22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekkert. að athuga við það, sem hv. 3. þm. Vestur1. sagði um ríkisreikninginn, en hann er, sem kunnugt er, einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, og ég sé ástæðu til þess að þakka honum og öðrum yfirskoðunarmönnum fyrir sitt starf. Þeir hafa gengið rösklega í það að endurskoða reikninginn og gert það mögulegt að leggja hann fram svo snemma. Ég tel það jafnframt vera rétta stefnu, sem ég hygg, að hafi verið fylgt af öllum yfirskoðunarmönnum alla tíð, að vera ekki að blanda inn í yfirskoðunarstarfið pólitískum sérsjónarmiðum um það, hvernig ríkisbúskapinn hefði átt að reka í meginefnum, heldur halda sér að því að gera aths. við hin einstöku atriði ríkisreiknings miðað við fjárl. og finna að því, ef ekki er þar haldið á sem skyldi varðandi einstaka liði. Ég hef tekið það fram, síðan ég tók við þessu starfi, að mér væri ekki nema þökk í því, að yfirskoðunarmenn kæmu í aths. sínum eða jafnvel persónulega eða bréflega á framfæri við mig aths. og ábendingum, sem þeir teldu einhverju varða og sem endurskoðun þeirra leiddi í ljós, því að vitanlega er það mér mikils virði, að yfirskoðunarmennirnir einmitt leggi sig fram um það að skoða málin ofan í kjölinn hlutdrægnislaust, en efnislega og raunsætt, og hiki ekki við að koma með ábendingar um það, sem þeir telja, að mætti betur fara.

Það voru aðeins nokkur orð um þau atriði, sem hv. þm. minntist á, sem ég vildi segja hér til frekari skýringar af minni hálfu. Hann ræddi um það, að það hefðu safnazt saman auknar eftirstöðvar á árinu 1966, og einnig munu þær verða á árinu 1967 allverulegar. Þetta er alveg rétt. Meginástæðan er sú, eins og hv. þm. er öllum kunnugt, að það var tekin upp ný skipan við að loka ríkisreikningnum. Nú er öllu bókhaldi ]okað um áramót. Áður var þessu haldið opnu fram eftir ári — jafnvel í nokkra mánuði — og var þá bókað sem tekjur fyrra árs það, sem var verið að innheimta á þessum mánuðum. Nú er þetta ekki gert að öðru leyti en því, að söluskattur er færður inn á árið á undan, enda þótt ekki sé lokið við að innheimta hann að fullu fyrr en í febrúar næsta ár. Þetta er óumflýjanlegt, vegna þess að ella yrði svo geysileg sveifla á hag ríkissjóðs miðað við það ár, sem þessi breyting ætti sér stað, vegna þess að síðasti ársfjórðungur í söluskatti gefur alltaf langmestar tekjur. T.d. á s.l. ári mun söluskattur á þriðja ársfjórðungi hafa numið allmikið á fjórða hundrað millj. kr., þannig að það hefur ekki verið talið auðið annað en að bókfæra það á það ár, sem hann var á lagður, en ekki miða við innheimtuár.

Ég vil aðeins láta það koma fram hér og taka undir það, sem hv. þm. sagði, að það er auðvitað hin brýnasta nauðsyn að hafa innheimtuna í sem beztu lagi, og enda þótt hér sé um skýringu að ræða, sem er eðlileg og þarf að hafa til hliðsjónar, þegar borið er saman við fyrri ár, er ég sammála því, að það er of mikið um eftirstöðvar og þær hafa eðlilega farið vaxandi miðað við það, að þær tekjur, sem inn þarf að heimta á hverju ári, hafa hækkað mjög verulega ár frá ári. Á s.l. ári var lögð á það höfuðáherzla við innheimtumenn að gera nú harða hríð að innheimtunni, og ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að innheimtumenn hafa lagt sig mjög vel fram um allt land á s.l. ári, enda þótt það kannske hafi ekki skilað þeim árangri sem skyldi, vegna þess að hagur atvinnuveganna á árinu 1967 var, sem öllum þm. er kunnugt, á margan hátt mjög erfiður og við því að búast, að erfitt yrði um innheimtu. Auk þess er því ekki að leyna, að reglurnar, sem gilda um útsvör, og það skilyrði til að fá þau dregin frá við álagningu útsvara næsta árs er, að þau hafi verið að fullu greidd fyrir áramót, veldur því, að menn láta sitja í fyrirrúmi að greiða útsvörin, en ekki skattana, svo að þetta auðvitað kemur niður á ríkissjóði og innheimtumönnum ríkissjóðs, þannig að þeir geta ekki sýnt eins góða útkomu af þessum ástæðum. Ef að þrengir, láta menn auðvitað útsvörin sitja fyrir. En ég tel það rétt, að það komi fram, að lögð hefur verið á það rík áherzla að bæta hér um. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er auðvitað undirstöðuatriði fyrir afkomu ríkissjóðs, að álagðir skattar séu ekki látnir standa úti.

