02.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

179. mál, vegalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum var hér unnið að afgreiðslu stjfrv. um niðurfærslu á ýmsum útgjaldaliðum ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Í umr., sem fram fóru hér á Alþ. um það mál, kom það skýrt fram hjá hæstv. ríkisstj., að hún taldi, að svo væri nú komið, að hún yrði að huga að því að reyna að draga nokkuð úr ríkisútgjöldum á ýmsum sviðum, vegna þess að ekki væri unnt, eins og nú væri komið, að afla frekari tekna til ríkissjóðs með nýjum álögum. En rétt um það bil, sem að því er komið að afgreiða þetta frv. ríkisstj. frá Alþ., þá leggur hún fram nýtt frv. um nýjar álögur, og það er það frv., sem hér er til umr. nú. Það hlýtur að vekja athygli manna, að stjórnin skuli nota þá röksemd fyrir aðeins nokkrum vikum, að ekki sé hægt að hennar dómi að leggja það til, eins og nú sé komið, að leggja á nýjar álögur og aflaríkissjóði nýrra tekna vegna óhjákvæmilegra útgjalda hjá ríkissjóði, heldur verði að fara hina leiðina, þ.e. að draga úr áður samþykktum útgjöldum ríkissjóðs, en eftir örstuttan tíma er snúið við blaðinu og frv. lagt fram á Alþ. um nýjar — og það allverulegar — álögur á landsmenn.

Nú dettur auðvitað engum manni það til hugar, að á þessum tíma hafi hér orðið nein breyting á aðstæðum í okkar efnahagskerfi, þannig að það sé eitthvað tiltækilegra nú en var fyrir nokkrum vikum að ætla að demba á nýjum álögum. En hvernig stendur þá á því, að ríkisstj. hagar sínum málflutningi á þennan hátt? Hver er ástæðan fyrir því? Getur það verið svo, að einn af ráðherrunum haldi fram þeirri skoðun, sem ég hef tilgreint, þ.e. hæstv. fjmrh., og svo komi annar ráðh. jafnvel úr sama flokki, hæstv. samgmrh., sem heldur fram allt öðru. Hafa þessi vandamál á ríkisheimilinu ekki verið gerð betur upp en svo, að svona málflutningur þurfi að koma fram hjá ríkisstj. Ég lýsti því yfir, þegar fyrra frv. ríkisstj. var hér til umr., þ.e. frv. um nokkra niðurfærslu á ýmsum útgjaldaliðum ríkissjóðs, að ég teldi, að þar væri stefnt í rétta átt. Það þyrfti að minnka ríkisútgjöldin — og alveg sérstaklega eins og komið væri í efnahagsmálum í landinu. Mér var þó ljóst, að það, sem lagt var til í þessu fyrra tilfelli, náði tiltölulega skammt — þar var ekki um stórar till. að ræða, heldur litlar miðað við þörfina, en ég fyrir mitt leyti taldi, að þarna væri stefnt í rétta átt; það væri ekki aðstaða, eins og nú er ástatt í okkar efnahagsmálum, til að koma fram með nýjar álögur. En nú er sem sé komið hér fram frv. frá ríkisstj. um allverulegar nýjar álögur þrátt fyrir þessa fyrri yfirlýsingu, sem hún gaf í sambandi við sparnaðarfrv. sitt.

Það frv., sem hér er um að ræða, gerir ráð fyrir álögum, sem nema samkv. því, sem fram kemur í grg. frv., í kringum 160 millj. kr. á ári. Ofan á þá upphæð á þó eftir að leggja hækkun á ýmsum gjöldum eins og t.d. hækkun á söluskatti, sem verður í fylgd með þessari gjaldahækkun, sem hér er um að ræða. Sennilega nema þessar álögur varla undir 180–190 millj. kr. á ársgrundvelli. Það er upplýst, að þessar álögur á umferðina í landinu muni þýða það, að vísitalan muni hækka um 0.4–0.5 stig. Eftir því sem sérfræðingar ríkisstj. gáfu upp í síðasta verkfalli, þegar var verið að ræða um vísitöluútgjöld, þá mundi um hálfs stigs hækkun á vísitölu nema í almennum útgjöldum hjá öllum launþegum í landinu hvorki meira né minna í öllu launakerfi landsins en 80 millj. kr. á ári. Nú skal ég ekkert segja um það, hvort þessir útreikningar hjá sérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum eru réttir eða nákvæmir eða ekki, en það fer auðvitað ekkert á milli mála, að hálfs stigs hækkun á vísitölunni kemur til með að þýða í reynd allverulega hækkun á launagreiðslum í atvinnurekstri landsmanna, og hygg ég þó, að flestir þeir, sem eiga bíla í landinu og þurfa að nota þá að einhverju ráði, muni halda því fram, að þrátt fyrir þær bætur, sem þeir kynnu að fá fram með nokkurri hækkun á sínu kaupi, beri þeir skarðan hlut frá borði, ef þeir þurfa að borga meira í álögum en þeir fá með kauphækkuninni.

