28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að hlýða á fyrri hluta þessarar umr. hér fyrr í dag. En þegar ég loksins gat mætt hér, var mér fljótlega sagt frá því, að ræða, sem ég hélt hér við 1. umr. um þetta mál, hefði sætt nokkurri gagnrýni, sem ég er ekkert að biðjast undan. Nú hef ég fengið leyfi til þess hjá starfsmönnum vélritunar hér á hv. Alþ. að hlýða á þessa ræðu hv. 12. þm. Reykv., og mér þykir viðeigandi að svara þeim aths. með nokkrum orðum. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í þær umr., sem síðar hafa orðið, um túlkun á því, sem ég sagði hér við 1. umr. Ég hygg, að það verði að hafa það, hvaða merkingu menn leggja í það, og ekkert af því ætla ég að taka aftur eða reyna að útskýra. Ég held, að það hafi verið nokkuð skýrt.

Hv. 12. þm. Reykv. byrjaði á því að tala um það, að ég hefði eins og aðrir stjórnarandstæðingar gert mikið úr því, að útreikningar, sem lagðir voru til grundvallar nýafstaðinni gengisfellingu, hefðu verið rangir. Og hann taldi, að þessi ummæli mín og annarra stjórnarandstæðinga væru mjög orðum aukin og raunar úr lausu lofti gripin, vegna þess að aðstæður hefðu svo mikið breytzt frá því, að gengislækkun var ákveðin, þangað til aðstoðin við sjávarútveginn kom til, og m.a. hefði afkoma hraðfrystihúsanna mikið breytzt á þeim tíma. Ég get ekki fallizt á, að þarna geti verið um mikla breytingu að ræða vegna þess fyrst og fremst, hversu stuttur tími þarna líður á milli. Eins og við allir munum, var gengislækkunin gerð um 20. nóv. Ég man ekki alveg nákvæmlega dagsetninguna; það skiptir e.t.v. ekki máli. Fjárl. voru svo afgreidd á grundvelli þessara nýju upplýsinga, stokkuð upp, endurskoðuð og samþ. rétt fyrir jólin, þ.e. 20. des. En nýárið var rétt í garð gengið, þegar alþm. lásu það í blöðum og heyrðu það í útvarpinu, að ríkisstj. hæstv. hefði lofað sjávarútveginum verulegri aðstoð á þessu ári. Ég get ekki fallizt á það, að þarna hafi orðið svo mikil breyting, að hún réttlæti þennan mikla skakka, sem hefur komið í ljós á útreikningunum. Ég veit það vel, að það er rétt, sem hv. 12. þm. Reykv. tók fram, að hann var ekki viðstaddur þessa útreikninga, og ég tel víst, að þeir hefðu verið réttari, ef hans kunnáttu og þekkingar hefði notið við í þeim efnum. Hann var þá erlendis. Hann um það, hvaða álit hann hefur á því. Það er mín skoðun.

En í framhaldi af þessu sagði hv. 12. þm. Reykv. nokkuð athyglisverða setningu að mínum dómi. Hann sagði, að jafnvel þótt þessar breyttu forsendur hefðu verið fyrir hendi, þegar gengislækkunin var ákveðin, mundu menn þrátt fyrir það hafa ákveðið gengislækkunina þá, sem hún varð, og talaði um það, að það hefði verið alveg nægilega erfitt að fá fólk til að sætta sig við þessa gengislækkun, þó að hún hefði ekki verið höfð meiri, og minni gengislækkun hefði vitanlega kallað á meiri aðstoð úr opinberum sjóðum. Mér er þá bara spurn: Hvað var verið að reikna þessa viku, sem Alþ. mátti ekki minnast á gengislækkunina? Hvað var verið að reikna hjá sérfræðingum hæstv. ríkisstj.? Var verið að reikna það, hvað fólk mundi sætta sig við, að gengislækkunin yrði? Það er í fyrsta skipti, sem ég heyri þá skýringu. Nei, það var verið að reikna það, hvað útflutningsatvinnuvegirnir kæmust af með minnsta gengisfellingu. Það er það, sem verið var að reikna, og það eru þeir útreikningar, sem voru skakkir. Og þess vegna vil ég halda því fram enn og aftur, að ég hef ekkert og sama má held ég segja um aðra stjórnarandstæðinga, sem ég hef hlustað á — ofmælt í þessu efni. Útreikningarnir voru bandvitlausir, eins og sýnir sig á því, að hálfum öðrum mánuði eftir, að gengislækkunin er framkvæmd á þessum grundvelli, þarf að ákveða 320 millj. kr. nýja aðstoð til einnar greinar útflutningsframleiðslunnar, sjávarútvegsins. Ég geri alveg ráð fyrir því, að það séu ekki öll kurl komin til grafar í þessu efni. Hvernig er t.d. með þennan litla útflutningsiðnað, sem hér hefur verið? Dugir honum gengisfellingin? Hvernig er með útflutning á landbúnaðarvörum? Er ekki það verð allt of lágt? Það hefur ekki borið hér á góma og ekki verið rætt, og engar till. um aðstoð við þessa atvinnuvegi hafa verið lagðar fram enn þá, en þinghaldið er nú ekki búið.