Stærra átak hefur verið gert í þessum efnum í sambandi við tolla og beitt mun harðari aðferð við innheimtu þeirra. Því miður hefur það átt sér stað allvíða út um land, að vörur hafa verið afhentar heimildarlaust, án þess að tollar hafi verið greiddir. En nú hafa verið við hafðar mjög róttækar aðgerðir og hótað öllum þeim viðurlögum, sem hægt er að beita, ef þessu verði ekki kippt í lag. Þetta á sér ekki stað í Reykjavík né á ýmsum öðrum stöðum, og því fjarstæðara er það, að slík mismunun eigi sér stað annars staðar á landinu. En það hefur þokazt mjög í þá átt á s.l. ári, að þetta komist í samt lag, og ég vonast til, að það haldi áfram og þessu verði að verulegu leyti kippt í lag.

Það er einnig rétt hjá hv. þm., að það er vandamál við uppgjör við sýslumenn, að þeir eru með ýmiss konar reikninga, sem þeir framvísa og sumir hverjir eru þess eðlis, að það eru ekki fjárveitingar fyrir þeim. Þetta er vandamál, sem veldur því misræmi, sem hann vék að, og ég tel sjálfsagt, að það verði tekið til athugunar. Uppgjör við sýslumenn vegna ýmissa greiðslna, sem þeir hafa innt af höndum hefur verið tekið til rækilegrar athugunar í dómsmrn., þ.e. hvernig mætti koma í veg fyrir það, að þeir inni af höndum greiðslur, sem ekki er talið hægt að viðurkenna, að séu gjaldskyldar fyrir ríkið á því ári, sem um ræðir. Því miður hefur það viljað brenna við, að sýslumenn hafa greitt úr sjóði sínum kostnað, t.d. við embættisbústaði sína, sem ekki hefur verið veitt fé til, og er það vitanlega algerlega heimildarlaust að greiða úr sjóði af ríkistekjum á þennan hátt. Með þessum hætti hefur safnazt fyrir kostnaður upp á nokkrar millj. kr. hjá embættunum að mestu leyti vegna viðgerða og framkvæmda á embættisbústöðum, sem talið hefur verið nauðsynlegt að gera, en fé hefur ekki verið veitt til, og er vitanleg ekki heimilt að greiða með þessum hætti. En ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að ráðstafanir hafa verið gerðar til að slíkt endurtaki sig ekki.

Ég skal ekki fara hér langt út í ágreininginn við Póst og síma um greiðslur vegna skyldusparnaðar. Þeir færa mjög verulega fjárhæð sem eign hjá sér og skuld ríkissjóðs vegna skyldusparnaðarins. Þetta hefur verið deilumál í mörg ár. Það hefur verið litið svo á í félmrn., sem er í rauninni aðili að þessu máli, að það væri óeðlilega há upphæð, sem Póstur og sími krefðist fyrir þessa þjónustu, og það hefur ekki fengizt um þetta úrskurður. Segja má, að það væri eðlilegast, að sá endanlegi úrskurður kæmi þá frá fjvn. Alþ. og að lokum eftir atvikum, þ.e. hvort rétt væri að taka þetta til greina eða ekki, en fjmrn. hefur ekki fyrir sitt leyti viljað fallast á þetta sem skuld, vegna þess að það hefur talið, að það, sem Alþ. veitti á hverjum tíma, bæri að líta á sem fullnaðargreiðslu fyrir þessa þjónustu. En það er alveg hárrétt, að auðvitað þarf að fá botn í þetta mál og sjálfsagt og skylt er að reyna að komast að niðurstöðu í því, svo að það sé þar með úr sögunni.