Það er því enginn vafi á því, að það, sem hér er um að ræða, er, að þetta verða allverulegar álögur einnig á atvinnulífið í landinu, eins og það er nú í dag. Talið er, að sú hækkun á bifreiðakostnaði, sem yrði samkv. þessu frv. mundi t.d. þýða það, að mjólk í landinu yrði strax að hækka um 15 aura á hvern lítra og auðvitað mundu öll flutningsgjöld í landinu stórhækka. Alveg sérstaklega er augljóst mál, að flutningar með hinum stóru vöruflutningabílum mundu hækka mjög frá því, sem áður hefur verið, því að gjaldahækkunin á þeim er tiltölulega mest. En nú er það svo, að sú staðreynd liggur fyrir, að mjög verulegur hluti af vöruflutningum í landinu á sér einmitt stað með bifreiðum, einnig vegna þess að af hálfu ríkisvaldsins hefur stórlega verið dregið úr vöruflutningum með skipum á undanförnum árum. Menn hafa því neyðzt til þess í auknum mæli að verða að búa við það að flytja vörur á milli landshluta með hinum stóru vöruflutningabílum. þessum efnum yrði einnig um verulegar álögur að ræða á atvinnureksturinn í landinu, og það er hætt við, eins og þessi mál standa nú, að forsvarsmenn atvinnurekstrarins í landinu mundu fljótlega koma á eftir til ríkisvaldsins og óska eftir auknum stuðningi m.a. vegna þessara auknu útgjalda, sem hér er um að ræða.

Það gefur svo einnig auga leið, að útgjöld almennings í landinu munu auðvitað vaxa verulega af þessum nýju álögum, t.d. koma fargjöld þess fólks, sem þarf að ferðast með strætisvögnum og öðru slíku, til með að hækka verulega. Það er mál út af fyrir sig, að samkv. þessu frv. er greinilega um það að ræða að auka álögur t.d. á strætisvagna, sem eru notaðir í kaupstöðum landsins og fara ekkert út á hina eiginlegu þjóðvegi. Þarna er um að ræða að auka álögur á þeim alveg stórlega, og sýnist ekki ástæða vera til þess að hafa þessi stórauknu gjöld þannig, að þau lendi á þeim vögnum, sem eru gerðir út beinlínis innan kaupstaðanna og fara svo að segja ekkert út á hina almennu þjóðvegi. Hér er um að ræða almennar álögur, sem vitanlega hafa sínar verkanir alveg nákvæmlega eins og um álögur hefði verið að ræða í öðru formi.

Hæstv. ríkisstj. lætur nokkuð í það skína í samhandi við þetta frv., að hér sé verið að hækka þessar álögur, vegna þess að til standi að ráðast í stórframkvæmdir í vegamálum. Ætlunin sé að ráðast í að gera varanlega vegi á nokkrum helztu hraðbrautum landsins eða þar sem umferðin er mest, og í þessum efnum eru jafnvel dregnar upp fyrir mönnum lauslegar myndir af því, hvað til standi í þessum efnum. Rætt er um að leggja varanlegan veg héðan frá Reykjavík og austur á Rangárvelli og annan varanlegan veg héðan frá Reykjavík og upp í Hvalfjörð eða upp í Borgarfjörð og einnig að gera varanlega vegi nokkuð út frá Akureyrarkaupstað. Rætt er jafnvel um, að í þessum efnum hafi menn hugsað sér að leggja varanlega vegi allt að 300 km vegalengd og vel megi því búast við framkvæmdum, sem muni kosta í kringum 1500 millj. kr. a.m.k., og afla þurfi mikilla erlendra lána- og einnig fjár innanlands — í sambandi við þessar framkvæmdir.

