28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en nokkur orð, sem hv. 1. ræðumaður í dag, frsm. meiri hl. fjhn., lét hér falla, voru þess eðlis, að ég vil ekki láta þau hér fram hjá fara, án þess að þeim sé mótmælt. Ég mun þó minnugur þess fyrirheits, sem við gáfum við upphaf 1. umr. málsins, þ.e. að við framsóknarmenn mundum reyna að greiða fyrir þessu máli, eftir því sem hægt væri, ekki fara hér með mjög langt mál, enda þótt ræða hv. frsm. meiri hl. gæfi vissulega tilefni til alllangra umr. Sú ræða var þannig upp byggð, að hún átti að verulegu leyti að vera svar við ræðu, sem hv. 11. þm. Reykv. flutti hér við 1. umr. þessa máls, en að öðru leyti var ræðan um efni, sem þetta frv. fjallar ekki um. Ég mun ekki hér fara að svara sérstaklega fyrir hönd hv. 11. þm. Reykv. Ég veit, að hann mun eiga þess kost að hafa sama háttinn á eins og hv. frsm. meiri hl. að geyma sér að svara þessari ræðu, þangað til við 3. umr. Ég hefði að vísu haldið, að það væru venjulegri hættir að svara ræðum við hverja umr. fyrir sig, en þetta má sjálfsagt við hafa — og ekki meira um það.

En ég mun aðeins víkja hér að hugleiðingum hv. frsm. meiri hl. um gjaldeyris- og innflutningsmál og um leyfi og höft, sem honum varð ákaflega tíðrætt um. Ég held, að hv. 11. þm. Reykv. hafi ekki gefið neitt tilefni til þess að ræða þau mál svo almennt og á þann hátt, sem hv. frsm. meiri hl. gerði. En sannleikurinn er sá, að það er eins og sumir menn hafi fengið leyfi og höft svo á heilann, að þeir geti helzt ekki haldið ræðu án þess að vera að tala um þau. En ég ætla ekki að fara mikið út í það að ræða innflutningsmál eða um það almennt, hvort það sé skynsamlegt eða eðlilegt að hafa stjórn á innflutningi. Það hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir atvikum og ýmsum aðstæðum, hvort það er réttmætt eða ekki. Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinn stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur óski eftir höftum, sem svo eru kölluð, haftanna vegna, en hitt er annað mál, að þær aðstæður geta verið fyrir hendi, að hvaða stjórnmálaflokkur, sem er, neyðist til þess, telji það óhjákvæmilegt og telji það réttmætt að grípa til innflutningslöggjafar og innflutningshafta. Það hafa hv. flokksmenn hv. frsm. meiri hl. gert á ýmsum tímum ekkert síður en aðrir, og ef ég veit rétt, mun það hafa verið ráðh. Sjálfstfl. — sem þá hét raunar íhaldsflokkur — Magnús heitinn Guðmundsson, sem fyrstur beitti sér fyrir því, að sett væri innflutningslöggjöf hér og innflutningshöft tekin upp. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hann hafi gert það, vegna þess að hann hafi verið sérstakur fylgismaður þess, heldur hafi hann horfið að því ráði vegna þeirra aðstæðna, sem voru fyrir hendi á þeim tíma.

Ég veit heldur ekki betur en þau stærstu höft, sem hér hafa verið sett, hafi verið, þegar stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sat hér að völdum og þegar stjórn þessara mála — viðskiptamálanna var í höndum sjálfstæðismanna. Ég held það hafi aldrei verið jafnmikil haftalöggjöf hér á landi og meðan fjárhagsráð var við lýði og viðskiptanefnd, og meiri hl. í þeim n. höfðu einmitt sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn, og formaður í fjárhagsráði var ágætur sjálfstæðismaður. Þessu ætti hv. frsm. meiri hl. ekki að gleyma, og allra sízt ætti hann að gleyma því, áður en hann ber fram jafnalvarlegar og órökstuddar getsakir í garð þeirra manna, sem hafa séð um stjórn þessara mála, eins og hann gerði hér áðan og er fyrst og fremst orsök þess, að ég stóð hér upp. Ég vildi ekki láta þau ummæli hér fram hjá fara án þess að þeim væri mótmælt, en hann lagði út af því og fór um það mörgum orðum, að leyfisveitingar og höft hefðu verið sérstakar búkollur fyrir stjórnmálaflokkana og okkar flokka, eins og hann orðaði það, og flokksgjöld hefðu þá verið greidd betur en nú ætti sér stað. Ekki mundi hafa farið að bera á blaðadauða og erfiðleikum blaða, fyrr en horfið hefði verið frá því að hafa höft og veita innflutningsleyfi, og hann taldi, að nefndir, sem úthlutuðu ýmsum vörum, sem hann taldi upp, hefðu gert mikið gagn í þessu sambandi.

