28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að lengja þessar umr. mikið, en ég heyrði það á hv. síðasta ræðumanni að hann virðist ekki vera sama sinnis og við gáfum í skyn á síðasta fundi hér, þegar þetta var til umræðu, þ.e. að við mundum ekki lengja umr. mikið, því að hann hélt hér erindi, sem var að mörgu leyti víðs fjarri því, sem þetta frv. fjallar um, og það er efni í langa svarræðu út af fyrir sig, en það mun nú sjálfsagt gefast tækifæri til þess, þótt síðar verði og mun ég ekki fara neitt út í það.

Frv. það, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, til lækkunar á ríkisútgjöldum hefur verið lítillega rætt í fjhn. Með þessu frv. er fyrirhugað að lögfesta lækkun á ýmsum útgjaldaliðum, nýsamþykkta, enda þótt till. frá stjórnarandstæðingum um sömu útgjaldaliði væru kolfelldar við fjárlagaafgreiðsluna. Þá voru þær lækkunartill. taldar sýndarmennska ein og ábyrgðarleysi, en nú eru þær góðra gjalda verðar og að sjálfsögðu taldar til dyggða. Þó að ég ætli ekki að tefja þessar umr. lengi, þá mun ég fara nokkrum orðum um þessar till. hér, sem eru nokkurs konar aukaútgáfa fjárl. fyrir árið 1968. Gengislækkunin var framkvæmd í nóv. s.l. Í grg. sérfræðinga þeirra, er um það mál fjölluðu, var því skýrt og afdráttarlaust lýst yfir, að hið nýja gengi væri við það miðað, að útgerð og fiskvinnsla yrði starfrækt án uppbóta eða framlaga frá ríkissjóði. Að baki þessum upplýsingum var talin liggja sú bezta vitneskja um ástand atvinnuveganna, sem nokkru sinni hefði verið fyrir hendi, en því miður hafa staðhæfingar og útreikningar um, að hið nýja gengi leysti allan vanda, reynzt markleysa. Allar þær ráðstafanir, sem síðar hefur þurft að gera, sanna það áþreifanlega, að á útreikningunum var ekkert að byggja. Þess vegna urðu tollalækkanir 160 millj. kr. í stað 250 millj. kr., eins og talað var um. Þess vegna þarf að leggja á nýjar álögur og þess vegna er þetta frv. komið fram hér til að lögfesta niðurskurð á fjárl. Enda kemur það fram í aths., sem þessu frv. fylgja, að síðari athuganir hafa leitt í ljós, að ríkisstj. hefur talið óumflýjanlegt að beita sér fyrir sérstakri fjárhagsaðstoð við bátaútveg og fiskvinnslustöðvar á þessu ári. Frá því að gengið var fellt í lok nóv. og fram í jan. þegar samningar voru gerðir við fiskiðnaðinn, hafði þó ekkert það gerzt varðandi afkomu þjóðarinnar, sem gaf sérstakt tilefni til aukinnar tekjuþarfar ríkissjóðs, ef útreikningar þeirra vísu manna í sambandi við gengislækkunina hefðu verið réttir. En það virðist hafa verið öðru nær. Þær upplýsingar, sem á var byggt, voru ekki eins glöggar eða greinargóðar, eins og af var látið.

En hvað sem annars má segja um aðdraganda þessa máls, hljóta menn að fagna þeirri viðleitni, sem sýnd er hér í sparnaðarátt, enda þótt raunverulegur sparnaður sé kannske ekki svo mikill hluti þessa frv., þá er sjálfsagt að viðurkenna viðleitnina. Ég mun ekki rekja hverja einstaka grein eða hvern lið frv. hér. Það hefur áður verið gert og ekki ástæða til að endurtaka það allt saman. Ég er heldur ekki svo kunnugur þessum málum, og við lestur þessa frv. virðist mér vera sá galli á því, að sé visað til einstakra ákveðinna liða, sem lækka á í fjárl. er ekki tiltekið um undirliði, svo að ekki er hægt að sjá, hvort verið er að ræða um lækkun á rekstrarkostnaði eða fjárfestingu — a.m.k. ekki fyrir þá, sem ekki eru því kunnugri völundarhúsi fjárl.