Um útvarpið skal ég ekki langt mál ræða. Það er rétt, að þar hefur orðið halli á s.l. ári, sem útvarpið skýrir í sínu svari — kannske ekki á fullnægjandi hátt, eins og hv. þm. sagði, um það skal ég ekkert segja. En ég skal taka undir það, að í fyrsta lagi er það auðvitað nauðsynlegt, að þessi stofnun sé rekin hallalaust, og í öðru lagi held ég, að það sé ekki of mikið sagt, þó að fullyrt sé, að innheimta hjá stofnuninni hefur ekki verið í nægilega góðu lagi, og það er auðvitað hin brýnasta nauðsyn, að því máli sé komið í viðhlítandi horf.

Um Ferðaskrifstofu ríkisins vil ég ekki margt segja. Ég ætla, að það sé ýmislegt, sem er hægt að setja út á hennar starfsemi í heild. Ekki það út af fyrir sig, að þeir menn, sem hana reka, reki hana svo illa, heldur það, hvort hún yfirleitt eigi að vera byggð upp á þeim grundvelli, sem hún starfar á, og ég er hv. þm. sammála um það, að þó að það sé sennilega eitt það bezta í hennar starfsemi að koma upp þessum sumarhótelum, getur það auðvitað verið álitamál, hvort þau eigi að vera á vegum Ferðaskrifstofunnar eða hvort þau eigi að vera starfrækt í sambandi við venjuleg hótel eða frá einhverjum aðilum á þeim stöðum, þar sem þeim hefur verið komið upp. Það var gerð sérstök áætlun um að búa skólana húsgögnum á þann hátt, að þessi húsgögn eru í rauninni í eigu ríkisins og voru lögð til í þeim tilgangi, að skólarnir væru aftur notaðir sem gistiheimili á sumrin, þannig að það hefur í rauninni verið óumflýjanlegt, að það væri einhver opinber aðili, sem hefði þessa starfsemi með höndum, eins og til hennar var stofnað, enda er hér um opinberar stofnanir að ræða, þ.e. skóla, sem er kannske dálítið erfitt að leigja einstaklingum. En ég álít, að þetta allt saman þurfi athugunar við og starfsemi Ferðaskrifstofunnar yfirleitt þurfi að koma til endurskoðunar miðað við þær breytingar, sem orðið hafa í ferðamálum.

Um annan kostnað rn. skal ég ekki fjölyrða. Hann hefur farið fram úr áætlun og hefur því miður oft áður gert það, og ég álít, að það beri brýna nauðsyn til þess — sannarlega ekki síður með þennan kostnað en annan — að leggja áherzlu á, að honum verði haldið innan eðlilegra marka. Það hefur verð gerð sú skipulagsbreyting í þessum efnum, að búið er að deila öllum kostnaði rn. niður á einstök rn. Áður var þetta á sameiginlegum kostnaðarliðum, sem kannske hefur dregið nokkuð úr aðhaldi, þannig að hvert rn. er nú algerlega ábyrgt fyrir því, sem það eyðir, og það leynir sér ekki með neinu móti. Það verður ekki bókað annars staðar en á þess reikning, ef einhver sá kostnaðarliður, sem undir það heyrir og ákveðið fé hefur verið veitt til, fer fram úr áætlun. Lögð hefur verið áherzla á nú um áramótin að miða við þessa breyttu skipan, þ.e. að rn. gerðu strax kostnaðaráætlun fyrir allt árið og síðan yrði einhver maður í rn. — væntanlega ráðuneytisstjóri — gerður ábyrgur fyrir því að fylgjast með því, að þessi kostnaður færi ekki fram úr því fé, sem veitt er.

