22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða við þessa 1. umr. um ríkisreikninginn fyrir árið 1966 að gera nokkra grein fyrir afstöðu okkar, er að endurskoðun ríkisreikningsins unnum. Vil ég taka fram þegar í upphafi, að við höfum fylgt þeirri stefnu, sem hefur verið venja síðustu ára, að endurskoðunin hefur ekki verið miðuð við pólitíska afstöðu endurskoðendanna til hæstv. ríkisstj. heldur fyrst og fremst við venjulega endurskoðun á reikningum án pólitísks mats. Við höfum talið, að þau vinnubrögð væru í alla staði heppilegri og farsælli fyrir þessi störf.

Þær aths., sem við höfum gert við ríkisreikninginn og prentaðar eru, eins og hæstv. fjmrh. benti á, gefa að vísu ekki tilefni til mikillar umr. Þó þykir mér rétt að vekja athygli á nokkrum þeirra.

Fyrsta aths. okkar er sú, eins og venja hefur verið, að farið hefur verið nokkrum orðum um eftirstöðvar til næsta árs af óinnheimtum tekjum ársins, sem var að líða. Nokkur vöxtur hefur verið í þessum eftirstöðvum hin síðari ár og verulegur á árinu 1966. Af hálfu ríkisendurskoðunarinnar er að vísu gerð grein fyrir því, hvernig á þessu standi, en þó er sjáanlegt, að innheimta hefur gengið verr á því ári en verið hefur undanfarin ár, og má gera ráð fyrir því, eins og nú horfir, að meira sæki í þetta horf. Hins vegar er það nauðsynlegt fyrir ríkissjóð eins og aðra, er innheimtu stunda, að vel sé fylgt eftir innheimtu á ríkisgjöldunum, og leggjum við áherzlu á það.

Annað atriði, sem ég vildi víkja nokkru nánar að, eru skil innheimtumanna ríkissjóðs við ríkissjóð. Eins og kemur fram í því uppgjöri, sem ríkissjóður gerir, og þeim upplýsingum, sem við höfum fengið hjá ríkisbókhaldinu, er nokkuð útistandandi hjá innheimtumönnum af því, sem þeir telja sig vera búna að innheimta. Samkv. lista, sem við fengum frá ríkisbókhaldinu, hafði dregizt nokkuð að skila því á árinu 1967, sem talið var innheimt í árslok 1966. Hér fannst okkur vera um að ræða mál, sem þyrfti athugunar við, og eins og fram kemur í svörum ríkisbókhaldsins við aths. yfirskoðunarmanna um þetta, er ástæðan m.a. sú, að innheimtumenn ríkissjóðs afhenda í sínum skilagreinum reikninga, sem ríkissjóður á að endurgreiða þeim, en þessir reikningar eru ekki færðir þeim til tekna fyrr en ári seinna — eða ef til vill ekki það. Þess vegna lítur þetta þannig út samkv. þeim upplýsingum, sem bókhaldið gefur, að hjá þessum innheimtumönnum séu nokkrar fjárhæðir útistandandi sem þeir áttu að vera búnir að skila og eru að vísu búnir að skila, þó að það sé ekki fært. Við teljum, að það sé mjög óheppilegt að hafa þennan hátt á og það sé óeðlilegt að telja, að innheimtumenn ríkissjóðs liggi með fjárhæðir, sem þeir eru búnir að inna af höndum með því að greiða reikninga, sem embættin eiga að greiða, en ríkissjóður viðurkennir ekki. Meðal þeirra reikninga, sem hafa verið tilgreindir í þessum tilvikum, eru greiðslur þær, sem sýslumenn þurfa að inna af hendi vegna minka- og refaveiða, en ríkissjóður hefur hins vegar ekki endurgreitt þeim, vegna þess að lægri fjárhæð er áætluð í fjárl. til þeirra greiðslna en raun ber vitni um. Okkur finnst, eins og þetta horfir við frá sjónarmiði endurskoðunarinnar, að ekki sé rétt að farið af hálfu ríkissjóðs gagnvart þessum innheimtumönnum og breyta þurfi þar um og viðurkenna þá reikninga, sem þeir hafa heimild til að greiða. Verði það að gerast, jafnvel þó að um umframgreiðslur sé að ræða hjá ríkissjóði.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að samkv. svörum póst- og símamálastjórnarinnar við aths. um reikninga útistandandi hjá þeirri stofnun, telur Póstur og sími sig eiga inni hjá ríkissjóði um 10 millj. kr. vegna kostnaðar við fyrirgreiðslu á orlofsog sparimerkjum. Hins vegar viðurkennir fjmrn. ekki, að Póstur og sími eigi þessa fjárhæð inni, og telur, að greiðslur þessarar stofnunar fyrir þessi störf geti ekki og eigi ekki að vera önnur en þau, sem ætlazt sé til á fjárl. hverju sinni. Hér er um nokkra fjárhæð að ræða eða eign þessarar stofnunar, og það er með öllu óeðlilegt og óæskilegt, að um þetta sé deila. Rn. og þessi stofnun verða að gera út um það, hver hin raunverulega greiðsla eigi að vera, svo að stofnunin sé ekki að telja sér til eigna innistæður hjá ríkissjóði, sem þar fást ekki viðurkenndar.

