28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Frv. um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, sem hér hefur legið fyrir og verið allmikið rætt, er dálítið sérstætt að því leyti, að ekki hefur fyrr sézt frá stjórninni nein veruleg viðleitni í þá átt að spara útgjöld ríkisins, og að því leyti, að hér er gert ráð fyrir að stemma stigu við þeim útgjöldum, sem óþörf kunna að vera. Er þetta frv. vissulega lofsvert í augum okkar stjórnarandstæðinga, sem lengi höfum reynt að koma nokkrum sparnaði til leiðar með tillögugerð við afgreiðslu fjárl. og höfum ævinlega fengið þau svör af hálfu forsvarsmanna ríkisstj., að till. okkar væru óraunhæfar, og yrðu þær samþ., væri svo og svo mikil vá fyrir dyrum þjóðarinnar. Þegar við höfum lagt til að spara t.d. í löggæzlukostnaði, hefur svarið verið, að þá mundi allt vaða hér uppi í óeirðum og lögleysu, og þannig hafa okkar sparnaðartill. stig af stigi verið felldar lið fyrir lið og ár eftir ár með slíkum röksemdafærslum. Það er okkur að sjálfsögðu fagnaðarefni, þegar frá stjórninni sjálfri kemur plagg um það, að nú sé hún búin að átta sig á því, að ekki hafi þetta allt verið vitleysa, sem við vorum að leggja til, og röksemdafærslan fyrir sparnaðinum er nú öll í hina áttina sem sé sú, að það sé hægt að gera þetta, án þess að það snerti þjóðlífið nokkurn skapaðan hlut. Hversu rétt þetta kann að reynast, vitum við auðvitað ekki, enda ber grg. það með sér í ýmsum efnum, að ríkisstj. telur, að ekki muni verða um raunhæfan sparnað af sumum einstökum liðum frv. að ræða ekki fyrst um sinn, kannske síðar. En ég endurtek það, að ég tel það lofsvert og sjálfsagt, að ríkisstj. skuli á þeim tímum, sem nú eru — tímum, sem hafa kreppt að atvinnulífi þjóðarinnar og dregið úr fjárráðum bæði einstaklinga og opinberra aðila sýna viðleitni í því að reyna að draga saman útgjöldin. Það vil ég undirstrika, og að því leyti, sem mér sýnist, að um raunhæfar till. í þá átt sé að ræða, fylgi ég frv. heils hugar og allra frekast, ef það skyldi nú líka reynast rétt, sem haldið er fram, að þetta verði þó ekki til þess að minnka þjónustu þjóðfélagsins við þegnana.

Hitt er svo annað mál, sem ég vil vekja athygli á hér og raunar hefur verið gert einkum af hv. 3. þm. Norðurl. v., að það er með öllu óviðeigandi að blanda inn í þetta frv. sparnaði á útgjöldum ríkissjóðs í fræðslumálum og stjórn þeirra, án þess að þeir liðir gefi von um nokkurn minnsta sparnað á þessu ári. Hv. ræðumaður, 3. þm. Norðurl. v., tók hér allrækilega til meðferðar 7. gr. þessa lagafrv., þar sem gert er ráð fyrir að leggja niður fræðslumálaskrifstofuna, fjármálaeftirlit skóla, Fræðslumyndasafn ríkisins, íþróttafulltrúastarf og bókafulltrúastarf og gera þessi störf öll að liðum í menntmrn. Ég er ekkert að mótmæla þeirri hugmynd út af fyrir sig, en til þess arna þarf lagasetningu, og hana þarf að ræða á Alþ. sem slíka. En þegar svo er klykkt út með því í þessu sparnaðarfrv., að ekki muni verða af þessu sparnaður að svo komnu, eru fallin fyrir mínum hugskotssjónum öll rök með því að samþykkja þessar gr.