Það er auðvitað ekkert um það að villast, að allir landsmenn viðurkenna, að það þyrfti að gera hér stórátök í okkar vegamálum og það væri ákaflega æskilegt að geta ráðizt m.a. í þessar framkvæmdir. En í því frv., sem hér er um að ræða er ekkert fastákveðið um þessar framkvæmdir. Þar er ekkert ákveðið um það, að neitt af þeim álögum, sem hér er um að ræða, eigi raunverulega eða muni raunverulega fara til þess að koma þessum stórframkvæmdum áfram. Þvert á móti kemur það alveg greinilega fram, að gert er ráð fyrir, að allar þær nýju tekjur, sem eiga að falla til samkv. þessu frv. á þessu ári og talið er, að muni nema 109 millj. kr., eigi að fara til almennra og venjulegra vegaframkvæmda af sömu tegund og unnið hefur verið að á undanförnum árum. Það er gert ráð fyrir því, að þetta fé fari í beinan kostnaðarauka við vegaviðhald og brúargerðir í landinu vegna gengisbreytingarinnar, í nokkrar umframgreiðslur, sem orðið hafa á s.l. ári í sambandi við vegagerðarmálin, og að nokkru til þess að ljúka við veginn um Strákagöng við Siglufjörð, veginn um Ólafsfjarðarmúla og veg á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Allt eru þetta framkvæmdir af þessu venjulega tagi, sem okkar vegáætlanir hafa fjallað um og fjár hefur verið aflað til með þeim hætti, sem l. gera ráð fyrir. Þá er einnig minnzt á, að ýmis útgjöld við vegamál hafi orðið óvenju mikil að undanförnu vegna náttúruhamfara, eins og það er orðað. Auðvitað hefur það verið svo og má búast við því áfram, að það verði ýmis áföll, sem þarf að standa undir, og svo hefur það verið um langan tíma í okkar vegagerðarmálum.

Svo til öll þessi upphæð, sem innheimta á á þessu ári — 109 millj. kr., á því að fara í kostnað við hin venjulegu árlegu vegagerðarmál. Það er að vísu talað um, að af þessari upphæð skuli verja 14 millj. kr. — til viðbótar við 7 millj. kr., sem áður hefur verið varið í því skyni — til undirbúnings rannsókna í sambandi við hin stærri vegagerðarmál, en þar er auðvitað heldur ekki um neina slíka upphæð að ræða, að hún réttlæti þá skattheimtu, sem hér er á ferðinni. En þá vaknar næst sú spurning, hvort hér sé um einhverja von til þess að ræða, að á næsta ári — árið 1969 — verði samkv. þeirri tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir, eitthvert fé afgangs, sem gæti gengið til hinna miklu vegaframkvæmda, sem er verið að láta skína í, að vinna eigi að. Það er alveg ómögulegt að segja um það, hvort nokkuð af þeim auknu tekjum, sem hér um ræðir, verður til ráðstöfunar í þessu skyni á árinu 1969. Auðvitað verður vegaviðhaldið dýrara á árinu 1969 en það var á árinu 1967, m.a. vegna gengisbreytingarinnar, og auðvitað verður allur framkvæmdakostnaður þá líka meiri en hann hafði verið áætlaður áður. Ég held því, að allar líkur bendi til þess, að hinar auknu tekjur, sem hér á að afla, fari á árinu 1969 alveg sömu leiðina og gert er ráð fyrir í grg. þessa frv., þ.e. að þær eigi að fara á yfirstandandi ári. Það er því ekki hægt að segja með réttu, að hér sé verið að afla tekna beinlínis vegna þeirra stórframkvæmda, sem er verið að láta skína í, að til standi áð ráðast í. Hér er því að mínum dómi verið að fara troðnar slóðir með nýjum álögum sömu tegundar og hér hafa áður verið lagðar á, og þessar nýju álögur munu hafa sömu verkanir og þær hafa haft. Þær hafa hér þau áhrif, að verðlagið í landinu fer hækkandi. Það mun íþyngja atvinnuvegunum í landinu, og það mun fremur auka á dýrtíð að leggja þetta á umferðina. Það er mín skoðun, að eins og nú er ástatt í íslenzkum efnahagsmálum sé ekki aðstaða til þess að leggja út í þessar álögur. Hitt hef ég talið miklu nærtækara að reyna að ganga nokkuð lengra í þá átt að færa niður hin almennu rekstrarútgjöld ríkissjóðs, spara þar meira en áætlað hefur verið að gera og ætla síðan vegagerðinni í landinu nokkuð af þeim sparnaði, sem þannig fengist, svo að hægt væri að standa a.m.k. undir þeim útgjöldum, sem hér er bent á, að þurfi að standa undir á vegum Vegasjóðs.

