06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

179. mál, vegalög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs hér í dag um það leyti, sem frsm. nefndar luku sínu máli, en einhvern veginn hefur það farið fram hjá forsetum sem skipzt hafa á, og skal ég ekki sakast um það. Ég efast ekkert um það, að þeir hafa ekki ætlað að beita mig neinum rangindum um það að hleypa mér í ræðustól.

Hér liggur fyrir nýtt skattafrv., og hygg ég þó, að ýmsir hafi verið farnir að gera sér vonir um, að skattaplágum mundi fara að linna og þeirra væri ekki fleiri von. En það fer, eins og vænta mátti, að skattafrv. er ekki tekið með þakkarávörpum. Það gerast mótmæli gegn þessu skattafrv. og hefur þeirra mótmæla verið hér getið í umr. Það er vitanlega ekki nema eðlilegt, að menn kveinki sér undan því, þegar sköttum er bætt á skatta ofan, en gjaldgetan lítil fyrir.

Ég hefði talið eðlilegast, að þetta frv. hefði komið fram sem fylgifrv. með vegáætlun, og fæ ég ekki séð, að því hafi legið mikið á fyrr en í byrjun næsta þings, sem fylgifrv. með vegáætlun, sem það þing á að ganga frá. Þetta er um það, hvernig skuli afla fjár til framkvæmda, sem ákveðnar verða með vegáætluninni. En hæstv. ríkisstj. hefur þann hátt á að flytja frv. nú, og álít ég það vera einn mesta annmarka þessa frv., að í raun og veru er ekkeri bundið neinum fastmælum, af því að það er ekki í fylgd með vegáætlun, til hverra hluta þessari fjáröflun skuli varið. Ég sé, að þetta er einnig óljóst fyrir fleirum en mér, því að í öðru aðalmálgagni stjórnarinnar stendur hvað eftir annað í grein, sem fjallar um þetta frv.: Vonir standa til, að fénu verði varið til þessa. Vonast má eftir, að það renni til hins o.s.frv. Vissan er engin. Það er allt í óvissu um það til hverra hluta sú tekjuöflun, sem þetta frv. fer fram á, eigi að fara. Og það tel ég höfuðannmarka þessa frv. Það er að vísu sagt að það eigi að verja tekjunum til lagningar hraðbrauta og til aukins vegaviðhalds, og játað er í frv., að það eigi að nokkru leyti að fara til skuldagreiðslna. Ég held, að ástæðan til þess, að frv. er komið fram nú, sé einmitt vegna hins síðarnefnda, að það eru þrot í búinu og það hefur þótt vera aðkallandi að leggja fram nýtt skattheimtufrv. til þess að fara að höggva í allverulegar skuldir, sem þarf að hreinsa til í áður en frambærilegt sé að leita lána á erlendum lánamarkaði til íslenzkra vegamála. Ég hygg, að þetta sé ástæðan til þess, að frv. kemur fram nú, en ekki talið nægilegt, að það kæmi fram í upphafi næsta þings sem eðlilegt fylgifrv. með vegáætlun.

Nú ætla ég ekki að fara að hnotabítast við hæstv. samgmrh. eða ríkisstj. um það, að hún eigi að skila 47 millj. kr., sem hún er sökuð um að hafa tekið út af fjárl. eitt sinn þrátt fyrir eigin loforð um að gera það ekki. Það er fyrir löngu búið og gert, og hæstv. samgmrh. hefur oft svarað því til, að síðar sé búið að afla ríkissjóði tekna með ýmsu móti og þannig að hans áliti bæta í það vanefnda skarð. Og það má vel vera, að svo sé, því að það er staðreynd, að að krónutölu er náttúrlega miklu meira varið til vegamála nú en þá var. Ég ætla heldur ekki að fara í skollaleik við ríkisstj., þó að hún segist ætla að leggja hraðbrautir og bæta og auka vegaviðhaldið eða kosta — svo að milljónatugum nemi — verkfræðilegan undirbúning að lagningu myndarlegra, varanlegra vega — hraðbrauta. Til þess á hún bara að taka það fé, sem hún er búin að taka af umferðinni og leggja í ríkissjóð á undanförnum árum. Það er ekkert nema lélegur skollaleikur að vitna til þess fjár, því að það er Alþ. búið að binda sem tekjustofna fyrir útgjaldaliðum, sem einnig eru ákveðnir á fjárl., og Alþ. er búið að ganga frá þessu. Og það er ekki til neins að segja ríkisstj., hver sem hún væri núna, að hún eigi að nota það fé til þess að byggja fleiri hraðbrautir. Það getur hún ekki, og það gæti engin ríkisstj. Það er ekki til neins. Hins vegar geta menn sagt til um það, hvort þeir vilja aukið vegaviðhald, verkfræðilegan undirbúning að hraðbrautum og hraðbrautir, og þá bitið í það súra epli að undirgangast skattlagningu til þeirra hluta. Það þýðir ekkert að segja: Ég vil hraðbrautirnar, en ég vil ekki fjáröflun til þeirra, og ég vil bara heimila, að það fé sé tekið til þess, sem búið er að ráðstafa til annarra framkvæmda samkv. fjárl. Þannig stendur málið núna, og mér finnst þetta fávíslegt, harla fávíslegt. Og það er auðvelt fyrir ríkisstj. að bregða mönnum um ábyrgðarleysi og mótsagnir, ef svo er á málum haldið.