Þá sagði hv. 12. þm. Reykv., að ég hefði viljað taka það mjög sterklega fram, að mikið af þessum sparnaðartill. væru sýndartill. Ég fór ekki mjög nákvæmlega út í einstaka liði frv. En fyrst það ber á góma, get ég svo sem vel sagt það sem mína skoðun, að mjög mikið af þessum svokallaða sparnaði er ekki raunverulegur sparnaður. Það er alveg rétt, enda féllst hv. 12. þm. Reykv. á það. Það er t.d. ekki sparnaður á ríkisútgjöldunum að taka lán til að standa undir kostnaði. Þetta erum við allir sammála um. Frv. fjallar um 200 millj. kr., sem á að taka út af fjárl., til þess að ekki verði á þeim greiðsluhalli. Þar af eru 81 millj. kr. hreinar lántökur. Ekki er það sparnaður. Það á að halda uppi sömu starfsemi og ráðgerð var á fjárl., en í stað þess að greiða það af venjulegum ríkistekjum á að taka lán til að standa undir þessum framkvæmdum. Það eru skólarnir, það eru sjúkrahúsin og það er framkvæmd hægri umferðar. Það á að fella niður greiðslur til þriggja opinberra sjóða, Fiskveiðasjóðs, Hlutatryggingasjóðs eða Aflatryggingasjóðs, eins og hann er kallaður nú, og Ríkisábyrgðasjóðs, um 51 millj. kr. Það má náttúrlega kalla þetta sparnað í fyrstu lotu. En ekki er þó hægt að fullyrða, um hvaða sparnað er að ræða, fyrr en þessi dæmi hafa verið gerð upp. Það hefur hæstv. fjmrh. sjálfur tekið fram — síðast hér í síðustu ræðu núna rétt áðan, að vitanlega verði að mæta þeirri fjárþörf, sem þessir sjóðir standa frammi fyrir. Það er bara ekki vitað, hver hún er nú, og menn gera sér vonir um, að hún verði ekki eins mikil og á s.l. ári, og þess vegna er talið fært að áætla upphæðina lægri. Auðvitað lækka útgjöldin á fjárl. á þeirri stóru bók, sem heitir fjárl. Íslands 1968. En ríkisútgjöldin 1968 lækka ekkert. Þetta hefur hæstv. fjmrh. sjálfur staðfest. Að vísu gegnir nokkuð sérstöku... (Gripið fram í.) Það gegnir að vísu nokkuð sérstöku máli um Fiskveiðasjóð, en þetta er rétt um Ríkisábyrgðasjóð og Aflatryggingasjóð. Ég var rétt ókominn að því, að um Fiskveiðasjóð gegnir nokkuð öðru máli, en þó hygg ég, að það hafi komi fram hjá hæstv. ráðh. áðan, að hans vandamál yrði að leysa. Það var að vísu talað um lántökur í því sambandi, og þá er enn þá komið að því að fresta því að standa undir byrðunum með því að taka lán og dreifa því á komandi ár. En ég hygg, að vanda Fiskveiðasjóðs verði að leysa og hann verði leystur. Ég held, að það sem ég segi um þetta sé rétt.

