04.04.1968
Efri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

153. mál, eftirlit með framleiðslu og verslun með fóðurvörur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta var samþ. í hv. Nd. með tveimur lítilsháttar breyt. Frv. er samið af n., sem skipuð var 1966 til þess að endurskoða l. um verzlun með fóðurvörur. Í n. voru skipaðir Pétur Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, og var hann formaður n., dr. Þórður Þorbjarnarson og Árni G. Pétursson, ráðunautur. Það eru ekki stórfelldar breyt., sem lagt er til með þessu frv. að gera á gildandi l. Má segja, að það séu þær breyt. einar, sem nauðsynlegar eru með hliðsjón af þeim breyt., sem orðið hafa í þjóðlífinu. — það er hert á eftirliti með því að koma í veg fyrir, að vondar vörur verði seldar sem fóðurvörur. Það eru lagðar skyldur á þá, sem verzla með vöruna, og enginn getur verzlað með fóðurvöru nema að fengnu leyfi frá landbrn. Þá er sú breyt. sjálfsögð, að hér eftir er það Rannsóknastofnun landbúnaðarins, sem hefur eftirlit með fóðurvörum í stað þess, að áður var það landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans. Gert er ráð fyrir því að leggja smávægilegt gjald á fóðurvörurnar til þess að standa undir eftirlitskostnaðinum. Það er ekki heimilt að hafa gjaldið hærra en það, að það rétt borgi þennan kostnað. Þá er samkv. 4. gr. þessa frv. ákveðið, hvaða efni skulu vera í þeim fóðurblöndum, sem á markaðinum eru, og skulu fylgja vörunni upplýsingar um þau atriði, sem þar eru tilgreind.

Ég sé ekki ástæður til, herra forseti, að fara fleiri orðum um frv. Það skýrir sig sjálft með þeirri grg. og þeim aths., sem því fylgja. Það má geta þess, að frv. var sent til umsagnar Búnaðarþings, og var það í aðalatriðum samþykkt þessu máli. Þær tvær breyt., sem samþ. voru í Nd. og er að finna á þskj. 464, voru teknar inn í frv. eftir ábendingu Búnaðarþings. Ég legg svo til, herra forseti að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.