Ég vil benda á það, að um leið og frv. af þessu tagi er lagt fram, er í rauninni alveg nauðsynlegt fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir því, hvernig ástatt er í okkar atvinnumálum almennt séð. Það er enginn vafi á því, að okkar undirstöðuatvinnuvegir eiga nú mjög í vök að verjast. Það hefur að vísu verið samið um rekstrargrundvöll á yfirstandandi vetrarvertíð fyrir eina þýðingarmestu grein okkar framleiðslu, en horfurnar á vetrarvertíðinni eru heldur slæmar, og það má því búast við því, að útkoman verði eftir því erfið, en hitt liggur líka ljóst fyrir, að það á alveg eftir að semja um rekstrargrundvöll fyrir síldveiðarnar á þessu ári. Eins og málin standa nú vita það allir, sem eru kunnugir þeim málum, að það fer ekkert skip á síldveiðar í sumar, nema til komi nýir samningar um rekstrargrundvöll — bæði skipanna og einnig síldariðnaðarins í landinu. Það er alveg vitað mál, að fiskiskipaflotinn verður ekki gerður út, ef fiskverð verður jafnóhagstætt og á s.l. sumri, og rekstrarútgjöld síldveiðiflotans hafa stórhækkað eftir gengisbreytinguna. Hitt liggur líka fyrir alveg óumdeilanlega, að meginhluti síldariðnaðarins í landinu getur engan veginn borgað það hráefnisverð, sem ákveðið var á s.l. ári. Síldarverksmiðjur ríkisins sýna þetta bezt, en þær voru reknar með margra tugmilljóna tapi á s.l. ári fyrir utan allar afskriftir, og það hefur þegar verið gefið upp, að þær geti engan veginn borgað það hráefnisverð fyrir síldina, sem þeim var ætlað að borga á s.l. ári. Ástandið er því þannig, að það liggur ljóst fyrir, að ríkissjóður á eftir að mæta þeim mikla vanda að skapa grundvöll fyrir síldveiðarnar á komandi sumri og komandi hausti. Vitanlega lifir ekki íslenzkur þjóðarbúskapur það af að ætla að hverfa frá öllum síldveiðum, eins og ástatt er í okkar atvinnumálum.

Ég held því, að með þetta í huga og reyndar marga aðra þætti atvinnumálanna, sem hv. alþm. kunna full skil á, sé það hið mesta óráð að ætla sér, eins og nú standa sakir, að auka á almennar álögur í landinu, sem leiða til stóraukinna útgjalda hjá atvinnurekstrinum — einmitt hjá undirstöðunni í atvinnulífi landsmanna. Slíkt hlýtur vitanlega að hefna sín og koma niður á ríkissjóði fyrr eða síðar, ef ekki á svo illa að fara, að það dragi stórlega úr framleiðslu í landinu, vegna þess að rekstrargrundvöllurinn sé of knappur. Ég tel, að það sé út af fyrir sig stórt og þýðingarmikið verkefni að reyna að vinna að því að gera hér varanlega vegi á fjölförnustu leiðunum í landinu og einnig að vinna að ýmsum vegagerðarmálum svo að segja um allt land. Það er mjög þýðingarmikið mál, og það þarf að reyna að vinna að því. Og ég tel, að það geti einnig komið til greina að taka nokkur lán í samhandi við umfangsmiklar framkvæmdir í þessum efnum — jafnvel erlend lán, en því aðeins er fært að leggja í þessar stórframkvæmdir, að undirstaða atvinnulífsins í landinu sé með þeim hætti, að það sé nokkurn veginn víst, að það geti gengið eðlilega, og því aðeins má leggja út í erlendar lántökur í sambandi við slíkar framkvæmdir sem þessar eru, að það verði að teljast tryggt, að gjaldeyrisframleiðsla landsmanna sé í fullum gangi. Ég álít, eins og málin horfa við nú, að þessu sé ekki að heilsa og við stöndum í þessum efnum frammi fyrir gífurlega miklum vandamálum og það sé í rauninni aðeins verið að loka augunum fyrir staðreyndum þessara vandamála með því að kasta fram frv. eins og þessu, sem miðar hreinlega að því að auka erfiðleikana hjá atvinnuvegunum og almenningi í landinu með því að hækka verðlag til þess að standa undir hinum almennu vegagerðarmálum, sem við höfum unnið að að undanförnu, því að ég sé ekki, að það fé, sem hér er lagt til, að aflað verði, geti farið til þeirra stórframkvæmda, sem er verið að ráðgera.