Þá eru t.d. þarna greiðslur til Pósts og síma, eins og ég minntist á hér við 1. umr. Það er hreint bókhaldsatriði, hvar þau, útgjöld eru skráð, hvort það er greitt af þeim tekjum ríkissjóðs, sem Póstur og sími innheimtir, eða hvort það er greitt af öðrum ríkistekjum.

Það er vitanlega gott að gera nákvæmar áætlanir um ríkisútgjöldin, og ég hef ekkert á móti því, ef það er byggt á rökum og hægt að sýna það, að útgjöldin verði minni heldur en þau voru áætluð í fjárl.; þá er sjálfsagt að leiðrétta það. Að þessu vék hv. 12. þm. Reykv. líka og því, að verið gæti, að þessi sparnaður skilaði sér ekki á þessu ári, og í framhaldi af því sagði hann, að það væri ekkert aðalatriði að tryggja hallalausan ríkisbúskap, a.m.k. svona í eitt ár. Þetta er sjálfsagt kenning, sem margur hagfræðingur fylgir og flytur, og ég hef oft heyrt þessa kenningu. En ef þetta er kenning hæstv. fjmrh., því að ég tel mig hafa hlustað á hann lýsa því hér yfir oftar en einu sinni, að það væri sín ófrávíkjanlega stefna að afgreiða ekki fjárl. með greiðsluhalla, og ég er alveg sama sinnis í því, þó að það skipti ekki neinu máli í þessu sambandi. En hv. 12. þm. Reykv. hefur sem sé aðra skoðun. Hann telur ekkert athugavert við það, þó að fjárl. komi út með halla. Það er náttúrlega enginn vandi að lækka fjárl. mikið og spara miklu meira á þeim, ef mönnum er alveg sama um það, þó að dæmið komi allt öðruvísi út, ef útgjöldin standa, og það komi út margfaldur halli. En það er, held ég ekki það, sem við erum að keppa hér að.

Ég tek alveg undir það með hv. 12. þm. Reykv., að það sé verjandi að taka lán, þegar árferðið er eins og það er. Það er vissulega verjandi að taka lán og lækka þannig útgjöldin í bili. En það leysir náttúrlega engan vanda til frambúðar. Það þarf að standa undir þessum lánum, og það þarf að greiða þessi lán, og því meira sem við tökum af lánum nú til þess að koma saman fjárl. 1968, þeim mun erfiðara verður dæmið 1969 og þau ár, sem við eigum eftir að fjalla um þetta einhverjir okkar, eins og líka hæstv. fjmrh. hefur greinilega þungar áhyggjur af, og ég lái honum það ekki. Ég hef ekki hér á þessum stað eða stundu yfirlit um það, hvað mikið af framkvæmdum ríkisins hefur verið fjármagnað með lánsfé á undanförnum árum og það í þessum góðærum, sem við höfum lifað. En það er geysimikið. Undir þessum lánum verður framtíðin að standa. Það var fyrir nokkrum árum t.d. aukið heilmikið fé til vega, en á sama tíma hafa verið tekin mikil lán til vega, þó að framkvæmdir hafi orðið að margra dómi of litlar í þeim efnum, þá hefur talsverðum fjármunum verið varið í þetta. Afleiðingin af þessum lántökum til veganna skilst mér vera sú, að langsamlega mest af þessum auknu tekjum Vegasjóðs gengur nú til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af lánum, og það er sama og ekkert fjármagn fyrir hendi til að leggja í nýjar framkvæmdir, og svona er þetta á fleiri sviðum. Það er auðvitað verjandi að taka lán; ég er ekkert að hafa á móti því. En menn verða náttúrlega að gera sér það ljóst, að þessar lántökur nú leggja byrðar á framtíðina, og það er óheppilegt, að svo skuli hafa til tekizt, að þegar ríkistekjur hafa verið jafnmiklar og raun ber vitni undanfarin ár, hafi samt sem áður þurft að fjármagna jafnmikinn hluta framkvæmdanna með lánum — og ekki sízt, þegar breyting verður á því. Þess vegna voru þeir áreiðanlega margir, sem fögnuðu þeirri stefnubreytingu, sem kom fram hjá hæstv. ríkisstj., þegar hún tók inn í fjárlagafrv. núna nokkrar fjárhæðir — 62 millj. kr. — til þess að leggja í byggingar skóla og sjúkrahúsa í stað þess að fjármagna það með lánum. Og það er með talsverðri eftirsjón, er ég viss um, sem margir horfa á eftir þessum liðum út af fjárl. á ný og eiga von á því, að einnig þetta verði fjármagnað með lánsfé.