Hvað er hv. þm. að segja þarna? Hvaða ásakanir er hann að bera á þá menn, sem hafa setið í þessum nefndum? Það er hver sínum hnútum kunnugastur. Ég þekki til í mínum flokki. Ég veit ekki til þess, að þeir menn, sem hafa starfað á vegum Framsfl. og setið hafa í þessum nefndum hafi bundið úthlutun leyfa eða atkvæði sitt með úthlutun leyfa neinum þeim skilyrðum, að greidd væru einhver gjöld í flokkssjóði eða einhver blöð væru studd. Sú reynsla, sem hv. þm. er þar að lýsa, hlýtur að eiga við einhvers staðar annars staðar. En ég verð þó að segja það, að mér dettur ekki í hug að beina því að þeim mörgu ágætu sjálfstæðismönnum, sem setið hafa í þessum ráðum eða nefndum, sem hafa starfað að þessum málum, að þeir hafi haldið á þann hátt á málunum. Það má segja, að mér sé málið persónulega skylt. Ég átti sjálfur því láni eða óláni að fagna að sitja um skeið í viðskiptaráði á sinni tíð með ágætum sjálfstæðismönnum og mönnum úr öðrum flokkum. Ég mótmæli algerlega þessum getsökum og tel þær alveg ómaklegar í garð þeirra manna, sem hafa farið með stjórn þessara mála og ekki eru hér staddir og ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.

Það er ekki heldur þannig, að það sé allt frjálst enn þá í þessu þjóðfélagi, þannig að hægt sé bara að rétta upp höndina og þá fái maður það, sem beðið er um. Ég veit ekki betur t.d. en það sé mikill lánsfjárskortur. Ég veit ekki betur en það sitji núna á biðstofum bankastjóra svipaður hópur manna og áður sat á biðstofum hjá innflutningsnefnd. Ég held, að þeir verði að sækja um lán og þeir fái margir hverjir ekki það, sem um er beðið, og það sé engin greið leið til að fá lán. Vill hv. þm. halda því fram, að bankastjórar bindi úthlutun lána einhverjum þvílíkum skilyrðum, sem hann var að tala um: Nei, ég álít þær ásakanir, sem hv. þm. fór hér með í sambandi við þessi mál, algerlega fordæmanlegar.

Hitt er svo allt annað mál, hvort það er þörf á því að hafa stjórn á innflutningsmálum og gjaldeyrismálum. Ég hygg, að margir í þessu þjóðfélagi séu þeirrar skoðunar, að við þær aðstæður, sem nú er við að búa, og við þau áföll, sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa orðið fyrir og allir eru sammála um að séu alvarleg, þá geti vel komið til greina að hafa eitthvað meiri stjórn á innflutningsmálunum heldur en verið hefur. Ég hygg, að þeir séu nokkuð margir í þessu þjóðfélagi, sem eru þeirrar skoðunar, að það sakaði ekki. Og ég hygg að ástandið í sumum iðngreinum sé t.d. þannig, að það geti komið til álita fyrr en síðar að veita þeim meiri vernd með einhverjum hætti heldur en nú á sér stað. Þessi söngur um það, að það séu framsóknarmenn, sem séu sérstakir áhugamenn um innflutningshöft og því um líkt, er orðin allt of úreltur söngur til þess að ætla að fara að kyrja hann í sölum Alþ., og ég vil ráðleggja hv. þm. að hætta við þann söng, því að sannleikurinn er þessi eins og ég hef sagt, að það eru vitaskuld allir flokkar, sem hafa gripið til innflutningshafta og gripið til þess að hafa stjórn á þessum málum. Þeir hafa auðvitað engir þeirra gert það af sérstakri ást á höftum, heldur hafa þeir gert það, vegna þess að aðstæðurnar voru þannig, að þeir töldu sig tilneydda.