Um málskostnað og gjafsókn vil ég alveg taka undir það, sem hv. þm. sagði og vék að í minni fjárlagaræðu í haust. Þessi liður hefur hækkað mjög mikið á undanförnum árum. Gjafsóknarmálum hefur fjölgað mjög verulega. Um það eru engar ákveðnar reglur, heldur er það á valdi dómsmrn. að veita gjafsókn. Það hafa farið fram umr. um það á milli fjmrn. og dómsmrn., hvort ekki væri hægt að koma hér á ákveðnari kröfum og veita meira aðhald í þessum gjafsóknarmálum. Ætlunin er, að gjafsókn sé veitt, ef um er að ræða aðila, sem efnahags vegna eiga annars erfitt með að reka réttar síns, eða um er að ræða mál, þar sem menn eru að fá úrskurð um einhverjar stjórnvaldsathafnir, sem geta orkað tvímælis. Þá hefur það þótt sanngjarnt í ýmsum tilfellum að veita slíka gjafsókn. Og það er fullur vilji fyrir því hjá dómsmrn. að spyrna hér við fótum og fækka þessum gjafsóknarleiðum. Það er annar þáttur í þessu máli, sem einnig hefur verið vaxandi áhyggjuefni hjá okkur, og það er málskostnaður. Það er alltaf á hverju ári mikill fjöldi mála, sem ríkið stendur í. Sjaldnast er það nú sóknaraðili, heldur varnaraðili, og ræður því litlu um það, hvað það stendur í mörgum málum. Það er vegna skaðabóta og ótal margs, sem hinir og aðrir aðilar fara í mál við ríkið. Skal ég ekkert um það segja, hvað rétt eða rangt er í því að taka mjög vægilega á málskostnaði í þessum málum, jafnvel þó að sá, sem fer í mál við ríkið, tapi sínu máli, þá virðist vera mikil tilhneiging til þess að láta skellinn heldur falla á ríkið. Það er kannske sjónarmið út af fyrir sig, að sá eigi að bera kostnað, sem bakið hefur breiðara, og það virðist nú æðioft svo, að það þyki ekki nema eðlilegt sjónarmið, að ríkið sé látið borga brúsann, þar sem hægt er að koma því við. Um þetta hafa rn. náttúrlega ekkert að segja. Þetta eru úrskurðir dómstóla og ekki okkar að leyfa okkur að gagnrýna þær niðurstöður.

En í sambandi við þetta má nefna annað vandamál, og það er málskostnaðarkrafa þeirra lögmanna, sem flytja mál fyrir ríkið. Það er mikið vandamál, vegna þess að þarna er oft um að ræða greiðslur, sem geta hlaupið á hundruðum þús. kr. Sama er að segja um matsgerðir, sem ríkið lætur framkvæma. Þar er oft um að ræða mjög hæfilegar kröfur og sannleikurinn er sá, að það vill oft verða svo bæði með þetta og ýmislegt annað. Við skulum taka t.d. vinnu ýmissa sérfræðinga, arkitekta og eitt og annað slíkt. Þegar ríkið á í hlut eru venjulega reikningar hafðir í hámarki, þó að af þeim sé slegið, þegar einkaaðilar eiga hlut að máli. Þetta hefur valdið því, að við höfum ærið mikið íhugað, hvort hægt er að finna einhverja úrlausn á þessu máli. Ég minntist á það — ég hygg í fjárlagaræðu minni — að mér fyndist vel geta komið til álita að ráða sérstakan ríkislögmann, sem annaðist málflutning fyrir ríkið og hefði þá fyrir það ákveðna þóknun. Þetta er svipað fyrirkomulag og Reykjavíkurborg hefur. Hún hefur sérstakan borgarlögmann, sem ég hygg, að hafi reynzt vel. Úr þessu hefur ekki orðið enn þá. Hins vegar hefur verið ákveðin sú skipan á þessum málum — og á það einnig við um greiðslu nefndakostnaðar, sem er töluvert vandamál á hverjum tíma, þegar nefndir eru skipaðar og reikningar koma síðan eftir á, sem eru æðimisjafnlega háir stundum eftir því, hverjir í n. sitja — til bráðabirgða, að allir, sem taka að sér málflutning fyrir ríkið, matsstörf eða nefndarstörf, verði háðir því, að þeir beygi sig undir úrskurð, sem gefinn verði að starfi loknu af sérstökum trúnaðarmönnum, sem valdir hafa verið til þess að fara yfir slíkar kröfur og leitast við að samræma þær. Hvort það tekst að lagfæra þetta mál með þessum hætti, skal ég ekki um segja, en það er þó a.m.k. viðleitni í þá átt að reyna að hafa samræmi í þessum greiðslum og sjá til þess, að ekki séu settir upp alveg óhæfilegir reikningar og menn standi bara andspænis því eftir á að verða að gera svo vel að borga það, sem upp er sett.

Ég held svo ekki, herra forseti, að það hafi verið fleira, sem gaf tilefni til hugleiðinga í sambandi við orð hv. 3. þm. Vesturl. Eins og ég sagði í upphafi míns máls, er ég ekki á neinn hátt að gagnrýna það, sem hann sagði hér, heldur get ég tekið undir það allt og tel aðeins, að það hafi verið rétt, að þetta kæmi fram til frekari skýringar á ýmsum þeim atriðum, sem hann minntist á.