Ég tók eftir því áðan, að hæstv. fjmrh. gat um það, að alþm. mundu fá að sjá framkvæmdaáætlun ríkissjóðs, áður en þingi lyki, og þær till. eða hugmyndir, sem hæstv. ríkisstj. hefur um það, á hvern hátt fjár yrði aflað til þeirrar framkvæmdaáætlunar. Ég fagna því, að sá háttur verður á hafður, og þó alveg sérstaklega þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að fjármögnun framkvæmdaáætlunarinnar að þessu sinni verði ekki eins þungbær bankakerfinu í landinu og verið hefur. En óneitanlega bíða menn — eða a.m.k. ég — með óþreyju eftir því að sjá, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að afla þessa fjármagns, án þess að það komi eins illa við bankana og verið hefur, því að það er ekki nóg tillitssemi við bankana, þó að þeim sé ekki beinlínis gert að leggja í framkvæmdaáætlunina, ef fjár verður aflað eins og gert hefur verið að hluta fram að þessu með sölu spariskírteina, sem eru með þeim kjörum, að bankarnir geta ekki keppt við þau. Þá kemur það vitanlega niður á sparifénu, sem í bönkunum er, og rýrir möguleika bankanna til að greiða úr málefnum viðskiptamanna sinna.

Hv. 12. þm. Reykv. sagði, að það mætti líta á umframgreiðslur, sem verða vegna lækkunar áætlana, sem nokkurs konar ráðstöfun tekjuafgangs. Ég er mjög á sömu skoðun og hann um það, að Alþ. ætti að hafa í ríkari mæli hönd í bagga með ráðstöfun tekjuafgangs ríkissjóðs heldur en verið hefur á undanförnum árum. Tekjuafgangur ríkissjóðs hefur sum árin undanfarið a.m.k. verið gífurlega mikill, og það hefur ekki alltaf verið spurt um álit Alþ. á ráðstöfun hans. En það mætti svo sannarlega gera.