Ég verð að segja það, að ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar aflað sér fjár til þeirra vegaframkvæmda, sem ákveðnar eru í vegáætlun, og við það hefði hún átt að standa og ekki fara fram á það við Alþ. að fá nýja fjáröflun, nýja skattlagningu til að borga áföll t.d. af því, að það er orðið meira um snjómokstur en í meðalári, eða af því, að einhverjar náttúruhamfarir hafa spillt vegum meira en þeir hafi búizt við o.s.frv. Þetta tel ég, að ríkisstj. hefði átt að fjármagna með sínum umframtekjum með ýmsu móti, sem sannarlega hafa verið allmiklar og hægt var að verja til þeirra hluta.

Ég er að því leyti óánægður með þetta frv., að það skuli að verulegum hluta, að því er snertir fjáröflun á þessu ári — 1968, eiga að verja því fé, sem aflast, til skuldagreiðslna. Það tel ég, að ríkisstj. hefði átt að gera með það fé, sem í gegnum hennar greipar hefur þegar og áður farið. En ég er fylgjandi því, að undirbúið sé á skynsamlegan hátt að byggja og leggja hraðbrautir út frá höfuðborginni og út frá Akureyrarkaupstað, þar sem umferð er orðin svo mikil, að ekki verður hjá því komizt að byggja varanlega vegi, því að þar sem umferðin er mest, þola misjafnlega gerðir malarvegir ekki þá umferð hvorki út frá Reykjavík né Akureyrarkaupstað, og þar verður ekki undan því komizt að leggja í mikinn kostnað við gerð varanlegra vega. Það er líka rétt, að það er ekkert vit í að ráðast í þær framkvæmdir nema með því að sjá fyrir tvennu: Sjá fyrir verkfræðilegum undirbúningi, sem kostar ærið fé, og það verður að vera búið að ljúka þessum undirbúningi, áður en á að ráðast í framkvæmdina, og svo að sjá fyrir innlendu fjármagni og undirbúa það, að unnt sé að fá erlent fjármagn til viðbótar. Og það vitum við, að hér þarf mikið fjármagn.

Ég get því vel fellt mig við, að gert sé ráð fyrir nýrri skattlagningu til verkfræðilegs undirbúnings undir lagningu hraðbrauta, og enn fremur, að forsjá sé höfð um að afla fjár til byggingar ákveðinna áfanga í hraðbrautagerð, þar sem þörfin er mest. Hins vegar tel ég, að þetta hefði getað beðið sem sé til upphafs næsta þings, þegar vegáætlunin hefði verið lögð fram og verkefnin þannig ákvörðuð og þannig hægt að segja þm. til um það. Þetta verkefni, sem Alþ. skal kveða á um að ráðast í, kostar þetta mikið fé, og til þess þurfum við þessa skattlagningu og sköpum okkur möguleika til þessara útlendu lánsfjármöguleika. En nú liggur það ekki fyrir, og verður maður þess vegna að treysta á það, að þessi fjáröflun, sem þetta frv. fer fram á, fari ekki til almennrar eyðslu, en fyrir því höfum við engan lagastaf og ekki neina örugga vissu. Eðlilegast væri, að þeir, sem vantreysta ríkisstj., flyttu brtt. á þann veg, að fjármagn það, sem aflað er með þessu frv., verði lagt í sérstakan sjóð á sérstaka bók til geymslu, þangað til vegáætlunin hefur verið afgreidd af Alþ., og þannig væri tryggt, að féð færi ekki til neins annars. Og þá ættu menn ekki neins annars úrkosti en að segja til um það, hvort þeir vildu vegaumbæturnar, og vitanlega þá að heimila fjáröflun til framkvæmdanna.