Frv. þessu má skipta í nokkra þætti. Í fyrsta lagi þann þáttinn, sem leysa á með lánsfé, þ.e. framkvæmd laga um hægri umferð, sem talið er samkv. 3. gr. frv., að þurfi að vera 18.4 millj. kr., og framkvæmdir við menntaskólana og Landspítalann, sem 2. gr. fjallar um. Samtals er þetta 81 millj. kr. Þarna fylgir og með heimild til lántöku fyrir ríkissjóð að upphæð 62 millj. kr. vegna skólanna og Landspítalans og heimild til fjáröflunar vegna laganna um hægri umferð. Þessum málaflokkum á að koma í framkvæmd. Það er yfirlýst af hálfu ríkisstj. Nú skal heimil lántaka, og virðist þó sú skoðun, sem kom fram af hálfu ríkisstj. við afgreiðslu fjárl. að ekki væri rétt að þrengja hinn almenna lánamarkað atvinnuveganna með lántökum ríkissjóðs, ekki eiga minni rétt á sér í dag en í des. s.l. Þá taldi ríkisstj. lántökuleiðina ófæra eða illfæra; nú er hún fær að dómi ríkisstj. Ef lántökuleiðin var illfær í des., þá er hún algjörlega ófær í dag að minni hyggju; ástand þessara mála er þannig. En svona geta menn, að því er virðist, litið ástandið misjöfnum augum.

Þá kemur annar flokkur, sem er um 77 millj. kr. Í þeim flokki ber mest á þeim upphæðum, sem fella á niður, t.d. framlag til Fiskveiðasjóðs 30 millj. kr., Aflatryggingasjóðs 11 millj. kr. og 10 millj. kr. til Ríkisábyrgðasjóðs.

Varðandi þessa liði er það að segja, að afkoma bátaútvegsins er þannig, að mikill hluti bátaflotans liggur nú undir uppboði vegna vanskila undanfarinna ára við Fiskveiðasjóð. Nú þegar — eða hinn 1. apríl — mun Fiskveiðasjóður auglýsa uppboðin, ef marka má tilkynningar sjóðsins, og það er meginhluti bátaflotans, sem fellur undir þetta. Fiskveiðasjóður hefur haft minni tekjur en búizt var við, þar sem miklu færri aðilar gátu samið við sjóðinn á síðasta ári og komið lánum sínum í lag en reiknað hafði verið með. Þess vegna má búast við því, að það reynist erfitt að vera án þess framlags frá Fiskveiðasjóði. Hjá Fiskveiðasjóði lágu um s.l. áramót óafgreiddar lánabeiðnir upp á 120 millj. kr. Virðist því sjóðurinn hafa nægt verkefni, þó að hann fengi þessa peninga. Hins vegar er það alveg rétt, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að sú ráðstöfun að leggja fram fé í stofnfjársjóð fiskiskipa — og frv. um það hefur verið lagt fram — mun mjög bæta afkomu Fiskveiðasjóðs og einnig vera til góðs fyrir bátaútveginn. Persónulega finnst mér það vera mjög til bóta og raunhæf ráðstöfun til handa bátaútveginum. En stofnfjársjóðurinn á ekki að hafa áhrif að minni hyggju nema frá ársbyrjun 1968. Sá sjóður á ekki að sinna fyrri tíma vanskilum, svo ógreiddar afborganir og vextir frá fyrri tímum eru eftir sem áður í vanskilum og óinnheimt.