Annað atriði, sem hv. þm. gerði sér tíðrætt um, var verðtrygging launa og afnám l. um verðtryggingu launa í nóv. s.l. Hann virtist þar telja sig vera að svara hv. 11. þm. Reykv., sem hafði látið það í ljós, að meðaltekjur á mann hér virtust sýna það, að eitthvað mætti draga úr eyðslu einhvers staðar, en þá kom hv. frsm. meiri hl. og sagði sem svo, að framsóknarmenn hefðu samt viljað láta gilda áfram verðtryggingu á launum, og þá skildist mér hann halda því fram, að hefði svo verið, hefði alls ekki komið fram nein kjararýrnun hjá neinum — ekki hjá launamönnum. Ég held, að þessi hugsun sé byggð á mjög miklum misskilningi. Verðtrygging á laun tryggir það ekki, að það verði ekki kjaraskerðing hjá neinum. Verðtrygging launa var miðuð við svokölluð vísitöluútgjöld tiltekinna fjölskyldna, og verðtryggingin tryggir það, að laun hennar eða kaupmáttur hennar tekna rýrni ekki, en þau kaup, sem hún gerir, eða þær vörur, sem hún kaupir eru samsettar með tilteknum hætti. Vöruinnkaup annarrar fjölskyldu eru auðvitað saman sett með allt öðrum hætti. Það er auðvitað allt annað, hvort um er að ræða vísitölufjölskyldu, sem hefur — við skulum segja 6–700 þús. króna laun á ári. Fjölskylda með 6–700 þús. kr. laun veitir sér allt annað heldur en vísitölufjölskyldan, og þess vegna er hægt og ósköp auðvelt að koma við margvíslegri kjaraskerðingu varðandi þessa háteknafjölskyldu, sem hún fær ekki uppi borið í verðtryggingu launa. Þess vegna hefði auðvitað verið hægt að draga úr eyðslu og koma við kjaraskerðingu þannig hjá ýmsum, þó að l. um verðtryggingu hefðu staðið áfram óbreytt. En hv. þm. varð ákaflega tíðrætt um þessa verðtryggingu. Nú er ekki langt síðan, að hér var flutt þáltill. um að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir að taka aftur í l. verðtryggingu á laun í mjög takmörkuðum mæli til þess að leysa það verkfall, sem þá stóð hér yfir. Þá brá svo einkennilega við, að hv. stjórnarsinnar vildu alls ekki ræða það mál. Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. hafi ekki verið einn í hópi þeirra, sem ekki vildu ræða þessi mál, því að hann virtist hafa svo mikið um þau að segja, og það var slæmt, að hann skyldi ekki geta komið að þessari ræðu sinni í þeim umr., sem þá hefðu átt að fara fram að réttu lagi.

En til viðbótar því, sem ég sagði um verðtryggingu launa, vil ég segja það, að það stendur nokkurn veginn alveg ljóst, að afnám verðtryggingarlaganna í nóv. s.l. var orsök verkfallsins. Verkfallið hefur náttúrlega haft margvíslegar afleiðingar, sem ekki skulu raktar hér, en eitt er víst, að það hefur valdið þjóðinni í heild tjóni, sem nemur mörgum hundruðum millj. kr., og þjóðin í heild verður lengi að vinna það tjón upp. Ég held því fram, að það hefði borgað sig betur fyrir þjóðarbúið að fallast þegar í stað á þá þáltill., sem við fluttum um að lögbjóða það að greiða verðtryggingu á allra lægstu þurftarlaun — á laun, sem næmu um 10–11 þús. kr. á mánuði, — þegar þar við bættist, að kröfur verkalýðsfélaganna eða tilboð voru á þá lund, að þau vildu sætta sig við að fá þessar vísitölubætur á þessi laun í áföngum. Ég held því fram, að það geti enginn með neinni sanngirni ætlast til þess, að menn með um 130 þús. kr. árslaun geti tekið á sig kjararýrnun gengisfellingarinnar. Þess vegna voru þessar kröfur, sem verkalýðsfélögin settu fram, sanngjarnar og hófsamar, og því átti að ganga að þeim án tafar og afstýra þannig því mikla tjóni, sem af verkfallinu hlauzt fyrir þjóðarbúið.

