14.03.1968
Efri deild: 70. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

129. mál, verkfræðingar

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Hjá iðnn. hefur verið til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 44 frá 3. apríl 1963, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða tæknifræðinga. Frv. gerir ráð fyrir, að inn í l. sé bætt nýju starfsheiti, þ.e. byggingafræðingar, nánar skilgreint á dönsku „bygningskonstruktörer.“ Á þskj. 367 skilar iðnn. samhljóða nál. og mælir með samþykkt þessa lagafrv. N. leitaði álits Verkfræðingafélags Íslands, Tæknifræðingafélags Íslands og Arkitektafélags Íslands. Tvö fyrstnefndu félagssamtökin sendu jákvæða álitsgerð, en frá því þriðja barst ekki svar. Einnig fékk n. upplýsingar og lög Byggingafræðingafélagsins ásamt reglum, sem gilda í Danmörku fyrir slíkt nám, en við það miða byggingafræðingar hér inngöngu í félag sitt. Byggeteknisk Höjskole í Danmörku er nú þriggja og hálfs árs skóli með undirbúningsdeild, svo að einsýnt er, að menn, sem lokið hafa slíku námi eða hliðstæðu námi, eiga rétt til síns starfsheitis ekki síður en þeir, sem lögin gera áður ráð fyrir, að eigi slíkan rétt.

Herra forseti. Að þessu athuguðu mælir iðnn. með samþykkt þessa frv., sem veitir byggingafræðingum þennan rétt.