Það er rétt, að þeir, sem hafa sent mótmæli aðallega gegn þessu frv., er Landssamband vörubifreiðastjóra. Þeir skera sig ekki úr, að því er það snertir, að þeir viðurkenna eðlilega mikla umbótaþörf í vegamálum hér á landi, og það er frumuppistaðan í þeirra bréfi, sem nm. hafa skýrt frá, að þeim hafi borizt, og hæstv. ráðh. gat einnig um. Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta, í sínu erindi út af frv.:

„Því verður ekki á móti mælt, og það sízt af samtökum bifreiðastjóra, að brýna nauðsyn beri til, að nú þegar verði hafizt handa um framkvæmdir að bættri og varanlegri vegagerð í landinu. Heita má, að þjóðvegakerfi landsins sé í fullkomnu ófremdarástandi, og hljóta menn að vera sammála um, að undirbúningur að byggingu varanlegs þjóðvegakerfis og framkvæmdir í þeim efnum megi ekki bíða öllu lengur. Hitt er jafnaugljóst, að bygging varanlegs þjóðvegakerfis er slík risaframkvæmd, að hún er með stærstu verklegu viðfangsefnum þjóðarinnar fyrr og síðar. Landið er stórt og varanleg vegagerð kostnaðarsöm, en þjóðin er fámenn og framkvæmdirnar verða því mjög dýrar miðað við hvern íbúa landsins. Þetta verður allt að hafa í huga, þegar unnið er að fjárhagslegri sem og verklegri hlið þessa risaátaks.“

Enn fremur segja þeir á jákvæðan hátt það, sem nú skal greina:

„Jafnframt því, sem við lýsum yfir, að við færumst ekki undan að greiða okkar skerf til varanlegrar vegagerðar í landinu og til vegamála almennt, bæði sem almennir skattþegnar og sem eigendur ökutækja, mótmælum við því harðlega, að við sem atvinnustétt séum lagðir í einelti og látnir bera hlutfallslega meiri byrðar en aðrir af þessum nýju álögum, eins og frv, gerir þó ráð fyrir.“

Og þeir hafa þó aðallega út á þær byrðar að setja, sem á þá eru lagðar og eru meiri en góðu hófi gegnir, þ.e. að samkv. bráðabirgðaákvæði með frv. er gert ráð fyrir því, að þungaskatturinn af bifreiðum, sem nota annað eldsneyti en benzín, verði greiddur fyrir allt árið, og nú kemur frv. fyrst fram, þegar einn ársfjórðungur af árinu er liðinn.

Ég tel, að hæstv. ráðh. kæmi mjög til móts við réttmæta sanngirniskröfu frá hendi Landssambands vörubifreiðastjóra, ef hann þarna í staðinn fyrir „allt árið“ segði „fyrir 3/4 hluta af árinu“ og væri þannig ekkert að skattleggja þá aftur í tímann. Það er óeðlilegt, og það er ósanngjarnt.