Annars var margt í ræðu hv. 12. þm. Reykv., sem ég felldi mig vel við. Sérstaklega fannst mér kaflinn, þar sem hann talaði almennt um menntamálin, vera byggður á víðsýni og þekkingu, eins og vænta mátti af þeim hv. þm. Þar vorum við mikið sammála um nauðsyn þess að efla og bæta menntun hér á landi, og ég er viss um, að hann horfir með söknuði á eftir þeim fjárveitingum, sem nú falla fyrir sparnaðarráðstöfun hæstv. ríkisstj. Ég hef ekki neinar upplýsingar um það, hvað Bandaríkjamenn verja miklum hluta t.d. þjóðarteknanna til menntamála. Og það er vitanlega alveg rétt, sem hv. þm. sagði og ég kom aðeins að í ræðu minni við 1. umr., að menntunin þar er miklu einhæfari heldur en hér. En allt um það varð það niðurstaða mín um daginn — og er það enn, og ég get gjarnan ítrekað það — að við þurfum að stórauka þessa menntun til þess að halda í við aðrar þjóðir. Um það eru sjálfsagt allir hv. alþm. sammála, og ég vona, að þessi lækkun á fjárveitingum til menntamála jafngildi ekki minni tækifærum fyrir æskulýð landsins til þess að afla sér þessarar nauðsynlegu menntunar. Svo var aftur annað í ræðu hv. 12. þm. Reykv., sem mér líkaði ekki eins vel, og það var, þegar hann talaði um það, að hann skildi það bara alls ekki, hvað það væri, sem ég ætti við, þegar ég talaði um að stjórna. Það er náttúrlega mjög slæmt, ef það eru fleiri í þingliði hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka, sem skilja ekki þetta hugtak. Það hafa spunnizt nokkrar umr. hér um þetta, og menn hafa lagt hver sinn skilning í þessi orð. Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að fara að gera það neitt sérstaklega að umtalsefni. En hv. 12. þm. Reykv. sagði, að kjarni boðskapar ríkisstj. undanfarna mánuði hefði einmitt verið að skerða kjörin eða minnka eyðsluna, og ég er alveg sammála því, að kjarni boðskaparins hefur verið að skerða kjörin og framkvæmdin hefur líka stuðlað að því. Hv. þm. nefndi þau málsatvik, sem þessu valda, gengislækkun og skerðingu á vísitölu auk ýmissa fleiri smærri atriða, sem þarna skipta einnig máli. Ég hef aldrei neitað því, að erfiðleikar þeir, sem landið hefur orðið að þola undanfarna mánuði í verðlagi vegna verðfalls og minnkandi afla, hljóta að baka landsmönnum kjaraskerðingu. Og það er alveg ljóst, að talsverð kjaraskerðing var þegar komin, án þess að hæstv. ríkisstj. ætti þar nokkurn hlut að með því minnkandi verðlagi á sjávarafla, sem af þessum ástæðum leiddi, minnkandi atvinnu, sem fylgdi í kjölfar þess, og annarra þeirra ástæðna, sem verðfallið og aflaminnkunin óhjákvæmilega orsökuðu. En til viðbótar þessari kjaraskerðingu kom svo kjaraskerðing hæstv. ríkisstj. með þeim tveimur hagstjórnartækjum, sem síðast var beitt, gengislækkun og afnámi sambandsins milli vísitölunnar og kaupsins.

Það er ekki um það að deila þess vegna, að kjaraskerðingin verði einhver, en ég held, að það, sem okkur ber þá einna helzt á milli, sé, hvar kjaraskerðingin eigi að lenda, þ.e. hverjir eigi að taka á sig kjaraskerðinguna. Og ég var þeirrar skoðunar og er enn, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. undirstrikaði rækilega hér áðan, að kjaraskerðingin eigi ekki að vera fyrst og fremst fólgin í því, að fólk, sem hefur 10 þús. kr. mánaðarlaun og þar fyrir neðan, fái ekki fulla vísitöluuppbót á laun sín. Ég tel, að kjaraskerðingin eigi að lenda annars staðar og það hljóti að vera til — og það vitum við allir, að eru til ráð, sem geta beint kjaraskerðingunni þangað. Þetta er það, sem ég átti við fyrst og fremst, þegar ég talaði um, að það ætti að fara að stjórna. Ég held, að ég hafi sagt það hérna við 1. umr. Ég finn það að vísu ekki í ræðunni í svipinn, en ég man það, að ég sagði, að það væri eitthvað annað bogið við efnahagskerfið hérna heldur en það, að fólk, sem hefði 10 þús. kr. mánaðarlaun og minna, geti ekki fengið fulla verðtryggingu á þau laun. Og við það skal ég standa, hvar sem vera skal. Það hlýtur að verða að líta annað, þegar á að fara að laga meinsemdina í íslenzku efnahagslífi. Og það er það, sem fólk ætlast til, að hæstv. ríkisstj. geri og hvaða ríkisstj., sem vera skal — ekki bara hæstv. ríkisstj. Það hlýtur að vera meginverkefni allra ríkisstj. og þá þessarar líka, og ég tel, eins og ég sagði hér við l. umr., að það hlutverk hafi verið vanrækt. Ég tel það; það er mín skoðun.

En það kom svo fram skýring á því, hvað við var átt, síðar í ræðu hv. 12. þm. Reykv., og það var að ekki má leggja niður stefnuna. Það verður að halda áfram sömu stefnu. Og þetta ber allt að sama brunni, hvernig sem allt veltist og hve illa sem gengur að ráða við vandamálin, þá verður að halda meginstefnuna í heiðri. Þetta er sami kjarni og ég vék aðeins að við 1. umr. og það kemur fram í aths. með fjárlagafrv. og er lögð á það höfuðáherzla þar. Það var svo endurtekið af hv. 12. þm. Reykv., og allar framkvæmdir miðast við þetta.

