19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

137. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 297 um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán til byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva. N. leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem fram koma á þskj. 327. Er þar um tvær breytingar að ræða.

Í fyrsta lagi er lagt til, að heimild til að veita ríkisábyrgð í sambandi við dráttarbrautir verði nokkuð rýmkuð — eða úr 40 millj. kr. í 50 millj. kr. Eins og fram kemur í aths. með frv., er gert ráð fyrir, að um 35 millj. kr. af þeim 40 millj. kr., sem nefndar eru í frv., muni ganga til að veitaríkisábyrgðir í sambandi við þær framkvæmdir, sem þegar eru í gangi og vitað eru um. En eins og reynslan hefur sýnt undanfarið, vill það verða svo, að áætlanir um stærri framkvæmdir vilja í mörgum tilfellum nokkuð fara fram úr áætlun. Einnig leit n. svo á, að eðlilegt væri, að einhver heimild væri fyrir hendi til að veita ríkisábyrgð. Ef einhvers staðar kæmu fram óskir um það, að bætt yrði aðstaða til byggingar dráttarbrautar eða til byggingar skipa í dráttarbrautum, þá yrði það að sjálfsögðu skoðað og metið og væri þá einnig fyrir hendi heimild fyrir ríkisábyrgð í því sambandi.

Í öðru lagi leggur n. til, að við l. gr. komi nýr málsl., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ef sérstaklega stendur á að dómi ráðh., má upphæð ríkisábyrgðar nema allt að 80%, enda séu fyrir hendi fullnægjandi tryggingar.“

Í sambandi við byggingu dráttarbrauta er aðstaðan nokkuð misjöfn. Ef um er að ræða, að sveitarfélag byggir dráttarbrautir, er heimild samkv. hafnal. um, að slíkar framkvæmdir séu gerðar styrkhæfar allt að 40%, og einnig um, að þeim verði veitt ríkisábyrgð allt að 60%. Þó að n. flytji þessa till., ætlast hún til, að reglan um 60% ríkisábyrgð verði hin almenna regla, en þetta ákvæði verði aðeins notað, ef þannig stendur á að dómi ráðherra, að nauðsynlegt sé að veita hærri ríkisábyrgð, en almenna reglan verði þó eftir sem áður um aðeins 60% ríkisábyrgð.