Um framlagið til Aflatryggingasjóðs er það að segja, að ekki eru nokkrar líkur til þess, að sjóðurinn gæti verið án þessa framlags. Það er að vísu gert ráð fyrir því í aths. við frv., að fjárhagur sjóðsins hafi reynzt svo góður við athugun, að hann gæti verið án þessa. Ég held, að það sé á misskilningi byggt. Fyrir þessu þingi liggja hér ákveðin mótmæli frá L.Í.Ú. gegn því, að fjárveiting þessi verði felld niður. Þau mótmæli eru af kunnugum gefin, og ég tel, að sjóðurinn geti alls ekki verið án þessa framlags. Ef afli verður svipaður og í fyrra, mun sjóðurinn ekki geta, þó að hann fengi þetta framlag, sinnt sínu hlutverki — hvað þá ef afli minnkar. Þar sem ég þekki til, a.m.k. í Vestfirðingafjórðungi, er afli mun minni, og hlýtur því að þurfa að koma til bóta úr Aflatryggingasjóði vegna þess landsfjórðungs. Þannig að sá sparnaður, sem þetta á að gefa, virðist tæplega vera fyrir hendi, því að ríkissjóður mun verða að útvega fé til sjóðsins, hvað svo sem líður tölum í þessu frv. hér, og ég tel, að það liggi óhjákvæmilega fyrir, að sjóðurinn geti ekki verið án þessa framlags.

Um framlagið til Ríkisábyrgðasjóðs gegnir nokkuð svipuðu máli, að því er ég tel. Á þessu ári munu að öllum líkindum allverulegar greiðslur hugsanlega falla á Ríkisábyrgðasjóð, enda þótt staða bátaútvegsins skáni eitthvað gagnvart Fiskveiðasjóði, hefur það lítil sem engin áhrif gagnvart Ríkisábyrgðasjóði. Bæði er það, að mjög fáir bátar eru með ríkisábyrgðarlán, og ekki síður hitt, að fiskiðnaðurinn á allur í svo miklum erfiðleikum, að óhjákvæmilegt er annað frá mínu sjónarmiði en að fara í „konverteringu“ á lausaskuldum, þ.e. að koma lausaskuldum fiskiðnaðarins í fast form með lengingu lána, og jafnvel að fara í skuldaskil. Það mundi alveg vafalaust þurfa að koma til einhverra eftirgjafa hjá Ríkisábyrgðasjóði. Það hljómar kannske svolítið einkennilega eftir allt góðæristímabilið að tala um skuldaskil, en ég er alveg sannfærður um, eins og málum er háttað, að þetta hlýtur að koma, og því fyrr sem farið er í þetta, því betra. Fjöldamargir reyndir atorkumenn, sem hafa staðið í fararbroddi í fiskiðnaði og útvegi á undanförnum áratugum, eru bókstaflega að brotna niður í daglegum erfiðleikum við það að halda þessu gangandi. Slíkt ástand getur ekki gengið; það má ekki halda helztu mjólkurkú þjóðfélagsins í svelti. Ég skal ekki hér vera að kenna einum eða neinum um þetta ástand. Það sjá þetta allir, og þá er að viðurkenna vandann og takast á við hann. Það verður ekki umflúið frá mínu sjónarmiði.

Um skólamálin og menntamálin er það að segja, að enda þótt skólabyggingar hafi risið upp undanfarið fyrir lánsfé, hlýtur að koma að því, að ríkið verði að leggja fram meira fé en áður. Það eru þegar mjög verulegar skuldir vegna skólabygginga. Það kom fram við síðustu afgreiðslu fjárl., að ríkisstj. hyggðist breyta hér um og leggja fram meira fé. Nú er horfið frá því. Ég vildi þó vona, að þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, yrðu ekki til þess að torvelda meira en orðið er skyldunám barna í dreifbýlinu, sem þegar njóta sums staðar ekki nema hluta af skólatíma barnanna í þéttbýlinu. Ég óttast, að þær breytingar, sem gera á samkv. frv. þessu, verði til þess að torvelda eða minnka þá fyrirgreiðslu, sem skólamál dreifbýlisins hafa notið fyrir atbeina fræðslumálaskrifstofunnar, þó að fyrir liggi yfirlýsingar ráðh. um það, að þar skuli ekki neitt skert. Þjóðin hefur ekki efni á því að minnka þá aðstoð, sem dreifbýlið hefur fengið í skólamálum, jafnvel þó að fjármál ríkisins séu erfið.

