06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

179. mál, vegalög

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er til umræðu, er lagt til að gera breyt. á 1. mgr. 32. gr. vegal., sem felst í því, eins og fram kemur í aths. við frv. þetta, að eðlilegt þykir, eins og þar stendur, að gera þá breyt. á framlagi Vegasjóðs til lagningar vega í kaupstöðum og kauptúnum, að það sé ekki greitt af þeim tekjum sjóðsins, sem ganga til framkvæmda við hraðbrautir. Ég ásamt hv. 7. þm. Reykv. leyfum okkur að flytja brtt. við 4. gr. frv., þar sem niðurlagi þeirrar gr. er breytt og í stað þess, að gert er ráð fyrir, að áður en skipting fer fram milli ríkisins og kaupstaðanna, sé undanskilið það fjármagn, sem varið er til framkvæmda, en ráðh. sé hins vegar heimilt að undanskilja þær tekjur vegamála, sem varið er til framkvæmda við hraðbrautir. Það geta af eðlilegum ástæðum verið full rök fyrir því að undanskilja þær tekjur, áður en skipting fer fram. En hins vegar engan veginn ætíð ástæður til þess, og þess vegna höfum við, hv. 7. þm. Reykv. og ég, leyft okkur að flytja þessa brtt., þ.e. að í stað þess, að tekjurnar séu undanskildar, sé ráðh. heimilt að undanskilja þær. Við flytjum því þá brtt. skriflega, að í stað orðanna „þó að undanskildum tekjum vegamála til framkvæmda við hraðbrautir“ í niðurlagi gr. komi: „Ráðherra er þó heimilt að undanskilja tekjur vegamála, sem varið er til framkvæmda við hraðbrautir.“

Ég ætla, að hæstv. vegamálaráðh. sé þessari till. ekki andvígur. Honum er í henni falin heimild til þess að gera það, sem farið er fram á í frv. En við töldum eðlilegra, að hér væri aðeins um heimild að ræða, en ekki skyldu.