Þá vil ég aðeins víkja að annarri gr. í þessu frv., sem mér finnst bera vott um nokkuð sérstæða lagasmíð eða frumvarpssmíð af ríkisstj. hálfu. Eins og menn munu muna, tafðist þing á s.l. vetri um nokkra daga vegna þeirrar síðustu lagasetningar, sem hér var gerð á því ári, en það voru lög um skólakostnað. Mér skilst, að það hafi verið talið, að mikið lægi við, að þessi lög gætu komizt á áður en þingi væri lokið í fyrra. Svo var líka gert, og í síðustu gr. þess frv., sem nú er reyndar orðið að lögum, segir í 29. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu vera komin að fullu til framkvæmda 1. sept. 1968.“ Raunin hefur hins vegar orðið sú, að svo virðist ekki sem orðið hafi nein alvarleg skakkaföll í íslenzku þjóðfélagi, þó að samþykkt þessara laga hefði eitthvað dregizt, því að þessi lög hafa ekki verið látin taka gildi enn þá, en með samþykkt þeirra voru sveitarfélögum landsins í rauninni gefnar alrangar upplýsingar um skólahald og kostnað við það á s.l. ári. Og nú við afgreiðslu fjárl. var því hreinlega lýst yfir, að þau mundu ekki taka gildi fyrr en 1. sept. 1968, þ.e. í haust, svo sem eins og 11/2 ári síðar en l. voru samþykkt.

En það er reyndar ekki alveg víst, að svo verði, þ.e. að þau komi til framkvæmda þá, eins og þau voru hugsuð í upphafi. Ég sé ekki betur heldur en í þessu frv., sem við erum hér að ræða, séu nokkrir tilburðir hafðir til þess að koma fram því, sem stjórnin hlýtur að álíta endurbætur eða breytingar á þessum l., því að 4. gr. í frv. um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda er annað tveggja alger markleysa, sem ég raunar hallast að, að hún muni vera eða þá hún er skoðuð sem breyting á skólakostnaðarlögunum. Ég vil leyfa mér að fara yfir þessa 4. gr. málsl. fyrir málsl. og skoða, hvað í þessu felst og hvaða ástæða kynni að vera til þess að lögleiða þetta. Frá mínum bæjardyrum séð er ekkert — bókstaflega ekkert — í gr., sem ríkisstj. hefði ekki getað framkvæmt sjálf án nokkurrar nýrrar lagasetningar. Í upphafi gr. segir svo:

„Ákvæði 13. gr. l. nr. 49/1967 um heimild til að veita lán af geymdum fjárveitingum vegna skólamannvirkja skulu fjárlagaárið 1968 framkvæmd þannig, að samanlagðar greiðslur úr ríkissjóði, að lánum meðtöldum, skulu vera 5 millj. kr. lægri en fjárveitingar 1968 að viðbættu geymdu fé frá fyrri árum og frádregnum fyrirframgreiðslum af fjárveitingum 1968.“

Þessi liður hefur verið margsinnis túlkaður af hæstv. fjmrh. á þá lund, að hér sé eingöngu um það að ræða, að lán af geymdu fé muni verða dregin saman um 5 millj. kr. Ég sé heldur ekki annað en ríkisstj. hefði getað gert þetta án þess að til kæmi nokkur ný lagasetning. Það er ekkert í l., sem fyrirskipar ríkisstj., að hún skuli lána þetta fé, heldur einungis heimild til þess og ekki meira.

Ef við höldum áfram og lítum á næsta málsl.: „Við gerð þeirrar árlegu framkvæmdaáætlunar, sem samkv. 4. gr. sömu l. skal fylgja till. til fjárveitinga 1969, þar sem röðun framkvæmda miðast við, hvar skólabyggingaþörf er brýnust að áliti menntmrn., skal sérstaklega taka til athugunar fjárveitingar til barna- og unglingastigsskóla, sem ekki eru enn komnir á framkvæmdaáætlun, ef væntanlegur nemendafjöldi er minni en 30, komi ekki til sameininga hreppa í skólahverfi.“ Menntmrn. ræður því algerlega sjálft, hvað það á að álíta, að eigi að sitja fyrir. Það getur svo raðað á framkvæmdaáætlun. eða til fjvn. þeim óskum um fjárveitingu, að skólar með færri nemendum en 30 verði þar síðast á blaði eða ekkert á blaði. Ekki þurfti að breyta l., til þess að stjórnin gæti það.

