13.02.1968
Efri deild: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

129. mál, verkfræðingar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál þetta er búið að eiga nokkurn aðdraganda, en eins og fram kemur í grg., var það svo, þegar l. nr. 44 frá 1963 um rétt manna til þess að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða tæknifræðinga voru sett, að fellt var niður starfsheitið iðnfræðingur, sem áður hafði verið í l. Síðan hefur verið nokkur ágreiningur um það milli þessara sérmenntuðu manna, hverjir hafi rétt til þess að nota þessi starfsheiti, og hér er lagt til í þessu frv., að tekið verði upp nýtt starfsheiti, byggingafræðingur (byggingskonstruktör), til þess að greina á milli manna með nokkuð svipaða menntun, en þó ekki eins, annars vegar tæknifræðinga og hins vegar byggingafræðinga. Byggingafræðingar, sem ég kalla svo, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, hafa um nokkuð langt skeið unnið að því að afla sér starfsheitis, sem þeir gætu við unað, og það er rétt, að ég segi frá því, að þeim var lengi í huga orðið „tækniarkitekt“ eða tæknihúsameistari fremur heldur en það orð, sem hér er nú lagt til, að notað verði, en að vandlega athuguðu máli og eftir ítrekaðar viðræður við iðnmrn. hafa þeir fellt sig við þetta starfsheiti. Sjálfur var ég þeirrar skoðunar, að mér fannst starfsheitið tækniarkitekt geta valdið nokkrum ágreiningi og jafnvel mætti skilja það sem arkitekt. Nú er þetta til lykta leitt, og byggingafræðingar fella sig vel við þetta og hafa stofnað sitt félag, og þá held ég, að séð sé sæmilega fyrir hagsmunamálum þeirra, sem taka próf frá þeim skólum, þar sem kennd er þessi grein á Norðurlöndum, þ.e. Bygningskonstruktörskolen eða Byggeteknisk Höjskole í Danmörku, sem hét áður Köbenhavns Bygmesterskole. En það hefur líka orðið þessum mönnum til trafala, að meðan á þessu hefur staðið, hafa þeir ekki öðlazt þann rétt, sem þeir telja sig hafa menntun og aðstöðu til, til þess að skrifa sem sérfræðingar upp á teikningar að byggingum hjá bygginganefndum, og það er ætlunin, að þessi lagfæring muni stuðla að því, að fram hjá þeim erfiðleikum verði einnig hægt að komast og þurfi þá væntanlega að gera breytingar á byggingarsamþykktum í samræmi við það.

Ég vil ekki leyna því, að arkitektar eða húsameistarar hafa sent erindi til menntmrh., sem síðan sendi það til iðnmrh., en þessi lög og framkvæmd þeirra hafa heyrt undir iðnmrh. Þeir vildu fá starfsheiti sitt betur verndað en það er, en í því fólst, að það mætti ekki nota það í samsettum orðum, en um það hafði staðið deila, og við höfum haft hér t.d. skrúðgarðaarkitekta og húsgagnaarkitekta. En dómar hafa gengið þessum mönnum í vil, og ég hygg, að það sé miklu síður til þess fallið að valda nokkrum misskilningi, þ.e. slík samsett orð eins og skrúðgarðaarkitekt og húsgagnaarkitekt, og það liggi í hlutarins eðli, að það sé fjarri því að gera merkingu starfsheitisins óljósari, heldur verði beinlínis til þess að þrengja hana. Ég vildi láta þess getið, að þessi málaleitun hefur komið fram, þó að hins vegar sé ekki tillit tekið til hennar í frv. því, sem hér er flutt.

Að öðru leyti skal ég ekki rekja nánar þann ágreining, sem um þetta hefur orðið, og niðurstöður dómstóla þar um, en ég held, að með þessu frv. sé leyst úr miklum vanda, sem vissulega varð að leysa fyrir hina svokölluðu byggingafræðinga, og þeir og þeirra samtök muni sætta sig við þá niðurstöðu málsins, sem í þessu frv. felst, og mér er ekki kunnugt um, að neinn ágreiningur sé við hina sérfræðingana, hvorki arkitekta né verkfræðinga og heldur ekki tæknifræðinga, og Tæknifræðingafélag Íslands, eins og segir í grg., mun fyrir sitt leyti hlynnt þeirri lausn á málinu, sem hér er lagt til, að fylgt verði.

Ég vildi svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.