06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

179. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég hef fengið vinsamleg tilmæli frá einum vini mínum í hæstv. ríkisstj. um að vera ekki allt of langorður, og af því að það er ráðh., sem ég vil allt gera fyrir, þá ætla ég að reyna að stytta mál mitt.

Hæstv. samgmrh. taldi það bera vott um ósamræmi í málflutningi mínum, að minni hl. n. leggur til, að fjárþörf Vegasjóðs á þessu ári verði mætt með lántöku, þó að ég sé á móti lánum. Þetta er alveg misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ég er ekki á móti lántökum til vega og hef aldrei verið. Ég barðist fyrir því í 5 ár að fá lánveitingar til vega á Vestfjörðum, og ég hef endurtekið það hvað eftir annað, að ég tel réttmætt og hagkvæmt í mörgu tilliti að taka lán, svo að þetta er á einhverjum misskilningi byggt hjá hæstv. ráðh.

Þá segir hæstv. ráðh., að það sé alveg rangt hjá mér, að nýbyggingafé fari til þess að borga vexti og afborganir af lánum; það fari til þess að byggja vegi, en fari alls ekki í vexti og afborganir af lánum. Ég er hérna með skýrslu, sem hæstv. ráðh. lagði sjálfur fyrir Alþ. í vetur, og hérna stendur t.d.: Vesturlandsvegur: 79 þús. kr. fóru til að greiða skuld. Og á öðrum stað stendur: 450 þús. kr. fjárveiting, 54 þús. kr. fóru til að greiða skuld. Ólafsvíkurvegur: fjárveiting, 870 þús. kr., fór til greiðslu upp í skuld. Rif: fjárveiting, 190 þús. kr., fór til greiðslu upp í skuld. Grundarfjarðarvegur, þar af fóru 154 þús. kr. til greiðslu á skuld.

Á ég að halda áfram lengra? Ég má það ekki vegna þess, hverju ég hef lofað. Svona er vegaskýrslan meira og minna í gegn. „Afborganir og vextir“ af lánum er það orðað sums staðar, annars staðar „til að borga skuld“. Svo segir hæstv. ráðh., að nýbyggingaféð hafi ekki farið til þess að greiða af lánum. Ég held, að hann hljóti að vita það sjálfur, að af fjárveitingunni, sem á að fara í hvern veg, sem skuldar, er tekið til þess að greiða vextina og afborganir. Þetta eru skuldir, sem eru á veginum og þarf að greiða vexti og afborganir af. Það er tekið af þeirri fjárveitingu, sem er veitt til nýbyggingar vega. En ef þetta væri nú rangt hjá mér, með hvaða peningum borgaði ráðh. þá þessa vexti og afborganir? Það er mér óljóst. Hvaðan hafði hann peninga til þess að annast þær greiðslur? Jú, það eru dæmi til þess, að það hafi verið tekin lán til að borga af lánum. Það er rétt.

Hann segir, að ég hafi haldið því fram, að það mundi verða veitt lán á þessu ári til nýbyggingar vega. Ég var að spyrja að því hvort það yrði gert. Ég hef aldrei fengið svar — ekki einu sinni í fyrradag, þegar hann var á fundi með samgmn. En ég sagði það, að fyrst vextir og afborganir af lánum eiga að fara lækkandi eins og ráðh. sagði, þá getur ekki átt að taka meiri lán. Nú segir hann í ræðu sinni hér áðan: Það verða tekin lán í sumar til nýbyggingar vega. Það verður tekið lán til Vestfjarðavegar, og það þykir mér vænt um að heyra. Það verður tekið lán til vegar í Kópavogi. En ég vil þá spyrja: Lækka vextir og afborganir af lánum á næsta ári t.d.? Nei, þetta stenzt ekki. Ég vil þá vænta þess, að maður sjái það á framkvæmdaáætluninni, sem við eigum að fá eftir páskana, hvort það á að vinna fyrir lán.

Þá gagnrýndi hann það, að ég hefði haldið því fram, að það yrði minna fé til vegaviðhalds á þessu ári en varið var til vegaviðhalds í fyrra. Það er rétt. Ég sagði þetta. Ég sagði, að það yrði raunverulega minna, því að þessar 17.3 millj. kr., sem á að hækka viðhaldsféð um samkv. þessu frv., fóru í dýrtíð. Þær fara í gengislækkunina, og ég tók það fram. Það er ekki viðbót við viðhaldsfé það, sem fer í dýrtíð. Ef við að öðru leyti ætlum að standa jafnir að vígi og í fyrra, er þetta mun minna fé, sem við fáum í ár en fyrra.

Hann var að minnast á ríkisframlagið, sem átti að vera, og fékk stuðning hv. 9. þm. Reykv. í því, að ríkissjóður eigi eiginlega ekki að vera að leggja fé í vegi. Ég skildi hv. þm. þannig, að það sé hans skoðun, að t.d. eigi leyfisgjöldin sem ríkið fær núna, ekki að fara í vegi og auðvitað eigi fjárveitingar, eins og var samið um 1963, ekki heldur að fara í vegina. Hann segir ekkert við þetta að athuga. (Gripið fram í.) Er ekki hægt að taka aftur upp á fjárl. fjárveitingar? Og hvernig stendur á því, að það stóð í vegáætluninni allt til 1968, að það skyldi vera ríkisframlag? En hann um það, þó að hann sé sammála hæstv. ráðh. um þetta, að það eigi að gera þetta með skattaálögum, og þannig skildi ég hv. þm. En hæstv. ráðh. segir: Það, sem var samið um og átti að koma frá ríkinu, hefur komið annars staðar frá. Jú, það voru hækkaðir skattar 1965 sem þessu svaraði, veit ég það. En er það þá alveg sama, hvort fé kemur frá ríkinu eða það er lagt á með sköttum? Ef þetta væri alveg það sama, getum við alveg eins sagt, að það megi minnka ríkisútgjöld til heilbrigðismála og leggja það á sjúklingana. Það megi minnka útgjöld til skólamála og leggja það á nemendurna. Það er svo sem leið út af fyrir sig. En ég aðhyllist hana ekki.

