þetta framlag alveg niður, en það komu fram sterkar raddir um það hér á hinu háa Alþ., að æskilegt væri að hafa einhverja fjárhæð þarna því til staðfestingar, að þessi bygging skyldi reist, enda þótt sýnilegt væri að sjálfsögðu, að það hefði ekki nein áhrif á það, hvort byggingin yrði reist fyrr eða seinna, hvort fjárhæðin væri 500 þús. kr. eða 11/2 millj. kr. Þetta verður mikið hús, þegar þar að kemur að reisa það, og því aðeins um undirbúningsráðstafanir að ræða nú, en rétt þótti að fallast á það sjónarmið að festa þetta fyrirhugaða hús í fjárl. með einhverri byrjunarfjárveitingu.

Gert er ráð fyrir að lækka framlag til þjóðgarðs á Þingvöllum um 1/2 millj. kr. Ég sé ekki ástæðu til að ræða það sérstaklega.

Lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli hefur löngum verið rætt hér á Alþ. og talið, að kostnaður við það væri óeðlilega mikill. Þessi kostnaður hefur lækkað vegna þess, að undir embættiskostnaðinn þar heyrir tollgæzlan á Keflavíkurflugvelli, sem aukizt hefur verulega á síðustu árum við geysilega aukningu umferðar á vegum Loftleiða og nú síðast Flugfélags Íslands, þar sem starfsemi þessara aðila við utanlandsflugið er á Keflavíkurflugvelli. Það þótti hins vegar rétt að taka þetta til athugunar og rannsaka rækilega, hvort ekki væri hægt að koma hér við einhverjum sparnaði og samdrætti á þessari starfsemi þar, og er talið auðið að lækka þessi útgjöld um 2 millj. kr. Vera kann, að hægt sé að ganga lengra í því efni, og verður haldið áfram að athuga það, en á þessu stigi þykir ekki raunhæft að gera ráð fyrir meiri sparnaði.

Þá er lagt til að lækka framlag til utanríkisþjónustu um 3 millj. kr. Áformað hafði verið að leggja niður tvö sendiráð á Norðurlöndum, í Osló og Stokkhólmi. Það kom hins vegar á daginn, að viðkomandi ríkisstjórnir töldu það mjög miður, að í þetta yrði ráðizt, og á þessu stigi þótti því ekki fært að framkvæma þessar ráðstafanir, en hins vegar er ætlunin að spara þennan tilkostnað með því að kalla heim fimm sendiráðunauta og talið, að sparazt geti á þessu ári um 3 millj. kr. í því sambandi.

Gert er ráð fyrir því að lækka framlag til Landnáms ríkisins allverulega eða um 7,5 millj. kr. á þessu ári og 7,5 millj. kr. á næsta ári. Frekari ákvörðun hefur ekki verið um það tekin. Ég geri ráð fyrir, að ekki sé um það ágreiningur, enda kom það fram í hv. Nd., að þetta teldist út af fyrir sig vera eðlileg ráðstöfun með hliðsjón af því, að ekki væri æskilegt að stuðla að aukningu eða fjölgun nýbýla eins og nú standa sakir með framleiðslu og sölu landbúnaðarvara. Það eina, sem ágreiningur var um í Nd., var, hvort ætti að taka þetta fé og nota það með einhverjum öðrum hætti; það er önnur saga. Það verður ekki talið mögulegt að gera meðan við erum að leita úrræða til þess að draga úr útgjöldum, heldur verði í bili að fella þetta niður, og eðlilegt sé að gera það, úr því að ekki er talin brýn nauðsyn á að nota það til þeirra þarfa, sem féð hefur beinlínis verið ætlað til.

Þá er gert ráð fyrir því að stefna að því að spara 4 millj. kr. á fiskmati, ferskfiskeftirliti og síldarmati. Það hefur þegar verið — eða nú síðast held ég í gær — útbýtt hér á Alþ. nýju frv. um sameiningu allra þessara mata og endurskipulagningu á yfirstjórn þeirrar starfsemi. Gert er ráð fyrir því, að framkvæmdinni verði hagað á þann veg, að það verði auðið að spara sem svarar þessum fjárhæðum, enda þótt það frv. tilgreini ekki beint nákvæmlega framkvæmdaatriði í því efni. Að því er stefnt með þessari endurskoðun, sem felst í því frv., auk þess sem þar er að sjálfsögðu um að ræða almenna skipulagsbreytingu, sem er talin vera til bóta við framkvæmd þessarar þjónustu.

