27.11.1967
Efri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka það strax fram, að ég er samþykkur þessu frv. efnislega. Hins vegar verð ég að átelja það, að það skuli vera liðnir rúmir tveir mánuðir af verðlagsári því, sem verðlagsgrundvöllur bænda á að gilda fyrir og enn þá ekki komið neitt verðlag, sem segir til um það, hvað bændur eigi að hafa fyrir framleiðslu sína, sem lögð var í reikninga á s.l. hausti og er komin til sölu. Ég bjóst við því, að hæstv. ráðh. mundi nú, vegna þeirra breytinga, sem á hafa orðið í efnahagsmálum, þar sem búið er að fella gengi íslenzku krónunnar um 24.6%, gera grein fyrir því í fyrsta lagi, hvort tillit yrði tekið til þess í verðlagningu nú eða þeim úrskurði, sem yfirdómur fellir um þá gengisbreytingu, sem orðin er, og vænti ég, að hæstv. ráðh. vilji svara því, hvort honum sé kunnugt um það, að tillit verði tekið til gengisbreytingarinnar í þeim úrskurði, sem felldur verður um verðlag landbúnaðarafurða. En ef svo er ekki, vænti ég þess, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir því, á hvern hátt ríkisstj. hyggst bæta úr fyrir bændastéttina þeirri skerðingu og erfiðleikum þeim, sem gengisbreytingin kann að valda. Ef ekki er tekið tillit til gengisbreytingarinnar í verðlagningu, skilst mér, að það verði ekki hjá því komizt að bæta úr fyrir bændur á einhvern annan hátt, og ég vænti þess, að hæstv. landbrh., sem að sjálfsögðu hefur haft landbúnað í huga, um leið og gengisbreyting var framkvæmd, skýri frá þessum málum eftir því, sem hann hefur hugsað þau og til tals hefur komið.