Í annan stað gera bifreiðastjórarnir þá aths., að þeim finnist frv. illa, óskynsamlega og óréttlátlega upp byggt að því leyti, að skattlagning á fólksbifreiðar séu mun léttbærari samkv. þessu frv. en á vörubifreiðar. En um vörubifreiðarnar segja þeir alveg réttilega: Vörubifreiðarnar þjóna atvinnuvegunum og hinum dreifðu byggðum, hvað aðdrætti snertir, og eru því flutningatæki, sem bráðnauðsynlegt er fyrir þjóðina, að séu starfrækt. Þessi tæki eru hins vegar með frv. skattlögð svo, að algert einsdæmi er og það, þótt um víða veröld sé leitað. Það kann að vera eitthvað ýkt hjá þeim, en það, sem þeir segja þarna fyrst og fremst, er satt og rétt. Vörubifreiðarnar eru fyrst og fremst þjónustutæki atvinnuveganna og hinna dreifðu byggða, og þær er skattlagðar meira í þessu frv. en lúxusbifreiðar okkar kaupstaðabúanna. Þeir sýna með tölum fram á það, að fólksbifreið, sem eyðir 6000 lítrum af benzíni á ári, er skattlögð um 6840 kr., en bifreið, sem er sex tonn á þyngd, þ.e. stór bifreið, verður skattlögð þarna um 18.040 kr. þrefalda upphæð á við fólksbifreiðina. Ég tek undir þessa gagnrýni Landssambands vörubifreiðastjóra og tel, að það hefði mátt skattleggja fólksbifreiðarnar jafnvel meira en gert er í frv., þar sem litið er á fjáröflunarnauðsynina, en hefði átt að fara hóflega í skattlagninguna, að því er snertir vörubifreiðar, ef hægt hefði verið.

Nú er það alveg hárrétt, sem sagt var hér áðan í umr., að það eru þó ekki fyrst og fremst vörubílstjórar né vörubifreiðaeigendur, sem greiða þennan skatt. Þeir leggja hann auðvitað á fólkið, sem skiptir við þá. Í þessu tilfelli leggja þeir þessar skattaálögur á atvinnuvegina — atvinnulífið, og það er það, sem þeir eru einmitt að vara við og gagnrýna réttilega. Ég lít þess vegna ekki á þessa skattlagningu sem þröngt hagsmunamál bílstjórastéttarinnar einnar. Þetta er skattur á landslýðinn til þess að fá betri vegi, og engum er það meiri nauðsyn en einmitt bílstjórastéttinni, og það játa þeir fyllilega í sínu erindi. Ég álít þetta erindi vera þess eðlis og efnis og þannig fram sett, að það sé ekki nema sómi að því fyrir hæstv. ríkisstj. að taka tillit til efnis þess að svo miklu leyti, sem hún telur sér framast vera unnt, því að það er á margan hátt skynsamlega og sanngjarnlega komizt að réttum niðurstöðum í þessu erindi Landssambands vörubifreiðastjóra. Það er mín eindregin ósk til hæstv. samgmrh., að hann láti milli 2. og 3. umr. þessa máls líta mjög vandlega á þetta erindi Landssambands vörubifreiðastjóra, og athugi það, hvort ekki sé hægt að breyta þannig skattálagningarákvæðunum í frv., að eitthvað sé komið til móts við þá t.d. að því leyti, sem ég áðan gat um, að þungaskatturinn er ekki nefndur fyrir allt árið, heldur fyrir þann hluta ársins, sem eftir er, þegar þetta frv. er lögfest. Þeir benda réttilega á það, að fyrri hluta ársins hafi þeir miðað alla sína ökutaxta við núverandi útgerðarkostnað bifreiða og séu þannig alls ekki við því búnir að taka á þær tekjur útgjaldaauka, sem þetta frv. mundi á þá leggja.

Ég er þeirrar skoðunar, að gerð varanlegra vega í nágrenni við stærstu kaupstaðina, Reykjavík, Hafnarfjörð og Akureyri, sé orðin svo aðkallandi, að það sé ekki hægt að draga það. Ég viðurkenni fyllilega, að verkfræðilega undirhúninginn verður að ráðast í nú þegar og halda honum áfram af fullum krafti, ef við eigum að geta gert okkur vonir um það, að þessar umbætur í vegamálum okkar geti hafizt á árinu 1969.

Ég hef áður vikið að því og endurtek það, að ég tel það mjög slæmt, að allt skuli vera í lausu lofti um það, til hvaða framkvæmda þessir skattar eigi að fara. Það eitt vitum við, að það er ætlunin, að þeir fari til lagningar hraðbrauta út frá Reykjavík og stærstu kaupstöðum landsins og að öðru leyti til aukins vegaviðhalds, sem ég held, að allir verði að viðurkenna, að er komið í ófremdarástand. Umferðin er orðin það mikil og þjóðvegir landsins orðnir það langir, að þær fjárveitingar, sem ætlaðar hafa verið hingað til til vegaviðhaldsins, duga ekki. Þungu bifreiðarnar og stóru fara þannig með vegina, að það er engin leið, ef á að halda þeim ökufærum, önnur en að ausa fé í viðhald þeirra. Annars lokast umferð um þá, og það vilja menn þó ekki.