Vitanlega er fjöldi af leiðum, sem hægt er að fara til þess að hafa stjórn á málum, önnur en sú að hafa skömmtunarskrifstofu og það leyfafargan, sem því fylgir. Ég ætlaði mér ekkert að fara að mæla bót því ástandi, sem var hér á árunum, þegar allir þurftu að sækja um leyfi til allra hluta. Það var ekkert sérstaklega eftirsóknarvert. En ég vil bara minna á það, eins og raunar var gert hér áðan, að þrátt fyrir svokallað frelsi, sem við höfum búið við núna í 8 ár, megum við ekki gera hvað, sem vera skal. Það er ýmislegt bannað. Það eru ýmis höft á samskiptum manna þrátt fyrir svokallað viðskiptafrelsi, og ég hygg, að það þurfi ekki að telja það upp hér fyrir hv. þm. Menn vita vel, hvað við er átt. Það er stórkostleg fjármagnsskömmtun framkvæmd í bönkum landsins og ekki eftir neinum ákveðnum vísindalegum aðferðum. Og það er ýmislegt, sem er að sjálfsögðu bannað. Það er úthlutað lóðum, og við þekkjum það svolítið sumir. Það er verðlagseftirlit og ákvæði þar um. Það er m.a. s. ekki heimilt að flytja inn sumar tegundir af varningi þrátt fyrir allt frelsið. Það er t.d. ekki heimilt að flytja inn landbúnaðarvörur. Ég er ekki að segja, að við höfum neitt við það að gera, en það er bannað í viðskiptafrelsinu. Og hver segir til um það, hvað á að vera bannað og hvað leyft? Er nokkuð meira að banna það að flytja inn bakaríistertur eða tertubotna eða hvað það er kallað — heldur en banna að flytja inn kjöt eða osta? Hvaða munur er á því? Þannig mætti náttúrlega lengi telja. Þetta er allt saman matsatriði, og það verður engin ríkisstj. svo vel stæð, að hún geti leyft öllum allt. Það þekkist hvergi.

Hann talaði, hv. þm., um, að mikil spilling hefði fylgt leyfakerfinu. Það má vel vera, að svo hafi verið. En finnst mönnum engin spilling vera í þjóðfélaginu nú? Er þjóðfélagið hér algerlega laust við það, sem kallað er spilling? Ég held ekki. Ég held, að sumir hv. þdm. hafi m.a.s. talað um mjög mikla spillingu og jafnvel heila bófaflokka, sem þrifust hér í þessu frelsi, sem við búum við. Og það er vafalaust alveg rétt. Það eru vafalaust til alls konar samtök, sem hafa ýmsa miður góða hluti á stefnuskrá sinni, þó að ég þekki það ekki mikið af eigin reynd. En spilling er vissulega hér, og það er alltaf verið að koma upp um þessa spillingu annað veifið. Kannske tekst að uppræta hana; ég veit það ekki. Það væri óskandi. En ég er ekkert viss um, að spillingin hafi verið meiri þrátt fyrir allt, þegar skömmtunartímabilið var. Ég er ekkert að kenna hæstv. ríkisstj. um þetta. Það er sjálfsagt margt fleira, sem kemur þar til greina. Við höfum haft mikið af peningum undir höndum og hagað okkur, eins og nýríkir menn oft gera, þ.e. farið óvarlega með þá og látið mikið eftir okkur. Hæstv. ríkisstj. er þar ekki ein á báti — alls ekki. En ég held, að það sé því miður alveg rangt að halda því fram, að öll spilling hafi horfið, um leið og hætt var að úthluta leyfum fyrir gjaldeyri uppi á Skólavörðustig. Það getur vel verið, að eitt af því, sem fylgdi leyfakerfinu, hafi verið það, að menn hafi ekki hugsað neitt um að gera hagstæðari innkaup, en það hafi nú breytzt. En ég held, að innkaup séu upp og ofan enn þann dag í dag, og ég held, að ýmislegt af varningi, sem hér liggur t.d. í haugum í vörugeymsluhúsum skipafélaganna, hefði alveg eins mátt vera ókeypt.