Lagt er til að breyta hlutfalli því, sem ríkisframlag er greitt eftir til Aflatryggingasjóðs, úr 50% eða úr helmingi í þriðjung á móti framlagi sjávarútvegsins. Þetta er byggt á áætlun, sem gerð var á s.l. hausti um rekstrarafkomu Aflatryggingasjóðs á árinu 1968. Vitanlega er það rétt, að það er mjög erfitt að gera slíkar áætlanir, og þess vegna verður þetta allt að byggjast á líkum, en fjárreiður sjóðsins bentu þó til þess, að það væri auðið að framkvæma slíka lækkun sem hér er um að ræða, án þess að það þyrfti að hafa áhrif á starfsemi sjóðsins. Rétt er að taka fram, að ekki er ætlunin að breyta starfsreglum sjóðsins eða þeim greiðslureglum, sem hann fylgir við úthlutun bóta.

Gert er ráð fyrir því að fella niður framlag til Fiskveiðasjóðs Íslands — 30 millj. kr. Með því var reiknað í sambandi við ráðstafanirnar í þágu sjávarútvegsins, og það er því raunar fyrirkomulagsatriði, hvort þessi niðurfelling á sér stað eða framlagið til sjávarútvegsins er talið 30 millj. kr. lægra. Það var með því reiknað í öllum umr. um þetta mál, að þetta framlag yrði fellt niður á þessu ári og við það er talan um 320 eða 324 millj. kr. til sjávarútvegsins miðuð.

Þá er gert ráð fyrir að lækka framlag til Orkustofnunar og Orkusjóðs um 4,5 millj. kr. Þar er annars vegar um að ræða lækkun á jarðhitarannsóknum og hins vegar á vatnamælingum. Hér er auðvitað um nauðsynlega starfsemi að ræða, en hins vegar talið ógerlegt að gera þetta, án þess að það leiði til einhverra vandræða. Það má á það benda, að heildarfjárveiting til Orkustofnunar er nú 24 millj. kr. og til Orkusjóðs 29 millj. kr., þannig að þar er um samtals 53,6 millj. kr. að ræða, sem greiddar eru til Orkustofnunar og Orkusjóðs á árinu 1968.

Gert er ráð fyrir að lækka framlag til löggæzlu um 6,8 millj. kr., sem svarar til um 5% löggæzæslukostnaðar. Það hefur ekki verið endanlega ákveðið, á hvaða liðum þessi lækkun verði, og ég skal ekki fullyrða um það, að það verði að öllu leyti hægt að koma við þessum sparnaði í ár, en að því verður stefnt, og þegar er búið að setja í gang athugun á því, með hvaða hætti verði tiltækilegast að ná fram þessum sparnaði. Tilkostnaður við löggæzlu hefur vaxið mikið á undanförnum árum, en þar er fyrst og fremst um að ræða, að það hafa verið sett ný lög um löggæzlu eða lögreglumenn, sem hafa aukið stórlega þátttöku ríkisins í löggæzlukostnaði sveitarfélaga. Mjög hefur verið sótt að sveitarfélögunum, eins og hv. þdm. allir vita, um að efla löggæzluna og fá aukna aðstoð frá ríkinu í því sambandi, en hins vegar er hér um það veigamikinn útgjaldalið að ræða, að það þykir sjálfsagt og eðlilegt að kanna það til hlítar, hvort ekki er hægt með endurskipulagningu, án þess að það valdi tjóni í löggæzlunni, að stefna að því að draga eitthvað úr útgjöldum við þessa þjónustu.

Þá er gert ráð fyrir að lækka framlag til byggingar fangahúsa og ríkisfangelsa um 1 millj. 360 þús. kr. Lögbundið framlag til ríkisfangelsa er 1 millj. kr., en ekkert lögbundið framlag er til héraðsfangahúsa. Nú hefur þegar verið tilkynnt um fjárveitingu vegna ríkisfangelsis um 11,4 millj. kr. Þetta er auðvitað framkvæmd, sem nauðsynlegt er að ráðast í sem fyrst, en þetta verður mikið mannvirki, þegar hafizt verður handa um að byggja það. Auðvitað mun það ekki ráða neinum úrslitum um, hvenær í það verður ráðizt, hvort þessi fjárveiting verður veitt í ár eða ekki,, enda þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla fjár með einhverjum hætti til byggingarinnar, þegar tekið verður til við hana.