Það skal játað, að Alþýðusamband Íslands fór fram á það í sinni atvinnumálaáætlun, sem hún lagði fyrir hæstv. ríkisstj. fyrir nokkru, að sinnt yrði verkefni eins og lagningu hraðbrauta. Og það má því segja, að hæstv. ríkisstj. komi með þessu frv., að því er framkvæmdir snertir, inn á atriði, sem Alþýðusambandið og verkalýðshreyfingin hafi borið fram óskir um. Og þetta er vissulega rétt. Það hefur þó verið fært fram sem rök fyrir þessu máli sérstaklega af hæstv. ráðh., að hér sé um mikið atvinnuspursmál að ræða. Ég held, að það hafi verið vandfundinn liður í atvinnumálaáætlun Alþýðusambandsins, sem hafi eins lítið gildi fyrir aukna atvinnu eins og einmitt þessi, því að það vita allir, að hraðbrautaframkvæmdin skapar ekki mörgum mönnum atvinnu. Þar verður unnið með stórvirkustu vélum, og örfáir menn koma til við slíka framkvæmd, svo að það er yfirvarp, að þetta mál sé sérstaklega tekið á dagskrá til þess að bæta úr atvinnuástandinu í landinu. En látum það vera. Það hefur óumdeilanlegt gildi á annan hátt en einmitt út frá atvinnulegum sjónarmiðum, að hægt sé að undirbúa með eðlilegum hætti að ráðast í framkvæmdir til umbóta á vegakerfinu, eins og ætlazt er til með þessu frv. Og að því leyti er það jákvætt.

Hins vegar skal ég ekki draga fjöður yfir það, að mér finnst dálítið hlálega að farið hjá ríkisstj. að vera sífellt að taka upp fjármálaatriði, sem ættu að hafa verið afgreidd með afgreiðslu fjárl. fyrir síðustu áramót. Það er dálítið hlálegt, að einn daginn sé verið að gefa eftir tolla — tolltekjur hjá ríkinu, í öðru lagi að fella niður gjaldaliði úr fjárl. nýafgreiddum og í þriðja lagi að koma með ný skattafrv. til að afla fjár til verkefna, sem tilheyra fjárhagsárinu, liðna m.a.s. — ekki aðeins þessu yfirstandandi ári, heldur jafnvel hinu liðna, t.d. sá þáttur þessa frv., sem fjallar um fjáröflun greiðslu á skuldum. Þetta er allt mögulegt og sýnir, að fjármálastjórnin er ákaflega losaraleg hjá hæstv. ríkisstj., og kemst ég ekki hjá að minna hana á það og stríða henni með því, því að þetta er losaralegt allt saman og á allt annan veg en ætti að vera um afgreiðslu fjárl. Það er eiginlega verið að taka fjárlagaatriði til afgreiðslu hvað eftir annað. Þetta mun vera í fjórða sinn, sem hópað er til þess hlutverks, og þá er komið alveg að þinglokum. En hvað sem þessu líður, get ég ekki verið svo tvöfaldur að halda því fram, að ekki eigi að undirbúa byggingu hraðbrauta. Vitað er, að það kostar tugi millj. kr. Það er verið að ráðast í þær, en svo eru menn á móti skattlagningu til þess. Ég tel einskis vert að benda á þá fjáröflun, sem þegar er búið að binda í fjárl. til ákveðinna verkefna, og alveg árangurslaust að vera að staglast á þessum 47 millj. kr., sem alltaf er verið að nefna hér ár eftir ár.

Spurningin er bara þessi: Viljum við, að undirbygging sé gerð að þessum framkvæmdum? Teljum við þær svo nauðsynlegar og aðkallandi, að þær megi ekki dragast? Og ef við teljum þær svo nauðsynlegan, verðum við að heimila fjárveitingar til þeirra. Það er ekkert undanfæri. Að öðrum kosti gera menn sig bera að mótsögnum og tvöfeldni, sem er ekki sæmilegt. Ég fyrir mitt leyti tel, að vegaumbæturnar, sem hér er um að ræða, séu stórkostlegt verkefni — mjög aðkallandi, og að því leyti, sem fjáröflun þessa frv. á að fara til framkvæmda í þessu skyni, er ég henni meðmæltur. Skuldagreiðslurnar ætti ríkisstj. að taka á sitt bak og hefur þegar fengið fjárveitingar, sem hefðu átt að nægja til þeirra hluta.