Það hefur verið bent á það í þessum umr., að ríkissjóður taki til sín miklar fjárhæðir á ári hverju af umferðinni í landinu, og ég hygg, að það sé enginn vafi, að svo sé. Það hefur komið hér fram, að það, sem ríkissjóður tekur til sín af umferðinni í landinu umfram það, sem rennur til vegagerðarmála, muni nema nú orðið um 600 millj. kr. á hverju ári. Það er auðvitað eðlilegt, þegar svona er, að á það sé bent, að reynt verði að koma því þannig fyrir, þegar til stendur að ráðast í stórframkvæmdir í vegamálum, að ríkissjóður gefi eitthvað af þessu fé eftir eða ráðstafi því í þessar væntanlegu stórframkvæmdir, en það tel ég út af fyrir sig, að sé ekki hægt, nema horfið sé að því í miklu ríkari mæli en gert hefur verið að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. En ég er ekki í neinum vafa um það, að það er ekki hægt með eðlilegum hætti að halda uppi þeim ríkisútgjöldum, sem nú er gert ráð fyrir, miðað við þá framleiðslu, sem við höfum úr að spila hjá okkar undirstöðuatvinnugreinum, eins og nú háttar.

Ég tók eftir því, að hv. samgmrh. lagði hér á það nokkra áherzlu í sambandi við þessi nýju gjöld, að það væri ekki gert ráð fyrir því með hækkuninni á benzínskattinum, að benzín yrði stórum dýrara hér en í nágrannalöndum okkar og því væri í rauninni ekki undan miklu að kvarta. En ég vil benda á, að auk þess, sem hér er miklum mun dýrara að eiga og reka bíla en í nágrannalöndum okkar vegna þeirra sérstöku álaga, sem renna beint í ríkissjóð af bifreiðarekstrinum, þá er það einnig svo, að bifreiðin hér á Íslandi hefur allt annað og miklu víðtækara gildi en bifreiðar hafa í nágrannnalöndum okkar. Hér er bifreiðin aðalsamgöngutæki landsmanna, og hér er bifreiðin það tæki, sem að langmestu leyti annast okkar óhjákvæmilegu vöruflutninga í landinu. Í nágrannalöndum okkar horfir þetta allt öðruvísi við. Þar eru vörur fluttar í miklu ríkara mæli en hér með öðrum hætti en með bifreiðum, og þar eru einnig meiri möguleikar á því fyrir almenning en hér er að ferðast með öðrum tækjum en almennum bifreiðum. Af þessu leiðir það, að hækkun á álögum hér á landi á rekstri bifreiða kemur á allt annan hátt niður hér á landi en í nálægum löndum.

Ég vil því við 1. umr. þessa máls lýsa því yfir, að ég er andvígur þessu frv. Ég tel það ekki tímabært, og tel ekki þær aðstæður vera í okkar landi, að við eigum að leggja út í þessa gjaldhækkun á umferðinni. Ég vil hins vegar lýsa því yfir, að ég tel brýna þörf vera á því að undirbúa þær stórframkvæmdir, sem hér hefur verið minnzt á, og það þarf að reyna að gera sér grein fyrir því, hvenær er hægt að ráðast í þær og með hvaða hætti. Það er sjálfsagt að taka þátt í því að reyna að finna leiðir til þess að leysa þann vanda og þá í samræmi við getu okkar. En þegar málum er eins háttað og nú er í okkar efnahagsmálum, tel ég ekki vera aðstöðu til þess að leggja á umferðina í landinu nýjar álögur, sem nema 180–190 millj. kr. á ári með þeim afleiðingum, sem allir sjá, að verða munu. Ef það er talið svo brýnt að ráðast í þessar framkvæmdir, að það sé ekki hægt að skjóta því á frest, þá verður að afla teknanna til þessara framkvæmda með öðrum hætti en hér er lagt til, og þá hallast ég að því, að það verði gert með framlögum úr ríkissjóði og ríkissjóður dragi úr útgjöldum sínum, sem því nemur, á ýmsum þeim liðum, þar sem ég tel, að hægt sé að spara.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta frv. á þessu stigi málsins. Frv. á eftir að fara í n., sem athugar það, en ég vildi, að sú skoðun mín kæmi skýrt fram, að ég er, eins og sakir standa nú, mótfallinn þeim álögum, sem felast í þessu frv.