Lagt er til að fella niður framlag til hægri umferðar, 18,4 millj. kr. Í lögum um hægri umferð er gert ráð fyrir að afla fjár til þeirrar breytingar með sérstöku gjaldi á bifreiðar, sem dreifist á visst árabil. Kostnaðurinn við framkvæmdina fellur hins vegar til að verulegu leyti á þessu ári, og það er því nauðsynlegt að afla verulega aukins fjár til þess að standa straum af þeim kostnaði. Það þykir hins vegar mjög eðlilegt, úr því að ríkissjóður þarf að draga saman seglin með sín útgjöld, að létta af honum þeirri kvöð, sem ætlunin var að leggja á hann og taka að láni þessar 18,4 millj. kr. og það er ekki reynt að leysa það mál með öðrum hætti, þar sem það var, hvort sem er, ekki ætlunin, að ríkissjóður legði endanlega fram þetta fé.

Gert er ráð fyrir að lækka mjög verulega framlag til Almannavarna eða um 3 millj. kr., og verður þá aðeins eftir fé til þess að standa straum af rekstrarkostnaði þeirrar starfsemi. Almannavarnir hafa á undanförnum árum safnað að sér ýmiss konar birgðum. Í það hefur þetta fé verið notað, og talið er hægt að lækka þetta framlag, sem þessu nemur, á þessu ári.

Þá er gert ráð fyrir, að framlag ríkisins til eyðingar meindýra falli niður og það verði mál sveitarfélaganna eingöngu. Ekki er hægt að telja neitt eðlilegt við það, að það sé sérstakt framlag frá ríkinu í þessu sambandi, en hins vegar er rétt að taka það fram, að þetta hefur ekki áhrif á þessu ári, vegna þess að það kemur ekki til fyrr en á árinu 1969. Framlagið er greitt eftir á og er sett hér í þetta frv. með hliðsjón af því, að það er, eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, ekki eingöngu miðað við árið 1968, heldur einnig árið 1969.

Gert er ráð fyrir að leggja niður tvö prestsembætti á Keflavíkurflugvelli og í Danmörku. Þessi embætti eru hvorugt innan ramma prestakallaskipunarinnar, en hafa verið sett á stofn á undanförnum árum, og það þykir eðlilegt — þó að þetta geti verið gott og nauðsynlegt og sé það — að gera þá breytingu, sem hér er lagt til, þ.e. að fella þessi embætti niður, eins og sakir standa.

Þá er gert ráð fyrir að leggja það á Póst og síma að taka að sér framkvæmd skyldusparnaðar og framkvæmd orlofslaga. Það hefur að vísu verið verulegt deilumál undanfarin ár. Póstur og sími hefur aldrei talið sig fá nægilega greiðslu til að standa undir þessum kostnaði, en það hefur verið deilumál, enda erfitt að reikna það nákvæmlega út. Það er hins vegar alveg ljóst, að Póstur og sími hefur í veltu sinni mjög miklar fjárhæðir á hverjum tíma einmitt vegna þessarar þjónustu, sem léttir mjög rekstrarfjárútvegun þessarar stofnunar, þannig að á því sviði hefur stofnunin veruleg hlunnindi af þessari þjónustu. Það þykir því ekki óeðlilegt, að hægt sé að gera ráð fyrir, að stofnunin geti tekið þetta að sér og létt þessu af ríkissjóði.

Einnig er gert ráð fyrir, að ætla megi, að framlag til Ríkisábyrgðasjóðs geti orðið 10 millj. kr. lægra á þessu ári en áætlað er í fjárl. Fjárveitingin var hækkuð mjög verulega í fjárl. þessa árs með hliðsjón af þeim miklu erfiðleikum, sem fyrst og fremst sjávarútvegurinn átti við að stríða, og með hliðsjón af vaxandi vanskilum á s.l. ári. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um þetta efni, en þær ráðstafanir, sem gerðar eru nú til þess að bæta aðstöðu sjávarútvegsins m.a. til þess að standa í skilum með sínar lánsskuldbindingar, ættu að geta leitt til þess, að vænta mætti meiri skilvísi á ríkisábyrgðasjóðslánum, þannig að reikna mætti með, að eitthvað létti á ríkissjóði vegna vanskila, sem ella hefðu orðið á þessum lánum.