En hvað sem þessu öllu líður, skal ég endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., að ég vil síður en svo gera lítið úr þessari sparnaðarviðleitni hæstv. ríkisstj. Ég tel hana mjög góðra gjalda verða og skal verða fyrstur manna til þess að fagna því, þegar búið er að koma einhverju — þó að ekki væri nema einhverju — af þessu í framkvæmd. En út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði bæði hér áðan og fyrr, finnst mér satt að segja þessi hagsýsla og sparnaðurinn, sem af henni átti að leiða, vera ákaflega seinvirkt. Ég man ekki, hvenær fyrst voru sett fram sparnaðarloforðin. Það var hæstv. fyrrv. fjmrh., sem gerði það. Þau voru 59, ef ég má treysta á minnið í því efni. Hvað skyldu mörg af þeim hafa verið framkvæmd enn þá? Það eru einhver kannske, en þau eru afskaplega fá. Einhvers staðar stendur, að það sé seintekinn gróði að hafa hestakaup við Sumarliða póst og það ætlar að sannast hjá hæstv. ríkisstj., að glíman við sparnaðinn verður erfið. T.d. sagði hæstv. fjmrh. hér við 1. umr., að það ætti að gera tilraun með að lækka kostnað við löggæzlu. Það væri nú reynandi að gera þá tilraun að lækka þessa fjárveitingu og treysta á það, að hægt yrði að halda uppi lögum og rétti, þó að hún lækkaði svona. En þetta var ákaflega varfærnislegt orðalag, og það skein alveg í gegn óttinn við, að þetta yrði ekki framkvæmanlegt, þegar til kom. En hvað skyldi hagsýslan segja um þetta? Liggur ekki álit hagsýslustjóra og þeirra stofnana, sem hann veitir forstöðu, fyrir um eitthvað af þessum sparnaðartill.?

Þegar svo hv. 5. landsk. þm., sem þekkir erfiðleika útgerðarinnar vel, vék að því í sinni ræðu áðan að ástandið væri hvergi nærri gott hjá flotanum, m.a. mundu vel flestir — ef ekki allir — bátar, ef ég hef tekið rétt eftir, verða auglýstír á nauðungaruppboði núna alveg á næstunni vegna greiðslufalls á skuldum þeirra við Fiskveiðasjóð, þá gat hæstv. fjmrh. náttúrlega ekki annað en viðurkennt, að þetta væri rétt, en þá var enn og aftur talað um bráðabirgðaráðstafanir. Hæstv. ráðh. sagði, ef ég hef tekið rétt eftir, að það yrði þá að útvega Aflatryggingasjóði það fjármagn, sem þyrfti, með bráðabirgðaráðstöfunum. En þar held ég, að sé komið alveg að kjarna þessa máls og fleiri mála fjárhagslegs eðlis, sem hafa verið til meðferðar hér á hv. Alþ. undanfarna mánuði. Það eru bráðabirgðaráðstafanir. Það á að bíða eftir einhverjum happdrættisvinningi, eftir því, að aflinn glæðist, og eftir því, að verðlagið hækki, og halda öllu gangandi með bráðabirgðaráðstöfunum á meðan og sitja svo, eins og ekkert hafi í skorizt. Fjárlagaafgreiðslan er flutt inn í þingið í mörgum hlutum og nú er sagt í dag, að það séu ekki einu sinni allir partarnir komnir fram enn, það sé von á meiru og jafnvel nýrri skattlagningu; ég skal ekkert segja, hvað það er. Ég veit það ekki. En svona hefur þetta nú gengið. Og enn er treyst á bráðabirgðaráðstafanir, ef rekur upp á sker.