Í þriðja þætti þessa frv., sem ég hef minnzt á, eru ýmsir liðir, t.d. risna ríkisstj., sparnaður í stjórnarráði, utanríkisþjónusta, skyldusparnaður, orlofsframkvæmdir o.fl. Að sjálfsögðu ber að fagna því, eins og ég áðan sagði, ef um raunverulegan sparnað er að ræða, og vonandi verður það að sumu leyti, en að öðru leyti er hér um tilfærslu að ræða milli liða, t.d. milli Pósts og síma annars vegar og ríkissjóðs hins vegar í sambandi við sparimerki og skyldusparnað. Þessi leið hefur sjálfsagt verið til fyrr, þó að mönnum hafi ekki dottið í hug að fara hana, en það er gott að framkvæma þetta, úr því að það er fyrir hendi.

Í fjórða þætti þessa frv. eru svo þeir þættir, þar sem um raunverulegan sparnað er að ræða eða vonir standa til, að sé um raunverulegan sparnað að ræða. Sú upphæð er þó engan veginn svo stór hluti þessa frv., sem látið hefur verið í veðri vaka. Í þessum flokki eru prófessorsembætti við Háskólann, fræðslumálaskrifstofan og námsstjórarnir, þjóðgarðurinn á Þingvöllum, löggæzlan á Keflavíkurflugvelli, eyðing meindýra, prestsembætti í Kaupmannahöfn o.fl. Sá sparnaður, sem fram kemur í þessu, er góðra gjalda verður svo langt sem hann nær, og þeim till. munum við fylgja. Mörg atriði þessa frv. eru þess eðlis, að þau geta ekki leitt til sparnaðar á yfirstandandi fjárhagsári af augljósum ástæðum. Önnur eru þess eðlis, að ekki er unnt að gera sér grein fyrir, hvernig umræddum niðurskurði verður hagað. Þannig er t.d. um löggæzlukostnað á Keflavíkurflugvelli, enda kemur það fram í aths. við frv. Ég gat áðan um Aflatryggingasjóðinn, og því hefur verið lýst yfir, að ekki verður dregið úr starfsemi sjóðsins að neinu leyti. Sama gildir um skóla- og fræðslumálin. Þar á ekki að draga neitt úr þrátt fyrir breytingar og samdrátt. Reynslan sker úr um þetta, en það má auðvitað endalaust deila um þær tölur, sem í þessu frv. standa. En ákaflega held ég, að það sé létt í vasa, þó að t.d. sezt sé niður við skrifborð og tölum breytt, en ekkert annað gert.

Á þskj. 447 höfum við flutt nokkrar brtt. við 13. lið 1. gr. um Landnám ríkisins, við 16. lið 1. gr. um Aflatryggingasjóð og 17. lið 1. gr. um Fiskveiðasjóð. Við flytjum aðeins brtt. við þá liði, sem snerta undirstöðuatvinnuvegina. Við teljum ekki þannig ástatt um hag þeirra og afkomu, að unnt sé nú að draga úr stuðningi við þá, þó að breytt sé um verkefni eða önnur lögð til hliðar og ný tekin upp, sem gætu haft mjög mikla þýðingu fyrir atvinnugreinina.

Mér virðist frv. það, sem hér liggur fyrir, bera vott um, að að því hafi verið unnið á nokkuð yfirborðskenndan hátt. Að sumu leyti stefnir það í rétta átt, og því ber að fagna. Að töluverðu leyti gerir frv. ráð fyrir, að miklu sé skotið á frest til framtíðarinnar og ýtt á undan sér. Þó er viðurkennt, að svo illa sem gekk að koma saman fjárl. fyrir árið 1968 muni þó reynast enn erfiðara að koma fjárl. saman næsta haust.

Að sjálfsögðu hlýtur að vera hægt að koma við meiri sparnaði í rekstrarliðum en hér er lagt til, en úr því að einu sinni er nú gerð tilraun til að spara, er þess að vænta, að áfram verði haldið á þeirri braut, en til þess þarf þó áreiðanlega að taka betur á en gert hefur verið hér í þessu frv. Herra forseti. Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira og læt máli mínu lokið.