Gert er ráð fyrir að lækka framlag til kaupa á ríkisbifreiðum úr 3,6 í 2,6 millj. kr. Á undanförnum árum hafa þær bifreiðar verið endurnýjaðar töluvert. Hins vegar hefur þeirri stefnu verið fylgt síðustu tvö árin, að engin fjölgun hefur átt sér stað í slíkum bifreiðakosti, og unnið hefur verið að því að setja fastar reglur um bifreiðaeign ríkisins embættismanna sérstaklega — hverjir skuli hljóta þau hlunnindi, og þeirri athugun er nú lokið. Á hinn bóginn hefur þótt rétt að stefna að því að halda ekki við gömlum bifreiðum. Það hefur reynzt vera mjög dýrt, og þess vegna hefur verið leitazt við að endurnýja þessar bifreiðar nokkuð oft. Þær eru flestar nokkuð nýjar af nálinni, þannig að það þykir mega gera ráð fyrir því að skerða þetta framlag, án þess að það þurfi að hafa áhrif til hins verra á endurnýjun bifreiða.

Þá er gerð nokkur lækkun á framlagi til vitamála, sem er miðuð við það að fresta einni framkvæmd, sem á að vera auðið að fresta. Þessi frestun mundi hafa í för með sér nokkra lækkun.

Loks er gert ráð fyrir því, að framlag til Ferðaskrifstofu ríkisins verði lagt niður þ. á m. fjárveiting til landkynningar — 500 þús. kr. Þetta byggist ekki á því, að menn hafi ekki opin augun fyrir nauðsyn þess að stuðla að landkynningu, heldur á því að það er annars vegar talið eðlilegt, að Ferðaskrifstofa ríkisins geti með sinni venjulegu starfsemi staðið straum af hinum almenna rekstri sínum, og hins vegar er byggt á því sjónarmiði, að sú verzlunarstarfsemi, sem Ferðaskrifstofan hefur, skilar verulegum hagnaði. Eðlilegt er því talið, að sá hagnaður renni einmitt til landkynningarinnar. Aðstaða Ferðaskrifstofunnar hefur einmitt á þessu sviði verið bætt mjög verulega á þessu ári með minjagripaverzlun á Keflavíkurflugvelli, og nýlega hefur verið gerð ráðstöfun til að bæta aðstöðu Ferðaskrifstofunnar enn meira með því, að ákveðið hefur verið að krefjast ekki söluskatts af þeim munum, sem seldir eru í þessari verzlun. Við þetta fær Ferðaskrifstofan töluvert meira fé, þannig að ekki þykir óraunhæft að reikna með, að hægt sé að lækka framlagið til hennar svo sem hér er gert ráð fyrir.

Ég hef áður gert grein fyrir ákvæðum l. um lántökur og sé ekki ástæðu til þess að gera það, nema frekara tilefni gefist til.

Síðari gr. frv., sem ég hef ekki sérstaklega rætt um, tel ég heldur ekki ástæðu til að gera að umtalsefni vegna þess, að þær eru aðeins til þess að gera lögmætar þær ráðstafanir, sem getið er um í 1. gr., og fela í sér breytingar á lagafyrirmælum, sem nauðsynlegt er að breyta, til þess að gera þann sparnað mögulegan í ýmsum atriðum, sem ég hef nú vikið að.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að þreyta hv. þdm. á lengri framsögu um málið, en er að sjálfsögðu fús til þess að gefa allar þær upplýsingar, sem þörf er á, og einnig mun að sjálfsögðu hv. n., sem fær málið til meðferðar, geta fengið þær skýringar, sem auðið er að veita á einstökum atriðum frv. Ég vildi leyfa mér að fara þess á leit við hv. n., að hún reyndi að hraða svo afgreiðslu málsins, að við gætum lokið afgreiðslu þess, ef mögulegt væri, á fimmtudag, en það veltur að sjálfsögðu á velvilja allra hv. nm., að það sé auðið. Ég legg þá til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.