Um framkvæmd verksins má ráða það af aths. við frv., að til þess sé jafnvel hugsað, að í fyrsta lagi verði erlend verkfræðifyrirtæki fengin til að undirbúa verkið og e.t.v. til þess að framkvæma það. Það er talað um, að þessi framkvæmd sé svo stórbrotin, að lagning hraðbrauta í eins stórum stíl og nú virðist vera nauðsynleg, segir þar, mundi verða með stærstu framkvæmdum sem ráðizt hefur verið í hér á landi. Í slíku verki kemur ekki önnur leið til greina en sú, að verkið verði boðið út í allstórum áföngum, er tryggi alþjóðlega samkeppni um verkið og þar með eins lágum framkvæmdakostnaði og kostur er á. Ég lít þannig á þessa alþjóðlegu samkeppni um verkið, að það séu útboðin. sem verði sett á alþjóðlegan markað. Ég fyrir mitt leyti er ekkert hræddur um það, að íslenzkir verkfræðingar og íslenzk verkfræðifyrirtæki geti ekki boðizt til að vinna svona verk með eins góðum kjörum og erlend, ef hin erlendu fá ekki sérstök fríðindi og ef þau fá ekki að flytja inn vélar og tæki tollfrjálst, en hinir innlendu aðilar ekki. Það teldi ég ranglæti gagnvart íslenzkum aðilum, ef svo væri að verki staðið. Hins vegar tel ég það, að erlent útboð til samanburðar sé ekkert annað en viðleitni til þess að fá sem allra hagkvæmust tilboð fram. En ég tel, að það mætti muna miklu um kostnað á innlendu og erlendu tilboði til þess, að ekki væri einsýnt og sjálfsagt að taka hinum innlendu tilboðum fremur en hinum erlendu, og það yrði a.m.k. að gæta þess vel, að mismunurinn stafaði þá ekki af því, að hinir erlendu ættu að njóta sérstakra vildarkjara, sem hinum íslenzku væri ekki gefinn kostur á. En í því efni höfum við gerzt brotlegir gegn íslenzkum aðilum nú að undanförnu og það einmitt á þessu sviði. Ég þykist því ekki hafa ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta. Ég treysti því, að öll slík verk verði, þegar atvinnuástandi er nú eins komið og hjá okkur, fyrst og fremst veitt íslenzkum aðilum.

Okkur er svo gefið í skyn, að þó að þessi fjárhagsgrundvöllur sé lagður að stórátaki í innlendri vegagerð, sem við vitum nú ekki, hversu stórbrotin verður, og allt takist nú eins og til er ætlazt um erlendar lántökur, verði þó að öðru leyti að afla fjár með nýjum innlendum tekjustofnum fyrir Vegasjóð, enda sé það alger forsenda fyrir því, að erlent fjármagn fáist. Ég býst alveg við því, að þessi fjáröflun til stórátaka í vegamálum sé aðeins byrjunin og við megum búast við jafnvel miklu meiri fjáröflun til þessara hluta en þetta frv. sýnir. En ég mundi leggja áherzlu á það, ef hægt væri að binda það meira fastmælum en er í frv., til hvaða vegaframkvæmda þetta fjármagn ætti að fara, svo að það sé engan veginn eins í lausu lofti og eins rúmt um það eins og í frv. nú, því að um það er eiginlega ekkert ákvæði.

Ég held, að ég hafi með þessu, sem ég nú hef sagt, komið mínum aðalsjónarmiðum fram varðandi þetta og geti því látið máli mínu lokið. En ég endurtek það, að mér þætti það mikils virði, ef hæstv. samgmrh, vildi láta athuga gaumgæfilega erindi Landssambands vörubifreiðastjóra og taka tillit til sanngjarnra óska og krafna, sem þeir bera þar fram í sínu skynsamlega og vel rökstudda áliti, sem sent hefur verið n. og — að því er ég vænti ráðh.