Og ef áfram er haldið: „Við afgreiðslu fjárl. 1969 skal leggja fyrir Alþ. till. um meðferð geymdra fjárveitinga vegna slíkra skóla.“ Skyldi stjórnin ekki geta þetta, þegar kemur að því að framkvæma eða lögfesta fjárl. fyrir árið 1969 án þess að afla sér lagaheimildar um það á þessum grundvelli? Þetta var um fyrri lið. Það eru tveir tölul. í 4. gr.; þetta var hinn fyrri.

En lítum síðan á hinn síðari. Þar segir fyrst í 1. málsl.:

„Við setningu reglugerðar um framkvæmd l. nr. 49/1967, um skólakostnað, skal setja ákvæði um hagkvæmt skipulag stundaskrár og aðra hagræðingu, er lækkað geti kostnað að óbreyttri þjónustu skólanna.“

Já, það er ókomin reglugerð um þessi lög, þó að þau séu nú um það bil ársgömul. Hún mun vera í samningu hjá rn. sjálfu, og hér er sem sé ríkisstj. að fara fram á það, að Alþ. segi rn. fyrir um, hvernig sú reglugerð á að vera. Ég hef stundum staðið í því hér að álasa ríkisstj. fyrir að taka ákvarðanir utan þings um ýmsa hluti, sem eðlilegt væri, að Alþ. fjallaði um. Ég minntist þess t.d. í vetur, að mér fannst það ekki alls kostar viðeigandi, að þm. læsu það í blöðum og vissu það þá fyrst úr dagblöðum bæjarins, að mánuði eftir, að fjárl. höfðu verið samþ., hafði ríkisstj. skuldbundið ríkissjóð fyrir greiðslum, sem námu 320 millj. kr., án þess að spyrja Alþ. ráða um þetta. Það fannst mér óviðurkvæmilegt. Það var mál, sem Alþ. vissulega hefði átt að fjalla um ekki sem orðinn hlut heldur áður en til slíkra skuldbindinga kom. En að Alþ., sem samþykkti lög í fyrra, skuli nú samþykkja önnur lög um það, hvernig viðkomandi rn. — í þessu tilfelli menntmrn. — eigi að haga reglugerðarákvæðum við þessi sömu lög, það get ég ekki skoðað nema annað tveggja sem markleysu eða sem hreint vantraust af fjmrn. hálfu á menntmrn. Og það kann vel að vera, að það hafi við rök að styðjast, en heldur finnst mér það óviðurkvæmilegt að leggja fram vantraust með þessum hætti.

Áfram er haldið og lesi ég 2. málsl. úr þessum 2. tölul. 4. gr. l., þá segir þar:

„Skólastjórar skulu, fyrir 15. apríl 1968 eða annan þann dag, sem rn. ákveður, gera áætlun um nemendafjölda, fjölda reiknaðra stunda á kennslumánuði og áætlun um kostnað ríkissjóðs skólaárið 1. sept. 1968 til 31. ágúst 1969.“

Hver þörf var á þessu, getum við séð, ef við lítum í sjálf skólakostnaðarlögin. Í 18. gr. þeirra segir svo í upphafi: „Skólastjórar skulu í byrjun hvers almanaksárs gera áætlun um nemendafjölda, fjölda reiknaðra stunda á kennslumánuði og áætlaðan kostnað ríkissjóðs næsta skólaár samkv. III. kafla l.

Þetta er nákvæmlega það sama, sem áður er búið að lögfesta í l. um skólakostnað, og er hér af einhverjum ástæðum endurtekið, rétt eins og hæstv. fjmrh. sé dálítið hræddur um það, að hæstv. menntmrh. sé búinn að gleyma þessu og ekki veiti af að minna hann á það með nýjum lögum.