Þá var það á árinu 1966, að halli var á ríkisútvarpinu, þ.e. hljóðvarpsdeildinni — rúmar 10 millj. kr. í svörum stofnunarinnar við þessari aths. er í raun og veru ekki að finna neina skýringu á því, hver er ástæðan fyrir þessum halla, þar sem gert var ráð fyrir því á fjárl., að þau verk, sem þar eru tilgreind, yrðu greidd af rekstrarfé stofnunarinnar, en ekki á annan hátt. Það hefur áður verið gerð aths. við það, hvað það gengi seint hjá ríkisútvarpinu að innheimta afnotagjöld og látið var í ljósi af hálfu endurskoðunarinnar, að sum af þessum gömlu afnotagjöldum hlytu að vera töpuð eða miklar líkur væru til þess, enda hefur það reynzt svo, þar sem á árinu 1966 hafa verið afskrifaðar 11/2 millj. kr. af afnotagjöldum ríkisútvarpsins sem tapað fé. Er ekki hægt að sjá á svörum stofnunarinnar, að til séu nein ráð til þess að bæta úr þessum rekstrarhalla ríkisútvarpsins, sem átti sér stað bæði 1965 og þó sérstaklega 1966. Það getur auðvitað ekki gengið, að sú stofnun sé — fremur en aðrar ríkisstofnanir rekin með halla, án þess að framlög frá ríkissjóði komi þá til. Nú hefur ekki verið stefnt að því með þessa ríkisstofnun, og er það því eðlilegt, að stjórnendur stofnunarinnar geri sér grein fyrir þeim kostnaði, sem þarf til að reka hana, en svo virðist ekki hafa verið gert. Þá kemur það einnig í ljós í svari ríkisútvarpsins við aths., að innheimta afnotagjalda á árinu 1967 hefur ekki gengið svo vel sem skyldi og tekjur ríkisútvarpsins af hækkuðum auglýsingatöxtum hafa heldur ekki gefið góða raun. Hér verður því að horfast í augu við þá staðreynd, að stefna sú, sem fylgt hefur verið síðustu árin um fjárhag þessarar ríkisstofnunar, getur ekki átt neina framtíð fyrir sér, ef vel á að fara.

Í sambandi við bókhald bændaskólanna var gerð aths. af hálfu endurskoðunarmanna. M.a. var það, að Bændaskólinn á Hólum hafði ekki skilað ársreikningi sínum fyrir árið 1966, þegar ríkisreikningurinn var prentaður, og er það með öllu óviðunandi, að ríkisstofnanir haldi þannig á, að þær hafi ekki skilað reikningum sínum, áður en ríkisreikningur er að fullu gerður. Í öðru lagi má nefna bókhald Bændaskólans á Hvanneyri, sem er mjög umfangsmikið vegna mikils búrekstrar, skóla með framhaldsmenntun búfræðinga, sem þar er, og nýrrar skólabyggingar. Hér er því um umfangsmikinn rekstur að ræða að dómi endurskoðunarmanna, og er of mikið blandað saman einstökum þáttum, svo að óljós er kostnaður við hvern einn þátt, og teljum við hina mestu nauðsyn, að unnið verði að því að gera þetta bókhald gleggra en það er nú.

Nokkur undanfarin ár hefur verið gerð aths. í sambandi við viðskipti vita- og hafnamálaskrifstofunnar. Nú hefur bókhald hennar — og sérstaklega þessar viðskiptaskuldir — verið tekið til sérstakrar meðferðar. Kemur þá í ljós, sem að vísu mátti gera ráð fyrir, að eitthvað af þessum skuldum er tapað, en eins og horfir, er þar ekki um verulegar fjárhæðir að ræða, en að því er unnið að ganga í að búa betur um hnútana í þessu máli en tíðkazt hefur og tryggja innheimtu á eignum þessarar stofnunar.

