23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði hér í töskunni skýrslu um meðaltekjur bænda árið 1965 í einstökum sýslum. Og þessi skýrsla er ákaflega fróðleg að því leyti, að þar kemur fram, að tekjur bændanna eru svo misjafnar í sýslunum. Í þeirri sýslunni, sem er tekjuhæst, eru árstekjur 257.969 kr. að meðaltali á kvænta bændur. En í þeirri, sem er lægst, eru þær 156.500 kr. Þarna munar bara rúmlega 100 þús. kr. á tekjuhæsta bóndanum og þeim tekjulægsta. Sem betur fer er það nú þannig í nokkuð mörgum sýslum, að meðaltekjur bænda eru talsvert hærri heldur en viðmiðunarstéttanna, en í öðrum miklu lægri. Og þetta er vitanlega mikið vandamál, hvernig með þetta skuli fara, hvernig er hægt úr þessu að bæta. Ég er alveg samþykkur hv. síðasta ræðumanni um það, að þetta er vitanlega mikið vandamál, og þegar munar nú allt að 100 þús. kr. á tekjuhæsta bóndanum og þeim tekjulægsta, er náttúrlega eðlilegt, að meðaltalið, landsmeðaltalið, verði ekki hátt. Nú er það svo, að árið 1966 var allmiklu lakara heldur en 1965. Það voru harðindi, það þurfti að gefa miklu meiri fóðurbæti heldur en áður og heyskapurinn var minni. Og meðalvigt dilkanna var líka lægri heldur en hafði verið árið áður. Ég geri mér vonir um, þrátt fyrir ýmislegt, sem hefur verið á móti bændunum á þessu ári, að árið 1967 verði eitthvað betra heldur en 1966. Þó er því ekki að leyna, að það hafa orðið harðindi, kal í túnum og mjög langur gjafatími í vissum landshlutum, sem verið er að reyna að bæta úr með því að uppfylla till. svokallaðrar kalnefndar. Ekkert ætla ég að fullyrða um það, hvort sú aðstoð er í rauninni nægileg. Ég vil ekkert um það fullyrða. Ég veit það, að þeir, sem búa á harðindasvæðunum, hafa orðið fyrir miklu tjóni og það er erfitt að bæta það að fullu. En sem sagt, ég vildi aðeins vekja athygli á þessu og taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hér er mikið vandamál á ferðinni og vandséð, hvernig með skuli fara.