Hæstv. ráðh. var að gagnrýna það, sem ég hafði haft eftir formanni samtaka bifreiðaeigenda, þ.e. Vörubílamiðstöðvarinnar, að það mundi þurfa að hækka flutningsgjöld um 10%. Ég var að hafa það eftir, hvað hann segði, þessi maður opinberlega í blaði, og þetta birtist í gær. Ég var engan dóm að leggja á þetta. Hæstv. ráðh. segir, að þetta muni sennilega ekki þurfa að vera nema 4%. Jæja, 4% er nú nokkur hækkun. Og þá segir hann, að sér hafi alveg hnykkt við, þegar það kom í ljós, sem þessi maður heldur líka fram, að flutt séu 140 þús. tonn með vörubifreiðum víðs vegar um landið, en Skipaútgerð ríkisins flytji ekki nema 40 þús. tonn. Ég skal játa það, að mér kom þetta á óvart líka. Og þetta er merkilegur hlutur, ef þetta er rétt. Þetta eru aðeins orð þessa manns. En mér skildist á hæstv. ráðh., að hann vildi eiginlega saka Skipaútgerðina um þetta, þ.e. að hún gegndi ekki þeirri þjónustu, sem hún ætlaði að gera. Hverjir voru það, sem seldu strandferðaskipin tvö? Var það ekki ríkisstj.? En fengu svo eitt leiguskip í staðinn. Ætli þetta hafi engin áhrif haft? Hann minntist á, að þungaskattar í Svíþjóð og nágrannalöndunum væru hærri en þeir yrðu samkv. þessu frv. Og hann hafði haldið því fram við 1. umr. málsins, að til þess að íslenzkir bifreiðarstjórar fengju góða vegi, yrðu þeir að leggja á sig skatta. M.ö.o., meðan vegirnir eru sem verstir, meðan það er sem dýrast að aka bíl um vegina, slitið er mest. Ég hélt, að hin leiðin væri skynsamlegri, þ.e. að hlífa þeim við útgjöldum meðan vegirnir eru vondir, slitið mikið á bílunum og rekstrarkostnaður mikill, en þyngja þau heldur, þegar komnir eru góðir vegir og þeir mega betur við því að greiða skatta. Þetta hélt ég, að væri skynsamlegra. Og hvað var gert á Reykjanesbrautinni? Vegagjaldið kom til greina sem skattur á bílstjórana, eftir að vegurinn var kominn.

Þá drap hæstv. ráðh. á það að lokum, sem ég minntist á, þ.e. vegagerð frá Blesugróf upp í Breiðholt. Ég kannaðist ekki við það, að þessi vegalagning kæmi Vegasjóði við, en hann segir, að þetta sé þjóðbraut utan Reykjavíkur. En í skýrslu ráðh. frá því í vetur segir:

„Í framkvæmdaáætlun ríkisstj. í ár eru 8.0 millj. kr. til þessa vegar, sem samkv. vegáætlun liggur frá Elliðaám, austan Kópavogs og Hafnarfjarðar. Unnið hefur verið að undirbyggingu kafla um Blesugróf að vegamótum við Breiðholtsbraut, sem tengir hið nýja byggðahverfi í Breiðholti við vegakerfið. Hefur Reykjavíkurborg að mestu séð um þessar framkvæmdir, sem ná yfir um 1 km kafla af þessum vegi.“

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri utan Reykjavíkur, en væri nú farið að nálgast Reykjavík. Sjáum til! Blesugrófin farin að nálgast Reykjavík núna!! (Gripið fram í.) Vegáætlun, sem nú er í gildi endurskoðuð, var samþ. fyrir tæpu ári, og hefur þá Blesugróf nálgazt Reykjavík síðan í fyrra? Er nú ekki von, að maður undrist framkvæmdina á málunum, þegar svona lagað á sér stað? Ég hélt m.a.s., að Breiðholt væri í Reykjavík, og ég fullyrði það alveg. Breiðholt er í Reykjavík, og það var m.a.s. í Reykjavík í fyrra; ég tala nú ekki um Blesugróf.

Ég vil að lokum benda hv. 9. þm. Reykv. á það, að ég er honum alveg sammála um, að fjáröflun til Vegasjóðs hefði átt að fylgja vegáætlun. Á fundi samgmn. í fyrradag, þar sem hæstv. ráðh. var viðstaddur, spurði ég hann að þessu: Getur ráðh. fallizt á, að við öflum Vegasjóði fjár til nauðsynlegra útgjalda á þessu ári, en látum frekari fjáröflun bíða, þar til vegáætlun verður gerð á næsta þingi? Og hæstv. ráðh. neitaði. Ég er alveg sammála hv. þm. um það, að þetta á að fylgjast að. Við þurfum að vita, þegar við erum að skattleggja þjóðina, hvernig við fáum féð og til hvers það á að fara. En við vitum ekkert um það núna, þegar þetta frv. verður samþ. Það er talað um hraðbrautir. Það getur farið svo, að það fari ekki einn einasti eyrir í hraðbrautir. Það fer alveg eftir því, hvað Alþ. ákveður, þegar næst verður ákveðin vegáætlun.

Ég var búinn að lofa einum góðvini mínum að tala ekki allt of langt mál, og ég ætla þess vegna að láta þetta nægja.