Eins og ég áðan sagði, ætla ég ekki að öðru leyti að fara út í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., því að ég geri ráð fyrir því, að 11. þm. Reykv. muni svara þeim atriðum, sem að honum var sérstaklega beint, en þessi atriði, sem ég hef minnzt á sérstaklega þær getsakir, sem hann var uppi með í garð þeirra manna, sem hafa fengizt við það að starfa í ýmiss konar innflutningsnefndum og gjaldeyrisnefndum á undanförnum árum — vildi ég ekki láta ómótmælt, og í öðru lagi vildi ég ekki láta ómótmælt ummælum hans um verðtryggingu launa.

En úr því að ég stóð hér upp á annað borð, ætla ég aðeins að víkja að einu atriði í þessu frv., sem ég hefði þó ekki annars gert, og verð þá að segja það, að ég varð í því efni fyrir nokkrum vonbrigðum með starf meiri hl..fjhn. Ég hafði gert mér vonir um, að meiri hl. fjhn. mundi leggja það til að fella niður 7. gr. í frv., af því að ég veit, að í fjhn. sitja þingvanir menn og miklir rökhyggjumenn. Þær vonir mínar hafa því miður ekki rætzt. 7. gr. stendur hér enn í frv., en hún er í fyrsta lagi þess efnis, sem hv. dm. vita, að fræðslumálaskrifstofan skuli vera deild í menntmrn. og jafnframt falli þá úr gildi l. um fræðslumálastjóra og fræðslumálastjórn, og í öðru lagi, að fjármálaeftirlit skóla skuli vera deild í menntmrn. og ákvæði IV. kafla 1. nr. 49/1967 um skólakostnað breytist í samræmi við það. Fræðslumyndasafn skuli vera deild í menntmrn., og bókafulltrúi ríkisins skuli vera starfsmaður í menntmrn. Mér finnst þetta ákvæði mikill vanskapningur í þessu frv., og mér finnst, að það geti ekki átt hér heima með nokkru móti.

Þetta frv. heitir: „Frv. til laga um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda“, og það er að langmestu leyti að sjálfsögðu um að lækka ríkisútgjöld. Í raun og veru mætti heldur segja, að réttasta heitið á þessum l. hefði verið: Frv. um breytingu á fjárl., því að það er fyrst og fremst um að lækka tiltekin ríkisútgjöld á þessu ári — á þeim tíma, sem þessi fjárl. eiga að gilda. Það er ekkert við því að segja. Það form hefur áður þekkzt, að frestað væri um sinn framkvæmd ýmissa l. til þess að spara ríkisútgjöld, en svo kemur bara þessi 7. gr. eins og skrattinn úr sauðarleggnum — verður maður að segja — inn í þetta frv. og fjallar ekki um neina lækkun á ríkisútgjöldum, heldur um gerbreytta skipun á stjórn fræðslu- og skólamála. Nú er það kerfi, sem þarna á að breyta, ekki neinn unglingur, ef svo má segja, vegna þess að fræðslumálastjóraembættið er orðið líklega 60 ára gamalt. Því hefur að vísu verið eitthvað breytt, en skipan þeirra mála á því tímabili og þau l., sem um það fjalla nú, eru, eins og þarna segir, frá 1930. En með þessu á sem sé að fella alveg niður l., sem gilda um skipun þessara mála, og skipun þessara mála á að öllu leyti að verða ólögákveðin, og þetta á aðeins í framtíðinni að heyra undir menntmrn., sem líka er algerlega ólögákveðin stofnun, þannig að ráðh. á í framtíðinni að geta skipað þessum málum algerlega að sinni vild og fræðslumálastjóri á væntanlega hér eftir að vera eða heita deildarstjóri í menntmrn.

Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að það þurfi að gera breytingu á skipun á stjórn fræðslumála, og það væri ekkert óeðlilegt við það, þó að þessi lagasetning, sem er orðin nær 40 ára að aldri, þyrfti einhverra breytinga við. Og ég vil alls ekkert segja um það, hvort það er fráleit skipun á þessum málum að skipa þeim á þann veg að nema burt þetta millistigsstjórnarvald, sem þarna hefur verið, fræðslumálastjórann og fræðslumálaskrifstofuna, og tengja þessi mál alveg inn í menntmrn. Ég vil ekki segja neitt um það. En ég vil segja það, að athugun á því máli á að fara venjulega þinglega leið, áður en horfið er að þeirri skipun. Það frv. á ekki fjmrh. að bera fram, og hann á ekki að mæla fyrir því frv. Fyrir því frv. á menntmrh. að mæla. Hann á að flytja þau rök, sem liggja til þvílíkrar skipulagsbreytingar á æðstu stjórn menntamálanna. Og hér á þingi á hv. fjhn. ekki að fjalla um þau mál. Það er til önnur nefnd hér á þessu þingi, sem á að fjalla um þau mál. Það er menntmn. Með því að hafa þann hátt á, sem hér er ætlazt til, er alveg gengið á svig við allar venjulegar þingvenjur. Og það er náttúrlega alveg óheyrilegt, að hæstv. menntmrh. skuli bara ekki láta sjá sig, þegar verið er að ræða um að gerbreyta stjórnkerfi á fræðslumálum landsins. Hann hefur þó ekki talið eftir sér að mæla fyrir minni málum hér, verð ég að segja. Þetta er bara mál, sem honum kemur ekkert við. Hann lætur fjmrh. um það að leggja niður þessa skipun þessara mála.

Hér er ekki um neitt sparnaðarmál að ræða á þessu ári. Það er viðurkennt. Það ber því enga nauðsyn til þess að hafa þetta mál inni í þessu frv. Ef nauðsyn er á því að gera þessa skipulagsbreytingu, er tækifæri til þess að gera það með venjulegum hætti, bera fram lagafrv. um það og fá það afgr. hér á þinginu, en í þessum sparnaðarbálki á það ekki heima, enda er gerð grein fyrir því í aths. með frv., að þess muni ekki að vænta, að sparnaður verði af þessari skipulagsbreytingu á þessu ári. Það er að vísu sagt, að slík endurskipulagning ætti auk þess að leiða til útgjaldalækkunar, en ekki er neitt fullyrt um það, enda verð ég að draga það í efa, því að náttúrlega hljóta þeir menn, sem að þessu starfa, að halda sínum launum áfram, þó að þeim verði gefin einhver önnur heiti og fræðslumálastjóri verði t.d. lækkaður niður í það að vera deildarstjóri. Hann hlýtur þó að halda sínum fræðslumálastjóralaunum, meðan hans nýtur við, og sama er um aðra þá menn, sem að þessum málum starfa. En þar segir samt: Slík endurskipulagning ætti auk þess að leiða til útgjaldalækkunar, en ekki hefur sú lækkun verið áætluð, þar sem óvíst er, hvenær fæst húsnæði, sem rúmar alla starfsemina. En það eru m.a. rökin, skilst manni, og undir því átti gildistaka þessa ákvæðis að vera komin, að hægt sé að sameina þessa starfsemi alla undir sama þaki.

