06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

179. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. beggja þd. hafa fjallað sameiginlega um frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á vegal. nr. 71 30. des. 1963. Sátu samgmrh. og vegamálastjóri einnig fundi n. og veittu margvíslegar upplýsingar um einstök atriði frv. og málið í heild. Höfuðmarkmið þessa frv. er að afla aukinna tekna í Vegasjóð til þess, að unnt verði að ráðast í vegagerðir úr varanlegu efni á næstu árum. Slík vegagerð hófst hér með lagningu Keflavíkurvegarins, og samkv. vegal. frá 1963 skal stefnt að því að leggja þá vegi innan 10 ára með varanlegu slitlagi og tvöfaldri akbraut, sem gera má ráð fyrir, að 1000 bifreiðir aki eftir daglega yfir sumarmánuðina. Um það ríkir enginn ágreiningur meðal Íslendinga, að góðir og fullkomnir vegir eru eitt af frumskilyrðum blómlegs atvinnu-, efnahags- og félagslífs í landinu. Þess vegna hefur þjóðin lagt mikið á sig undanfarna áratugi til þess að vega landið. Segja má, að ein kynslóð hafi unnið það þrekvirki að byggja brýr og leggja vegi um svo að segja allar byggðir þessa stóra en strjálbýla lands. Margir þessir vegir eru að vísu ófullkomnir. Þess vegna er það ekki óeðlilegt, að kröfur komi fram um nýja og betri vegi. En ef þessi kynslóð, sem lagt hefur malarvegina, á líka að byggja vegi úr varanlegu efni, hlýtur það að kosta mikið fé, og þess fjár verður að afla með álögum á þjóðina í einu eða öðru formi.

Það er yfirborðslegt hátterni að lýsa stöðugt yfir hátt og í hljóði áhuga sínum á því að steypa eða malbika ísl. vegi, en snúast jafnhliða gegn tillögum um að afla fjár til slíkra framkvæmda.

Ástæðulaust er að draga dul á það, að í frv. þessu felast till. um verulega auknar álögur á bifreiðaeigendur í landinu. En þeir hafa eðlilega gert eindregnar kröfur um, að hafizt verði handa um vegagerð úr varanlegu efni, og þeir hljóta einnig að hagnast mest á fullkomnum og greiðfærum vegum.

En það er ekki aðeins þörfin fyrir hinar svokölluðu hraðbrautir, sem liggur til grundvallar þessu frv. og þeirri tekjuöflun, sem það felur í sér. Óhjákvæmilegt er að afla aukins fjár til hinna almennu vegaframkvæmda í öllum landshlutum og þá ekki hvað sízt til viðhalds vega, sem stöðugt verður fjárfrekara með lengingu vegakerfisins. Er það annar höfuðtilgangur þessa frv. Það er svo að sjálfsögðu á valdi Alþ. að ákveða með vegáætlun, hvernig tekjuauka skuli skipt milli hraðbrauta og annarra þarfa Vegasjóðs.

Ég læt þessi fáu orð nægja um frv. almennt. Samgmn. hafa borizt mótmæli gegn frv. frá Landssambandi vörubifreiðastjóra og Félagi sérleyfishafa, en þar er réttilega vakin athygli á verulega auknum útgjöldum þeirra aðila vegna fyrirhugaðrar tekjuöflunar samkv. frv. Vitanlega má alltaf gera ráð fyrir mótmælum einstakra aðila, þegar nýjar álögur eru á lagðar ekki sízt í landi, þar sem opinberar álögur eru háar fyrir. Í því er þá talin lítil huggun, að álögurnar séu jafnháar eða hærri í öðrum löndum, en slíka hughreystingu reynum við alþm. oftlega að veita þjóð okkar. En kjarni málsins er sá, að krefjist þjóðin mikilla framkvæmda, hvort heldur er í vegamálum eða á öðrum sviðum, verður hún að borga kostnaðinn við þær. Það er fyllilega verjandi að segja: Við hefjumst ekki strax handa um byggingu hraðbrauta. Okkar kynslóð hefur þegar lyft grettistaki í vegagerðum. Næsta kynslóð verður að leggja steinsteyptu og malbikuðu vegina. En það er ekki hægt að segja: Við krefjumst vega úr varanlegu efni, en neitum að afla fjár til þeirra.

Samgmn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. n., stuðningsmenn ríkisstj., leggja til, að það verði samþ., en minni hl. er frv. andvígur.

Um brtt. þær, sem meiri hl. samgmn. flytur á þskj. 526, vil ég segja þetta:

1. brtt. er um það eitt að setja röð frvgr. í eðlilegra form. 2. brtt., sem er við 2. gr. frv., er um greiðslu gjalds af birgðum tiltekinna vörutegunda, sem til eru í landinu, er l. þessi öðlast gildi. 3. brtt., sem er við 3. gr. frv., felur í sér þá breytingu, að orðinu viðurlög er skotið inn í upptalningu síðustu málsgr. b-liðar. Þessi brtt. skýrir sig sjálf. 4. brtt. er um það, að heimilt skuli að lækka skatta á dísilbifreið, ef skrásetningarmerki hennar hefur verið afhent til geymslu hjá lögreglustjóra í 30 daga samfellt. Almenna reglan hefur áður verið þrír mán. Er hér um að ræða verulega rýmkun þessa ákvæðis eigendum dísilbifreiða í hag. 5. tölul. brtt. á þskj. 526 felur aðeins í sér, að með samþykkt l. þessara skuli falla úr gildi l. nr. 101 22. des. 1965, um breytingu á vegal. nr. 71 30. des. 1963.

Þá flytur meiri hl. samgmn. brtt., sem ekki hefur enn þá unnizt tími til að útbýta, að því er ég veit bezt, en þessi brtt. er flutt samkv. ósk samgmrh. og er á þá leið, að aftan við 4. tölul. bætist ný gr. svohljóðandi:

4. mgr. sömu lagagreinar orðist svo:

Sé ekki komið með bifreið til skoðunar eða gjöld af henni ekki greidd á réttum gjalddaga, skal lögreglustjóri eftir kröfu skattheimtumanns eða skoðunarmanns stöðva bifreiðina, hvar sem hún hittist, og taka merki hennar til geymslu, svo sem að framan segir.

Þessi till. felur aðeins í sér þá breytingu á gildandi ákvæðum, að heimildin til þess að stöðva bifreið og taka merki hennar til geymslu er látin ná yfir vanskil vegna greiðslu gjalda á síðari gjalddaga, en samkv. frv. er ráðh. heimilað að ákveða með reglugerð tvo gjalddaga árlega fyrir þungaskatt.

Með fyrrgreindum breytingum leggur meiri hl. samgmn. til, að frv. verði samþ.