29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Við umr. um þetta mál á síðdegisfundi í gær mælti ég nokkur orð og þóttist þar sýna fram á það með rökum, að 4. gr. í þessu frv. væri ekki viðkomandi sparnaði á útgjöldum ríkisins, heldur væri hún eingöngu áminning til menntmrh. um það, hvernig hann ætti að haga störfum sínum. Þó að það standi máske einhverjum nær en mér að halda því fram, að menntmrh. sé vel hæfur í starfi, tók ég það fram þá og tek það fram enn, að þrátt fyrir stjórnarandstöðu mína sé ég ekki ástæðu til þess að samþykkja með þessum hætti sérstaklega vantraust á menntmrh., og lýsti ég þá yfir, að ég mundi greiða atkv. gegn þessari 4. gr. Nú hagaði hins vegar málum svo til í gær, að ég gat ekki verið viðstaddur atkvgr., og kom engin till. fram um 4, gr. Þess vegna leyfi ég mér að bera nú fram brtt. við frv. þess efnis, að 4. gr. þess falli niður, og bið ég forseta hér með um að leita afbrigða fyrir till., sem er skrifleg og of seint fram komin, þannig að hún geti komið hér til umr. og atkvgr.