Eins og ég hef áður sagt, getur vel verið, að það sé réttmæt skipun í framtíðinni að færa þessa starfsemi inn í menntmrn. En ef það er svo, þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort þær röksemdir eigi ekki einnig við á öðrum sviðum. Og hvers vegna eru þá ekki aðrar stofnanir teknar inn í þetta frv. og sameinaðar þeim rn., sem þær heyra undir? Ég nefni sem dæmi landlæknisembættið og landlæknisskrifstofuna. Ég hygg, að það væri ekkert fjarri lagi að sameina þá stofnun heilbrmrn. og það stendur nú, að ég held, þeim mun betur á í því efni, að hún er undir sama þaki og heilbrmrn., þannig að hægt væri að láta það koma til framkvæmda strax. Hvers vegna er það þá ekki tekið hér í þetta frv., ef menn vilja fara að vinna að þessum málum á þennan hátt? Mundi það þykja bragarbót að færa vegamálaskrifstofuna inn í samgmrn.? Vegamálaskrifstofan kostar vissulega mikið fé. Kannske væri hægt að spara eitthvað með því að sameina hana samgmrn.; ég skal ekkert um það segja. En þannig mætti vissulega lengi halda áfram. Það getur komið til athugunar, þegar verið er að tala um hagræðingu og sparnað, að sameina ríkisstofnanir og færa sum millistigsstjórnvöldin, af því að þetta er allt heldur einfalt hér hjá okkur, beint inn í rn., en það á bara ekki að gera það með þessum hætti. Það á að gera með lögum, sem fjalla um þær stofnanir. Það er líka ákaflega erfitt að sjá, hvernig á að framkvæma þetta, því að í ýmsum öðrum lögum en þarna er vitnað til, er gert ráð fyrir fræðslumálastjórn og gert ráð fyrir því, að hún hafi tiltekin hlutverk með hendi, t.d. á hún að vera ráðgefandi í ýmsum efnum fyrir menntmrn.? Það þyrfti að vera eitthvað ákveðið um það, hvernig ætti að skipa þeim málum. Ég gæti að sjálfsögðu talað miklu lengur um þetta og fært fram miklu fleiri rök fyrir því, að þetta á alls ekki heima í þessu frv. og það kostar fjmrh. ekki nokkurn skapaðan hlut að láta strika þetta ákvæði út úr frv. Það er hvort tveggja, eins og sagt hefur verið, að það kemur ekki til með að spara neitt á þessu ári og jafnframt er þess kostur að koma lagasetningu fram um þetta í sérstökum lögum á þessu þingi; má gera það með þeim hætti, ef þörf þætti á því.

Ég hygg, að það hafi eitthvað borið á góma, bandormar hafi hér áður séð dagsins ljós, og kannske hefur verið nefnt í því sambandi, að það hafi verið sett lög um 1940, sem gengu undir nafninu bandormur. Það er rétt. Það voru sett tvenn lög á því ári, l. nr. 5/1940 um bráðabirgðabreytingu nokkurra l. — og þar var breytt mjög mörgum lögum, en sú breyting var einungis um að fresta framkvæmd þeirra l., sem þar voru talin á árinu 1940 — og samsvarandi l. eða hliðstæð voru svo sett í árslok 1940 um að fresta framkvæmd nokkurra l. á árinu 1941. Ekkert ákvæði er í þeim bandormum, sem svipi á nokkurn hátt til þessa ákvæðis um fræðslumálaskrifstofuna og aðrar þær stofnanir, sem nefndar eru í 7. gr. Ég ætla því, að það finnist alls engin fordæmi í lagasetningu hliðstæð því, sem hér á sér stað. Ég þekki þau ekki, og ég bið þá hæstv. fjmrh. að benda á það, hvar þau sé að finna. Ég verð að beina fyrirspurn til hans, enda þótt mér fyndist, að það væri eðlilegra, að menntmrh. fengi að glíma við það viðfangsefni.

Ég hef reynt að færa fram nokkur rök fyrir því, að þetta ákvæði frv. ætti að fella niður. Ég veit, að það þýðir ekkert að vera að reyna að rökstyðja þetta frekar, því að rök hafa hér ekkert að segja, en hins vegar vildi ég nú beina því til hæstv. fjmrh., sem ber ábyrgð á þessu frv., að reyna að koma vitinu fyrir hæstv. menntmrh., þannig að hann fáist til þess að draga þetta ákvæði út úr frv., því að það er honum ekki til sæmdar að skipa þessum málum á þann veg og það er þinginu til vansæmdar að afgreiða málið á þennan veg.