Nokkrar aths. voru gerðar við rekstur Ferðaskrifstofu ríkisins, og ég hef áður hér á hv. Alþ. vikið að rekstri á sumarhótelum þessarar stofnunar. Það er mín skoðun, að rekstur á sumarhótelum Ferðaskrifstofu ríkisins orki að verulegu leyti tvímælis. Það er ljóst, að þessi stofnun heldur uppi hótelum í skólunum með ríkisframlagi í 2–3 beztu mánuði ársins, keppir þannig við venjuleg hótel, sem starfrækt eru í viðkomandi héruðum, og nýtur bezta árstímans til hótelstarfseminnar. Svo bera þessi venjulegu hótel skarðan hlut frá borði, þegar bezt gegnir, en verða að taka á sig hallann af „dauða“ tímanum í hótelrekstrinum. Það er mjög hæpið, að það eigi að nota ríkisfé til þess að keppa við hótel, sem starfrækt eru með venjulegu móti í þeim héruðum, þar sem þau eru fyrir hendi.

Aths. var gerð við annan kostnað rn., sem fór á þessu ári, eins og oft hefur átt sér stað áður, nokkuð verulega fram úr áætlun fjárlagafrv., en í svari rn. er gefin skýring á þessum umframgreiðslum, og mun ég ekki gera þær sérstaklega að umtalsefni hér.

Um ferðakostnað á vegum utanrrn., sem fór verulega fram úr áætlun fjárl., er fengin sú skýring af hálfu rn. að á þann lið sé færður kostnaður vegna sendiráða, sem raunverulega séu rn. óviðkomandi, og er með öllu óeðlilegt, að þannig sé færslu hagað.

Ég tel mig muna það rétt, að það hafi komið fram í ræðu hæstv. fjmrh., þegar hann lagði fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1968, að kostnaður við málflutning væri orðinn verulega hár og þyrfti að gæta hófs í þeim kostnaði sem og öðrum rekstrarútgjöldum. Þessi liður fór um 1 millj. kr. fram úr áætlun fjárlagaárið 1961 og var brúttó rúmar 6 millj. kr. í stað 4.5 millj. kr., en endurgreiðslur urðu heldur meiri heldur en gert hafði verið ráð fyrir. Í sambandi við þetta var gerð fsp. um, hvernig með skyldi farið, þegar rn. ákvæði gagnsókn í máli, og eru svör rn. birt þar. Samkv. mati okkar endurskoðunarmanna virðist nokkurs frjálslyndis gæta í meðferð þess háttar í málskostnaði ríkisins, að gjafsókn sé veitt, án þess að hægt sé að íinna, að þau rök, sem greind eru í svari rn., nægi þar til skýringar. Ég vil undirstrika það, að það er alveg óeðlilegt, að ríkissjóður taki að sér að kosta deilumál manna, þegar fjárhagur þeirra, sem að málunum standa, er þannig, að eðlilegt er, að þeir ættu að geta staðið sjálfir undir kostnaði, og ekki er sjáanlegt heldur, að nauðsyn bæri til málssóknarinnar, ef hlutaðeigandi aðili hefði ekki sjálfur fjárhagslegt bolmagn til þess. Ég vil því undirstrika það, að nauðsyn ber til, að þess sé gætt, að ríkissjóður sé ekki að taka á sig óþarfakostnað vegna málssóknar þeirra aðila, sem honum eru alveg óviðkomandi.

Að lokum vil ég svo geta þess, vegna þess að það hefur stundum valdið hér nokkrum deilum á hv. Alþ., að ríkisendurskoðunin hefur ekki að fullu verið búin að ljúka endurskoðun á reikningum, áður en yfirendurskoðun hefur átt sér stað á ríkisreikningi. Það er svo að þessu sinni, svo sem áður hefur verið, að ríkisendurskoðunin hefur ekki lokið að endurskoða alla reikninga ríkisstofnana, sem eru tilfærðir í ríkisreikningnum. Yfirskoðunarmenn hafa samt gengið frá sinni endurskoðun á þessu máli og skrifað undir reikninginn, og hafa þeir lagt áherzlu á það við ríkisendurskoðunina. Mun verða reynt að fylgja því fast eftir framvegis, að endurskoðun ríkisreiknings hvers árs verði lokið næsta ár á eftir, þ.e. að endurskoðun verði lokið þannig, að það safnist ekki fyrir á milli ára. Og komi eitthvað fram í þeim reikningum, sem ríkisendurskoðunin hefur ekki fulllokið endurskoðun á, áskilja yfirskoðunarmenn sér rétt til þess að athuga það mál síðar. Hins vegar hefur það verið regla ríkisendurskoðunarinnar að láta alla hina stærri reikninga, þ.e. reikninga stærri stofnana og ríkisfyrirtækja, ganga fyrir, en þá minni sitja á hakanum, og lagt verður kapp á það, að ekki verði dregið ára á milli að endurskoða þá.

Að öðru leyti mun ég ekki gera frekari aths. við ríkisreikninginn.