Og ef haldið er enn áfram, og athugaður er 3. málsl. 4. gr., er hann þannig:

„Áætlanir þessar skulu endurskoðaðar af menntmrn. í samræmi við ákvæði skólakostnaðarlaga og reglugerðar.“

Reglugerðar, sem að vísu er ekki til enn þá og hefur alls ekki verið gefin út. En ég á ákaflega bágt með að hugsa mér það, að það hafi nokkurn tíma vakað fyrir þeim, sem settu skólakostnaðarl., að skólastjórarnir væru svo einráðir um áætlanagerð, að áætlanir væru lög upp frá því og þær yrðu ekki endurskoðaðar. En hér ber enn að sama brunni, að fjmrn. virðist ekki telja það tryggt að menntmrn. framkvæmi neina endurskoðun á þessum áætlanagerðum skólastjóranna, hema það sé sérstaklega minnt á það með nýjum lögum. En þá er enn komið að því, að þar finnst mér vera dálítill óþarfi á ferðum, ef mál — sem fjmrn. gæti afgr. með nótu, sem send yrði upp á 2. hæð eða 3. hæð eða bara upp á hæðina fyrir ofan aðsetur sjálfs fjmrn. til þess að minna menntmrn. á sína skyldu — þarf endilega að fara gegnum Alþ. og þrjár umr. þar í hvorri d. og staðfestast af forseta Íslands til þess, að tryggt megi teljast, að menntmrh. muni eftir því.

Og þá er ég kominn að niðurlagi þessarar 4. gr. Þar segir svo:

„Eigi skal setja eða skipa kennara fyrir skólaárið 1968/1969 umfram tölu fastra kennara 1967/1968, fyrr en áætlun skólastjóra um kennaraþörf hefur hlotið samþykki menntmrn.

Menntmrn. má sem sé ekki setja kennara samkv. áætlun, fyrr en það sjálft er búið að fjalla um áætlunina og telja hana á rökum reista. Það má sem sé ekki framkvæma hlutinn, nema það samþykki hann sjálft. Hér er um dálítið einstæða lagasmíð að ræða, og mig hefði langað til þess að spyrja hæstv. fjmrh., sem hér er forsvarsmaður þessa frv., enda mun það runnið undan rifjum fjmrn., um það, hvort menntmrh. hefði aldrei fjallað um t.d. þessa gr. frv., áður en það var lagt fram.

Mér fyndist þess vegna eðlilegt varðandi þessa 4. gr., að þessi hv. þd. gerði annað tveggja að lofa henni að róa eða breyta henni. Það er enginn sparnaður í henni í krónum talið og heldur engin áætlun gerð um það af rn. hálfu, þ.e. af fjmrn. hálfu, að þetta gefi neinn sparnað, a.m.k. ekki á þessu ári, nema ef telja mætti þessar 5 millj. kr., sem ráðgert er að lána ekki. En eins og ég hef áður vikið að, tel ég enga þörf á því að lögbinda það, því að rn. hefur það að sjálfsögðu í hendi sér, hvort það lánar fé út frá sér eða ekki alveg eins og hver annar bankastjóri. Hann þarf ekkert lagaboð um það, að hann skuli ekki lána einhverjum tilteknum aðila. Hann getur ákveðið það sjálfur án þess að lög komi til. Að öllu þessu athuguðu tel ég sem sé, að eðlilegast væri, að þessi gr. yrði felld, en telji hv. Ed. Alþ. ástæðu til að hafa hana, fyndist mér, að það ætti að byrja hana svolítið öðruvísi en hún byrjar. Það ætti að setja yfir hana þessa yfirskrift: „Menntmrh. hafi hugfast, að...“ o.s.frv. En ég fyrir mitt leyti, þó að ég sé ekki stuðningsmaður núv. ríkisstj., hef enga sérstaka ástæðu til þess að samþykkja vítur eða vantraust á hæstv. núv. menntmrh., og þess vegna mun ég greiða atkv. gegn gr.