Ég ætlaði svo að minnast örlítið á þær brtt., sem ég hef flutt hér ásamt hv. 3. þm. Vestf. Hann gerði grein fyrir þeim, og ég þarf ekki að fara langt út í það. En þær eru sem sé í því fólgnar og í því einu að halda áfram þeim stuðningi við atvinnuvegina, sem ráðgert er að fella niður. Það er hægt að lýsa þeim í einni setningu, þ.e. að hætta við að fella niður framlagið til Fiskveiðasjóðs, hætta við að fella niður framlagið til Aflatryggingasjóðs, hætta við að fella niður framlagið til Ríkisábyrgðasjóðs og hætta við að fella niður framlagið til Landnámsins.

Ég leyfði mér að varpa fram þeirri spurningu hér við 1. umr., hvernig yrði hagað framkvæmd l. um fræðslumálastjóraembættið eftir þessa breytingu, hvort það væri væntanleg ný lagasetning, sem ég held nánast, að hljóti að vera, eða hvort hæstv. menntmrh. ætlaði að hafa þessa menn, fræðslumálastjóra, íþróttafulltrúa, fjármálaeftirlitsmann skóla og bókasafnsfulltrúa sem starfsmenn í rn. og fela þeim þau verkefni, sem honum sýndist í það og það skiptið. Við þessu höfum við ekkert svar fengið. Hæstv. menntmrh. hefur ekki gefið sér tíma til þess að mæta hér við þessa umr. í þessari hv. d. væntanlega vegna þess, að hann hefur ekkert um þetta að segja. Honum er þá vafalaust alveg sama, hvernig þessum málum er fyrir komið, en ég tek undir þær raddir, sem hér hafa heyrzt um það, að þessi afgreiðsla er bæði mjög óvenjuleg og óviðkunnanleg. Og ég hef fram undir þetta verið að vonast til þess, að einhver svör yrðu gefin við þessum fsp., en verði það ekki, býst ég við, að ég muni við 3. umr. gera tilraun til þess að fá hæstv. ríkisstj. til þess að falla frá svo lítt hugsaðri lagabreytingu með því að bera fram brtt. við 7. gr. eitthvað svipað því, sem gert var í hv. Nd. um daginn, þannig að Alþ. fæli ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. um hagkvæma skipan fræðslumála. Ég er síður en svo því mótfallinn, að þessi mál verði tekin til endurskoðunar. Ef það er álit þeirra manna, sem starfa að þeim og bezt þekkja til og hæstv. ráðh., að það sé hægt að koma þarna við sparnaði, þá eigum við að gera það. Og það má kannske segja, að það sé að deila um keisarans skegg, með hvaða hætti það sé gert. En hér eru felld niður lög, án þess að nokkuð komi í staðinn, og það er það, sem ég hef fyrst og fremst við þessa málsmeðferð að athuga. Það á að fella niður heilan lagabálk um fræðslumálastjóraskrifstofuna, án þess að nokkuð komi í staðinn og án þess að hæstv. ráðh. hafi viljað lýsa því yfir, að þeir mundu beita sér fyrir lagasetningu um þetta efni eða svör hafi fengizt við því, hvaða meðferð er fyrirhuguð í þessu efni. Og ég held, að það sé lágmarkskrafa alþm., þegar það er nú upplýst, að af þessari breytingu muni enginn sparnaður verða á yfirstandandi ári, að þessum l. verði breytt með venjulegum hætti, þegar engin nauðsyn rekur til þess að breyta þeim með bandormi. Það má segja, að ýmis ákvæði önnur í frv. verði að vera þarna vegna þess, að fjárveitingarnar eru felldar niður og þess vegna sé það eðlilegt, að svona frv. fjalli um margs konar lög, og það verður að hafa það, vegna þess að það leiðir af eðli málsins, þó að það sé ekkert æskilegt að fá svona frv. til meðferðar. En ég tel algeran óþarfa að fara að setja inn í þetta frv. ákvæði til breytingar á l., sem engin þörf er á vegna sparnaðartill., og þannig er einmitt ástatt um þessar breytingar á fræðslumálastarfseminni.

Ég skal svo, herra forseti, ekki þreyta hv. þdm. á lengri ræðu um þetta mál, en mér fannst ég mega til að gera nokkrar aths. að gefnu tilefni.